Frétt

mbl.is | 02.05.2005 | 08:03Mikil fjölgun blogga á Íslandi samfara útvíkkun bloggformsins: Gegnir fjölbreyttu hlutverki

Mikil fjölgun hefur orðið á "bloggurum" hér á landi undanfarin ár. Síðan vefsetrin blog.central.is og www.folk.is (nú Blogg á Vísi.is) hófu að bjóða fólki upp á ókeypis vistun á bloggum hefur bloggum einnig fjölgað gríðarlega. Nú er svo komið að stærstur hluti þeirra sem skráðir eru gestir á Vísi.is eru í raun að skoða blogg en ekki fréttir, slíkt er umfang bloggheimsins og áhugi Íslendinga á bloggum. Ómögulegt er að fullyrða hversu margir Íslendinga blogga og enn erfiðara að sjá hversu margir bloggarar eru virkir í úthaldi sínu á bloggi, en nokkuð ljóst þykir að tala íslenskra blogga er komin yfir tíu þúsund og vex ört.

Óhætt er að segja að bloggmenningin sé að ná vissu hámarki hér á landi, en fyrir þá sem ekki eru enn orðnir sjóaðir í vefheimum eru blogg nokkurs konar útfærsla á dagbókum eða leiðarbókum á Netinu. Slík skilgreining nær þó engan veginn utan um veruleika blogganna, sem gegna afar fjölbreyttu hlutverki og eiga sér gríðarlega ólíkar útfærslur. Netfróðir vilja margir skilgreina blogg sem sjálfsútgáfu hvers konar. Blogg hafa líka tekið gríðarlegri þróun á undanförnum árum í ýmsar áttir, þau þjóna nú gjarnan mikilvægu stoðhlutverki í kringum alls kyns útgáfu, nokkurs konar hliðs milli útgefanda og þeirra sem vilja fylgjast með framlagi hans.

Bloggvæðingin hefur ekki aðeins náð til fólks undir þrítugu, heldur teygir hún sig upp í gegnum aldurshópana og ræðst af tölvulæsi frekar en aldri. Rétt eins og allir sem geta lesið og skrifað geta haldið venjulega dagbók geta allir sem eru nokkurn veginn tölvulæsir haldið úti bloggi. Dreifingin er þó ekki jöfn, enda er tölvulæsi mest meðal yngra fólks. Þannig má ímynda sér nokkurs konar píramídalaga aldursdreifingu í bloggheimum.

Meðal áhugaverðra bloggara sem komnir eru af unglingsárum má nefna Nönnu Rögnvaldardóttur, blaðamann Gestgjafans, sem á það jafnvel til að deila með gestum sínum áhugaverðum uppskriftum. Siv Friðleifsdóttir, þingkona og fyrrverandi umhverfisráðherra, er einnig afar dugleg við að segja frá daglegu lífi sínu og birtir einnig fjölda mynda úr ferðum sínum og fundum. Þá má nefna Sverri Jakobsson og Stefán Pálsson sagnfræðinga sem láta stjórnmál og fræðimennsku oft lönd og leið á bloggum sínum og rabba um daglegt líf og jafnvel fótbolta. Jón Ólafsson tónlistarmaður bloggar einnig og deilir tónlist með lesendum sínum og Sigurður Harðarson, hjúkrunarfræðingur og pönkari, deilir út heimspeki sinni og vísar á áhugaverða tónlist.

Fleiri stjórnmálamenn halda úti bloggum, m.a. Ögmundur Jónasson og Björn Bjarnason, en sá síðarnefndi var fyrstur íslenskra stjórnmálamanna til að hefja netskrif og hefur haldið þeim ötullega við, órofið frá upphafi.

Einnig hefur Gunnar Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, lengi starfrækt blogg sem nú er einnig orðið mjög virkt tónlistarblogg, en slík blogg eru orðin vinsæll og áhugaverður hluti bloggflórunnar, en þar er bent á nýja og spennandi tónlist.

Blogg eru jafnólík og þeir sem skrifa á þau. Í upphafi gegndu blogg hlutverki nokkurs konar hugsanaskjóða, ábendinga á áhugaverða hluti eða atburði, rökræðuvettvanga og vefleiðara. Bylting bloggsins fólst ekki síst í því að vefsíður hættu að vera óbreytanlegar og uppfærðust reglulega. Því höfðu gestir ástæðu til að heimsækja vef bloggarans oftar og fylgjast með því hvað viðkomandi hefði að segja. Undanfarið hefur svonefndum hversdagsbloggum fjölgað langmest, en þar er dægurspjall um allt og ekkert í aðalhlutverki og oft algengara að sjá lýsingar á matseðlum menntaskólamötuneyta en pólitískar greiningar og yfirlýsingar.

Engu að síður halda langflestir upprunalegu bloggararnir áfram að rita um hugðarefni sín allt frá vefforritun og vefhönnun, upp í tónlist, myndlist, heimspeki og stjórnmál. Þá hefur aukið og almennt tölvulæsi valdið því að fólk með áhugasvið sem áður sköruðust ekki við bloggheiminn hefur nú haslað sér völl innan hans. Þar má nefna áhugasíður um bílaviðgerðir, vélfræði, líkamsrækt og fótbolta svo fátt eitt sé nefnt. Þá er á Netinu að finna fjölda síða áhugaljósmyndara sem deila myndum sínum með lesendum. Hljómsveitir hafa fengið sér bloggsíður og einnig hinir ýmsu klúbbar.

Ef heildarmyndin er skoðuð má fullyrða með nokkru öryggi að langflest hversdagsbloggin eru yfirleitt í frekar einsleitu umhverfi og innbyrðis lík í útliti. Hins vegar eiga blogg virkari og gagnrýnni einstaklinga það yfirleitt sameiginlegt að útlit þeirra og hönnun er persónulegri og afar fjölbreytt.

Segja má að ástandið hafi breyst mjög síðan um síðustu aldamót, þegar bloggheimur var nokkuð þröngur hópur netvæddra einstaklinga. Eins og svo oft áður hefur einokun frumkvöðlanna vikið fyrir almennri vitund um nýjan miðil. Í bloggheimum má gjarnan finna áhugaverðar ábendingar, nái lesendur að skilja kjarnann frá hisminu. Það er einnig mikilvægt að hafa það í huga að tilkoma blogga hefur valdið því að venjulegt fólk er farið að lesa og skrifa í mun meira mæli og þá má velta því fyrir sér hvort hversdagsbloggarar dagsins í dag eigi eftir að þroskast ört til persónulegri og agaðri skrifa, sem skili meiru til umræðunnar í samfélaginu.

Orðið Blog er, eins og margir lesendur vita án efa, dregið af enska orðinu "Weblog", sem mætti þýða Vefskrá. Samkvæmt vefalfræðiorðabókinni Wikipedia.org var það Jorn Barger sem kom fyrstur fram með orðið Weblog í desember 1997. Barger hélt úti skrá yfir vefinn, þar sem hann vísaði á áhugaverða hluti á vefnum. En það var Peter Merholz sem smíðaði orðið "blog" í apríl eða maí 1999, en þá braut hann upp orðið weblog upp í We blog. Orðin weblog, weblogging og weblogger voru öll tekin inn í Oxford English Dictionary árið 2003.

Blog náðu mikilli lýðhylli víða um heim árið 2001 í kjölfar árásanna 11. september, þar sem fólk vildi tjá sig um stöðu mála og leita og framreiða upplýsingar um stríðið gegn hryðjuverkum. Íraksstríðið er í raun fyrsta stríðið sem bloggheimurinn hefur fylgst með og fjallað um að einhverju leyti og fylgdust margir með bloggum bandarískra hermanna og íbúa Bagdad á þeim tíma. Þá hefur komið út bók byggð á einu bloggi Bagdhadbúa - Salam Pax.

Sem dæmi um mátt blogganna má nefna afsögn repúblíkanans Trent Lott, sem var leiðtogi meirihluta Bandaríkjaþings. Lott hafði látið orð falla í veislu til heiðurs Strom Thurmond, sem einkenndust af kynþáttafordómum. Í kjölfar þessara orða leituðu bloggarar að öðrum tilvitnunum í Lott til að sýna fram á að þetta væri ekki einangrað tilfelli. Þannig héldu bloggararnir málinu lifandi nógu lengi til að það næði fyrir alvöru athygli fjölmiðla og Lott neyddist til að segja af sér.

MÁR Örlygsson, vefhönnuður og ráðgjafi, hefur um árabil starfað innan vefgeirans og fylgst náið með þeirri þróun sem á sér stað í upplýsingasamfélaginu. Segir hann mikilvægt að þróa orðræðu um upplýsingasamfélagið.

"Stundum er talað um blogg sem persónulega útgáfu, sem er kannski ekki besta orðið, því það dregur svolítið mikla athygli að einstaklingnum, á meðan blogg getur líka verið framkvæmt af fyrirtæki," segir Már. "Þá er kannski frekar hægt að tala um sjálfsútgáfu eða örútgáfu. Þetta eru allt hugtök sem eiga eftir að mótast. Orðræðan um útgáfu á vefnum á eftir að þróast mikið og þroskast. Hún er á köflum í dag bæði óþarflega tæknihlaðin og gildishlaðin."

Már segir orðið "blog" hafa fest sig í sessi bæði í ensku og íslensku af því það er ferskt og ekki klyfjað af myndlíkingum sem eiga ekki við það. "Það er kannski eitt af fyrstu skrefunum í að búa til orðræðugrundvöll fyrir vefútgáfu á eigin forsendum. Það er gott af því að það er orð út í loftið, sérstaklega á íslensku. Orðið "útgáfa" fær mann strax til að hugsa um ritstjóra, forlög og prentun. Orðið "blogg" er mun sjálfstæðara."

Þeir möguleikar sem vefurinn gefur fólki eru nú óðum að renna upp fyrir almenningi og segir Már augu fólks vera að opnast. "Það að setja hlut á vefinn er ígildi þess að gefa hann út. Áður hefði það kostað dreifingarnet, vörubíla og prentsmiðjur, en í dag er þetta spurning um einn músarsmell og þá eru upplýsingarnar útgefnar og öllum aðgengilegar. Þessi eiginleiki vefjarins er það sem fæðir af sér bloggið. Þessi tæknibylting gefur síðan af sér þessa hugarfarsbyltingu sem bloggið er. Við sjáum ofboðslega aukningu á útgáfu en ekki endilega aukningu í gæðum. Það er einfaldlega meira magn og meiri breidd."

Már segir óhætt að fullyrða að neðri gæðamörk útgefins efnis hafi stórlækkað sökum þess að útgáfa er orðin svo ódýr. "Þá detta menn gjarnan í þá gryfju að fókusera á allt ruslið en gleyma því að öll góða útgáfan er enn til staðar og hefur jafnvel aukist.

Fjölmiðlar eiga það til að líta á bloggin sem einhvers konar nýjan fjölmiðil, einhvers konar heild sem á eitthvað innbyrðis sameiginlegt og leggja þá einhvern einn dóm á allan bloggheiminn. Réttara er að horfa á bloggin sem aðgreindar sjálfstæðar einingar. Þetta eru einfaldlega tugmilljónir sjálfstæðra radda á Netinu, sem allar hafa ólíkar hvatir og markmið með sínum bloggum. Þá þurfum við að nota sömu dómgreind og áður varðandi hvaða einstaklinga maður ætlar að lesa, hverjum maður tekur mark á og hverjir þeirra segja fréttir."

SALVÖR Gissurardóttir, lektor í tölvu- og upplýsingatækni við KHÍ og fyrrum sérfræðingur í málefnum upplýsingasamfélagsins hjá forsætisráðuneytinu, heldur úti síðu þar sem hún fjallar um ýmis málefni, m.a. veruleika bloggheima. Hún hélt upp á fjögurra ára "bloggafmæli" sitt 1. apríl sl.

Segir Salvör helstu breytingar sem orðið hafa á bloggum undanfarin ár vera þær að þau eru orðin mun fjölbreyttari, en fyrst hafi bloggin næstum verið einkamál stráka sem höfðu tölvur og tæknibúnað fyrir sitt helsta áhugamál. "Það er líka orðið áberandi að stjórnmálamenn eru farnir að líta á þetta sem verkfæri sitt. Ef þú fylgist með stjórnmálaumræðu er iðulega vitnað í það sem stjórnmálamenn skrifa á blogginu sínu. T.d. efast ég um að Freyjumálið í Kópavogi hefði orðið neitt mál hefði Siv ekki fjallað um það á blogginu sínu og birt myndir. Stjórnmálamenn hafa sumir reynt að byrja á vefnum og gefist upp, en ég held að þetta sé eins og allar breytingar, þetta gerist smám saman. En mér sýnist í dag að ef þú ætlar að hafa rödd í stjórnmálum, náirðu ekki til einhvers hluta fólks ef þú ert ekki með blogg."

Björn Bjarnason er án efa fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem bloggaði og segir Salvör hann í raun fyrir vikið hafa verið mjög mikið í umræðunni. "Fyrir nokkrum árum hefði þögn verið góð strategía fyrir stjórnmálamenn í óþægilegum málum. Þegar stjórnmálamenn verja t.d. gjörðir sínar í bloggi og rökstyðja hvað þeir hafa gert, þá halda þeir málunum vakandi í lengri tíma. Það hafa kannski verið meiri árásir á Björn af því hann hefur verið svo duglegur að tjá sig. Að sumu leyti hefur Björn verið í fararbroddi," segir Salvör. "Stjórnmálamenn sem halda að þeir geti þagað málin í hel verða að horfast í augu við að sá tími er liðinn. Nú hafa allir aðgang að upplýsingum."

Salvör segir bloggið vera sterkan miðil. "En það verður samt að vera einhver samræða til að hann sé áhrifamikill miðill. Ef maður er að fara inn í samfélag þar sem er ofgnótt upplýsinga verður að hafa einhvers konar efnisvaka, þar sem maður getur fylgst með uppfærslum. Það er allt að fara inn í svona efnisvaka í vefumhverfinu."

Í einum pistli sínum um blogg og virkni þeirra sem brú milli menningarheima segir Salvör m.a. "Á svæðum þar sem tjáningarfrelsi er lítið þá hafa blogg og spjallkerfi verið ein helsta lind þeirra sem vilja breytingar. Stjórnvöld hafa sums staðar brugðist harkalega við og fangelsað bloggara, lokað netkaffihúsum og sett upp einhvers konar eldveggi. Þannig lokar Kína fyrir Google og blogger. En það eru ekki bara miðstýrð strangtrúarríki múslima sem takmarka tjáningarfrelsið, það berast sögur af því að tjáningarfrelsi sé mjög heft í Kína og þar séu bloggarar og þeir sem skrifa vefpistla handteknir og spjallsvæðum lokað. Ég fitjaði fyrir nokkru upp á þræði á málverjavefnum þar sem ég vakti athygli á því að spjallsvæðum er nú lokað í Kína og ýmislegt undarlegt að gerast þar varðandi netaðgengi."

bb.is | 27.10.16 | 15:56 Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kosningaspá

Mynd með frétt Sjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu í kosningaspá Kjarnans. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám. Vinstri græn mælast með 16,9% í spá Kjarnans, Framsóknarflokkurinn með 10,1% ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 14:57Vestfirska forlagið með fimm nýjar bækur

Mynd með fréttNæstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu. Gunnar B. Eydal hefur skrifað bókina Vegprestar vísa veginn. Bókin er „er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu,“ segir höfundur og framsetningin svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 13:23Súrsynir eru mættir í Haukadal

Mynd með fréttÍ blaði vikunnar 2. hluti teiknimyndasögu Ómars Smára Kristinssonar og Elfars Loga Hannessonar og nú eru Súrsyni komnir í Haukadalinn eftir hremmingar í Súrnadal í Noregi. Þar hafði samkvæmt fyrsta hluta sem birtist í 36. tölublaði Bæjarins besta slegist upp á ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 11:51Ágætt sátt um strandveiðar

Mynd með fréttAð mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 10:56Veður og færð ættu ekki að tefja talningu

Mynd með fréttVeður og færð ættu ekki að tefja talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjörkössum úr öllu kjördæminu er keyrt í Borgarnes þar sem atkvæði verða talin. „Ég hef verið í sambandi við Vegagerðina og þetta ætti ekki að vera vandamál. Það spáir hlýnandi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:37Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með fréttFiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 07:32Hinir ríku verða miklu ríkari

Mynd með fréttHrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 16:50Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með fréttÞað var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 15:49Mælt með leiðinni um Teigsskóg

Mynd með fréttVegagerðin leggur til að nýr Vestfjarðavegur um Gufudalssveit verði lagður eftir leið sem kölluð er Þ-H. Hún liggur yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um Teigsskóg í Þorskafirði. Í frummatsskýrslu sem send hefur verið Skipulagsstofnun kemur fram að það er ódýrasta leiðin ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli