Frétt

Soffía Vagnsdóttir | 01.02.2005 | 13:51Sameinaðir stöndum vér – eða hvað?

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.
Í allt haust, og raunar töluvert lengur hefur umræðan um sameiningu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum átt hug minn allan. Svo mikið að ég get vart losað hugsunina úr huga mér. Og ég spyr mig stöðugt: Hverjar eru hinar réttu ákvarðanir í þeim efnum? Hvers vegna sameining?

Ég lít yfir farinn veg þar sem fortíðarmyndir birtast í huga mér um blómlega heimabyggð mína Bolungarvík. Minningar um jákvætt og kraftmikið fólk, mikla athafnasemi, næga vinnu fyrir alla og djörfung í þjónustu og verslun. Ekki spillti það fyrir að geta á tyllidögum farið til höfuðstaðar Vestfjarða, Ísafjarðar og eytt þar broti úr degi. Ég man þá tíð á síðustu árum grunnskólans að hafa fengið leyfi foreldra minna til að fara með systur minni sem er árinu eldri í kaupstaðarferð með rútunni til Ísafjarðar og fá að upplifa ævintýrin í bíóferð, verslunarleiðangri og sætum strákum í höfuðstaðnum. Koma svo í dagslok heim færandi hendi með gjafir fyrir foreldra og yngri systkini ásamt nýrri flík og frásögnum af bíóferð, sætum strákum og öðru sem fyrir augu bar þann daginn í kaupstaðnum.

Það hefur aldrei vafist fyrir mér að líta á Ísafjörð, þ.e. byggðina við Skutulsfjörð, sem höfuðstað Vestfjarða. Höfuðstað byggðanna í kring, - sem ekki geta á höfuðstaðarins verið og hann ekki án þeirra. En fyrir hverja verður Ísafjörður höfuðstaður þegar aðeins er orðið eitt sveitarfélag á Vestfjörðum? Verður þá hægt að tala um höfuðstað? Það sem vefst fyrir mér er að finna rökin fyrir því að til þess að Vestfirðir eigi sér einhverja framtíð, þurfi að gera eitt sveitarfélag úr þeim byggðum sem standa við Djúp ásamt þeim byggðum sem standa við Súgandafjörð, Önundarfjörð og Dýrafjörð. Mér hefur ekki enn tekist að kaupa þau rök sem lögð hafa verið fram í umræðunni; - eins og ég hef virkilega reynt.

Stjórnvöld reka nú fyrir því harðan áróður að til þess að Vestfirðir eigi sér yfir höfuð einhverja framtíð verði að setja allt þetta svæði undir eina stjórn, gera öll þessi sveitarfélög að einu svo einhver möguleiki sé til þess að hlustað verði á Vestfirðinga um vilja þeirra til búsetu. Skilyrt fjármagn inn á svæðið, fyrirvarar um allt, trúleysi stjórnvalda á svæðinu, brotin sjálfsmynd heimamanna og andleg lægð vegna endurtekinna áfalla á síðasta áratug hafa orðið þess valdandi að Vestfirðingar geta vart lengur borið hönd yfir höfuð sér. Veikar raddir okkar um að við viljum raunverulega búa á Vestfjörðum en séum ekki að neyða okkur til þess eða séum hér bundin átthagafjötrum, heyrast vart vegna okkar eigin óöryggis um hver við erum og hvað við viljum. Endalaus varnarbarátta, tilvistarkreppa og áföll eru næstum að ríða okkur að fullu.

Það er svo sannarlega rétt að Bolungarvík má muna sinn fífil fegri. Ísafjörður má líka muna sinn fífil fegri. Vestfirðir allir mega muna sinn fífil fegri.

Svo virðist sem ekki sé hægt að taka mark á kröfum okkar þó við séum nokkur sveitarfélög með einhverjum hópi virkra einstaklinga (ennþá) sem reyna að vera talsmenn fyrir sameiginlegar kröfur íbúanna. Ef það er raunverulega þannig að svo við Vestfirðingar fáum GÓÐAN hljóðnema og ÖFLUGT hátalarakerfi sem skilar því sem við erum að reyna að segja við höfuðstöðvarnar fyrir sunnan, að þá verðum við að sameina byggðirnar undir eina stjórn; - þá er það líklega nauðsynlegt að reyna að sjá nýjar lausnir. Ef hátalarakerfið flytur öskrandi kröfur okkar um öruggari samgöngur milli byggðakjarna, öflugan háskóla, stuðning við öflugt menningarlíf, tryggt samskiptanet á sviði fjarskipta-, ljósvaka- og sjónvarpsmiðla svo eitthvað sé nefnt, - já og opinber loforð um að verða við þeim kröfum þá er vert að skoða möguleikann nánar.

Ég legg mig alla fram um að vera eins víðsýn og ég get, hafa trú á yfirvöldum og trú á Vestfirðingar nái að byggja upp sjálfsmynd sína að nýju og standi með sér og heimasvæðinu fram í rauðan dauðann. Forfeður okkar eiga það skilið að við sýnum harðri lífsbaráttu þeirra um betri lífsskilyrði hér tilhlýðilega virðingu og afkomendur okkar sömuleiðis með því að gefa þeim sem það kjósa, val um búsetu hér sem er samburðarhæf við önnur svæði landsins.

Ég ætla því að reyna að teikna upp framtíðarsýn fyrir Norðanverða Vestfirði. Við skulum segja tíu ár fram í tímann:

Hvað skal svo barnið heita – FRÁBÆR! Ég er orðin 56 ára og bý nú í Frábæ á Vestfjörðum. Við fjölskyldan unum hag okkar vel, - búum í því hverfi Frábæjar sem stendur í Bolungarvík. Það hverfi er þekkt fyrir eftirfarandi:

Öfluga útgerð og fullvinnslu sjávarafurða

Fjölbreytta þjónustu á heilbrigðissviði þar sem Hreiðrið, - heilsumenningarhús fyrir þunglynd börn hefur sérstöðu á landsvísu og Þjónustumiðstöð aldraðra, sem sækjast nú eftir því að fá að eyða æviárunum í Bolungarvík vegna einstakrar þjónustu.

Lýðháskóla sem þar hefur verið í fimm ár og getið sér gott orð sem námskostur fyrir ungt fólk í lífsins leit, bæði frá Íslandi, Norðurlöndunum og víðar.

Ósvör, Náttúrugripasafnið og Geimskipið á Bolafjalli

Sjálf vinn ég í miðbæ Frábæjar, - við Skutulsfjörð, þar sem starfrækt eru leikhús og listaskóli. Ég er 10 mínútur að aka til vinnu. Göngin sem breyttu öllu eru aðeins fimm ára gömul. Suma daga skrepp ég heim í hádeginu, sting í þvottavélina, undirbý kvöldmatinn, kíki í mat til systur minnar eða heilsa upp á mömmu í sinni fallegu íbúð í þjónustumiðstöð aldraðra. Ef ég er ekki á bíl tek ég almenningsvagninn, en það er lítið mál þar sem ferðir eru þrisvar á klukkutíma milli hverfa.

Maðurinn minn hefur síðustu árin stundað framhaldsnám á nýjum vettvangi, fyrst í fjarnámi og síðar í Háskóla Vestfjarða eftir að farið var að kenna fag hans í staðnámi þar. Synir okkar þrír sem enn búa heima stunda allir nám í miðbæjarkjarnanum. Tveir þeirra eru komnir í Háskólann, annar lýkur námi í fjöllistadeild næsta vor með áherslu á fjöllistakennslu á grunnskólastigi og hinn er á umhverfissviði. Sá sem stundar nám á umhverfissviði fer eftir áramótin í sex mánuði til Virginíu sem skiptinemi en náið samstarf er milli háskóla Vestfjarða og háskólans í Virginíu. Við erum spennt því í staðinn fáum við einn nemanda frá Virginíuháskóla á heimilið okkar í hálft ár, en hann verður hér ásamt hópi nemenda og prófessor þeirra við að rannsaka norðurljósin. Yngsti sonur okkar stundar nám við menntaskólann. Hann er einnig ásamt vini sínum með netþátt fyrir ungt fólk sem sendur er út vikulega. Dóttir okkar sem er rúmlega þrítug er nú fastráðinn leikari við leikhúsið í bænum en hún lauk námi frá Listaháskóla Íslands fyrir þremur árum og lauk síðan framhaldsnámi í trúðsleik í Bretlandi fyrir rúmu ári. Hún var mjög glöð að fá fastráðningu í leikhúsinu á sínu heimasvæði. Hún keypti sér lítið hús í heimahverfinu sínu Bolungarvík þegar hún var sjómaður um tvítugt og býr nú að því að geta búið þar meðan hún er að greiða niður námið sitt í Bretlandi. Á þeim tíma var íbúðahúsaverð í Bolungarvík í sögulegu lágmarki. Hún er einnig með mjög skemmtilegan sjónvarpsþátt á Frábæjar- sjónvarpsstöðinni ásamt þremur öðrum leikurum sem hefur alveg slegið í gegn. Elsti sonur okkar, 35 ára, giftur og þriggja barna faðir er menntaður lögreglumaður með framhaldsnám frá Hollandi í forvarnar- og sjálfsuppbyggingarmálum ungs fólks. Hann er yfirmaður ungmennasviðs lögreglunnar í Frábæ. Hans svið er einkum að byggja upp gott traust samstarf við unga fólkið á svæðinu enda hefur sá aldurshópur stækkað gríðarlega með tilkomu háskólans og vinnur hann náið með grunn- mennta-, lýð- og háskólum á því sviði. Hann var eðlilega ánægður þegar honum bauðst þessi vinna á æskustöðvunum, enda sjálfur kominn með tvö börn og þekkir það af eigin raun hvernig aðstæður til barnauppeldis eru við þær aðstæður sem bjóðast úti á landi. Lögreglan í Frábæ hefur náð eftirtektarverðum árangri í útrýmingu á vímuefnaneyslu ungs fólks á svæðinu, svo góðum að eftir er tekið á landsvísu og víðar. Hann, ásamt öðrum reyndum lögreglumönnum á svæðinu hafa gefið út forvarnanámsefni og ýmislegt sem aðrir hafa nýtt sér í tengslum við forvarnir og félagsstarf ungs fólks.
Öll börnin eru sátt í sínu, - hafa nóg að sýsla og hvað gleður foreldra meira heldur en hamingjusöm börnin, að ekki sé talað um barnabörnin!

Hverfið okkar hefur tekið stakkaskiptum síðustu árin. Sprenging hefur orðið í menntun fólks á öllum aldri og heimafólk hefur verið duglegt að nýta sér fjarnámsmöguleika í Fjarháskólanum sem einnig er rekinn í Frábæ. Með þjónustu hans sköpuðust enn frekari tækifæri fyrir heimamenn og aðra landsmenn að stunda nám á alþjóðavettvangi og nýjustu upplýsingar segja að fólk á svæðinu stundi nú nám í rúmlega fjörtíu löndum á ótrúlega fjölbreyttu sviði. Þá hefur fjöldi ungs fólks flutt til okkar síðustu árin, - sem betur fer eins og ég minntist á. Störfum á sviði ferðaþjónustu, náttúrurannsókna og fjölmenningarþjónustu alls konar hefur fjölgað verulega svo margir hafa fengið góð störf. Samfélagið hér er alþjóðlegt, öruggt og gott. Við hjónin gerum okkur reglulega glaðan dag og förum út að borða. Í Súðavík, einu úthverfanna er mjög góður veitingastaður sem gaman er að borða á þar er líka Raggagarður, fjölskyldugarður sem frábært er að fara með barnabörnin í. Margir slíkir fjölskyldustaðir eru nú á okkar svæði. Nægir þar að nefna Víkingagarðinn á Þingeyri, Tröllagarðinn í Bolungarvík, kajakævintýrið á Flateyri svo eitthvað sé nefnt.

Sjálf sit ég í bæjarstjórn Frábæjar. Fundina okkar höldum við á laugardagsmorgnum í aðalsalnum í miðbænum, en nefndarfundir eru haldnir á ýmsum tímum og þá sit ég yfirleitt heima hjá mér framan við tölvuna og hitti nefndarfólkið á netinu.

Það er líka gaman hvað gömlu vinirnir okkar í Reykjavík eru duglegir að heimsækja okkur því aðeins eru um þriggja og hálfs tíma akstur frá höfuðborginni hingað vestur. Stranddalavegurinn um Arnkötludal og brýrnar í Djúpinu sáu til þess. Það er líka gleðiefni að maðurinn minn sem er Hollendingur fær nú iðulega tækifæri til að tala móðurmál sitt því evrópskum ferðamönnum á svæðinu hefur fjölgað gríðarlega síðustu árin. Útivistarsvæðin öll hafa mikið aðdráttarafl útlendinga. Jökulfjarðaperlurnar og Strandir, skíðaparadísin í Tungudal í Skutulsfirði, snjósleðabrautirnar og stökkpallarnir í Tungudal í Bolungarvík, kajakaævintýrið á Flateyri, risastjörnukíkirinn og norðurljósaglersalurinn í Heydal (þar sem ferðamenn allsstaðar að úr heiminum dvelja og hringja heim til að lýsa því sem fyrir augu ber, bergnumdir, eða senda myndir beint í gegnum netið) er fátt eitt af því sem mætti nefna í því sambandi.

Ekki er hægt að segja annað en lífið í Frábæ sé farsælt og gott

Mikið er ég fegin að ég flutti ekki burtu þegar erfiðir tímar gengu yfir, heldur lagði mitt á vogarskálarnar til að reyna að hafa áhrif á trú fólks á búsetuna. Göngin í báðar áttir breyttu auðvitað öllu þar um, að ekki sé nú talað um háskólann sem var nú lengi í fæðingu. Hríðirnar sem fylgdu fæðingu hans riðu mæðrum og feðrum hans (sem ólíkt öðrum börnum voru margir) næstum að fullu. Þökk sé samferðarfólki mínu fyrir samvinnunna og að gefast aldrei upp.

Jæja, - kæru lesendur. Þetta er jákvæð og skemmtileg mynd, ekki satt? Höfuðpersónurnar gætu verið hvaða vestfirsk fjölskylda sem væri. Jafnvel hvaða fjölskylda af landinu sem væri. Aðalatriðið er að í þessu litla ævintýri hafa flestir draumar sem fólkið á norðanverðum Vestfjörðum á um þróun svæðisins, ræst. Bættar samgöngur, sjónvarpsstöð, tryggt samband um allt svæðið, háskóli, leikhús, fjölbreytt og næg atvinnutækifæri, unga fólkið komið heim…allt þetta sem við erum alltaf að reyna að biðja um, en fáum ekki áheyrn með.

Sem sagt; ef maður skiptir um föt, fer í nýbróderuð Frábæjarfötin, þó fæddur Bolvíkingur sé, þá er tilvera vestfirskra byggða tryggð. Eða hvað?

Soffía Vagnsdóttir, Bolungarvík.

bb.is | 27.10.16 | 09:37 Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með frétt Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 16:50Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með fréttÞað var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 15:49Mælt með leiðinni um Teigsskóg

Mynd með fréttVegagerðin leggur til að nýr Vestfjarðavegur um Gufudalssveit verði lagður eftir leið sem kölluð er Þ-H. Hún liggur yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um Teigsskóg í Þorskafirði. Í frummatsskýrslu sem send hefur verið Skipulagsstofnun kemur fram að það er ódýrasta leiðin ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 14:53Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er stærstur samkvæmt nýrri MMR-könnun sem gerð var 19. til 26. október. Píratar eru næststærstir og Vinstri græn þriðju stærst. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í nýju könnuninni mælist 21,9% en var 21,4% í síðustu könnun MMR fyrir einum mánuði. Fylgi Pírata er ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 13:24Sýnir alltaf á kjördag

Mynd með fréttLaugardaginn 29. október 2016, sama dag og kosið verður til alþingis, opnar Kristján Guðmundsson sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Kristján opnaði fyrst sýningu á kosningadegi árið 1987 og síðan þá hefur skapast ákveðin hefð fyrir því að listamaðurinn komi ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 11:4321 ár frá snjóflóðinu á Flateyri

Mynd með frétt26.október líður mörgum landsmönnum seint úr minni og þá sérstaklega þeirra sem bjuggu á Flateyri þennan dag fyrir tuttugu og einu ári síðan, er gríðarstórt snjóflóð féll úr Skollahvilft yfir hluta byggðarinnar og hreif með sér tuttugu mannslíf. Flóðið féll rétt ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 10:57Vel heppnaður kvennafrídagur í Bolungarvík

Mynd með fréttKonur í Bolungarvík sýndu mikla samstöðu og baráttuanda er þær komu saman í Félagsheimilinu í Bolungarvík á kvennafrídaginn, en á bilinu 60-70 konur voru á staðnum þegar að mest var. Kveikjan að viðburðinum var tölvupóstur frá sveitarfélaginu sem barst foreldrum leikskólabarna ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:37Ertu undirbúin fyrir þriggja daga rof á innviðum?

Mynd með fréttNemendur í grunnskólum á Vestfjörðum voru áhugasamir að ræða við sjálfboðaliða Rauða krossins um mikilvægi þess að vera undirbúinn með heimilisáætlun og viðlagakassa ef neyðarástand skapast. Nokkrir sögðu að líf og starf væri afar undarlegt án netsambands í lengri tíma, þó ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:01Gísli á Uppsölum sýndur á Ströndum

Mynd með fréttKómedíuleikhúsið heimsækir Strandir á morgun, fimmtudagskvöldið 27. október, og sýnir leikritið Gísli á Uppsölum í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Sýningin hefst kl. 20. Gísli á Uppsölum er 40. leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið. Meðal annarra verka leikhússins má nefna verðlaunaleikinn Gísla ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli