Frétt

Elías Jónatansson | 15.02.2005 | 11:36Að sækja vatnið yfir lækinn

Elías Jónatansson.
Elías Jónatansson.
Ég fagna þeim áhuga og umræðu sem uppi er um bættar samgöngur á milli byggðarlaga við Djúp. Umræðan um bættar samgöngur hefur því miður snúist upp í það að einblína á eina leið, í tilfelli Bolungarvíkur, að því að mér virðist að óskoðuðu máli, í stað þess að hafa uppi á borðinu þá valkosti sem eru í stöðunni og skoða þá út frá bæði öryggissjónarmiðum og hagkvæmni. Ég mun í þessari grein einbeita mér að þeim valkostum sem snúa að Bolungarvík.

Jarðgöng í Hnífsdal, styttri – ódýrari – jafn öruggur valkostur

Til að koma í veg fyrir allan misskilning er rétt að taka það fram strax í byrjun að undirritaður er mjög fylgjandi tenginu Bolungarvíkur og Súðavíkur við Ísafjörð með jarðgöngum. Ég tel hins vegar að sú leið sem rætt er um í samgöngum á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar, svokölluð Syðridalsleið, sé ekki öruggari, hún sé í mörgum tilfellum mun lengri fyrir Bolvíkinga en aðrir valkostir og þýði aukin útgjöld fyrir heimilin á ársgrundvelli auk þess að vera þjóðhagslega óhagkvæm. Síðast en ekki síst er hún að líkindum talsvert dýrari kostur en hægt er að velja án þess að öryggi sé fórnað.

Þar sem undirskriftarsöfnun sú er nú stendur yfir tekur beinlínis afstöðu til þess hvar jarðgöngin eigi að liggja í stað þess að kanna hug fólks til tengingar með jarðgöngum yfirleitt, er rétt að ganga út frá því sem grundvallarforsendu að skoðaðir séu þeir valkostir sem geta kostað jafn mikið eða minna.

Syðridalur - Botnsdalur

Samkvæmt lauslegri athugun á þeim valkosti að fara með jarðgöng úr Syðridal í Bolungarvík og inn í núverandi jarðgöng á milli Ísafjarðar, Önundafjarðar og Súgandafjarðar, þá er ljóst að jarðgöng yrðu að vera u.þ.b. 6 km löng, ef þau ættu að ná inn í núverandi vegamót í jarðgöngunum. Ef tekin yrðu ný jarðgöng að gangamunna í Súgandafirði væri um að ræða ca. 4,5 km göng + væntanlega breikkun á núverandi „Súgandafjarðarlegg“ sem er 3 km langur og má þá reikna með að sé sambærilegt við það að leggja 1,5 km í gögnum. Samtals er því um að ræða kostnað sem svarar til u.þ.b. 6 km í jarðgöngum auk kostnaðar við ca. 5 km veg að göngunum.

Þá er rétt að geta þess að ef farið yrði með jarðgöng í gatnamótin í Vestfjarðagöngum, þá þyrfti að vinna þau frá öðrum endanum en ekki báðum, eða að loka Vestfjarðagöngunum á verktímanum á meðan verið væri að sprengja göngin og aka út efninu. Að vinna göngin frá öðrum endanum myndi að öllum líkindum gera þau enn dýrari en ella, þar sem aka þyrfti efninu úr þeim allt að tvöfalt lengri leið.

Bolungarvík – Hnífsdalur

Það eru aðallega tveir valkostir af þeim fjölmörgu sem til eru í stöðunni, sem ég vil vekja athygli á til samanburðar við þann valkost sem um er rætt í þeirri undirskriftarsöfnun sem nú fer fram. Annars vegar er um að ræða jarðgöng frá Ósi / Ósvör / Óshólavita og inn í Hnífsdal u.þ.b. 5 km löng.

Hins vegar er um að ræða þrenn jarðgöng, þ.e. göng í gegnum Óshyrnu, Arafjall og Búðarhyrnu sem kæmu út úr fjallinu á nokkur hundruð metra kafla, bæði í Kálfadal og í Seljadal, þar sem engin hætta er á ofanflóðum, en síðustu göngin kæmu út í Hnífsdal. Síðari valkosturinn er úr jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar frá því árið 2000 og er gróflega kostnaðarmetinn þar á 2-2,5 milljarða króna. Hann þýðir u.þ.b. 4km göng og gefur færi á að áfangaskipta verkinu.

Öryggið á oddinn

Nefnt hefur verið að vegurinn á milli Hnífsdals og Ísafjarðar hamli samgöngum vegna hættu og mæli því gegn því að farin sé jarðgangaleið úr Bolungarvík í Hnífsdal. Í fyrsta lagi er um það að segja að ekki er að sjá annað en að á Hnífsdalsvegi megi tryggja fullt öryggi með t.d. yfirbyggingu/vegskálum eða öðrum vörnum sem reynsla er komin á. Því verður á engan hátt fallist á að ekki sé hægt að tryggja öryggi um Eyrarhlíð með viðunandi hætti, án þess að þurfa að leggja í það fjármuni sem samsvara margra km. vegagerð og eins kílómeters jarðgöngum. Þá ber einnig að geta þess að snjóflóð eru 25 sinnum algengari á Óshlíð (að meðtöldum flóðum sem fara yfir vegskála og engin hætta stafar af) en á Eyrarhlíð. Þau eru að sama skapi 32 sinnum algengari á Súðavíkurhlíð heldur en á Eyrarhlíð sé miðað við 10 ára tímabil 1991 til 2000, skv. upplýsingum sem skráðar eru af Vegagerðinni.

Ekki er minnst á það í umræddum valkosti í Syðridal að þar geti verið snjóflóðahætta fyrir hendi sem er þó þekkt. Ennfremur er fyrir hendi einhver hætta á Skutulsfjarðarbraut eins og dæmin sanna. Aukið umferðaröryggi með aðgerðum á Hnífsdalsvegi gagnast einnig Hnífsdælingum og ekki síst þeim Ísfirðingum sem sækja vinnu í Hnífsdal. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að hægt væri að nýta efnið úr göngunum til að færa þjóðveginn sem nú liggur um Hnífsdal, út fyrir byggðina, í Hnífsdalsvíkina og minnka þannig umferð í íbúahverfinu.

Ég tel óhætt að fullyrða að umferðaöryggi á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar sé jafn vel tryggt með öryggisaðgerðum á Hnífsdalsvegi og jarðgöngum í “gegnum” Óshlíð og með jarðgöngum til Súgandafjarðar eða í gatnamót núverandi Vestfjarðaganga.

Hagkvæmnisjónarmið – 50% munur á vegalengd – 70% munur á ferðatíma

Að öryggissjónarmiðunum frátöldum, þá hljóta hagkvæmnisjónarmiðin að vega mest í umfjöllun um valkosti í samgöngum. Lítum nú á samanburð á milli þeirra valkosta sem hér hafa verið ræddir. Í fyrsta lagi er eðlilegt að skoða vegalengd í hringtorgið á Ísafirði, en þaðan er sama vegalengd í alla þjónustu á Skutulsfjarðareyrinni, t.d. Fjórðungssjúkrahús, stjórnsýsluna, banka, langflestar verslanir á Ísafirði auk Menntaskólans að ótöldum menningarhúsum, gistihúsum, skemmtistöðum og Ísafjarðarhöfn.

Vegalengd frá gatnamótum í Syðridal (við Golfskálann í Bolungarvík) er ríflega 20km ef farin er Syðridalsleið. Vegalend um Óshlíð er í dag u.þ.b. 13km og yrði líklega 12 km m.v. jarðgöng. Þarna er um að ræða u.þ.b. 50% lengingu á leiðinni til Ísafjarðar ef borin eru saman Syðridalsleið og núverandi leið um Óshlíð. Jarðgöng um Óshlíð stytta hins vegar núverandi leið um ca. 7%. Ef reiknaður er ferðatími á sömu leið má búast við að hann sé u.þ.b. 70% lengri ef farin er Syðridalsleið, þar sem hámarkshraði á stórum hluta leiðarinnar væri 60 km/klst í stað 80 km/klst. Ekki er annað að sjá en að vegalengd á flugvöll og vegalengd í verslunarmiðstöð á Skeiði yrði sambærileg eða jafnvel lengri með Syðridalsleið. Vegalengd frá Bolungarvík til Reykjavíkur ef farið yrði um Dynjandisheiði (eða ný Vestfjarðagöng) myndi reyndar styttast um 9 km ef farin yrði Syðridalsleið. Leiðin um Djúp yrði hins vegar jafnlöng hvort sem farið yrði um jarðgöng í Syðridal eða Óshlíð. Hvort vegur þyngra 9 km stytting til Reykjavíkur eða 7 km stytting til Ísafjarðar hlýtur að vera augljóst út frá fjölda ferða.

Verulegur kostnaðarmunur bifreiðaeigenda

Erfitt er að meta þann kostnað sem hlytist af lengingu vegalengdarinnar Bolungarvík Skutulsfjarðareyri. Þó ætti að vera óhætt að reikna með að nokkuð stór hluti umferðarinnar um Óshlíð sé að fara eða koma frá því að sinna erindum á „Eyrinni“. Á árinu 2003 var umferðin um Óshlíð að meðaltali 632 bílar á dag. Ef reiknað er með að 3/4 hlutar þeirrar umferðar hafi átt erindi í miðbæ Ísafjarðar en ekki annað, þá væri sú vegalengd sem þeir þyrftu að aka aukalega u.þ.b. 1,2 milljón km á ári. Ef notuð er til viðmiðunar sú tala sem ríkisskattstjóri notar við kostnaðarmat á ekinn km, þá þýðir þetta árlegan viðbótarkostnað bíleigenda, sem nemur 77 milljónum króna.

Til samanburðar má geta þess að fjárhagsáætlun Bolungarvíkurkaupsstaðar gerir ráð fyrir að laun og launatengd gjöld vegna Grunnskóla Bolungarvíkur verði á árinu 2005 krónur 77 milljónir. Ætla má að viðbótarferðatími m.v. að farið sé með göng í Syðridal sé að sama skapi verulegur eða u.þ.b. 20 þúsund klukkustundir (500 vinnuvikur eða 10 mannár) m.v. að aðeins einn einstaklingur sé í hverri bifreið. Þrátt fyrir að þessar tölur séu byggðar á tilfinningu frekar en rannsóknum, þá bendir allt til að kostnaðarmunurinn sé verulegur og augljóslega göngum í gegnum Óshlíð í vil, þar sem Syðridalsleiðin styttir ekki algengustu vegalengdirnar sem farnar eru, heldur lengir.

Niðurstaðan í takt við jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar

Ekki er ólíklegt að mat í þessa veru hafi ráðið mestu um að í jarðgangaáætlun er miðað við að tengja Bolungarvík við Ísafjörð með jarðgöngum “í gegnum Óshlíð” inn í Hnífsdal, enda hægt að ná þar fram mun hagstæðari framkvæmd án þess að það bitni á nokkurn hátt á öryggissjónarmiðum.

Jarðgöng skulu það vera

Það er ljóst að krafan um öruggari samgöngur óháðar veðri er orðin mun háværari, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að þjónustan á svæðinu verður æ meira miðlæg. Þó er það ekki síður mikilvægt að svæðið getur ekki talist eitt atvinnusvæði á meðan íbúar finna sig ekki örugga í ferðum á milli byggðarlaga. Framtíðarsamgöngur á milli byggðarlaganna við Ísafjarðardjúp hljóta því að verða um jarðgöng.

Bolungarvík 15. febrúar 2005,
Elías Jónatansson.


bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli