Frétt

bb.is | 08.03.2005 | 13:46Háskólasetrið verði tengiliður Vestfirðinga við háskóla og rannsóknastofnanir

Háskólasetrið verður staðsett í Vestra á Ísafirði.
Háskólasetrið verður staðsett í Vestra á Ísafirði.
Þessa dagana er verið að kynna væntanlega skipulagsskrá fyrir Háskólasetur Vestfjarða fyrir þeim aðilum sem hugsanlega munu standa að stofnun þess. Í skipulagsskránni kemur fram að hin nýja stofnun skuli heita Háskólasetur Vestfjarða og heimili þess og starfsstöð verði í Suðurgötu 12 á Ísafirði. Varnarþing þess verði hins vegar á Vestfjörðum. Stofnuninni er ætlað að vera sjálfseignarstofnun og aðilar að henni geti orðið stofnanir, félög og fyrirtæki sem í rekstri sínum fást við rannsóknir, fræðslu, þróunarstarf „og annað sem lýtur að meðhöndlun þekkingar á einn eða annan hátt" eins og segir í skipulagsskránni. Í skránni er gert ráð fyrir ráðningu framkvæmdastjóra sem á að annast daglegan rekstur setursins „eða gera verksamning við einhvern aðildarfélaga þess um að annast daglega stjórnun", eins og segir í skipulagsskránni.

Eins og kunnugt er hefur að undanförnu verið að störfum nefnd á vegum menntamálaráðherra sem undirbúa skal stofnun þekkingarseturs á Ísafirði. Í nefndinni sitja Arnór Guðmundsson þróunarstjóri í menntamálaráðuneytinu sem er formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn eru Smári Haraldsson forstöðumaður fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri, Rögnvaldur Ólafsson Háskóla Íslands og Ármann Kr. Ólafsson aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra. Kristrún Lind Birgisson var ráðinn starfsmaður nefndarinnar.

Það er hins vegar hlutverk Háskólasetursins sem skiptir auðvitað mestu máli fyrir þá sem barist hafa fyrir stofnun sjálfstæðs háskóla á Vestfjörðum. Í stofnskránni sem kynnt hefur verið segir að hlutverk háskólaseturs sé „að stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu þekkingarstarfs á Vestfjörðum, vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði rannsókna, háskóla- og símenntunar, fjölþjóðlegra samstarfsverkefna, nýsköpunar og byggða- og atvinnuþróunar", eins og segir orðrétt í skipulagsskránni.

Tilgangi sínum hyggst Háskólasetrið ná með því að „gera samstarfssamninga við háskólastofnanir innan lands sem utan sem stuðla að auknu námsframboði á Vestfjörðum og auknum rannsóknum sem byggja á sérstöðu Vestfjarða. Koma á góðri náms- og kennsluaðstöðu í Suðurgötu 12."

Einnig segir um tilganginn í skipulagsskránni: „Vera tengiliður Vestfirðinga við háskóla og rannsóknastofnanir innan lands sem utan. Stuðla að auknu framboði á háskólanámi á svæðinu. Vera vettvangur nýsköpunar og þróunar á Vestfjörðum. Stuðla að því að háskólar veiti góða þjónustu í formi fjarkennslu og staðbundinnar kennslu til og frá Ísafirði. Stuðla að því að fækka ferðalögum fjarnema með aukinni samvinnu við háskólana og með því að auka þjónustu í háskólasetrinu."

Þá á að kynna Vestfirði sem áhugaverðan kost í ýmsu tilliti og samvinnu ýmissa rannsóknastofnana um rannsóknir á Vestfjörðum og „markaðssetja þá sérfræðinga sem kunna að nýtast háskólum í kennslu einstakra áfanga eða í einstaka fyrirlestra" og einnig að „koma á framfæri sérstöðu Vestfjarða, t.d. hvað varðar Hornstrandafriðlandið, ósnortna náttúru, tónlistar- og menningarlífi og miðla þekkingu sem byggir á þeirri sérstöðu til háskóla", eins og segir í skipulagsskránni.

Í viðskiptaáætlun fyrir Háskólasetur Vestfjarða til ársloka 2010 segir svo m.a. í inngangi: „Gengið er út frá því að allt nám sem boðið er sé á ábyrgð viðurkenndra háskóla og að þeir eigi jafnframt beina aðild að stjórn þekkingarsetursins."

Í viðskiptaáætluninni segir einnig: „Vestfirðir eru í harðri samkeppni við önnur landsvæði sem bjóða upp á fjölbreytt atvinnutækifæri og háskólanám. Mikilvægt er að Háskólasetrið leggi rækt við rannsóknarviðfangsefni sem erfitt eða útilokað er að vinna með annars staðar. Þannig er hægt að gera Vestfirði að vænlegum kosti fyrir háskóla að efla samstarf við. Að sama skapi verði lögð áhersla á að koma til móts við almenna þörf á háskólanámi í samvinnu við viðurkennda háskóla með samblandi af staðbundinni kennslu og fjarkennslu"

Í stofnskránni segir að helstu markhópar Háskólaseturs Vestfjarða séu „einstaklingar sem einungis hafa lokið grunnskóla, aðrir sem lokið hafa iðnnámi eða hluta af framhaldsnámi, þeir sem lokið hafa stúdentsprófi , þeir sem lokið hafa námi á framhaldsstigi en hafa ekki réttindi til þess að stunda háskólanám og nemendur sem útskrifast ár hvert úr Menntaskólanum á Ísafirði. Jafnframt þarf að leggja sérstaka áherslu á að ná til Vestfjarða allra. Stefnt er að því að eftir fimm ár verði á fimmta hundrað nemendur sem nýti sér þjónustu Háskólaseturs Vestfjarða og stundi þar háskólanám, undirbúning fyrir háskólanám og/eða rannsóknir af ýmsu tagi."

Í viðskiptaáætluninni er gert ráð fyrir að Háskólasetrið taki að sér háskólaþjónustuna sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur sinnt á síðustu árum. „Enn fremur er gert ráð fyrir að Háskólasetrið taki að sér alla starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða sem tengist símenntun sem aðra starfsemi Fræðslumiðstöðvar", eins og segir í viðskiptaáætluninni. Í kafla um samkeppni og samstarf við aðra háskóla í landinu segir: „Háskólasetrið mun keppast við að búa svo vel að nemendum háskólanna að það þyki betri kostur að stunda fjarnám heldur en að flytja búferlum til þess að sækja staðbundið háskólanám."

Í rekstrar- og fjárhagsáætlun fyrir Háskólasetur Vestfjarða er gert ráð fyrir því að kostnaður við breytingar á húsnæði verði um 10 milljónir króna og kostnaður við tæki, búnað og flutninga verði um 9 milljónir króna í upphafi. Á árunum 2006-2010 er gert ráð fyrir að útgjöld setursins verði á ári tæpar 53,5 milljónir króna. Þar af eru laun framkvæmdastjóra 6,5 milljónir og laun tveggja deildarstjóra um 10 milljónir króna og ritara um 3,5 milljónir króna. Leiga er áætluð tæpar 5,8 milljónir króna.

Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 11 milljónum króna í tekjur sem framlag vegna byggðaáætlunar, 9,5 milljónir króna komi í tekjur frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og 1,2 milljónir króna komi í tekjur frá FS-netinu. Samtals eru því nefndar tekjur að upphæð 21,7 milljónir króna. Til þess að mæta útgjöldum vantar því tæpar 31,8 milljónir króna en ekki kemur fram í viðskiptaáætluninni hvernig þeirra tekna skuli aflað.

Eins og fram kom fyrr í fréttinni stendur þessa dagana yfir kynning á stofnskrá Háskólaseturs Vestfjarða þessa dagana. Í kvöld verður haldinn almennur kynningarfundur í Þróunarsetri Vestfjarða og hefst hann kl. 20. Stofnfundur Háskólaseturs er hins vegar á dagskrá á laugardag.

Af tillögum þeim sem greint hefur verið hér að framan má ljóst vera að ekki eru gerðar tillögur um stofnun sjálfstæðs háskóla á Vestfjörðum eins og hefur verið baráttumál margra, m.a. stórs hóps ungs fólks sem „stofnaði" Háskóla Vestfjarða að viðstöddum forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Silfurtorgi í sumar. Af viðskiptaáætlun má ráða að ekki sé heldur gert ráð fyrir stofnun háskóla á Vestfjörðum innan þriggja ára eins og flokksþing Framsóknarflokksins ályktaði um á dögunum.

hj@bb.is

bb.is | 24.10.16 | 16:50 Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með frétt Gríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 13:23Vaxandi spenna í hagkerfinu

Mynd með fréttVíða má sjá merki um ofhitnun á vinnumarkaði og fyrirtæki finna í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 11:44Kvennafrídagurinn í dag: „Kjarajafnrétti strax!“

Mynd með fréttKvennafrídagurinn er í dag 24.október og er honum gert hátt undir höfði víða um land með samkomum þar sem konur koma saman til samstöðufunda um jöfn kjör kvenna og karla. Konur á Íslandi eru hvattar til að leggja niður störf klukkan ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 10:45Nóttin sem öllu breytti – bók um Flateyrarflóðið

Mynd með fréttSóley Eiríksdóttir hefur skrifað bók um snjóflóðið á Flateyri sem féll 26. október 1995 og varð tuttugu manns að bana. Bókin ber heitið Nóttin sem öllu breytti. Sóley var ellefu ára gömul þegar flóðið féll og var grafin upp eftir níu ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:37Hádegisfyrirlestur um Drangajökul í Háskólasetrinu

Mynd með fréttEyjólfur Magnússon, jarðeðlisfræðingur verður í hádeginu í dag, mánudag, með fyrirlestur í Háskólasetri Vestfjarða um Drangajökul og þróun hans á síðustu sjö áratugum. Eyjólfur starfar á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og hefur rannsakað jökulinn um langt árabil. Í erindinu mun hann segja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 09:01Framtíðin að fæðast á Hólmavík

Mynd með fréttÞau gleðitíðindi berast frá Hólmavík að verið sé að byggja við leikskólann Lækjarbrekku. Húsnæðið sem fyrir er, er orðið yfirfullt og þrengir að börnum og starfsmönnum, en með tilkomu hinnar nýju viðbyggingar fæst loksins viðunandi aðstaða fyrir starfsmenn að sögn sveitarstjóra ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 07:29Opnun Þingeyrarflugvallar framlengd

Mynd með fréttSíðust ár hefur verið í gildi vetrarlokun á Þingeyrarflugvelli vegna frostskemmda. „Völlurinn hefur verið opinn frá 1. júní til 15. október en vegna hagstæðs veðurs í haust verður hann opinn til 1. nóvember hið minnsta,“ segir Arnór Magnússon, svæðisstjóri Isavia á ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 16:50Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með fréttUm síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli