Frétt

bb.is | 20.12.2005 | 16:39Greinargerð Magnúsar ekki felld inn í fundargerð bæjarstjórnar

Frá fundi bæjarstjórnar.
Frá fundi bæjarstjórnar.
Magnús Reynir Guðmundsson, fulltrúi Frjálslyndra og óháðra í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, lagði á síðasta fundi stjórnarinnar fram greinargerð sem Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, ákvað að fella ekki inn í fundargerð eins og yfirleitt er gert. Í greinargerðinni er lýst viðhorfum Magnúsar til ýmissa málaflokka er varða fjárhagsáætlun bæjarins sem var til umræðu á fundinum. Þótti greinargerðin of löng. „Þetta er brot á öllum hefðum. Þegar verið er að ræða fjárhagsáætlun hefur mönnum verið leyft að segja og leggja fram ýmislegt sem ekki er ætlast til að sé gert á venjulegum fundum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forseti beitir minnihlutann svona ósanngirni“, segir Magnús Reynir. Birna Lárusdóttir segir ákveðnar viðmiðunarreglur gilda í þessum málum og að það standi í samþykktum að bæjarfulltrúar megi láta bóka stuttar athugasemdir. Greinargerð Magnúsar hafi einfaldlega verið of löng. Bendir hún á að í upphafi kjörtímabils hafi bæjarfulltrúar setið námskeið þar sem kom fram að þumalputtareglan sé sú að bókanir takmarkist við hálfa blaðsíðu. Þetta standi þó hvergi skrifað.

„Bæjarfulltrúanum bauðst að láta greinargerðina fylgja með fundargerðinni, en hann afþakkaði það. Fundargerðin sem slík lýsir formlegri afgreiðslu bæjarstjórnar á einstökum málum og mér finnst eðlilegt að forseti fylgi ákveðnum venjum og reglum. Þetta var minn úrskurður sem forseta. Ef bæjarfulltrúi telur sig órétti beittan, getur hann farið með sitt mál fyrir félagsmálaráðuneytið“, segir Birna.

Magnús Reynir segir ákvörðun Birnu lýsa ótrúlegu dómgreindarleysi, valdhroka og fyrirlitningu á lýðræðislegum vinnubrögðum. Segir Birna orð sem þessi dæma sig sjálf.

Greinargerð Magnúsar Reynis fylgir hér á eftir í heild sinni:

Um áætlunargerðina

Gerð fjárhagsáætlunar er það verkefni kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn sem þeir þurfa að vanda best í sínum störfum. Það er mjög mikið atriði að freista þess að ná sem víðtækastri samstöðu um fjárhagsáætlunina. Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur, að því er best verður séð, lagt sífellt minni vinnu og metnað í fjárhagsáætlunargerðina og haldið fulltrúum minnihlutans að mestu utanvið gerð hennar. Þá hefur allt og oft skort nauðsynlegar upplýsingar, sem þurfa að liggja til grundvallar, bæði í rekstri og ekki síst við ákvarðanatöku um framkvæmdir.

Framkvæmdaáætlanir undanfarinna ára hafa einnig verið illa unnar, sem best sést á rauntölum hinna ýmsu verkefna sem oftar en ekki hafa farið stórkostlega fram úr áætlun. Þá hefur eftirlit með framkvæmdum verið lítið sem ekkert. Fagnefndir bæjarins hafa margar hverjar lítið sem ekkert komið að áætlunargerðinni og samráð við einstaka forstöðumenn stofnana hefur ekki verið sem skyldi.

Gerð fjárhagsáætlunarinnar hefur nær alfarið verið sett í hendur embættismanna og þeir látnir marka pólitíska stefnu, sem að öllu eðlilegu ætti að vera í höndum kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn. Það er til marks um háttvísi meirihlutans í garð minnihlutafulltrúa í bæjarstjórn, að stefnuræðu bæjarstjóra var dreift til minnihlutans þegar bæjarstjóri hóf lesturinn á henni á síðasta fundi bæjarstjórnar. Vinnubrögð af þessu tagi ber að átelja, en sýna berlega þann lýðræðisanda sem einkennir núverandi meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Um Ísafjarðarbæ

Ísafjarðarbær hefur um árabil átt undir högg að sækja eins og mörg fleiri sveitarfélög á landsbyggðinni. Hér er þó að mörgu leyti við erfiðari vanda að etja heldur en hjá ýmsum öðrum, þar sem lega kaupstaðarins og margskipting bæjarins hefur kostað meiri útgjöld og lagt meiri ábyrgð á hendur ráðamanna en ella.

Það sem hefur þó einkennt viðhorf ráðamanna undanfarin ár er það, að þeir hafa talið sér trú um að Ísafjarðarbær ætti að vera á svipuðum stalli og önnur, mun öflugri og fjölmennari sveitarfélög, svo sem Akureyri, Kópavogur eða Garðabær, svo dæmi séu tekin. Slík viðhorf eru mjög varhugaverð og er nauðsynlegt að Ísafjarðarbær sníði sér stakk eftir vexti. Hjá hinum stærri og fjölmennari sveitarfélögum hafa verið innleidd vinnubrögð og skipulag (skipurit ) sem henta engan veginn hinum minni, eins og okkar. Við getur því ekki skipað okkur á bekk með þeim, hvorki í mannahaldi við yfirstjórn eða í útgjöldum til ýmissa málaflokka, sem margir kunna að líta á sem gæluverkefni eða flottræfilshátt.

Í stefnuræðu bæjarstjóra með frumvarpinu er tæpt á því að endurskoða eigi skipurit bæjarins og væri ekki verra fyrir bæjarfulltrúa minnihlutans að fræðast nánar um þessi áform.

Um stjórnun Ísafjarðarbæjar

Segja má að mikil lausatök séu á stjórn Ísafjarðarbæjar og áherslur í stjórninni rangar. Þannig virðist skorta yfirsýn, festu og skipuleg vinnubrögð allt of víða. Nægir hér að nefna verklegar framkvæmdir þar sem áætlanir hafa verið rangar, eftirlit ófullnægjandi og afskiptaleysi áberandi. Nýjast dæmið er uppsetning framleiðslueldhúss í Grunnskólanum á Ísafirði þar sem enginn virtist vita neitt og allir vísuðu frá sér þegar leitað var eftir upplýsingum um stöðu mála. Og enginn virtist ábyrgur fyrir augljósum mistökum sem gerð voru.

Bakkavegur í Hnífsdal og íþróttahúsið á Suðureyri eru einnig dæmi um að betur má standa að málum og eftirfylgni þegar framkvæmdir eru komnar af stað.

Efnistaka í Ísafjarðarbæ og hvernig staðið er að málum þar er sláandi dæmi um lélega stjórnun. Bæjarfulltrúar fá mánaðarlega skýrslu um tekjur og gjöld og þótt ýmislegt komi þar fram, sem furðu vekur, þá hefur ekki verið að sjá að tekjur bæjarins af efnissölu, t.d. úr malarnámi, grjótnámi eða sandnámi af hafnarsvæðinu, skili miklum tekjum í bæjarsjóðinn. Sannleikurinn virðist sá, að efnistaka úr þessum námum sé eftirlitslaus með öllu og verktökum jafnvel í sjálfsvald sett hvort og þá hvað mikið þeir sækja í þessar námur. Það er ekki sannfærandi að heyra æðstu embættismenn Ísafjarðarbæjar frýja sig ábyrgð á slíku stjórnleysi.

Um einkaframkvæmdir

Nú, þegar ljóst er að síðustu upphæðunum af Orkubúspeningunum verður ráðstafað að mestu leyti í rekstur, en í árslok 2006 munu verða eftir rétt rúmlega 200 milljónir af einum og hálfum milljarði, þá undirbýr meirihlutinn að fá peningamenn þessa lands til að kaupa skóla og íþróttahús. „Skoða á hagkvæmni þess að nýtt húsnæði grunnskólans á Ísafirði og nýtt íþróttahús á Suðureyri verði lagt inn í fasteignafélag og húsnæðið endurleigt.“

Kvótakóngar og aðrir peningamenn landsins hafa nú á síðustu árum stofnað eignarhaldsfélög sem fjármagnað hafa hinar ýmsu byggingar. Þessar byggingar hafa þessir auðmenn síðan leigt, m.a. nokkrum sveitarfélögum. Leigusamningar hafa verið gerðir til 20-30 ára og eftir þann tíma hafa kóngarnir átt húsin skuldlaus og síðan gert að nýju leigusamninga við sveitarfélögin sem ekkert höfðu eignast á leigutímanum og voru nauðbeygð til að byrja upp á nýtt með tvær hendur tómar. Þetta eru vinnubrögð sem núverandi meirihluti í Ísafjarðarbæ ætlar að innleiða, þótt ábyrgir sveitarstjórnarmenn, bæði í Kópavogi og Hafnarfirði, svo dæmi séu tekin, hafa stórlega varað við, sérstaklega að því er varðar byggingar sem hýsa starfsemi sem sveitarfélögin munu þurfa að sinni um alla framtíð.

Um sölu íbúða á Hlíf I

„Áfram verði unnið að endurskoðun á leiguíbúðakerfi á Hlíf I með hagsmuni leigjenda í huga.“ Svo segir í greinargerð bæjarstjóra. Það virðist sem sé ljóst, að haldið verður áfram að eyðileggja þann öryggisventil sem settur var upp á sínum tíma fyrir eldra fólkið í Ísafjarðarbæ, það fólk sem ekki hefur nein tök á því að kaupa sér íbúð. Þessar íbúðir, á Hlíf I, voru byggðar fyrir fé úr Byggingarsjóði elliheimilis á Ísafirði, gjafir og áheit og sérstakan skatt sem fenginn var af sölu bíómiða hjá Ísafjarðarbíói, og voru aldrei hugsaðar sem söluvara. Ef meirihlutinn kemst upp með slíkt tilræði við aldraða, efnalitla íbúa Ísafjarðarbæjar, verður að segja að hann hafi unnið óþurftarverk.

Um uppsögn garðyrkjustjóra

„..auk þess að embætti garðyrkjustjóra verður lagt niður" Þetta má lesa í greinargerð bæjarstjóra. Það er til marks um stjórnunarhætti Ísafjarðarbæjar að garðyrkjustjóri bæjarins, sem unnið hefur þrekvirki á um 30 ára ferli, skuli nú lesa þessa tilkynningu um uppsögn sína úr starfi. Það er stórmannlegt og við hæfi, eða hvað, að senda þeim starfsmanni sem einna lengstan hefur starfsaldur hjá bæjarfélaginu slíka kveðju, án þess að ákvörðunin hafi verið rædd við viðkomandi og því síður frágengin.

halfdan@bb.is

bryndis@bb.is | 25.10.16 | 11:50 Vill strandveiði- og byggðakvóta á uppboð

Mynd með frétt Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. „Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 10:02Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Mynd með fréttSamkvæmt þingsætaspá Kjarnans er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í Norðvesturkjördæmi. Bæði Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eiga öruggt þingsæti samkvæmt spánni og þriðji maður á lista, Teitur Björn Einarsson, er ekki langt undan og 72% líkur á að hann ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 09:01„Á erfiðleikastuðli 1 til 10 var þetta 50“

Mynd með fréttÞau eru margvísleg störfin sem björgunarsveitarfólk á Íslandi sinnir og þurfa félagsmenn að kunna að vinna við hinar ýmsu krefjandi aðstæður. Átta félagar í Björgunarfélagi Ísafjarðar unnu á laugardag það erfiða verkefni að ganga með efni til stigagerðar upp brattar hlíðar ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 07:33Leikmaður Vestra rotaður

Mynd með fréttÍ leik Vestra og ÍA í körfubolta á sunnudaginn hlaut Nökkvi Harðarson, leikmaður Vestra, þungt höfuðhögg eftir olnbogaskot Fannars Freys Helgasonar leikmanns ÍA. Nökkvi þurfti í kjölfarið að dvelja á sjúkrahúsi í sólarhring. Myndband náðist af atvikinu og glöggt má ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 16:50Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með fréttGríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 13:23Vaxandi spenna í hagkerfinu

Mynd með fréttVíða má sjá merki um ofhitnun á vinnumarkaði og fyrirtæki finna í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 11:44Kvennafrídagurinn í dag: „Kjarajafnrétti strax!“

Mynd með fréttKvennafrídagurinn er í dag 24.október og er honum gert hátt undir höfði víða um land með samkomum þar sem konur koma saman til samstöðufunda um jöfn kjör kvenna og karla. Konur á Íslandi eru hvattar til að leggja niður störf klukkan ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 10:45Nóttin sem öllu breytti – bók um Flateyrarflóðið

Mynd með fréttSóley Eiríksdóttir hefur skrifað bók um snjóflóðið á Flateyri sem féll 26. október 1995 og varð tuttugu manns að bana. Bókin ber heitið Nóttin sem öllu breytti. Sóley var ellefu ára gömul þegar flóðið féll og var grafin upp eftir níu ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli