Frétt

bb.is | 27.05.2005 | 10:45Bæjarstjóri sakar blaðamann um þráhyggjukennda leit að einhverju misjöfnu

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.
Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sakar blaðamann bb.is um þráhyggjukennda leit að einhverju misjöfnu. Þetta kemur fram í svörum hans við nokkrum fyrirspurnum sem honum voru sendar vegna umfjöllunar um ársreikning Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2004 og gerð fjárhagsáætlunar fyrir sama ár. Einnig sakar hann blaðamann um að taka pólitíska afstöðu og veltir fyrir sér í hvers þágu hann starfar. Forsaga málsins er sú að þegar ársreikningar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2004 voru lagðir fram á dögunum bar ekki saman niðurstöðutölum úr ársreikningnum og fréttum á sínum tíma þegar fjárhagsáætlun ársins var samþykkt í bæjarstjórn. Þegar misræmið var skoðað kom í ljós að ekki kom fram í frétt á sínum tíma að fjárhagsáætlun Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. vantaði í þá áætlun sem samþykkt var.

Vegna vinnslu fréttar um það mál voru Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra sendar nokkrar spurningar um málið á miðvikudagsmorgni klukkan 9. Á fimmtudagsmorgni klukkan 11 var bæjarstjóranum tilkynnt að ekki sé hægt að bíða öllu lengur með frétt um málið hafi svör hans ekki borist innan tíðar. Jafnframt var honum tilkynnt að bærust svör frá honum síðar yrðu þeim gerð viðeigandi skil. Þá kvaðst bæjarstjóri vera að vinna í svörum og þau kæmu innan tíðar. Frétt um málið birtist síðan á bb.is klukkan 14. Svör bæjarstjóra bárust klukkan 16.11 á fimmtudag. Spurningarnar og svör Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra fara hér að neðan:

„Spurningarnar snúa allar að því sama og virðast allar snúast um þráhyggjukennda leit að einhverju misjöfnu varðandi framlagningu fjárhagsáætlunar Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. (FÍ). Í upphafi fyrirspurnar blaðamanns segir: „að í ljós hafi komið að fjárhagsáætlun bæjarins hafi verið án fjárhagsáætlunar FÍ“. Þetta kom skýrt fram við samþykkt fjárhagsáætlunar 18. desember 2003 og er í stefnuræðu sem er hluti fjárhagsáætlunarinnar. Það hefur alltaf komið mjög skýrt fram hver rekstur FÍ er og við höfum víða bent á erfiðleika í rekstri húsnæðiskerfisins, höfum endurskipulagt það og unnið mikið og markvisst starf við að lagfæra þá stöðu sem kerfið var í. Það væri áhugavert að BB skrifaði frétt um það hvernig staða húsnæðiskerfisins var hjá Ísafjarðarbæ áður en við hófum endurskipulagningu.

Bent skal á að félagsmálaráðuneytið hefur engar athugasemdir gert við framlagningu fjárhagsáætlana og ársreikninga Ísafjarðarbæjar enda hafa skil verið góð og á réttum tíma. Áætlað er að um helmingur sveitarfélaga í landinu standist tímafrest um skil á ársreikningum.

Einnig skal bent á að álit bæjarlögmanns Ísafjarðarbæjar er að samþykkt fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2004 sé í samræmi við sveitarstjórnarlög. Sveitarfélag ákveður framlög til hlutafélags (í þessu tilfelli FÍ) og kemur það fram í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Er það í samræmi við reglur sem gilda um hlutafélög. Stjórn hlutafélagsins (FÍ) ákveður svo hvernig hún vinnur úr þeim fjárhagsramma sem settur er.

Ég vil benda á að upplýsingar um handbært fé frá rekstri, hverju reksturinn skilar í fjármagni til afborgana lána vantar alveg í fréttaflutning BB. Einnig umfjöllun um lykiltölur og öll þau aðalatriði sem löggiltur endurskoðandi bæjarins fór yfir á blaðamannafundi í vikunni. Þessar upplýsingar eiga erindi til íbúa sem eiga rétt á því að fá faglega og hlutlausa umfjöllun um ársreikninga og fjárhagsáætlanir bæjarins.

Handbært fé frá rekstri er í samstæðureikningi 128 milljónir kr. á árinu 2004 að teknu tilliti til liða sem ekki hafa áhrif á fjárstreymi og breytinga á skammtímaliðum. Þetta er sú fjárhæð sem reksturinn skilar til afborgana lána.

1. Hvers vegna var fjárhagsáætlun FÍ ekki tilbúin þegar fjárhagsáætlun var lögð fram?

Svar: Fasteignir Ísafjarðarbæjar ehf. er sjálfstætt starfandi einkahlutafélag í eigu Ísafjarðarbæjar. Fjárhagsáætlanir fyrir félagið eru unnar af starfsmönnum þess og fjallar stjórn félagsins um áætlunina og óskar eftir framlagi frá sveitarfélaginu í formi rekstrarstyrkja.

2. Hvers vegna var hennar ekki beðið áður en fjárhagsáætlun bæjarins var lögð fram?

Svar: Almennt er ekki lagaskylda á hluta- eða einkahlutafélögum að gera fjárhagsáætlanir, hins vegar eru þær að sjálfsögðu gerðar hjá FÍ enda um umfangsmikinn rekstur að ræða. Einkahlutafélög lúta að meginstefnu til öðrum lögmálum en sveitarfélögin sjálf og stofnanir þeirra. Það er stjórn viðkomandi einkahlutafélags sem ber hina fjárhagslegu ábyrgð á rekstri félagsins, í samræmi við samþykktir félagsins. Í 67. gr. sveitarstjórnarlaganna er kveðið á um að ársreikningur sveitarsjóðs hafi að geyma reikning samstæðu viðkomandi sveitarfélags, þ.e. varðandi stofnanir og fyrirtæki viðkomandi sveitarfélags. 67. gr. laganna á hins vegar ekki við um fjárhagsáætlanir, sbr. 61. gr. laganna.

3. Hvenær var fjárhagsáætlun FÍ tilbúin og með hvaða hætti var hún afgreidd af bæjarstjórn?

Svar: Fjárhagsáætlun Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. fyrir árið 2004 var tilbúin þegar stjórn félagsins samþykkti áætlunina formlega 30. desember 2003. Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar var samþykkt 18. desember 2003. Áætlanir fara inn í samstæðureikning eins og fram kemur í ársreikningi fyrir árið 2004 og er það í samræmi við lög.

4. Hvenær var fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2004 send félagsmálaráðuneytinu og var áætlun FÍ þar með?

Svar: Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2004 var send til ráðuneytisins 7. janúar 2004. Á 376. fundi bæjarráðs 9. feb. 2004 var lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 27. janúar 2004 þar sem sveitarfélög voru minnt á skil á fjárhagsáætlun ársins. Í bréfinu kemur ennfremur fram að einungis 10 sveitarfélög hafi skilað fjárhagsáætlun sinni til félagsmálaráðuneytisins og er Ísafjarðarbær þar á meðal. Fjárhagsáætlun Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. var ekki inni í innsendri áætlun til ráðuneytisins þar sem ekki er skylt að senda inn fjárhagsáætlun, sbr. svar við spurningu nr. 2.

5. Í viðtölum og umfjöllunum um fjárhagsáætlun í desember 2003 er því hvergi komið á framfæri að fjárhagsáætlun FÍ vanti. Hvers vegna kom það ekki fram?

Svar: Sjá svar við spurningu nr. 2 og það kom skýrt fram í stefnuræðu að áætlun fyrir Fasteignir Ísafjarðarbæjar fylgdi ekki fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar.

6. Á heimasíðu Ísafjarðarbæjar í gær var ennþá til staðar fjárhagsáætlun ársins 2003 án FÍ. Hvers vegna hefur henni ekki verið breytt? Er ekki ástæða til að ætla að almenningur treysti heimasíðu sveitarfélagsins og því sem á henni er?

Svar: Fasteignir Ísafjarðarbæjar ehf voru stofnaðar í desember 2002 og tóku formlega til starfa 1. júlí 2003. Í nóvember 2003 var fjárhagsáætlun 2003 endurskoðuð og birtust tölur varðandi fjárhagsáætlun Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf í ársreikningi 2003, sjá á heimasíðu Ísafjarðarbæjar undir „Ársreikningar 2003“ (PDF skjal).

7. Í stefnuræðu með fjárhagsáætluninni er sagt að áætlað sé fyrir framlagi til FÍ. Hversu há var sú tala og hvar var hún færð?

Svar: Í texta spurningarinnar kemur ekki fram hvort fyrirspyrjandi á við árið 2003 eða árið 2004. Á fjárhagsáætlun 2004 var framlag til Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. 8.751.000 kr. og er það fært undir málaflokki 20, „Framlög til eigin fyrirtækja“. Ef átt er við árið 2003 þá sjá svarið við spurningu 6 hér að ofan.

8. Eftir að fjárhagsáætlun 2004 var samþykkt sagðir þú í viðtali við bb.is að árið 2004 yrði notað til að hagræða. Hvar sést þess stað í ársreikningum 2004.

Svar: Í tölum fjárhagsáætlunar 2004 var gert ráð fyrir hagræðingu í rekstri. Eins og sjá má á niðurstöðum ársreiknings fyrir árið 2004 stóðst fjárhagsáætlunin nær alveg en óverulegt frávik varð frá niðurstöðum fjárhagsáætlunarinnar og ársreikningsins eða einungis rúmar 2,5 milljónir króna. Velta ársins var 2.054 milljónir króna eða frávik fjárhagsáætlunar og ársreiknings einungis rúm 0,1%.

9. Eins og áður sagði var fjárhagsáætlun FÍ ekki tilbúin á réttum tíma. Nú fyrir skömmu tafðist framlagning ársreiknings Ísafjarðarbæjar fram yfir þann tíma sem leyfilegt er samkvæmt lögum. Eru þessi vinnubrögð ásættanleg að mati bæjarins? Ef svo er ekki vaknar sú spurning hvort þeir aðilar sem ábyrgð bera á þessum málum njóti áframhaldandi trausts til starfa?

Svar: Um fullyrðingu að fjárhagsáætlun FÍ hafi ekki verið tilbúin á réttum tíma vísast í svar við spurningu nr. 2. Varðandi framlagningu ársreiknings Ísafjarðarbæjar þá segir í 72. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 að „Sveitarstjórnir skulu hafa lokið fullnaðarafgreiðslu ársreiknings sveitarsjóðs, stofnana sveitarfélags og fyrirtækja þess eigi síðar en 1. júní.“ Fyrri umræða um ársreikning Ísafjarðarbæjar og stofnana og fyrirtækja þess fyrir árið 2004 er 26. maí 2005 og síðari umræða 2. júní og munar því einungis einum degi að fullnaðarafgreiðslu sé lokið innan tilskilins tímafrests. Um að vinnubrögð séu „ásættanleg“ og að „aðilar sem ábyrgð bera á þessum málum njóti áframhaldandi trausts til starfa“ (traust hverra?) eru sleggjudómar blaðamanns sem augljóslega er að taka pólitíska afstöðu sem ekkert á skylt við upplýsingaöflun óháðs fréttamiðils. Spurning hlýtur að vakna í hvers þágu slíkur blaðamaður starfar.“

hj@bb.is

bb.is | 24.10.16 | 15:51 Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með frétt Ópera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 13:23Vaxandi spenna í hagkerfinu

Mynd með fréttVíða má sjá merki um ofhitnun á vinnumarkaði og fyrirtæki finna í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 11:44Kvennafrídagurinn í dag: „Kjarajafnrétti strax!“

Mynd með fréttKvennafrídagurinn er í dag 24.október og er honum gert hátt undir höfði víða um land með samkomum þar sem konur koma saman til samstöðufunda um jöfn kjör kvenna og karla. Konur á Íslandi eru hvattar til að leggja niður störf klukkan ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 10:45Nóttin sem öllu breytti – bók um Flateyrarflóðið

Mynd með fréttSóley Eiríksdóttir hefur skrifað bók um snjóflóðið á Flateyri sem féll 26. október 1995 og varð tuttugu manns að bana. Bókin ber heitið Nóttin sem öllu breytti. Sóley var ellefu ára gömul þegar flóðið féll og var grafin upp eftir níu ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:37Hádegisfyrirlestur um Drangajökul í Háskólasetrinu

Mynd með fréttEyjólfur Magnússon, jarðeðlisfræðingur verður í hádeginu í dag, mánudag, með fyrirlestur í Háskólasetri Vestfjarða um Drangajökul og þróun hans á síðustu sjö áratugum. Eyjólfur starfar á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og hefur rannsakað jökulinn um langt árabil. Í erindinu mun hann segja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:01Framtíðin að fæðast á Hólmavík

Mynd með fréttÞau gleðitíðindi berast frá Hólmavík að verið sé að byggja við leikskólann Lækjarbrekku. Húsnæðið sem fyrir er, er orðið yfirfullt og þrengir að börnum og starfsmönnum, en með tilkomu hinnar nýju viðbyggingar fæst loksins viðunandi aðstaða fyrir starfsmenn að sögn sveitarstjóra ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 07:29Opnun Þingeyrarflugvallar framlengd

Mynd með fréttSíðust ár hefur verið í gildi vetrarlokun á Þingeyrarflugvelli vegna frostskemmda. „Völlurinn hefur verið opinn frá 1. júní til 15. október en vegna hagstæðs veðurs í haust verður hann opinn til 1. nóvember hið minnsta,“ segir Arnór Magnússon, svæðisstjóri Isavia á ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 16:50Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með fréttUm síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli