Frétt

bb.is | 02.06.2006 | 19:44Málefnasamningur undirritaður að Skrúði í Dýrafirði

Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, Halldór Halldórsson og Guðni Geir Jóhannesson takast í hendur að undirskrift lokinni. Ljósm: Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.
Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, Halldór Halldórsson og Guðni Geir Jóhannesson takast í hendur að undirskrift lokinni. Ljósm: Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.
Meirihlutasamstarfið undirritað að Skrúði í Dýrafirði.
Meirihlutasamstarfið undirritað að Skrúði í Dýrafirði.
Meirihlutasamstarfið undirritað að Skrúði í Dýrafirði.
Meirihlutasamstarfið undirritað að Skrúði í Dýrafirði.
Meirihlutasamstarfið undirritað að Skrúði í Dýrafirði.
Meirihlutasamstarfið undirritað að Skrúði í Dýrafirði.
Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Ísafjarðarbæ skrifuðu í dag undir málefnasamning í garðinum Skrúði í Dýrafirði, og skuldbinda sig þar með til að halda áfram því meirihlutasamstarfi sem verið hefur síðustu átta árin og má búast við því, komi ekki eitthvað upp á, að núverandi meirihluti sem í dag undirritaði málefnasamning sitji til ársins 2010 hið minnsta. Samkvæmt málefnasamningnum verður bæjarstjóri frá Sjálfstæðisflokki, en formaður bæjarráðs frá Framsóknarflokki. Halldór Halldórsson verður endurráðinn bæjarstjóri. Leita á samstarfs við önnur sveitarfélög á Vestfjörðum um að vinna eftir hugmyndafræði um stóriðjulausa Vestfirði, endurskoða á bæjarmálasamþykktina á árinu sem og stuðning við menningarstarfsemi.

Þá á að skipuleggja íbúaþing til að auka lýðræði, og stefna að skipun nefndar um mögulega sameiningu við nágrannasveitarfélögin. Vinna á að byggingu hjúkrunarheimilis, og er sett krafa um tryggar samgöngur vegna sjúkraflugs og farþegaflugs og þrýsta á ríkisvaldið um nútímalegar samgöngur í jarðgöngum milli byggðarlaga og eru sérstaklega nefnd jarðgöng úr Dýrafirði yfir í Vatnsfjörð.

Þá kemur fram að stofna eigi styrktarsjóð fyrir fyrirtæki í nýsköpun. Leikskólavist skal vera gjaldfrjáls fyrir fimm ára börn og leikskólagjöld lækkuð frá og með áramótum 2006/2007. Gera á tilraun með gjaldfrjálsa strætisvagna á árinu 2007, og á sama ári tilraun með að hafa frítt í sund fyrir börn og unglinga upp að 16 ára aldri. Stofna á Frístundaskóla sem samræmir nám og íþróttastarf barna og byggja sparkvelli í öllum byggðakjörnum á árunum 2006 og 2007, auk púttvallar fyrir eldri borgara á Torfnes. Austurvöllur skal áfram skilgreindur sem skrúðgarður, og ljúka á skipulagi fyrir Suðurtanga. Þá skal kannað hvort ekki megi stækka friðlandið á Hornströndum og vinna og vinna að nýju deiliskipulagi fyrir hvern byggðakjarna í Ísafjarðarbæ.

eirikur@bb.is

Samningurinn fer í heild sinni hér að neðan:

„B-listi Framsóknarflokks og D-listi Sjálfstæðisflokks í Ísafjarðarbæ hafa gert með sér eftirfarandi

MÁLEFNASAMNING:

Listarnir mynda meirihluta í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frá og með 11. júní 2006 til loka kjörtímabilsins árið 2010.

Forseti bæjarstjórnar verður af D-lista allt kjörtímabilið. Fyrsti varaforseti verður af D-lista allt kjörtímabilið.

Formaður bæjarráðs verður af B-lista allt kjörtímabilið en varaformaður verður af D-lista allt kjörtímabilið.

Halldór Halldórsson oddviti D-lista verður endurráðinn bæjarstjóri frá og með 11. júní 2006.

Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórn, lækkun rekstrarkostnaðar og aukningu tekna.

Unnin verður framtíðarsýn fyrir Ísafjarðarbæ með spá um þróun sveitarfélagsins og stöðu þess eftir 5 ár, 10 ár og 15 ár.

Stærri verkefni verða í auknum mæli unnin skv. verkefnastjórnunarkerfi til að auka gæði vinnunnar, bæta eftirlit og auka hagræði.

Leitað verður samstarfs við önnur sveitarfélög á Vestfjörðum um að vinna eftir hugmyndafræði um stóriðjulausa Vestfirði með sérstakri skilgreiningu í svæðisskipulagi. Á grunni þeirrar hugmyndafræði verður leitað eftir samstarfi við ríkisvaldið um aðkomu að verkefnum sveitarfélaga og fyrirtækja.

Samkomulag er um að vinna að málum m.a. á grundvelli eftirfarandi:

Fjármál og stjórnsýsla

• Ábyrg fjármálastjórn er lykilatriði þess að halda úti góðri þjónustu Ísafjarðarbæjar. Lögð verður áhersla á að auka rekstrarafgang bæjarsjóðs og stofnana bæjarins með markvissum aðgerðum í rekstri og með því að auka tekjur bæjarins.

• Unnið verður að breytingum á stjórnskipulagi Ísafjarðarbæjar með það að markmiði að einfalda skipulagið, auka skilvirkni og lækka stjórnunarkostnað.

• Bæjarmálasamþykkt Ísafjarðarbæjar verður endurskoðuð á kjörtímabilinu.

• Stuðningur við menningarstarfsemi verður endurskoðaður í tengslum við væntanlegan menningarsamning við ríkið. Ísafjarðarbær verður áfram öflugur bakhjarl menningarlífs.

• Samráð við íbúana er nauðsynlegt oftar en við kosningar á fjögurra ára fresti. Því verða íbúaþing Ísafjarðarbæjar haldin. Umsjón íbúaþinga verður á vegum starfsmanna og kjörinna fulltrúa Ísafjarðarbæjar.

• Til að leita hagræðingar í rekstri verða innkaup stofnana Ísafjarðarbæjar boðin út þar sem það reynist hagkvæmt. Sama gildir um útboð einstakra þátta í rekstri Ísafjarðarbæjar.

• Mikilvægt er að auka samstarf nágrannasveitarfélaga. Stefnt verði að skipun nefndar um mögulega sameiningu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum.

• Til að auka og bæta upplýsingagjöf til bæjarbúa verður fréttabréf Ísafjarðarbæjar gefið reglulega út.

• Teknir verða upp viðtalstímar bæjarfulltrúa.

Samskipti við ríkisvaldið

• Áfram verður krafist réttlátrar tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga með sérstaka áherslu á hagsmuni Ísafjarðarbæjar.

• Unnið verði áfram, af hálfu sérstakrar nefndar, að byggingu hjúkrunarheimilis að undangenginni þarfagreiningu, gerð er krafa um aðkomu ríkisvaldsins að þeirri framkvæmd.

• Flug til og frá Ísafjarðarbæ verði mögulegt á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Tryggar flugsamgöngur eru okkar krafa vegna sjúkraflugs og farþegaflugs.

• Þrýst verður á ríkisvaldið um nútímalegar samgöngur í jarðgöngum milli byggðarlaga á norðanverðum Vestfjörðum.

• Í samræmi við samþykktir Fjórðungsþings og bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar verður þrýst á um jarðgöng úr Dýrafirði yfir í Vatnsfjörð í Barðastrandasýslu.

• Leitað verður samstarfs við Vegagerðina um að bæta ferðamannaleiðir á borð við Svalvoga, Ingjaldssand og Selárdal.

• Unnið verður að framgangi þess að á Ísafirði verði sett upp rannsóknarstöð í jarðkerfisfræðum. (ESSI)

• Tryggja þarf Háskólasetri Vestfjarða nægjanlegt fjármagn svo það hafi fjárhagslega burði til að þróast í öflugan og fullburða háskóla.

• Lokið verði við gerð menningarsamnings ríkis og sveitarfélaga með fjárframlagi ríkisins inn í menningarstarf sveitarfélaga.

• Til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í Ísafjarðarbæ verður unnið að lækkun flutningskostnaðar með samstarfi Ísafjarðarbæjar, annarra sveitarfélaga og fyrirtækja. Lögð verður áhersla á þátt ríkisvaldsins í því að lækka flutningskostnað. Hagsmunir fyrirtækjanna og Ísafjarðarbæjar eru m.a. fólgnir í því að auka sjóflutninga og þar með flutninga um Hafnir Ísafjarðarbæjar.

• Unnið verður að því að fá viðurkenningu á jöfnun ferðakostnaðar íþróttafélaga til að lækka kostnað fjölskyldna vegna keppnisferðalaga.

• Fylgt verður fast eftir að Ísafjarðarbær verði efldur sem byggðakjarni fyrir Vestfirði í samræmi við byggðaáætlun. Í því felst m.a. að þjónusta í stofnunum ríkisins í Ísafjarðarbæ verði bætt og aukin og að starfsemi á vegum ríkisins verði flutt til bæjarins.

• Unnið verði að fornleifarannsóknum í Ísafjarðarbæ, m.a. á Eyrartúni og á slóðum Gísla sögu Súrssonar.

• Tryggja þarf öruggt varasamband í ljósleiðarneti til Vestfjarða og bæta skilyrði útvarps og GSM sendinga í sveitarfélaginu, m.a. í Vestfjarðagöngum.

• Unnið verði að því í samstarfi við ríkisvaldið að Ísafjarðarbær verði þjónustumiðstöð fyrir Austur-Grænland og að hafnarskilyrði í Ísafjarðarbæ verði nýtt fyrir umskipunarhöfn fyrir flutningaskip með gáma og olíu norðan úr höfum.

• Stefnt verði að því að Ísafjarðarbær verði miðstöð ævintýraferðamennsku á Íslandi og að stutt verði við uppbyggingu Sjósportmiðstöðvar Íslands í bæjarfélaginu.

• Landvarsla á Hornströndum verði heilsársstarf og Hornstrandastofa verði stofnuð í samstarfi við umhverfisráðuneytið.

Atvinnulíf

• Unnið verði áfram að því að Ísafjarðarbær þróist sem öflugur þekkingar- og rannsóknabær.

• Áfram verður stutt við verkefni sem laða að ferðamenn og auka veltu í bæjarfélaginu. Vandaður upplýsingavefur á heimsvísu er lykill að öflugra atvinnu- og menningarlífi.

• Vaxtargreinar í atvinnulífinu verða studdar með almennum aðgerðum þar sem megináhersla er lögð á gott umhverfi fyrirtækjanna og öflugt stoðkerfi af hálfu sveitarfélagsins og ríkisins.

• Stofnaður verður styrktarsjóður fyrir fyrirtæki í nýsköpun. Úthlutun úr þeim sjóði verði ákveðin af bæjarráði að fenginni tillögu atvinnumálanefndar. Sjóðurinn verði vistaður hjá Hvetjanda eignarhaldsfélagi sem geri árlega tillögu um úthlutun til atvinnumálanefndar.

• Þátttöku í Evrópuverkefnum verði haldið áfram og tækifærum á því sviði fjölgað.

• Áfram verði unnið með bændum að eflingu atvinnutækifæra í sveitum. Tryggja þarf að landnýting sé samkvæmt skipulagi.

• Vegna nauðsynlegra nýframkvæmda í tengslum við flutning á olíubirgðastöð á Ísafirði verður unnið að viðurkenningu ríkisins á sérstöku fjármagni í það verkefni og nauðsynleg viðhaldsverkefni á vegum Hafna Ísafjarðarbæjar.

• Bætt verði þjónusta og aðstaða fyrir smábáta og byggt þjónustuhús til að bæta aðstöðu ferðamanna. Kappkostað verði að umhverfi og ásýnd hafna sé til fyrirmyndar. Áfram verði unnið að markaðssetningu Hafna Ísafjarðarbæjar fyrir allar gerðir skipa vegna löndunar, afþreyingar og ferðaþjónustu.

Skóla- og fjölskyldumál

• Stöðugt skal unnið að því að hafa grunnskóla Ísafjarðarbæjar í hópi þeirra bestu á landinu. Samvinna grunnskólanna verði aukin og unnið markvisst eftir samþykktri grunnskólastefnu. Stjórnkerfi skólanna og Skóla- og fjölskylduskrifstofu verði endurskoðað.

• Haldið verður áfram með framtíðarhúsnæði Grunnskólans á Ísafirði í samræmi við samþykkta forgangsröðun.

• Leikskólavist verði gjaldfrjáls fyrir fimm ára börn og leikskólagjöld lækkuð frá og með áramótum 2006/2007. Unnið verður að viðurkenningu ríkisvaldsins á að leikskóli fyrir fimm ára börn eigi að vera hluti af skólakerfinu og sveitarfélög fái auknar tekjur vegna þess. Dagmæðrakostnaður verði jafn leikskólakostnaði frá og með áramótum 2006/2007.

• Til að efla enn frekar tengsl heimila og skóla mun áheyrnarfulltrúi foreldra í fræðslunefnd fá greitt fyrir setu í nefndinni. Gerð verður krafa um að foreldrafélögin í Ísafjarðarbæ komi sér saman um fulltrúa.

• Forvarnir verði efldar enn frekar og möguleiki á ráðningu forvarnarfulltrúa fyrir norðanverða Vestfirði skoðaður. Slík ráðning yrði í samstarfi við Vávest, Gamla apótekið, sýslumannsembættið og aðrar stofnanir á svæðinu.

• Í þeim tilgangi að tengja betur saman bæjarkjarna Ísafjarðarbæjar og nýta betur íþróttamannvirki verði gerð tilraun með gjaldfrjálsa strætisvagna á árinu 2007.

• Í samræmi við markmið um bætta lýðheilsu og bætta aðstöðu verður sett í reglur Ísafjarðarbæjar að gjaldfrjálst verði í íþróttamannvirki bæjarins fyrir eldri borgara.

• Í samræmi við markmið um aukna hreyfingu barna og ungmenna verður gerð tilraun á árinu 2007 með að hafa frítt í sund fyrir börn og unglinga upp að 16 ára aldri.

• Mötuneyti verði aðgengileg öllum grunnskólanemum Ísafjarðarbæjar.

• Allar skólalóðir verði endurhannaðar með öryggi og þarfir skólabarna í huga.

• Skipulag þjónustu fyrir innflytjendur verði bætt með auknu samstarfi við Fjölmenningarsetur þar sem ráðgjöf þess verði nýtt enn frekar inn í starf skóla og sveitarfélagsins almennt.

• Unnið verði að flutning á málefnum aldraðra og fatlaðra til sveitarfélaga í þeim tilgangi að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari.

• Leitað verði samstarfs við einkaaðila um að fjölga búsetukostum fyrir eldri borgara, t.d. með byggingu hentugra raðhúsa og smærri íbúða.

Íþróttir og tómstundir

• Unnið verði að þátttöku Ísafjarðarbæjar í verkefni um byggingu íþróttamiðstöðvar með sundlaug á Ísafirði. Þátttaka bæjarins verði í formi leigu á sundlaugar-mannvirkjum en aðrir hlutar mannvirkisins í einkarekstri. Miðað er við að leigu- og rekstrarkostnaður standist þær forsendur að núverandi rekstarkostnaður við Sundhöllina á Ísafirði að viðbættum auknum tekjum standi undir leigukostnaði. Reiknað verði með þeim kostnaði sem hlýst af flutningi íþróttamannvirkja sem fyrir eru og hugsanlegum kostnaði vegna flutnings skólabarna í sundkennslu.

• Skipuð verði sérstök nefnd fyrir skíðasvæði Ísafjarðarbæjar og farið í tilraunaverkefni um rekstur og uppbyggingu þess í samstarfi við ríkisvaldið.

• Stofnum Frístundaskóla sem samræmir nám og íþróttastarf barna.

• Sparkvellir verði byggðir í öllum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar á árunum 2006 og 2007.

• Opin leiksvæði verði byggð upp í samstarfi við íbúa.

• Skoðað verði að taka upp niðurgreiðslur á æfingagjöldum fyrir börn og unglinga í formi frístundakorta í samstarfi við HSV.

• Púttvöll fyrir eldri borgara á Torfnesi.

Umhverfi

• Leitað verði að heitu vatni í Skutulsfirði í samstarfi við Orkubú Vestfjarða og orkusjóð Orkustofnunar.

• Áfram verður unnið að snjóflóðavörnum í Ísafjarðarbæ í samræmi við lagaákvæði.

• Austurvöllur verði áfram skilgreindur sem skrúðgarður. Skólabörnum verði kennd umgengni um garðinn svo hann nýtist jafnt í þeirra þágu sem annarra bæjarbúa.

• Unnið verði skipulag hverfanna fyrir botni Skutulsfjarðar svo þau myndi eina heild með rými fyrir opinbera starfsemi.

• Með merkingum verði Hæstikaupstaður, Miðkaupstaður og Neðstikaupstaður tengdir með sýnilegum hætti.

• Lokið verður við skipulag fyrir Suðurtangann með íbúðabyggð neðan við Neðstakaupstað, háskólasvæði með stúdentagörðum og atvinnusvæði við Sundin.

• Unnið verður skipulag fyrir búgarðabyggð í Holtslandi í Önundarfirði ef samkomulag næst við eiganda landsins, Prestsetrasjóð.

• Áfram verði unnið að skipulagi fyrir Tungudal sem útivistarsvæði fyrir Ísafjarðarbæ.

• Unnið verður að því að bæta ástand gatna og gangstétta í öllum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar, fjölga göngustígum og bæta aðstöðu til útivistar. Leitað verði eftir samstarfi við Vegagerðina um gerð göngustígs út í Hnífsdal.

• Fjölga þarf bekkjum og sorptunnum við götur og göngustíga bæjarins og gera átak í merkingu gatna og í umferðarmerkingum.

• Stækkun friðlandsins á Hornströndum verður könnuð og leitað eftir samstarfi ríkis, sveitarfélags og landeigenda. Hornstrandir og annað víðerni Ísafjarðarbæjar verði sett inn í aðalskipulag.

• Unnið verður að nýju deiliskipulagi í hverjum byggðakjarna Ísafjarðarbæjar.

• Vinnum að bættri umgengni á opnum svæðum bæjarins, opin svæði verði tekin út og gengið frá þeim. Leitað verði eftir stuðningi umhverfisráðuneytis við frágang gamalla náma.

• Gert verður átak í flokkun sorps í Ísafjarðarbæ, upplýsingagjöf efld og leiðbeiningum dreift reglulega. Séð verður til þess að öll gámasvæðin og urðunarsvæði í Ísafjarðarbæ verði til fyrirmyndar. Til að ná því fram verður gerð skipulagsbreyting í málaflokknum þannig að sorphirða, urðun og hirðing gámasvæða verði á hendi eins og sama aðilans.

• Frágangi við Árvelli og Teiga í Hnífsdal verði lokið í samstarfi Ofanflóðasjóðs og Ísafjarðarbæjar þannig að til fyrirmyndar verði.“

bb.is | 24.10.16 | 16:50 Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með frétt Gríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 13:23Vaxandi spenna í hagkerfinu

Mynd með fréttVíða má sjá merki um ofhitnun á vinnumarkaði og fyrirtæki finna í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 11:44Kvennafrídagurinn í dag: „Kjarajafnrétti strax!“

Mynd með fréttKvennafrídagurinn er í dag 24.október og er honum gert hátt undir höfði víða um land með samkomum þar sem konur koma saman til samstöðufunda um jöfn kjör kvenna og karla. Konur á Íslandi eru hvattar til að leggja niður störf klukkan ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 10:45Nóttin sem öllu breytti – bók um Flateyrarflóðið

Mynd með fréttSóley Eiríksdóttir hefur skrifað bók um snjóflóðið á Flateyri sem féll 26. október 1995 og varð tuttugu manns að bana. Bókin ber heitið Nóttin sem öllu breytti. Sóley var ellefu ára gömul þegar flóðið féll og var grafin upp eftir níu ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:37Hádegisfyrirlestur um Drangajökul í Háskólasetrinu

Mynd með fréttEyjólfur Magnússon, jarðeðlisfræðingur verður í hádeginu í dag, mánudag, með fyrirlestur í Háskólasetri Vestfjarða um Drangajökul og þróun hans á síðustu sjö áratugum. Eyjólfur starfar á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og hefur rannsakað jökulinn um langt árabil. Í erindinu mun hann segja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:01Framtíðin að fæðast á Hólmavík

Mynd með fréttÞau gleðitíðindi berast frá Hólmavík að verið sé að byggja við leikskólann Lækjarbrekku. Húsnæðið sem fyrir er, er orðið yfirfullt og þrengir að börnum og starfsmönnum, en með tilkomu hinnar nýju viðbyggingar fæst loksins viðunandi aðstaða fyrir starfsmenn að sögn sveitarstjóra ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 07:29Opnun Þingeyrarflugvallar framlengd

Mynd með fréttSíðust ár hefur verið í gildi vetrarlokun á Þingeyrarflugvelli vegna frostskemmda. „Völlurinn hefur verið opinn frá 1. júní til 15. október en vegna hagstæðs veðurs í haust verður hann opinn til 1. nóvember hið minnsta,“ segir Arnór Magnússon, svæðisstjóri Isavia á ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 16:50Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með fréttUm síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli