Frétt

bb.is | 04.10.2005 | 16:29Bæjarstjórn Bolungarvíkur klofin í afstöðu til jarðgangagerðar á Óshlíð

Óshlíð. Mynd: Jónas Guðmundsson.
Óshlíð. Mynd: Jónas Guðmundsson.
Bæjarstjórn Bolungarvíkur er klofin í afstöðu sinni til þess hvaða leiðir eigi að fara til að bæta samgöngur til og frá bæjarfélaginu. Minnihlutinn vill að gerð verði úttekt á þeim kostum sem til greina gætu komið við gerð jarðganga. Meirihlutinn er hins vegar ánægður með ákvörðun ríkisstjórnar frá því í síðustu viku. Þrátt fyrir tveggja tíma fundarhlé í bæjarstjórn tókst ekki að samræma skoðanir meiri- og minnihluta í málinu. Til afar harðskeyttra bókana kom á fundi bæjarstjórnar Bolungarvíkur í gær þegar rædd var sú samþykkt ríkisstjórnarinnar að fela Vegagerðinni að hefjast þegar handa við undirbúning að gerð jarðganga í hluta Óshlíðar. Sakar minnihluti bæjarstjórnar Elías Jónatansson forseta bæjarstjórnar um að hafa setið í heimildarleysi fund með vegamálastjóra ásamt Einari Kristni Guðfinnssyni alþingismanni og núverandi sjávarútvegsráðherra. Á fundinum voru rædd samgöngumál Bolvíkinga. Meirihluti bæjarstjórnar harmar þessar ásakanir og segir að gerð hafi verið grein fyrir fundinum í bæjarráði.

Forsaga málsins er sú að þann 26. ágúst áttu forseti bæjarstjórnar ásamt Einari Péturssyni bæjarstjóra fund með Jóni Rögnvaldssyni vegamálastjóra og Magnúsi V. Jóhannessyni svæðisstjóra norðvestursvæðis Vegagerðarinnar. Einnig sat Einar Kristinn Guðfinnsson fundinn. Á fundi bæjarráðs Bolungarvíkur lagði Elías fram minnisblað þar sem hann greinir frá fundinum. Kom þar fram að óskað hafi verið eftir upplýsingum um hversu mikið grjóthrun hefði aukist úr Óshyrnu undanfarið og einnig var óskað eftir grófu kostnaðarmati á þeim möguleikum „sem settir hafa verið fram sem mögulegir til tryggingar öryggis vegfarenda um Óshlíð“, eins og segir orðrétt í minnisblaði Elíasar. Ekki kemur fram hvaða kostir það nákvæmlega eru. Ekki voru bókaðar athugasemdir um fundinn á bæjarráðsfundinum heldur var bókað að þörf væri tafarlausra aðgerða til úrbóta á Óshlíð.

Eins og áður sagði kom málið svo til umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær. Var málið rætt undir sérstökum dagskrárlið sem bar heitið „Samgöngur um Óshlíð“. Eftir nokkrar umræður var gert um tveggja tíma hlé á fundinum þar sem reynt var að samræma sjónarmið meiri- og minnihluta í málinu þannig að hægt væri að leggja fram sameiginlega bókun um ákvörðun ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Það tókst ekki því þegar fundur hófst að nýju lagði meirihluti bæjarstjórnar fram svohljóðandi bókun:

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur fagnar ákvörðun ríkisstjórnar Íslands á ríkisstjórnarfundi þann 30. september s.l., að fela Vegagerðinni að hefja nú þegar rannsóknir og athuganir sem miða að því að hægt sé að hefjast handa um jarðgangagerð undir Óshlíð á árinu 2006. Með ákvörðun sinni er ríkisstjórnin að marka þá stefnu að einungis fullt öryggi gagnvart ofanflóðum og grjóthruni sé ásættanlegt í samgöngum til Bolungarvíkur. Bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur átt farsælt samstarf við samgönguyfirvöld og Vegagerðina og lýsir sig reiðubúna til áframhaldandi samstarfs við þá vinnu sem framundan er við endanlega staðsetningu, lengd og útfærslu jarðganga sem heildarlausn á vegasamgöngum við byggðarlagið. Bæjarstjórn Bolungarvíkur þakkar samgönguyfirvöldum skjót viðbrögð við yfirvofandi hættu, en nú stefnir í að framkvæmdir við jarðgöng hefjist innan árs.“ Undir þessa bókun rita Daðey S. Einarsdóttir, Elías Jónatansson, Ragna J. Magnúsdóttir og Sölvi R. Sólbergsson.

Í kjölfarið lagði minnihluti bæjarstjórnar fram svohljóðandi bókun: „Við gagnrýnum harðlega ítrekuð vinnubrögð forseta bæjarstjórnar þegar hann ásamt þingmanni situr fund hjá Vegamálastjóra í nafni bæjarstjórnar Bolungarvíkur án vitundar bæjarstjórnar og þaðan af síður heimildar hennar. Þar sem reglulegum fundi bæjarstjórnar hefur ítrekað verið frestað undanfarið hefur bæjarfulltrúum K-listans ekki gefist tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri. Það er alls ekki einhugur um þá samgönguleið sem meirihluti bæjarstjórnar talar fyrir um samgöngur til og frá Bolungarvík og vísum við þar m.a. til undirskriftalista sem í dag telur vel á annað þúsund manns. Í ljósi góðs vilja ríkisstjórnar til að bæta samgöngur til Bolungarvíkur leggjum við til að Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri verði falið að gera úttekt á búsetuskilyrðum í Bolungarvík með tilliti til hugsanlegrar þróunar byggðar á norðanverðum Vestfjörðum. Í því sambandi viljum við að samhliða úttekt á Óshlíð verði einnig skoðuð veglagning um Syðridal með tengingu ganga úr Syðridalsbotni í Vestfjarðargöng og þannig tryggðar öruggar samgöngur til og frá Bolungarvík í einni framkvæmd. Við hörmum þá staðreynd að ekki skuli hafa náðst samstaða í bæjarstjórn Bolungarvíkur um sameiginlega bókun í málinu eins og minnihlutinn bauð upp á fyrir fundarhlé.“ Undir þessa bókun rita Soffía Vagnsdóttir, Bergur B. Karlsson og Ketill Elíasson.

Ekki var meirihlutinn sáttur við þessa bókun og lagði því fram svohljóðandi bókun: „Meirihluti bæjarstjórnar Bolungarvíkur lýsir furðu sinni á og harmar þungar ásakanir minnihlutans varðandi vinnufund bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar með Vegamálastjóra. Gerð var grein fyrir fundinum á fyrsta bæjarráðsfundi sem haldinn var eftir fundinn með Vegamálastjóra, eins og lesa má í bókunum forseta á fundinum.“

hj@bb.is

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli