Frétt

Sigurður Pétursson | 21.02.2005 | 13:12Vestfirðir og tækifæri framtíðarinnar - aflstöð eða útkjálki?

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur.
Sigurður Pétursson, sagnfræðingur.
Á síðasta ári voru haldnar tvær almenningshátíðir hér á Ísafirði, þar sem saman kom fjöldi fólks, mesti fjöldi sem komið hefur saman á Ísafirði, sögðu sumir. Báðar náðu þær að fanga athygli landsmanna. Þessir tveir atburðir urðu til fyrir frumkvæði og dugnað einstaklinga, ekki yfirvalda, þeir voru bornir uppi af einstaklingum í samvinnu við félagasamtök hér vestra og þar komu fram listamenn af Vestfjörðum, ungir sem aldnir, en einnig góðir gestir. Þetta voru tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður, sem haldin var um páskana, og Heimastjórnarhátíð alþýðunnar sem haldin var í lok ágústmánaðar. Það er athyglisvert að báðar hátíðarnar voru kenndar við alþýðuna, almenning í landinu, og báðar voru kynntar sem nokkurs konar andsvar við dýrar opinberar hátíðir skipulagðar eru af yfirvöldum.

Þessir atburðir sýna svo ekki verður um villst, að samtakamáttur Vestfirðinga, kraftur og áræði, dugnaður og framkvæmdagleði er enn til staðar í ríkum mæli, alveg eins og fyrr á tíð, þótt fólkinu hafi fækkað og áföll gengið yfir síðustu ár. Það sannaðist, að með sameiginlegu átaki, frumkvæði og hugmyndaauðgi geta Vestfirðingar styrkt samfélagið og tryggt framtíð sína. Þannig að komandi kynslóðir geti áfram andað að sér vestfirsku lofti, sem hvergi er til annarsstaðar í heiminum, þessu samblandi af harðneskjulegum fjöllum og dularfullu hafi, harðgerum gróðri og töfrandi birtu. Þetta umhverfi sem alið hefur af sér Vestfirðinga í ellefu hundruð ár.

Á heimastjórnarhátíðinni síðasta sumar var sýnd stuttmynd, sem gerð var af heimamönnum, sem sýndi aldamótahátíð sem fram fór á Ísafirði árið 1901. Við skulum aðeins bregða okkur aftur í tímann: Um 1900 bjuggu 16 þúsund manns á Vestfjörðum, um 15% þjóðarinnar. Nú búa hér tæp 8 þúsund manns, eða helmingi færri og hlutfallið er 3%. Þó látum við alltaf líta út fyrir að við séum 10% og í raun eru 15-20% þjóðarinnar Vestfirðingar í hjarta sínu, vegna þess hve duglegir þeir hafa verið að dreifa sér um landið síðustu áratugina.

Hvaða framtíð á þessi landshluti, Vestfirðir, ef þróunin hefur verið þessi síðustu hundrað ár? Þetta er ekki þægileg spurning, en hún liggur í loftinu, og hefur gert á síðustu árum. Við heyrum hana yfirleitt ekki hér fyrir vestan, en henni er stundum laumað að í umræðum sunnan heiða, í borgríkinu á suðvesturhorninu, og hver eru viðbrögðin? Fyrst hneykslumst við, síðan verðum við kannski sár og jafnvel reið, en ég held að ég sé ekki einn um það, að hafa veigrað mér við að svara henni hingað til: Við erum nefnilega hrædd við svarið. - En þurfum við að vera það?

Við svörum þessari spurningu á hverjum degi. Með því að búa hér, með því að starfa hér, með því að taka þá afstöðu að vilja vera hér áfram og óska þess að afkomendur okkar verði hér í framtíðinni. Með því að vinna að framtíð samfélagsins, taka þátt í menningarlífi og félagslífi, með því að viðhalda húsunum, rækta garðana, hlúa að bæjarfélögunum, búa í haginn fyrir elliárin eða taka þátt í samfélagsumræðunni. Með daglegu lífi okkar svörum við spurningunni á hverjum einasta degi. Og þegar við tökum okkur saman og höldum hátíðir eins og á síðasta ári, látum við alla landsmenn vita, það sem skiptir máli: Hér er lifandi samfélag fólks sem ber höfuðið hátt og er stolt af sínum heimkynnum, sögu sinni og hefðum og krefst þess að vera talið með.

Þetta held ég að sé grundvallaratriði fyrir framtíð Vestfjarða. Það er sú afstaða sem hver og einn tekur til sinnar búsetu og framtíðar. En þar blandast auðvitað margir þættir, efnahagslegir þættir, atvinna, tekjur, aðbúnaður, þjónusta, menntun, aðstæður og margt fleira. Og þar liggja hætturnar, en líka tækifærin.

Þegar Hannes Hafstein og félagar héldu veisluna árið 1901 (það var auðvitað engin alþýðuhátíð, heldur veisla yfirstéttarinnar í bænum) og Hannes flutti aldamótakvæði sitt, fullt af bjartsýni, var að byrja mesti uppgangstími í sögu kaupstaðarins hér á Ísafirði. Tveim árum síðar var fyrsti vélbátur landsmanna farinn til fiskveiða frá Bolungarvík. Og á nokkrum árum flæddu vélbátar um alla Vestfirði, afli jókst, atvinna og tekjur stórjukust og tala má um stórveldistíma bæjarins. Áratuginn fyrir 1901 var líka mikil uppbygging, hér voru rekin öflug útgerðar- og verslunarfyrirtæki sem gerðu út skútur og kepptust um að kaupa saltfiskinn af bændunum. Allir hafa heyrt um Ásgeirsverslun – stærsta fyrirtæki landsins á sínum tíma – og uppgangurinn var svo mikill á Vestfjörðum á þessum árum að þeir litu ekki einu sinni við tilboðum agentanna um að flytja til Ameríku, í land tækifæranna. Tækifærin voru hér.

Hvar eru tækifærin núna? Hvert horfa Vestfirðingar nú? – Ef við athugum málið, þá horfa Íslendingar mikið til Ameríku nú um stundir – það er Ídol frá Ameríku, það er Survæval frá Ameríku, það er Íraksstríðið, það er tæknin, tölvurnar og kvikmyndirnar. Heimurinn horfir til Ameríku. En ef við lítum okkur nær, þá fá Íslendingar allir Ameríku í gegnum Reykjavík; gegnum Stöð 2, Skjá einn, Skífuna og Sambíóin. Reykjavík er miðstöð athafnalífs og menningar, menntunar og stjórnsýslu. Það er höfðuborgin. Þangað horfir fólk, þar er miðpunktur landsins sem allt snýst um. Innflutningur, útflutningur, ferðamenn, landbyggðamenn, námsmenn, sjúklingar. Allir fara um Reykjavík. Þar verða störfin til, þar er menntunin, þjónustan, tækifærin. Og auðvitað horfum við þangað. En þannig var það ekki alltaf og þarf ekki að vera.

Ísafjörður var áður í beinu verslunarsambandi við erlendar hafnir. Bærinn hefur löngum verið nefndur Höfuðstaður Vestfjarða, en hvernig stendur hann undir því nafni? Ísafjörður hefur allt sem þarf til að vera miðstöð. Hér er þjónusta á háu stigi, stjórnsýsla, löggæsla, bankar, póstur, sími, og ríki. Vel búið sjúkrahús og menntaskóli sem við getum verið stolt af. – En segir það ekki margt um samfélagið, að stærstu vinnustaðirnir eru skólarnir og sjúkrahúsið. Það er margt breytt frá því hér við Djúp voru fimm stór frystihús og sjö rækjuverksmiðjur, sex skuttogarar og enn fleiri bátar. - En áfram með kjarnahlutverkið.

Til þess að Ísafjörður rísi undir nafni sem miðstöð Vestfjarða, eins og hann var meðan samgöngur á sjó voru helsti tengiliður byggðanna, verður hann að vera í raunverulegu vegasambandi við aðra hluta Vestfjarða. Það skiptir öllu máli að tengjast Barðastrandarsýslunni með göngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og áfram á Barðaströnd. Það þarf líka að tengja saman byggðina hér við Djúp, með tengingu Ísafjarðar við Bolungarvík og Súðavík. Og það þarf að treysta samgöngurnar við Reykjavík, því það er jú miðstöð landsins. Flugið hlýtur áfram að vera fljótlegasta samgöngutækið – við höfum ágætan flugvöll, en við þurfum að byggja upp völlinn í Dýrafirði sem annan valkost. Hafnir höfum við.Það eru með öðrum orðum úrbætur í samgöngumálum sem ráða úrslitum um það hvort Vestfirðir eigi áfram sína miðstöð. Og það er grundvallaratriði fyrir framtíðina, eins og viðurkennt hefur verið nýlega með skýrlsu frá stjórnvöldum. En það er bara ekki nóg.

Atvinnuvegirnir eru auðvitað undirstaðan. Og þó að þjóðfélag okkar sé með hinum þróuðustu í heiminum, og þjónusta sé nú þegar og verði enn frekar áfram, það sem flestir hafa atvinnu af. Það þarf líka fastan grunn til að byggja á, sérstaklega á jaðarsvæði, eins og Vestfirðir eru, hvort sem við lítum á Evrópu sem heild eða bara á Ísland. Og undirstaðan hefur alltaf verið ein hér á Vestfjörðum: Sjávarútvegur.

Ég ætla ekki að fjölyrða um sjávarútvegsstefnu og kvótakerfi. Ég vil bara benda á að það starfa þróttmikil fyrirtæki hér á svæðinu. Það er gott, en hvernig getum við tryggt uppbyggingu í framtíðinni? Þá verðum við að hugsa um hinar almennu reglur, umhverfi fyrirtækjanna og aðstæður, ekki hag einstakra fyrirtækja eða einstaklinga. Sú staðreynd að bestu fiskimið landsmanna eru hér út af Vestfjörðum ætti að vera næg trygging fyrir því að hagkvæm útgerð og fiskvinnsla stæði hér í blóma. Svo er ekki, og því þarf að breyta. Vestfirðingar verða að berjast fyrir því að nálægðin við miðin komi þeim til góða. Þegar undirstaðan er tryggð, kemur hitt á eftir.

Samgöngur og þjónusta koma í beinu framhaldi. Samgöngur til að koma framleiðslunni á markað. Flug beint til útlanda ætti að vera markmiðið, alveg eins og þegar Ásgeirsfeðgar og aðrir fluttu sínar vörur beint á markað í Evrópu. Þá voru það seglskip og gufuskip, nú eru það flugvélar. – ( Og þegar við höfum byggt millilandaflugvöll í Dýrafirði, geta þau fyrir sunnan lagt niður Reykjavíkurflugvöll ef þau vilja.)

Samgöngur tengjast ekki síður ferðaþjónustu. Uppbygging hennar verður aldrei annað en aukabúgrein, svipað eins og landbúnaðurinn hefur verið á Vestfjörðum síðustu öld. En hann er auðvitað mikilvægur fyrir samfellu byggðarinnar og fjölbreytnina í atvinnulífinu auk þess sem ferðamenn styrkja verslun og þjónustu á öðrum sviðum.

Þá komum við að öðru. Opinber þjónusta er sú grein sem vaxið hefur mest síðustu áratugi, hér á landi eins og í öðrum velferðarþjóðfélögum. Og þjónusta, opinber rekstur eða einkarekstur, verður áfram sú grein sem veita mun stærstum hluta þjóðarinnar atvinnu og viðurværi. Við sjáum þessa þróun hér fyrir vestan. Ísafjörður dregur til sín þjónustu frá byggðunum í kring og þannig hefur íbúaþróun hér verið skárri en í nágrannabæjum. En Ísafjörður lifir ekki lengi á því. Nú er komi að tímamótum. Sú þjónusta sem byggð er upp hér má ekki, á ekki og getur ekki bara einskorðast við íbúa í Ísafjarðarsýslum, ekki einu sinni íbúa Vestfjarða. Hér þarf að byggja upp þjónustustofnanir sem byggja á sambandi við alla Íslendinga og jafnvel út fyrir landssteinana. – Á síðustu árum hefur örlað á þessari viðleitni. Nokkrar stöður hafa orðið til, við rannsóknarstofnanir hér á Ísafirði og í Bolungarvík, sem þjóna öllu landinu. En nú er komið að vatnaskilum. Hér þarf að gera stórátak, sem veitir fólki, atgerfi og fjármagni hingað vestur. Stofnun sem styrkir ekki bara mannlíf og búsetu, heldur líka aðrar atvinnugreinar. Stofnun sem veita mun ungum Vestfirðingum ný tækifæri. Kallar til baka vel menntað fólk sem við höfum sent til náms suður eða til annarra landa. Kallar til verka fólk allsstaðar að, kemur á beinu sambandi við umheiminn –gegnum rannsóknir og þróun - rétt eins og á skútuöldinni. Stofnun sem mun byggja á traustum grunni, verkmenningu og samfélagi Vestfjarða, menntun og framfaraþrá heimamanna og laða til sín fólk frá öllu landinu og öllum heiminum. Þetta er auðvitað Háskóli Vestfjarða.

Alveg eins og tónlistarhátíðin og heimastjórnarhátíðin sýndu styrk heimamanna og samstöðu – þá eiga Vestfirðingar nú að taka höndum saman og kalla eftir stuðningi ríkisins, kjörinna fulltrúa og allra framsýnna afla innan héraðs og utan, til að koma nú þegar upp sjálfstæðum háskóla. Engin ein aðgerð önnur getur orðið til að tryggja Ísafjörð sem miðstöð Vestfjarða og styrkja byggð á Vestfjörðum til framtíðar. Og ef aðrir styðja okkur ekki í málinu, þá verðum við að treysta á okkur sjálf, alveg einsog þegar við héldum upp á hundrað ára hátíð framkvæmdavaldsins í höndum almennings í fyrra.

Framtíð Vestfjarða byggir á auðlindum þeirra: Fiskimiðunum, fólkinu og landinu. Öflugur sjávarútvegur skapar arðinn sem dreifist um samfélagið.Þjónusta, verslun og iðnaður vex upp af sjávarútveginum og önnur framleiðsla sem byggir á menntun og tækni, við þekkjum Póls, 3X-stál, netagerðina. Það er engin tilviljun að þau hafa þróast hér. Jafnfram skulum við minna okkur á að ef undirstaðan hefði ekki verið styrk, þá hefðu þau ekki orðið til hér. Sama getum við sagt um fiskeldið. Þar tengist saman rannsóknir, þekking, reynsla og fjármagn. Og það þarf alla þessa hluti. Ferðaþjónustan byggir á sérstöðu landsins og þeirri sögu sem Vestfirðingar eiga sér í harðri baráttu við náttúruöflin, þeirri verkmenningu sem hér þróaðist og tilbrigðum sem þau veittu útrás, sem við sjáum í hlunnindasafni á Reykhólum eða galdrasafni á Ströndum. Fólkið, Vestfirðingar innfæddir og aðfluttir, eru sú auðlind sem allt hitt byggir á. Þar eru möguleikarnir líka miklir. Hér er saman kominn harður kjarni – í útjaðri Evrópu.

Íslendingar eru hluti af hinum lánsömu þjóðum í Evrópu sem gengið hafa í gegnum iðnþróun og nútímavæðingu og leitt hafa okkur til þess nútíma velferðarþjóðfélags sem við öll erum hluti af. Það eru ekki margar þjóðir utan þessa heimshluta sem fengið hafa að njóta slíkra gæða, og aðrar þjóðir, hvort heldur þær eru í Austur-Evrópu, Asíu, Afríku eða Ameríku, horfa til Evrópu og spyrja hvernig þau geta öðlast hlutdeild í veraldargæðunum. Og Norðurlöndin hafa litið á sig sem fyrirmynd annarra, um lífsgæði og jöfnuð. En skoðum nú annað samhengi:

Norðurlönd eru jaðarsvæði í Evrópu. Ísland er jaðarsvæði á Norðurlöndum. Vestfirðir eru jaðarsvæði á Íslandi. Við erum semsagt stödd hér á jaðarsvæði á jaðri hins iðnvædda og þróaða heimi. Og við horfum inn að miðjunni. Vestfirðingar horfa suður, líkt og aðrir landsmenn. Íslendingar allir saman horfa svo út, til Norðurlanda, Evrópu og Bandaríkjanna (og það er togstreita um það hvert við eigum að stefna). Allir horfa inn að miðju, þar sem hlutirnir gerast, þar sem fjármagnið safnast, þar sem menningin þroskast, þar sem nýjungar verða til í vísindum, tækni, og samfélagsmálum. Þannig miðja geta Vestfirðir einnig verið. Við erum vissulega á jaðarsvæði, en í því felst jafnframt sérstaða okkar. Sérstaða sem getur orðið okkur styrkur í framtíðinni og falið í sér tækifæri ef rétt er á málum haldið.

Vestfirðir geta orðið aflstöð til framtíðar, en aðeins ef við Vestfirðingar treystum á okkur sjálfa, byggjum á eigin framtaki og samstöðu fólksins. Rétt eins og á Heimastjórnarhátíð alþýðunnar síðastliðið sumar.
(Ísafirði, 13. febrúar 2005).

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur.

Erindi þetta var samið fyrir fund Framtíðarhóps Samfylkingarinnar sem haldið var hér á Ísafirði fyrr í mánuðinum. Nú hafa þau tíðindi borist að innlima eigi Orkubú Vestfjarða í nýjan orkurisa undir forræði Landsvirkjunar og í sömu viku birtist skýrsla stjórnvalda um mögulega umskipunarhöfn ef svokölluð norðvestur-siglingaleið muni opnast, þar sem ekki er gert ráð fyrir Vestfjörðum sem möguleika. Það er því ekki vanþörf á að halda uppi umræðu um framtíð byggðar hér á Vestfjörðum.


bb.is | 27.10.16 | 16:51 Flókin tengsl í þorpi sem margir gera tilkall til

Mynd með frétt Sjávarþorpið Flateyri og staðartengsl íbúa þar verður til umfjöllunar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur búsettur á Flateyri, veltir því m.a. upp hvað það sé sem fær listamenn og þjóðfræðing til að eiga athvarf í afskekktu þorpi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 15:56Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kosningaspá

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu í kosningaspá Kjarnans. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám. Vinstri græn mælast með 16,9% í spá Kjarnans, Framsóknarflokkurinn með 10,1% ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 14:57Vestfirska forlagið með fimm nýjar bækur

Mynd með fréttNæstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu. Gunnar B. Eydal hefur skrifað bókina Vegprestar vísa veginn. Bókin er „er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu,“ segir höfundur og framsetningin svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 13:23Súrsynir eru mættir í Haukadal

Mynd með fréttÍ blaði vikunnar 2. hluti teiknimyndasögu Ómars Smára Kristinssonar og Elfars Loga Hannessonar og nú eru Súrsyni komnir í Haukadalinn eftir hremmingar í Súrnadal í Noregi. Þar hafði samkvæmt fyrsta hluta sem birtist í 36. tölublaði Bæjarins besta slegist upp á ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 11:51Ágætt sátt um strandveiðar

Mynd með fréttAð mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 10:56Veður og færð ættu ekki að tefja talningu

Mynd með fréttVeður og færð ættu ekki að tefja talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjörkössum úr öllu kjördæminu er keyrt í Borgarnes þar sem atkvæði verða talin. „Ég hef verið í sambandi við Vegagerðina og þetta ætti ekki að vera vandamál. Það spáir hlýnandi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:37Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með fréttFiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 07:32Hinir ríku verða miklu ríkari

Mynd með fréttHrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 16:50Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með fréttÞað var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli