Frétt

Strand Egils rauða við Grænuhlíð árið 1955 - Frásögn Gísla Jónssonar | 29.12.2004 | 15:50Bíóferðin varð að tveggja sólarhringa björgunarferð

Gísli Jónsson.
Gísli Jónsson.
Gísli tekur við afreksverðlaunum Sjómannadagsins 1955.
Gísli tekur við afreksverðlaunum Sjómannadagsins 1955.
Kort af svæðinu.
Kort af svæðinu.
Gísli tekur við afreksverðlaunum Sjómannadagsins 1955.
Gísli tekur við afreksverðlaunum Sjómannadagsins 1955.
Kort af svæðinu.
Kort af svæðinu.
Gísla Jónsson þekkja margir Ísfirðingar. Hann var alinn upp á Sléttu, sem er hluti sögusviðs björgunarafreksins undir Grænuhlíð fyrir hálfri öld. Þar sem hann var kunnugur þessum slóðum var hann kallaður til starfa með björgunarsveitinni sem hélt frá Ísafirði. Hann var leiðsögumaður í mikilli hættuför í vonskuveðri. Hann leiddi björgunarmenn gegnum sortann og vissi greinilega ávallt hvar hann var staddur. Fæstir hinna höfðu hugmynd um það. Gísli er af þeirri kynslóð sem kennt var að bera ekki tilfinningar sínar á torg. Sem óharðnaður unglingur lenti hann í þessari miklu þrekraun sem hér segir frá. Ekki er að efa að sú reynsla hefur mótað hann að nokkru án þess að hægt sé að átta sig á því með hvaða hætti það hefur verið. Hann hlýddi kallinu þar sem hann stóð á bryggjunni á Ísafirði. Kláraði verkefnið sem honum var falið og ekki orð um það meir.

Hann var tregur til þess að ræða þennan atburð. Taldi engu við það að bæta sem áður hefði komið fram. Eftir frekara spjall féllst hann samt á að rifja upp þessa tvo sólarhringa fyrir fimmtíu árum. Það var þó gert með því skilyrði að rætt yrði við Austfirðinga sem hlut áttu að máli svo sagan yrði sögð frá fleiri en einni hlið. Þegar Austfirðingarnir fundust var honum ekkert að vanbúnaði.

Ég var á leiðinni í bíó í Ísafjarðarbíói. Þar sem ég var tímanlega á ferðinni labbaði ég niður á bryggju og þar voru þá björgunarsveitarmenn að fara um borð í Heiðrúnu ÍS frá Bolungarvík. Guðmundur Guðmundsson formaður björgunarsveitarinnar kallaði í mig og bað mig að koma með. Ég hljóp því um borð í Ásbjörn ÍS og sótti galla og föt. Ég stökk síðan um borð í Heiðrúnu. Það var lagt úr höfn um níuleytið um kvöldið og ferðin norður gekk mjög vel. Héðan fórum við að mig minnir þrettán að tölu en það fóru reyndar ekki allir í land á Hesteyri.

Þegar norður undir er komið var reynt að finna strandstaðinn en okkur tókst það ekki. Þegar við síðan komum á Hesteyri var ráðstefna um borð í varðskipinu hvað gera skyldi og það fannst mér taka langan tíma. Ég var orðinn nokkuð leiður á biðinni og var lagstur fram undir hvalbak enda tók ég ekki þátt í skipulagningu ferðarinnar.

Gengið á Sléttu

Á endanum var ákveðið að fara í land og ganga strax á Sléttu. Það var mikill búnaður sem fylgdi björgunarsveitinni sem vonlegt var. Búnaðinum var skipt á milli manna í skólanum á Hesteyri áður en lagt var af stað. Leiðin var frekar greiðfær þangað til komið var út undir Sléttubjargið. Þá var farið að flæða að og það gerði ferðina erfiðari þar sem við urðum að fara ofar í hlíðina. Þegar við komum síðan út undir hálsana við Sléttu þurftum við að fara hærra því þar er ekki hægt að labba fyrir. Þar er líka best að fara nógu hátt til þess að sleppa við skálarnar í hlíðinni. Það var betra að fara hátt upp þrátt fyrir að ofar væri meiri snjór og ófærð.

Sá sem fremstur fór bar ekkert og við skiptumst á að vera fremstir. Ég var nú látinn bera minna en aðrir því að oftast leiddi ég. Í björgunarbúnaðinum voru hankir sem voru mjög þungar og þyngdust enn frekar þegar leið á ferðina þar sem snjórinn settist í þær.

Sú leið sem við fórum er farin á einum til einum og hálfum tíma að sumri. Við vorum hins vegar að mig minnir fimm tíma að ganga hana. Þegar við komum á Sléttu sýndi ég mönnum húsakostinn og eldiviðinn. Það var nægur eldiviður í húsunum því þarna var mikill og glerharður mór. Það var tekin sú ákvörðun að kveikja upp og skildir eftir menn til þess að halda húsinu heitu. Það var mjög góð ákvörðun og hún skipti sköpum síðar. Það hefði ekki verið gott að koma með mannskapinn illa haldinn í köld húsin. Helgi Hallvarðsson varðskipsmaður fór út á nes og reyndi að ná sambandi við varðskipið í gegnum labb-rabb-stöð sem hann var með en það tókst ekki.

Togarans leitað

Síðan var fljótlega haldið af stað til þess að finna togarann. Við vorum í nokkuð góðu skjóli á þeirri leið en veðrið var slæmt engu að síður og skyggni alltaf slæmt. Þegar við komum út í Engjarnar á þann stað þar sem slysavarnaskýlið er núna var ákveðið að skipta liði. Það var ekki komin fjara og því fannst mönnum óþarfi að vera að burðast með allan búnaðinn. Það kom dálítið vonleysi í hópinn þegar það kom í ljós að ekki var hægt að fara fjöruna. Við fórum því fjórir á undan til þess að reyna að finna skipið. Það var mjög erfið ferð því þarna í hlíðinni var mikið harðfenni. Þegar út eftir var komið urðum við að láta okkur renna niður hlíðina niður í fjöruna. Við lékum okkur oft þarna í hlíðinni þegar við vorum krakkar en við ólíkt betri aðstæður.

Við fundum skipið á stað sem heitir Hafnir. Þar eru svokallaðar innri og ytri Hafnir. Egill rauði var í innri Höfninni. Hefði hann lent í ytri Höfninni hefði verið mikið erfiðara að komast að skipinu því þar var mikill klaki. Skyggnið var ekki meira en svo í þessari ferð, að þegar slotaði stundum, þá sáum við rétt grilla í ljós skipanna sem lónuðu fyrir utan. Notuðu þau þó alla sína ljóskastara til þess að lýsa í land.

Björgunin

Þegar við komum á staðinn vissum við ekki að búið var að bjarga hluta áhafnarinnar. Það var í rauninni mikið lán að við skyldum ekki hafa vitað það. Ég er viss um það að hefði Helgi Hallvarðsson náð sambandi úr talstöðinni þegar við vorum á Engjunum og fengið þær fréttir að björgun væri hafin af sjó, þá hefði okkur örugglega verið snúið við. Þá hefðu þessir menn sem eftir urðu trúlega ekki bjargast á lífi. Þessu gerir maður sér grein fyrir þegar maður fer yfir hlutina eftir á. Menn hefðu aldrei lagt það á mannskapinn að fara þessa hættulegu ferð ef við hefðum vitað að björgun á sjó væri hafin.

Þegar við finnum skipið erum við orðnir mjög þreyttir en að sjá mennina veifa af brúarvængnum fyllti mann þvílíkum krafti að erfitt er að lýsa því. Maður fyllist einhverri orku sem maður telur sig ekki eiga til. Það er mjög skrítin lífsreynsla. Við förum því til baka, Steinn Jónsson og ég, og til þess að flýta ferðinni fórum við úr stígvélunum því öðruvísi hefðum við ekki komist upp hlíðina. Hún var svo brött og sleip. Við vorum fljótir til baka enda fullir orku eftir að hafa séð mennina á lífi. Þegar við komum á Engjarnar voru hinir mennirnir farnir. Þeir voru þar á bersvæði og höfðu fært sig heim á sand til þess að komast í skjól, að ég tel. Fyrst varð maður reiður þegar maður sá að þeir voru farnir og þá bætti maður í ferðina til þess að ná þeim fyrr. Seinna fannst mér skýrast af hverju þeir færðu sig.

Þegar búnaðurinn var kominn á strandstaðinn skaut Hrefnu-Gestur úr línubyssunni og hitti brúna í öðru skoti. Björgun hófst strax. Við Steinn vorum til skiptis í fjörunni að taka á móti mönnum þegar þeir komu í land í stólnum. Það þurfti að hjálpa þeim á fætur og leiða þá upp fjöruna. Þeir voru mjög misjafnlega klæddir. Sumir voru einungis í nærbuxum.

Þeir voru að vonum mjög glaðir þegar þeir höfðu fast land undir fótum. Vistin um borð hlýtur að hafa verið hræðileg því skipið lét mjög illa. Það kastaðist til í fjörunni allan tímann. Mennirnir voru auðvitað mjög þreyttir en allir náðu þeir samt að ganga á eigin fótum. Þeir fóru mjög misjafnlega mikið í kaf þegar þeir voru dregnir í land. Sumir fóru alveg á bólakaf en aðrir aðeins upp að mitti. Mönnum hlýtur að hafa verið mjög kalt en nefndu það ekki, einfaldlega vegna þess að þeir hafa eflaust gleymt því í fögnuðinum yfir að hafa verið bjargað í land.

Fjaran gerði gæfumuninn

Gæfan var líka með okkur öllum að við skyldum ná þeim í land svo skömmu fyrir fjöru. Við gátum því labbað fyrir Standinn á fjöru. Það gekk því mjög greiðlega að komast heim á Sléttu. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig farið hefði ef flóð hefði verið á þessari stundu. Mér er næst að halda að mennirnir hefðu þá verið betur komnir um borð í skipinu. Ég óttast að við hefðum ekki komist allir á lífi til baka ef við hefðum þurft að fara upp hlíðina.

Síðustu metrana heim að Sléttu var ég orðinn ægilega þreyttur. Ég var farinn að reika í spori. Það sem bjargaði mér var að rétt áður en komum að togaranum í fjörunni fann ég dós af Auðhumlu-mjólk sem hafði rekið. Ég gat gert á hana gat og drukkið úr henni. Sá sopi bjargaði miklu fyrir mig. Hún var kjarngóð dósamjólkin. Þetta var einkennileg en skemmtileg tilviljun því enginn matur var með í ferðinni og ég hafði lítið borðað um borð í Heiðrúnu áður en lagt var í hann.

Þegar við komum á Sléttu var farið að rökkva. Þá var enginn matur til þannig að það eina sem menn fengu var heitt vatn. Úlfur Gunnarsson læknir var með í ferðinni og hann hugaði auðvitað að mönnum. Úlfur fylgdi okkur reyndar alla leið á strandstað. Ég lagðist til svefns í rúmi Sölva heitins og steinsofnaði. Um kvöldið vaknaði ég við það að mér var rétt kóteletta. Ég vissi ekkert í minn haus og því síður hvaðan hún kom.

Í millitíðinni hafði skíðasveitin komið með vistir og þetta var dásamleg máltíð sem við fengum þarna um kvöldið. Það fengu allir nægan mat en það var lítið af mataráhöldum enda var ekki gert ráð fyrir mörgum tugum manna í mat á Sléttu. Þegar þetta gerist hafði Slétta verið í eyði í átta ár en við höfðum farið þarna í heyskap á sumrum. Rúm voru í húsinu og einhverjar dýnur. Þær voru allar með hálmi sem þætti ekki gott í dag. Mönnum fundust þetta hins vegar góðar vistarverur þessa nótt.

Einhverjum datt í hug að ganga til Hesteyrar en ég aftók það með öllu. Það hefðu menn aldrei getað, slík var þreytan. Það var ekkert vit í því fyrst menn voru komnir í heit hús og vistir komnar. Mun vitlegra var að bíða betra veðurs.

Þrátt fyrir hina erfiðu lífsreynslu áhafnarinnar fannst mér mikil ró yfir mönnunum. Það var mesta furða því þetta var auðvitað hrikaleg upplifun og ekki óeðlilegt að menn ærist við svona aðstæður.

Enginn ættingja vissi af ferðum Gísla

Það gekk vel að ferja mannskapinn um borð í varðskipið daginn eftir og ferðin á Ísafjörð gekk vel. Þangað vorum við komnir síðdegis. Það var nú svo skrítið, að enginn af mínu fólki vissi um mína ferð fyrr en að henni lokinni. Kannski sem betur fer. Það var nefnilega svo, að við bjuggum á þessum tíma inni á Strýtu og stundum gisti ég hjá Huldu systur minni í Sólgötunni. Þá voru ekki símar í hverju húsi og því héldu foreldrar mínir að ég væri hjá Huldu og Hulda hélt að ég væri innfrá. Þetta var því löng og óvenjuleg bíóferð hjá mér. Bíómiðann átti ég í mörg ár eftir þetta en hann glataðist því miður síðar.

Á þessum tíma var aldrei hugsað um líðan manna eftir svona lífsreynslu. Sumir sem fóru þessa ferð jöfnuðu sig aldrei líkamlega og báru þess merki ævilangt. Ég var mjög slæmur í baki lengi á eftir.

Í þessari ferð vorum við þrír af sama bátnum. Ég var í skiprúmi hjá Ásgeiri Guðbjartssyni og einnig var Hörður bróðir hans með í þessari ferð. Eins og ég sagði komum við síðdegis til Ísafjarðar og um kvöldið fórum við í róður. Ég stóð baujuna en þegar hálfnað er að draga var komið að mér að fara inn og fá mér hressingu. Þegar ég settist við borðið var ég gjörsamlega búinn. Það var eins og yrði spennufall hjá mér. Þá var maður búinn að vera í ofurspennu frá því að skipið fannst og ég gerði mér í raun enga grein fyrir því hvað ég var orðinn þreyttur andlega og líkamlega. Á þessum tíma hugsuðu menn sjaldnast um líkamlega heilsu og aldrei um andlega heilsu.

Auðvitað er misjafnt hvernig menn upplifa svona hluti. Ég var auðvitað bara óharðnaður unglingur og tók þetta fyrir vikið ekki eins inn á mig.

Að loknum björgunarstörfum

Á seinni árum er meira farið að huga að þessum hliðum björgunarstarfs. Nú er passað betur upp á menn. Það sást best í snjóflóðunum miklu fyrir nokkrum árum. Þar var passað að skipta mönnum út eftir ákveðinn tíma. Það verður auðvitað að gæta þess að menn keyri sig ekki út, ef það er hægt. Nú fá menn einnig andlega aðstoð ef menn telja þörf á því. Ég er nú reyndar viss um að á þessum tíma hefði ég ekki talið mig þurfa neina aðstoð eftir þessa reynslu. Í dag, þegar maður er lífsreyndari, þá hefði maður þegið hana. Ég var auðvitað ekki að missa neitt í þessu slysi en þetta er samt sem áður mikil reynsla, bæði andlega og líkamlega.

Í gegnum tíðina hef ég ekki mikið hugsað um þessa atburði. Þeir hafa ekki hvílt á mér. Ég hef síðan ekki mikið rætt þessa ferð við menn að fyrra bragði. Hins vegar vissi fólk auðvitað um þessa björgun og hún var í umræðunni hér um tíma á eftir. Á sjómannadaginn um sumarið fékk slysavarnasveitin á Ísafirði nýjan búnað þar sem sá fyrri var skilinn eftir á slysstað. Þessi nýi búnaður var úr næloni sem var auðvitað mikil framför. Búnaðurinn var vígður á sjómannadaginn með því að ég var dreginn í honum af Olíumúlanum og yfir á bátahöfnina. Ég var síðan valinn til þess að taka við heiðursverðlaunum fyrir þessa björgun. Í raun var auðvitað verið að verðlauna alla þá sem tóku þátt í þessari björgun, bæði á sjó og í landi. Ég var trúlega valinn vegna þess að ég var yngstur í ferðinni. Ég tók því við þessum verðlaunum í nafni allra þeirra sem voru svo gæfusamir að taka þátt í að bjarga þessum mönnum.

Ég hef í gegnum tíðina fengið kveðjur frá ýmsum þessara manna en engan hitt. Ég hef rætt við Stein Jónsson í síma og einu sinni á leið minni fyrir austan reyndi ég að hitta á Stein en þá var hann í hestaferð. Mig hefur oft langað að hitta þessa menn en tíminn flýgur áfram og af því hefur ekki orðið. Þeir eru nú margir horfnir á braut, en hver veit hvað maður á eftir að gera í framtíðinni.

bb.is | 27.10.16 | 09:37 Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með frétt Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 07:32Hinir ríku verða miklu ríkari

Mynd með fréttHrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 16:50Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með fréttÞað var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 15:49Mælt með leiðinni um Teigsskóg

Mynd með fréttVegagerðin leggur til að nýr Vestfjarðavegur um Gufudalssveit verði lagður eftir leið sem kölluð er Þ-H. Hún liggur yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um Teigsskóg í Þorskafirði. Í frummatsskýrslu sem send hefur verið Skipulagsstofnun kemur fram að það er ódýrasta leiðin ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 14:53Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er stærstur samkvæmt nýrri MMR-könnun sem gerð var 19. til 26. október. Píratar eru næststærstir og Vinstri græn þriðju stærst. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í nýju könnuninni mælist 21,9% en var 21,4% í síðustu könnun MMR fyrir einum mánuði. Fylgi Pírata er ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 13:24Sýnir alltaf á kjördag

Mynd með fréttLaugardaginn 29. október 2016, sama dag og kosið verður til alþingis, opnar Kristján Guðmundsson sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Kristján opnaði fyrst sýningu á kosningadegi árið 1987 og síðan þá hefur skapast ákveðin hefð fyrir því að listamaðurinn komi ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 11:4321 ár frá snjóflóðinu á Flateyri

Mynd með frétt26.október líður mörgum landsmönnum seint úr minni og þá sérstaklega þeirra sem bjuggu á Flateyri þennan dag fyrir tuttugu og einu ári síðan, er gríðarstórt snjóflóð féll úr Skollahvilft yfir hluta byggðarinnar og hreif með sér tuttugu mannslíf. Flóðið féll rétt ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 10:57Vel heppnaður kvennafrídagur í Bolungarvík

Mynd með fréttKonur í Bolungarvík sýndu mikla samstöðu og baráttuanda er þær komu saman í Félagsheimilinu í Bolungarvík á kvennafrídaginn, en á bilinu 60-70 konur voru á staðnum þegar að mest var. Kveikjan að viðburðinum var tölvupóstur frá sveitarfélaginu sem barst foreldrum leikskólabarna ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:37Ertu undirbúin fyrir þriggja daga rof á innviðum?

Mynd með fréttNemendur í grunnskólum á Vestfjörðum voru áhugasamir að ræða við sjálfboðaliða Rauða krossins um mikilvægi þess að vera undirbúinn með heimilisáætlun og viðlagakassa ef neyðarástand skapast. Nokkrir sögðu að líf og starf væri afar undarlegt án netsambands í lengri tíma, þó ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli