Frétt

Strand Egils rauða við Grænuhlíð árið 1955 – Frásögn Guðmunar Arasonar | 29.12.2004 | 15:42Man ennþá eftir ilminum af kaffinu á Sléttu

Guðmundur Arason, bátsmaður á togaranum Agli rauða.
Guðmundur Arason, bátsmaður á togaranum Agli rauða.
Axel Óskarsson var loftskeytamaður á Agli rauða. Hann var einnig loftskeytamaður á Goðanesi þegar það fórst.
Axel Óskarsson var loftskeytamaður á Agli rauða. Hann var einnig loftskeytamaður á Goðanesi þegar það fórst.
Egill rauði á strandstað.
Egill rauði á strandstað.
Fréttin um trúlofun Auðar Ingólfsdóttur og Guðmundar Arasonar birtist í Morgunblaðinu sama dag og fréttin á forsíðu um að Egill rauði væri strandaður við Grænuhlíð og óvíst væri með björgun áhafnarinnar.
Fréttin um trúlofun Auðar Ingólfsdóttur og Guðmundar Arasonar birtist í Morgunblaðinu sama dag og fréttin á forsíðu um að Egill rauði væri strandaður við Grænuhlíð og óvíst væri með björgun áhafnarinnar.
Axel Óskarsson var loftskeytamaður á Agli rauða. Hann var einnig loftskeytamaður á Goðanesi þegar það fórst.
Axel Óskarsson var loftskeytamaður á Agli rauða. Hann var einnig loftskeytamaður á Goðanesi þegar það fórst.
Egill rauði á strandstað.
Egill rauði á strandstað.
Fréttin um trúlofun Auðar Ingólfsdóttur og Guðmundar Arasonar birtist í Morgunblaðinu sama dag og fréttin á forsíðu um að Egill rauði væri strandaður við Grænuhlíð og óvíst væri með björgun áhafnarinnar.
Fréttin um trúlofun Auðar Ingólfsdóttur og Guðmundar Arasonar birtist í Morgunblaðinu sama dag og fréttin á forsíðu um að Egill rauði væri strandaður við Grænuhlíð og óvíst væri með björgun áhafnarinnar.
Á togaranum Agli rauða voru 34 skipverjar, þar af 15 Íslendingar. Tveir Íslendinganna eru enn á lífi, þeir Axel Óskarsson loftskeytamaður og Guðmundur Arason bátsmaður. Haft var tal af þeim báðum vegna þessarar samantektar. Axel er búsettur á Norðfirði en Guðmundur í Hveragerði. Báðir stunduðu þeir sjóinn áfram eftir strand Egils rauða. Axel var síðar loftskeytamaður á Goðanesi frá Norðfirði sem strandaði og fórst við Færeyjar tveimur árum síðar. Í báðum tilfellum, strandi Egils rauða og Goðanessins, þótti hann sýna mikinn kjark og stillingu. Hann bjargaði lífi sínu þegar hann synti frá sökkvandi Goðanesinu eftir að flestum öðrum skipverjum hafði verið bjargað.

Einn skipverja fórst af Goðanesi. Það var Pétur Hafsteinn Sigurðsson skipstjóri. Hann vann mikið afrek við björgun skipverja af Goðanesinu en hugsaði ekki um sinn hag. Pétur Hafsteinn var 2. stýrimaður á Agli rauða þegar hann strandaði og var í þeim hluta áhafnarinnar sem bjargaðist af sjó. Það var hann sem hélt á neyðarflugeldinum um borð í Agli þegar prikin voru ekki nálæg og brenndist við það nokkuð. Pétur Hafsteinn og Axel voru einu mennirnir sem voru á báðum skipunum þegar þau strönduðu.

Axel er mjög hógvær maður og segist hafa litið á þessa lífsreynslu sína sem hvert annað óhapp í lífinu sem ekkert væri hægt að gera við. Eftir samtöl við hann og Guðmund Arason var komist að þeirri niðurstöðu að Guðmundur segði sögu skipverjanna á Agli rauða. Eins og áður sagði býr Guðmundur nú í Hveragerði. Hann hefur haldið nokkru sambandi við þá sem voru með honum í þessum örlagaríka túr, þar á meðal suma þeirra skipverja sem voru frá Færeyjum.

Vegna veðurs höfðum við leitað vars undir Grænuhlíð og höfðum verið þar um tíma. Þennan örlagaríka dag höfðum við kíkt út úr Djúpinu en snúið við vegna veðurs og fórum því aftur í var. Skipið lagðist ekki við akkeri. Við vorum því að lóna fram og til baka. Þessa daga sem við lágum í vari vorum við að vinna við veiðarfæri á dekkinu. Við fórum yfir öll veiðarfæri um borð þessa daga og fórum yfir ýmsan annan búnað á dekkinu, þar á meðal björgunarbátana.

Þegar öllu þessu var lokið og ennþá var bræla settum við á siglingavaktir. Þær voru þrjár. Stýrimennirnir voru fyrir tveimur vaktanna og síðan var fundinn vaktformaður fyrir þriðju vaktina. Það var Berg Nielsen frá Færeyjum, sem var með full skipstjórnarréttindi. Ég var hins vegar á letivakt og þurfti ekkert að gera því að búið var að gera við allt sem þurfti.

Skipið tekur niðri

Ég var niðri í borðsal og var ásamt öðrum að borða kvöldmatinn. Áður en við höfðum lokið honum af kemur þessi rosalegi hnykkur á skipið. Margir héldu fyrst að það hefði orðið ketilsprenging í skipinu. En þegar þetta gerðist aftur og aftur varð okkur ljóst að skipið barðist í fjörugrjótinu. Ísleifur skipstjóri fór strax upp og í kjölfarið myndaðist þvaga við dyrnar því allir vildu fara út. Marteinn Hjelm, sem var annar matsveinn, tók að sér að stjórna umferð í gegnum dyrnar og gerði það vel.

Fyrr en varði var ég kominn út á þilfar stjórnborðsmegin. Þá voru ennþá ljós á skipinu. Sumir fóru fram í skipið og náðu sér í björgunarvesti en aðrir kíktu í lestarnar eins og gengur. Einnig fóru nokkrir menn að gera björgunarbátana á báðum síðum klára. Skipið lét mjög illa á þessum mínútum og allt var í raun stjórnlaust um borð. Menn gengu til þeirra starfa sem þeir héldu að þyrfti að framkvæma. Björgunarbáturinn á stjórnborðshliðinni slitnaði niður að framan og brotnaði í spón. Bakborðsbáturinn var einnig losaður en ekkert meira gert við hann þar sem bakborðshlið skipsins sneri upp í fjöruna.

Ég fór upp á bátadekkið ásamt nokkrum Færeyingum. Fyrir aftan bátana voru stórar körfur. Við fórum upp í bakborðskörfuna því við töldum betra að vera þeim megin sem sneri að landi.

Á milli ólaga lagðist skipið á stjórnborðhliðina. Á þessari stundu slokknuðu öll ljósin um borð. Þá stingur einn okkar upp á því að fara úr klofstígvélunum. Þetta höfðum við lesið um að borgaði sig að gera í sjávarháska og því fórum við allir úr stígvélunum. Rétt við hliðina á skipinu sáum við risastóra klöpp sem braut óskaplega á. Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig í ósköpunum við færum að því að sleppa lifandi úr þessum ósköpum. Ég gleymdi mér um stund í þessum hugsunum og skyndilega sá ég að ég var einn orðinn eftir í körfunni. Ég ákvað því að fikra mig fram eftir skipinu og fram að vantinum. Á meðan lét skipið óskaplega því brotin dundu hvert af öðru yfir mig og ég varð að halda mér með höndum og fótum.

Að halda ekki kjafti

Krafturinn var óskaplegur og þarna lenti ég í því að geta ekki haldið kjafti, í orðsins fyllstu merkingu. Sjórinn var svo sterkur að hann spennti allt upp og munninn þar á meðal. Ég held ég hafi talið í það minnsta þrettán brot sem yfir okkur dundu. Þegar hægði aðeins færði ég mig framar og sá þá að skipverjarnir voru búnir að raða sér í röð alla leið að brúarvængnum. Þá var Vilmundur bræðslumaður að kalla veikum mætti á menn að fara inn í brúna því annars myndu allir deyja.

Mér tókst að klifra upp loftventla og stangir þeim tengdar og þaðan upp á brúarþak. Þar sem brúarvængurinn endaði lét ég mig falla niður. Þar sá ég skipstjórann í dyrunum. Ég spurði hvort mannskapurinn mætti ekki fara inn í brúna. Hann játaði því og ég kallaði því til manna að koma inn. Ég fékk ekkert svar en fór sjálfur inn í brúna.

Allir gluggar á stjórnborða voru brotnir og sjórinn gekk þar inn. Mér tókst að komast inn í loftskeytaklefann en þar gekk sjórinn líka inn. Ég klifraði upp á borðið sem þar var, eða réttara sagt upp á hlið þess því skipið hallaði mjög mikið. Axel loftskeytmaður var þarna inni með sjóinn í klof og hélt á loftskeytatækjunum til þess að reyna að halda sambandi við skipin í kring. Þegar ég var kominn inn leið mér mun betur. Í unggæðingshætti mínum spurði ég Axel hvort nú væri komið okkar síðasta. Hann svaraði mér ekki.

Ég sá að mannskapurinn var farinn að tínast inn í brúna og inn í kortaklefann þannig að ég færði mig þangað. Það var eins og í síldartunnu. Þarna höfðust menn við og einnig í stiganum niður í skipstjóraklefann. Við höfðumst þarna við í miklum þrengslum allan tímann sem við vorum í skipinu. Við reyndum að berja okkur til hita. Það hjálpaði okkur mikið að olíutankarnir höfðu brostið um leið og skipið brotnaði og olían lak öll út. Hún lagðist yfir allt og hlífði okkur í raun fyrir kuldanum. Um það er ég sannfærður. Þessi vera okkar þarna var frekar tilbreytingarsnauð og ömurleg, svo ekki sé meira sagt.

Fjórir skipverjar fórust við strandið

Enginn veit með vissu hvenær fjórir Íslendinganna um borð fórust en við teljum að þá hafi tekið út strax í upphafi. Þá þegar náðu nokkrir skipverja sér í björgunarvesti en þau gerðu lítið gagn á þessum tíma. Að vera með þessu stóru vesti hjálpaði ekki mikið þegar sjórinn gekk yfir, því þau tóku mikið í. Síðan þegar við vorum allir komnir í kortaklefann tóku þau óneitanlega mikið pláss. Einhverjir fóru því úr þeim til þess að skapa meira pláss.

Þegar við strönduðum var að byrja aðfall. Um klukkan tíu um kvöldið var háflóð en ég vissi nú ekki alveg hvað tímanum leið þar sem ég var ekki með úr á mér. Það varð eftir í klefanum. Á meðan flæði var urðum við að skiptast á að vera í ganginum en þar var mikið kul og bleyta. Skipið hallaði meira og meira við lætin og á tímabili vorum við hræddir um að því myndi hvolfa. Allt í einu hætti skipið að halla meira. Við töldum að það hefði lagst inn að katlinum og að hann hefði stoppað frekari halla. Sé það rétt hefur hann bjargað lífi okkar.

Ljós sjást frá öðrum skipum

Um kvöldið urðum við varir við að önnur skip höfðu fundið okkur því við sáum að farið var að lýsa upp strandstaðinn. Skipverjar annarra skipa fóru að reyna björgun af sjó og það var í fyrsta skiptið í strandinu sem ég varð verulega hræddur. Ástæðan var sú að menn reru á björgunarbátum upp undir brimskaflinn og við höfðum miklar áhyggjur af því að brimið tæki þá og bæri þá upp að okkur. Við vissum að við vorum algerlega ófærir um að bjarga þeim á nokkurn hátt.

Á fjörunni um nóttina hætti skipið að djöflast og við sáum að það var ekki langt í land. Því datt mönnum í hug að losa veiðarfærin og reyna og síga á þeim niður í fjöruna og klifra í land. Þetta var töluvert rætt um borð og menn hófust handa. En sem betur fer hættu menn við. Við vitum svo sem ekki hvort þetta hefði tekist. Mönnum hefði hins vegar verið bráður bani búinn í landi. Þar var ekkert skjól og menn hefðu því orðið úti. Af tvennu illu var skárra að hírast um borð.

Flugeldum skotið upp – úr höndunum

Sem dæmi um það hversu mikið menn leggja á sig í sjávarháska má nefna, að þarna um kvöldið skutum við upp neyðarflugeldum. Flugeldarnir og prikin voru af einhverjum ástæðum ekki á sama stað. Því brugðu menn á það ráð að halda á flugeldunum þegar þeim var skotið upp. Þeir voru þrír sem tóku þetta að sér og brenndust auðvitað töluvert á höndum.

Skipin hófu þegar kom fram á morguninn að skjóta til okkar línu. Það gekk illa að hitta skipið, sem von var, því allt var á fleygiferð. Að lokum tókst að koma línu um borð og hún var fest í radarinn. Okkur tókst ekki að koma upp öllum nauðsynlegum búnaði þannig að flutningur mannanna á þennan hátt var mjög erfiður.

Drátturinn byrjaði um klukkan tíu um morguninn. Stóllinn var dreginn til baka á spili um borð í Andvara. Vegna þess hve illa okkur tókst að festa stólinn, þá snerist hann við á leiðinni og mennirnir fóru því allir í sjóinn og urðu nánast að hanga í stólnum til þess að bjarga lífi sínu. Einn færeyskur skipverji fórst þarna. Hann hefur trúlega verið þrotinn að kröfum og hefur ekki getað haldið sér alla leið blessaður.

Þessa leið komust þrettán lifandi en þá var allt orðið fast og um leið bilaði spilið um borð í Andvara. Því varð að hætta björgun af sjó. Það sýnir best hvað þetta var erfið og seinleg leið að það tók um fimm tíma að bjarga þessum þrettán mönnum á þennan hátt. Samt var sú aðferð notuð að vera með björgunarbáta klára og menn voru teknir úr stólnum um leið og þeir komu í gegnum brimskaflinn. Því fóru menn eins stutta leið í stólnum og hægt var.

Menn sjást í landi

Á sama tíma og hætta varð aðgerðum af sjó sáum við að menn voru komnir til björgunar í landi. Það var dásamleg sjón. Þar var vel staðið að hlutunum og stutt að draga. Þeir voru eldfljótir að hífa menn frá borði. Ég fór þriðji síðastur. Færeyingur kom á eftir mér og síðastur kom skipstjórinn. Þegar ég kom í land hljóp ég beint upp klöppina og rauk í Axel loftskeytamann og byrjaði að slást við hann. Það gerði ég til þess að ná í mig hita og Axel tók vel á móti. Þar sem ég var með þennan unggæðingshátt var ég sá eini sem ekki fékk koníakssjúss eins og allir hinir. Um leið og síðasti maður kom í land gat Helgi Hallvarðsson kallað til varðskipsins og sagt að allir væru komnir í land. Það kom síðan í fréttum útvarpsins kl. 16.

Þegar ég kom í land var hluti áhafnarinnar lagður af stað áleiðis að Sléttu. Það var ekki eftir neinu bíða og því lögðu menn strax af stað. Við vorum svo heppnir að það var fjara. Þegar við vorum lagðir af stað gerði ég mér fyrst grein fyrir því hversu mikið afrek þeir höfðu unnið sem komu landleiðina. Þeir voru mun verr á sig komnir heldur en við sem verið var að bjarga. Þeir höfðu lagt svo mikið á sig að þeir voru að niðurlotum komnir. Þeir höfðu lagt allt sitt þrek í að bjarga okkur og trúlega meira til.

Ég labbaði þessa leið léttur á fæti á sokkunum og fann ekki mikið fyrir því. Þegar ég hins vegar sá húsið á Sléttu tók ég að greikka sporið og missti af mér sokkana. Ég hirti ekkert um það en varð óskaplega kalt. Þegar ég stóð í dyrunum var Úlfur Gunnarsson læknir fyrir innan. Hann kallar strax: Færið manninn úr! Ég kallaði á móti að ég þyrfti bara sokka. Hann kallaði þá ennþá hærra: Færið manninn úr! Þá varð ég illur og sagði með þjósti að ég þyrfti ekkert nema sokka. Þá brosti hann og sagði lágt: Færið manninum sokka.

Gott að koma í hlýjuna á Sléttu

Það var dásamlegt að koma í húsið á Sléttu. Það var kappkynt og ég held mér hafi aldrei liðið betur á ævinni en einmitt þegar ég var kominn þar inn. Fyrst þegar við komum var ekkert matarkyns í húsunum en síðar komu skíðamenn með vistir. Það var dásamlegur matur. Ég hef aldrei verið kaffimaður. Kaffið sem var lagað þarna var ketilkaffi. Kaffinu var bara hellt í ketilinn og ég man ennþá hvað mér þótti þetta kaffi dásamlegt. Þrátt fyrir að hálf öld sé liðin, þá man ég ennþá eftir lyktinni og bragðinu af þessu dásamlega kaffi.

Strax var byrjað að þurrka fötin af okkur og skíðamennirnir fóru úr sínum fötum og létu okkur hafa. Þegar okkar föt fóru síðan að þorna fóru þeir bara í okkar. Þrátt fyrir alvarleika þessa dags gat ég ekki annað en brosað þegar mjög hávaxinn skíðakappi var kominn í föðurlandið mitt því seint verð ég talinn hávaxinn maður. Þetta sýnir bara hvað menn voru lítið að hugsa um sjálfa sig sem voru þarna að bjarga okkur.

Haldið til Ísafjarðar

Þegar menn fóru að spjalla á Sléttu gerðum við okkur fyrst almennilega grein fyrir því hvað björgunarmennirnir höfðu lagt á sig þennan sólarhring. Það var síðan rætt að við þyrftum hugsanlega að ganga til Hesteyrar og ég kveið fyrir því. Sem betur fer var komið gott veður um morguninn þannig að hægt var að ferja okkur um borð í Ægi. Þar fékk ég einn að vera í klefa stýrimanns. Af hverju einmitt mér var úthlutað slíkum lúxus veit ég ekki. Í klefanum var spegill. Ég hef aldrei séð fallegri mann en þann sem ég sá í speglinum. Við mér blasti múlatti sem var svo brúnn og sællegur eftir olíuna á strandstað. Ég hætti við að þvo mér.

Þegar Páll Pálsson og Andvari lögðust upp að varðskipinu á Sléttu, þá slógust þeir utan í varðskipið. Um leið sótti að mér ónotatilfinning því að þetta voru svo svipuð hljóð og heyrðust um borð í Agli þegar hann barðist í grjótinu. Síðan hefur fennt í þessa reynslu og sem betur fer eru flestir menn fljótir að aðlagast. Aldrei síðan fann ég þessa ónotatilfinningu.

Veislan hjá Albertu og Marzellíusi

Þegar til Ísafjarðar var komið fórum við beint í sundlaugina og þar fengu menn gott bað. Eftir það var okkur boðið heim til Marzellíusar Bernharðssonar og Albertu konu hans. Dóttir þeirra var á þessum tíma sýslumannsfrú á Neskaupstað. Við áttum dásamlega stund hjá þeim heiðurshjónum.

Um kvöldið fórum við um borð í Ægi og hann lét úr höfn um miðnætti áleiðis til Reykjavíkur. Um leið og skipið rann frá bryggju fóru Færeyingarnir skipsfélagar okkar upp á brúarvæng og sungu sálm. Það var mjög eftirminnileg stund að sjá þarna sjómenn á öllum aldri standa í hóp og syngja sálm.

Ferðin suður var tíðindalaus. Þegar við hins vegar lögðum að Faxagarði var stútfull bryggjan af fólki sem komið var til þess að fagna okkur. Það var ógleymanleg stund. Ég var síðan heima í nokkrar vikur því ég komst ekki í neina skó vegna þessa kæruleysis að ganga berfættur síðasta spölinn að húsinu á Sléttu.

Aðeins tvisvar hræddur

Aðeins tvisvar sinnum þennan sólarhring varð ég hræddur um eigið skinn. Það var óvissan sem skapaði ótta þegar ég kom út úr borðsalnum á fyrstu mínútunum eftir strandið. Einnig þegar við vorum í körfunni skömmu síðar. Lengi vel á eftir taldi ég þetta strand í unggæðingshætti mínum einungis sem ævintýri.

Tveimur árum seinna var ég á togaranum Hafliða. Við björguðum þá áhöfninni á togaranum Fylki sem sökk eftir að hafa fengið tundurdufl í trollið. Við vorum við veiðar og hífðum í hvelli og sigldum í áttina til þeirra. Ég var frammi á bakka ásamt fyrsta stýrimanni. Þetta var seint að nóttu í október og þarna byrjaði ég skyndilega að kjökra. Ég skildi ekkert hvað var að gerast með mér. Síðar meir skildi ég að þetta hefur bara verið einhver uppsöfnuð spenna sem ég hafði ekki getað losnað við síðan úr strandinu á Agli rauða.

Sem betur fer var myrkur þannig að enginn sá hvernig komið var fyrir mér. Mér fannst það hin mesta skömm að standa þarna kjökrandi á leiðinni að bjarga heilli skipshöfn. Svona voru nú viðhorf manna á þessum tíma. Þetta er eina atvikið þar sem ég geri mér grein fyrir að eitthvað hafi látið undan hjá mér vegna þessa slyss undir Grænuhlíð. Samt sem áður hefur þessi atburður fylgt mér alla tíð og ég hef haft mikla þörf fyrir að ræða hann. En kannski ekki verið margir sem hafa viljað hlusta. Fyrstu árin þótti mér nokkuð til um að hafa lent í þessu en það hefur breyst með meiri þroska.

Trúlofunarfréttin og slysafréttin

Nú á tímum upplýsingabyltingar er gaman að rifja upp hvernig fréttirnar bárust til skyldmenna minna og rifja upp skemmtilega tilviljun í því sambandi. Morguninn eftir strandið sagði Morgunblaðið frá því eitt fjölmiðla. Kærastan mín var að vinna á saumaverkstæði og stúlkurnar þar sátu um að komast í Morgunblaðið þennan morgun. Ekki til þess að lesa um strandið og að óvíst væri um afdrif okkar. Inni í blaðinu var nefnilega lítil frétt um trúlofun mína og kærustunnar, Auðar Ingólfsdóttur. Þær voru svo spenntar að skoða trúlofunartilkynninguna að þær tóku hreinlega ekki eftir fréttinni á forsíðu blaðsins.

Tengdamóðir mín hringir síðan í vinnuveitanda kærustunnar og segir honum hvernig komið sé. Hann strunsaði fram og tók blaðið. Kærastan mín var síðan sótt í vinnuna um fjögurleytið til þess að tilkynna henni um atburðinn. Rétt í þann mund sem færa átti henni fréttirnar um að óvíst væri um afdrif mín, þá kom í útvarpsfréttum að allir væru komnir í land. Seinna var svo leiðrétt og sagt að fimm manna væri saknað.

Kransarnir í Hull

Rúmum níu árum eftir strandið undir Grænuhlíð var ég á fraktara og við komum í höfn í Hull. Við fengum okkur göngutúr um borgina, eins og gengur. Við komum á fallegt torg sem þar var en ég man ekki hvað heitir. Ég sé þá að þar er eitthvað um að vera. Þar var töluvert af fólki og þarna lágu margir kransar. Þegar fólkið fór löbbuðum við þangað að skoða hvað þetta væri.

Á krönsunum voru nöfn togaranna Lorella og Roderigo sem höfðu farist með allri áhöfn sama dag og við ströndum á Agli rauða. Þarna var því athöfn til að minnast sjómanna sem fórust við Vestfirði þennan afdrifaríka janúardag. Mér varð óneitanlega hugsað til þeirra sem ekki voru eins heppnir og við að komast upp í fjöru þar sem afreksmenn að vestan og austan biðu okkar.

Pílagrímsferð á Sléttu?

Ég átti eftir að koma oftar til Ísafjarðar. Fimm árum seinna var ég hjá Einari skipstjóra á Ísborginni og bjó um tíma á Ísafirði. Einnig vann ég hjá Netagerð Vestfjarða þar sem miklir öðlingar störfuðu. Ég hef hins vegar ekki komið á Sléttu eða í grennd við strandstaðinn þessi nærfellt fimmtíu ár sem liðin eru.

Nú er ég að velta því fyrir mér ásamt Axel loftskeytamanni að koma vestur og fara á Sléttu, svona hálfgerða pílagrímsferð. Vonandi tekst okkur að láta verða af því.

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli