Frétt

bb.is | 22.03.2005 | 13:00Segir margt athugavert við sannleiksást stjórnenda MÍ

Menntaskólinn á Ísafirði.
Menntaskólinn á Ísafirði.
Borist hefur yfirlýsing frá fyrrverandi kennara við Menntaskólann á Ísafirði vegna skrifa stjórnenda skólans sem birtust hér á vefnum fyrir skömmu. Yfirlýsingin er undirrituð af Ingibjörgu Ingadóttur, enskukennara við skólann, fyrir hönd þess fyrrverandi kennara sem yfirlýsinguna ritar en vill ekki að sinni koma fram opinberlega undir nafni. Yfirlýsingin er sögð byggð á viðtölum við bæði núverandi og fyrrverandi kennara MÍ, bréfum í fórum Ingibjargar og upplýsingum af heimasíðu Menntaskólans á Ísafirði. Í henni segir m.a. að margt sé að athuga við sannleiksást stjórnenda skólans. Áðurnefnd yfirlýsing kennarans fyrrverandi, sem nú hefur borist til birtingar, fer hér á eftir í heild:

„Hafa skal það sem sannara reynist, er yfirskrift stjórnenda MÍ vegna umfjöllunar DV um stjórnsýslukæru og lögsókn eins kennara við Menntaskólann á Ísafirði á hendur skólameistara Ólínu Þorvarðardóttur. Lögsóknin er gerð til að fá hnekkt áminningu sem Ólína veitti kennaranum fyrir einkunnagjöf eftir að skólameistari fór yfir jólapróf í ENS 103 og breytti einkunnum nokkurra nemenda um einn heilan í fjarveru og án vitundar kennarans.

Margt er að athuga við sannleiksást stjórnenda Menntaskólans á Ísafirði. Í yfirlýsingu stjórnenda sem birtist m.a. í DV og BB segir: „Jafnframt upplýsum við að engin stjórnsýslukæra hefur verið lögð fram gegn skólanum vegna stjórnarhátta þar innan dyra."

Hið rétta er að stjórnsýslukæra var send menntamálaráðuneytinu þann 12. janúar 2005.

Stjórnsýslukvörtunin hefur ekki hlotið afgreiðslu í menntamálaráðuneytinu. Viðkomandi kennari höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Vestfjarða til að fá áminninguna fellda úr gildi, og var það mál þingfest 16. febrúar 2005. Stjórnsýslukvörtun og málshöfðun eru sitt hvort fyrirbærið, því að samkvæmt lögum er ekki hægt að fá áminningu fellda úr gildi með stjórnsýslukæru.

Vikublaðið Bæjarins besta á Ísafirði birti yfirlýsingu stjórnenda MÍ athugasemdalaust þrátt fyrir að lögfræðingur Kennarasambands Íslands hafi sent blaðinu ábendingu til leiðréttingar á fullyrðingum stjórnenda þar um eftir að hún birtist á vef blaðsins.

Eins og fram hefur komið vék Ólína Þorvarðardóttir skólameistari Ingibjörgu Ingadóttur enskukennara úr stöðu sviðsstjóra erlendra mála með bréfi 23. febrúar 2005 og lækkaði hana um einn launaflokk. Var það gert í beinu framhaldi af lögsókn kennarans (þingfest 16. febrúar). Um leið notaði skólameistari tækifærið og felldi niður annan launaflokk sem kennarinn hafði áunnið sér með því að stunda nám við Endurmenntunardeild Háskóla Íslands á skólaárinu. Í bréfinu segir: „Í ljós hefur komið nýlega að þú uppfyllir ekki ákvæði 11., 12. og 15. gr. laga nr. 86/1996 um lögverndun á starfsheiti framhaldsskólakennara í þeirri kennslugrein sem þú hefur innt af hendi við skólann. Þú ert því hér með leyst undan starfsskyldum sem sviðsstjóri erlendra tungumála við Menntaskólann á Ísafirði."

Í því sambandi er rétt að benda á að annar kennari sem gegnir starfi sviðsstjóra uppfyllir ekki ákvæði laga nr. 86/1996. Einnig var það ljóst þegar Ingibjörg var ráðin sviðsstjóri fyrir þremur árum til tveggja ára og endurráðin fyrir einu ári að hún hafði ekki BA-próf í ensku. Hvernig sem á því stendur virðist sannleiksást stjórnenda við Menntaskólann á Ísafirði orka tvímælis.

Ingibjörg Ingadóttir enskukennari við Menntaskólann á Ísafirði hefur 9 ára kennslureynslu sem enskukennari. Hún hefur búið 12 ár meðal annarra þjóða og þar af 5 ár í Bretlandi. Ingibjörg lauk BA-prófi í hótelstjórnun og ferðamálafræði frá háskólanum í Surrey á Englandi og svissneskum hótelskóla í Aþenu 1990. Hún lauk 15 einingum í almennum bókmenntum og sænsku við Háskóla Íslands 1983 og hefur lokið uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands 2001. Þá lauk Ingibjörg 15 eininga námi í desember 2004 við Endurmenntunardeild Háskóla Íslands, Stjórnun og forysta í skólaumhverfi, og á ólokið 30 einingum til BA-prófs í ensku sem hún stefnir á að ljúka frá Háskóla Íslands.

Þessum kennara ætlar Ólína að gera óbærilegt að kenna við Menntaskólann á Ísafirði því skrifleg áminning þýðir í raun að við minnstu yfirsjón hefur skólameistari í hendi sér að reka kennarann á staðnum. Kennarinn verður að fá áminningunni hnekkt eða hætta kennslu við skólann ella.

Ef borin er saman starfsmannavelta kennara síðustu fjögur árin í tíð Björns Teitssonar og starfsmannavelta kennara í 4 ára skólameistaratíð Ólínu Þorvarðardóttur verður niðurstaðan henni mjög í óhag, hvernig sem á því stendur.

Í margnefndri yfirlýsingu skólameistara og stjórnenda MÍ vegna umfjöllunar DV um stjórnunarhætti við skólann stendur jafnframt: „...hefur á sama tíma (á sl. 3 árum) orðið bylting í atgervissókn að skólanum þar sem vel menntaðir réttindakennarar eru nú 80% kennaraliðsins í stað 20% áður".

Sér er nú hver byltingin, því við samanburð á kennurum í tíð Björns Teitssonar og nú Ólínu Þorvarðardóttur kemur í ljós að prósentutölur og útreikningar stjórnenda við MÍ, Ólínu skólameistara, Guðbjarts aðstoðarskólameistara, Guðmundar Þórs áfangastjóra, Gísla fjármálastjóra og Stellu námsráðgjafa eru vægast sagt hæpnir. Einhver myndi kalla þetta fölsun talna eða frjálslega farið með tölur gegn betri vitund. Reikni nú hver fyrir sig og sannfærist um sannleiksgildi reiknikúnsta þeirra og sannleiksást.

Sjá meðfylgjandi tölur um starfandi kennara við MÍ vorið sem Björn Teitsson lét af embætti skólameistara og starfandi kennara við MÍ nú vorið 2005 undir stjórn Ólínu Þorvarðardóttur.

Með kennsluréttindi í tíð Björns: Samtals 12 réttindakennarar, þar með talinn skólameistari.

Án kennsluréttinda: Samtals 8 kennarar, þar af einn sem hafði lokið námi en átti eftir að skila lokaritgerð sem hann gerði veturinn á eftir.

Með kennsluréttindi í tíð Ólínu: Samtals 15 réttindakennarar.

Án kennsluréttinda: 4 í réttindanámi og 10 til viðbótar án kennsluréttinda, þar með talinn skólameistari. Samtals 14 kennarar án kennsluréttinda.

Að lokum mætti spyrja hvað dvelji orminn langa, þ.e. skólanefnd Menntaskólans á Ísafirði. Hefur hún ekkert aðhafst í þessu alvarlega ástandi sem nú ríkir innan skólans? Skuldar formaður skólanefndar okkur íbúum Vestfjarða ekki skýringar á því sem nú á sér stað í skólanum eða ætlar nefndin að vera stikkfrí þar til dómur hefur verið upp kveðinn í Héraðsdómi Vestfjarða? Það skyldi þó ekki vera að það hefði mátt komi í veg fyrir þau afleitu vinnubrögð skólameistara sem áminningarferlið ber vott um.

Fyrrverandi kennari við Menntaskólann á Ísafirði tók saman.

Í litlu samfélagi er erfitt að koma fram í slíkum deilum undir nafni. En í þeirri von að lesendur geti betur áttað sig á þessu deilumáli og í þeirri einlægu trú að allir aðilar málsins vilji hafa það sem sannara reynist, lagðist bréfritari í svolitla rannsóknarvinnu sem hér lítur dagsins ljós. Ef eitthvað hefur skolast til í sambandi við upptalningu kennara með eða án kennsluréttinda vonast ég til að það verði leiðrétt. Skiptingin er að mínu mati og annarra mjög nærri lagi.

ATHS: Grein þessi er byggð á viðtölum við bæði núverandi og fyrrverandi kennara MÍ, bréfum í fórum Ingibjargar Ingadóttur og upplýsingum af heimasíðu Menntaskólans á Ísafirði.

F.h. bréfritara,
Ingibjörg Ingadóttir."

halfdan@bb.is

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli