Frétt

Strand Egils rauða við Grænuhlíð árið 1955 – Frásögn Steins Jónssonar | 29.12.2004 | 15:26Aldrei upplifað svo óstjórnlega reiði og ofsalega gleði

Steinn Jónsson, 1. stýrimaður á togaranum Austfirðingi SU-3.
Steinn Jónsson, 1. stýrimaður á togaranum Austfirðingi SU-3.
Strandstaður Egils rauða. Glöggt má sjá hversu þverhnípt hliðin er á þessum stað. Það hefur ekki verið neinn hægðarleikur að klifra hlíðina í slæmu veðri og lélegu skyggni.
Strandstaður Egils rauða. Glöggt má sjá hversu þverhnípt hliðin er á þessum stað. Það hefur ekki verið neinn hægðarleikur að klifra hlíðina í slæmu veðri og lélegu skyggni.
Flestir skipbrotsmennirnir á skrifstofu Slysavarnafélagsins í Reykjavík. Á myndinni má sjá menn reifaða á höndum. Það eru þeir sem héldu á neyðarflugeldunum þegar þeim var skotið á loft.
Flestir skipbrotsmennirnir á skrifstofu Slysavarnafélagsins í Reykjavík. Á myndinni má sjá menn reifaða á höndum. Það eru þeir sem héldu á neyðarflugeldunum þegar þeim var skotið á loft.
Strandstaður Egils rauða. Glöggt má sjá hversu þverhnípt hliðin er á þessum stað. Það hefur ekki verið neinn hægðarleikur að klifra hlíðina í slæmu veðri og lélegu skyggni.
Strandstaður Egils rauða. Glöggt má sjá hversu þverhnípt hliðin er á þessum stað. Það hefur ekki verið neinn hægðarleikur að klifra hlíðina í slæmu veðri og lélegu skyggni.
Flestir skipbrotsmennirnir á skrifstofu Slysavarnafélagsins í Reykjavík. Á myndinni má sjá menn reifaða á höndum. Það eru þeir sem héldu á neyðarflugeldunum þegar þeim var skotið á loft.
Flestir skipbrotsmennirnir á skrifstofu Slysavarnafélagsins í Reykjavík. Á myndinni má sjá menn reifaða á höndum. Það eru þeir sem héldu á neyðarflugeldunum þegar þeim var skotið á loft.
Austur á Eskifirði býr Steinn Jónsson, 86 ára gamall maður. Fyrrum sjómaður og síðar embættismaður. Að ræða við hann gefur ekki tilefni til að ætla að þar fari maður hátt á níræðisaldri. Heimamenn, sem flestir eru mun yngri, segja hann heljarmenni og er þá ekki tekið tillit til aldurs. Hann hefur stundað hestamennsku um árabil. Til marks um þrek Steins má nefna, að hann fór ríðandi á landsmót sem haldið var norður í landi fyrir tveimur árum. Mun yngri menn en Steinn treystu sér ekki til þess að ríða svo langa leið heldur fóru keyrandi. Þegar mótinu lauk færðu menn það í tal við Stein hvort hann kæmi ekki með keyrandi til baka. Hann hélt nú ekki. Ferðin skyldi kláruð eins og hún hófst. Og svo reið hann til baka austur á Eskifjörð. Það hefur verið þessi einbeitni og þetta úthald sem hann hafði í farteskinu þegar hann ásamt félögum sínum gaf sig fram til björgunar á skipverjunum á Agli rauða. Þegar haft var samband við hann fyrir skömmu kom í ljós að hann hafði nánast aldrei rætt um þátttöku sína í þessari björgun. En nú fannst honum kominn tími til þess enda liðin 50 ár.

Þegar þessir atburðir gerðust var ég fyrsti stýrimaður á togaranum Austfirðingi og hafði verið á því skipi frá 1952. Kvöldið örlagaríka vorum við í vari undir Grænuhlíð og lágum fyrir föstu. Egill rauði lét hins vegar reka eins og fleiri skip á þessum slóðum. Þegar við fréttum af strandinu sjósettum við strax annan björgunarbátinn og rerum upp undir brimskaflinn. Við sáum hins vegar strax að ekkert var hægt að gera frá sjó. Skipverjar frá Aski reru líka upp undir og þeir voru sammála okkur að björgun af sjó væri óframkvæmanleg enda sáum við ekkert til skipsins.

Ef þeir fara, þá fer ég líka

Síðar um kvöldið gáfum við okkur fram til þess að reyna björgun af landi. Okkur rann blóðið til skyldunnar því á Agli rauða voru margir vinir okkar og ættingjar. Við fórum tíu saman af Austfirðingi yfir í varðskipið Ægi. Síðar bættust við nokkrir Ísfirðingar og ákveðið var að stýrimaður af varðskipinu færi einnig með okkur í land. Það var siglt með okkur rakleiðis inn að Hesteyri. Það verður að segjast eins og er, að við vissum í raun ekkert út í hvað við vorum að fara.

Þegar komið var að Hesteyri var farið að ræða för okkar á strandstað. Þá hófust bollaleggingar með hvaða hætti best væri að komast á strandstaðinn. Við Austfirðingarnir lögðum strax þunga áherslu á að lagt yrði strax af stað fótgangandi frá Hesteyri. Ísfirðingarnir ræddu hins vegar þann möguleika að bíða morguns og reyna þá landgöngu á Sléttu. Vissulega þekktu þeir aðstæðurnar betur og voru raunsærri en við. Okkar hugsun var auðvitað á meiri tilfinninganótum þar sem við þekktum flesta mennina um borð í Agli.

Formaður björgunarsveitarinnar tók þá ákvörðun að hann legði ekki sína menn í þá hættu að ganga þessa leið um nóttina enda var hið versta veður. Ég fór þá til minna félaga og tilkynnti þeim þessa ákvörðun. Menn voru ekki á eitt sáttir með þetta og því ákváðum við að fara sjálfir í land. Við báðum um að fá björgunarbúnaðinn lánaðan. Þegar þessi ósk okkar barst til Ísfirðinganna man ég að Ásgeir Guðbjartsson, einn Ísfirðinganna, sagði að ef við færum, þá færi hann líka. Hann tók því af skarið og þar með var ákveðið að allir færu í þessa ferð strax um kvöldið. Seinna kom í ljós að ekki var lendandi á Sléttu morguninn eftir þannig að það reyndist rétt ákvörðun að halda strax af stað fótgangandi.

Með því að rifja upp þessi skoðanaskipti er ég alls ekki að kasta rýrð á björgunarsveitarmennina frá Ísafirði, síður en svo. Þarna tókust á sjónarmið okkar sem ekkert þekktum til aðstæðna og hinna sem gjörþekktu aðstæður og vissu hversu mikil hættuför það var að fara fótgangandi alla þessa leið með björgunarbúnaðinn. Formanni þeirra bar auðvitað skylda til þess að leggja blákalt mat á aðstæður og leggja menn ekki í of mikla hættu. Því má segja að tilfinningar okkar hafi orðið raunsæi Ísfirðinganna yfirsterkara.

Gangan erfiða

Við lögðum því af stað um klukkan fimm um morguninn og Gísli Jónsson leiddi hópinn. Það var mjög erfitt hlutskipti. Hann varð að kafa í gegnum skafla og leiða okkur upp og niður á réttum stöðum. Það var mjög sérstök lífsreynsla að vera þarna á gangi klukkustundum saman í mjög slæmu veðri og sjá varla út úr augum. Við urðum því að leggja allt okkar á herðar þessa unga manns og hann stóð svo sannarlega undir því trausti. Ferðin sóttist ótrúlega vel miðað við aðstæður og við vorum komnir á Sléttu upp úr hádegi. Þar var ákveðið að skilja eftir menn til þess að kynda upp húsin þannig að menn kæmust í hlýju að loknum björgunarstörfum.

Það var því fljótlega haldið áfram til þess að finna skipið. Þegar við vorum komnir töluvert út eftir, þá urðum við að fara mjög ofarlega í hlíðina þar sem flóð var og fjaran því ófær. Veður var mjög slæmt og gangan mjög erfið. Menn fóru því að velta fyrir sér hvort raunhæft væri að vera að ganga þessa leið allir saman. Það sóttu auðvitað líka á menn hugsanir um hvort einhverjir um borð í Agli hefðu í raun lifað nóttina af. Við komum okkur því saman um að hópurinn myndi stoppa og nokkrir menn yrðu sendir áfram án búnaðar til þess að finna skipið. Þeir yrðu fljótari í för og gætu síðan hlaupið til baka og sótt björgunarbúnaðinn og hina björgunarmennina ef skipið fyndist og einhver væri á lífi um borð.

Niðurstaðan varð því að fjórir færu áfram. Að senda einmitt fjóra áfram kom til vegna þess að við vildum tryggja að ef skipið fyndist, þá yrðu tveir menn eftir á strandstaðnum svo áhöfnin vissi að verið væri að sækja hjálp.

Ég valdist í þessa ferð ásamt Gísla, Ásgeiri Guðbjartssyni og Helga Símonarsyni frá Norðfirði. Við komum fljótt í skaplegra veður því þarna utar var meira skjól. Við fundum skipið fljótlega og sáum okkur til mikillar gleði að það voru menn á ferli í brúnni. Því var ákveðið að Ásgeir og Helgi færu á strandstaðinn en við Gísli til baka til þess að sækja hina mennina og björgunarbúnaðinn.

Björgunarmennirnir horfnir

Þetta var mjög erfið ferð hjá okkur Gísla því við þurftum að klífa upp hlíðina. Þegar við komum að þeim stað þar sem við skildum við mennina voru þeir farnir. Ég var ofboðslega sár og reiður þeim fyrir það. Ég átti mjög erfitt með að skilja þá ráðstöfun og hef hugsað mikið um þennan atburð síðan. Síðar taldi Gísli að þeir hefðu fært sig til þess að komast í betra skjól. Ég fékk hins vegar enga skýringu á þessu atviki á þessum tíma. En við náðum þeim fljótlega og snerum þeim við. Þegar á strandstaðinn var komið var línubyssan strax tekin upp og skotið undirbúið. Við héldum tveir um byssuna enda var mjög hvasst og því veitti ekki af tveimur mönnum auk skotmannsins. Fyrsta skotið misheppnaðist en það næsta tókst mjög vel og línan fór beint á brúna. Þetta var mikið happaskot því skipið hafði brotnað í sundur þannig að mennirnir um borð hefðu ekki náð línunni nema á brúnni.

Það var um nónbil að taugin var komin um borð í Egil rauða og björgunin gekk ótrúlega vel. Ég velti því fyrir mér þegar áhöfninni hafði tekist að festa búnaðinn, hvort ekki væri rétt að fara út í skipið í fyrstu ferðinni til þess að aðstoða þá. Það var hins vegar svo mikill sjór að maðurinn í stólnum hefði fengið ölduna í fangið alla leiðina.

Þeir voru sextán sem við björguðum. Það var að vísu mjög erfitt að draga þá í land þar sem við þorðum ekki að setja fast í landi þar sem skipið hreyfðist mjög mikið. Við vorum því hræddir um að línan slitnaði. Það voru því tveir menn í landi sem héldu strekktu. Það var gríðarlega erfitt verk en hafðist þó.

Vel heppnuð björgun

Skipbrotsmennirnir voru mjög misjafnlega á sig komnir. Sumir voru mjög klæðalitlir og nú kom sér vel að við höfðum safnað saman fötum í poka um borð í Austfirðingi til þess að hafa til vara. Við gátum því klætt þá sem verst voru klæddir. Við gáfum þeim líka koníakssjúss hverjum og einum úr flösku sem skipstjórinn minn hafði afhent mér með þeim orðum, að flaskan yrði ekki tekin upp fyrr en fyrsti maður væri kominn í land. Það hressti vel koníakið við þessar aðstæður og þeir létu vel af því.

Ég hef oft hugsað um það síðan, hversu vel þeir stóðu sig í áhöfninni á Agli rauða að halda lífi við þessar ömurlegu aðstæður. Þegar síðasti maður er kominn í land var liðinn nærri því sólarhringur frá því að skipið strandaði. Það eru auðvitað heljarmenni sem gátu haldið lífið við þessar aðstæður og haldið sönsum.

Ferðin til baka

Þegar mennirnir voru komnir í land var farið að fylgja þeim að Sléttu. Fyrsti hópurinn fór af stað áður en allir voru komnir í land því það var auðvitað engin ástæða til þess að bíða eftir því að allir væru komnir í land. Ég fór í síðasta hópnum frá strandstað og ferðin að Sléttu gekk vel. Það sem bætti núna úr skák var að við komumst fjöruna. Það var mikið happ því ég veit í raun ekki hvort allir hefðu komist lifandi til baka ef flæði hefði verið. Menn voru nánast örmagna, bæði skipbrotsmenn og björgunarmenn. Menn urðu því mjög fegnir að komast í hlýjuna á Sléttu.

Þegar þangað var komið voru engar vistir komnar því við höfðum ekkert slíkt haft með okkur. Björgunarbúnaðurinn var svo mikill að menn gátu ekki borið meira. Menn gengu því flestir til hvílu og sofnuðu. Ég ákvað hin svegar að vaka til þess að passa eldinn. Um kvöldið kom síðan skíðasveit með vistir frá Ísafirði og það var dásamlegt að fá að borða eftir allan þennan tíma. Það var því orðið mjög þröngt í húsunum á Sléttu en við létum það nú ekkert á okkur fá. Ánægja yfir vel heppnaðri björgun gerði það að verkum að menn gleymdu öllu öðru.

Um borð í Austfirðing að nýju

Daginn eftir voru síðan allir ferjaðir um borð í varðskipið Ægi og við á Austfirðingi fórum svo til starfa um borð í okkar skipi. Þegar við komum til baka um borð voru liðnir nærri tveir sólarhringar frá því að við fórum frá borði. Ég komst þá í koju og það var ansi þreyttur maður sem sofnaði það kvöldið. Ég náði að hvílast því að ennþá var bræla og því lágum við áfram í vari.

Í þessari björgunarferð vorum við mjög vel búnir á þess tíma mælikvarða þó að það teldist nú ekki hentugur klæðnaður í dag. Við vorum búnir eins og við vorum búnir til sjós í vondum veðrum. Það voru allir í sjóstakk og klofstígvélum, sem reyndar er ekki mjög auðveldur fatnaður til langrar göngu. Ég man hins vegar ekki eftir því að hafa orðið kalt í ferðinni. Trúlega hefur mér verið kalt en ég hef örugglega ekki áttað mig á því. Hugsunin um að bjarga þessum félögum okkar var svo sterk.

Aldrei hvarflaði að okkur að gefast upp

Þrátt fyrir að þessi ferð hafi verið mjög erfið, þá hvarflaði aldrei að okkur að gefast upp. Eins og ég nefndi áðan má kannski segja að óraunsæi og ókunnugleiki okkar Austfirðinganna hafi ráðið því að þessi björgunarferð var farin strax um nóttina. Ég er viss um að áhöfnin á Agli hefði ekki lifað af aðra nótt um borð í skipinu. Hún reyndist því happasæl sú ákvörðun að leggja strax af stað frá Hesteyri.

Þrátt fyrir að þessi björgun hafi verið mikil raun, þá hefur hún aldrei haft nein áhrif á mig andlega. Mér hefur tekist mjög vel að lifa með þessari reynslu minni. Það er mjög misjafnt hvernig menn komast frá svona lífsreynslu og sem betur fer hafa menn fleiri tækifæri í dag til þess að auðvelda sér að takast á við slíka hluti.

Ég er sannfærður um að ferðin var Ísfirðingum erfiðari því þeir vissu hversu erfiðar þær aðstæður voru sem við vorum að fara út í.Við Austfirðingarnir höfðum ekki hugmynd um það og vorum því ekkert að velta því fyrir okkur. Ég hef oft síðan hugsað til Sléttu og í seinni tíð hef ég velt því fyrir mér að fara þangað til þess að rifja upp þessa atburði. Ég hef aldrei komið þangað síðan en er nú eiginlega ákveðinn að ná því að fara þangað áður en ég fer í aðra vist.

Hraustir menn

Ég hef alltaf hugsað hlýlega til þessara hraustu manna frá Ísafirði sem fóru þessa ferð. Þeir voru miklir afreksmenn sem leystu þetta verkefni vel af hendi, eins og vel og hægt var að ætlast til við þessar gríðarlega erfiðu aðstæður. Það var okkur mikið gleðiefni þegar ákveðið var að heiðra Gísla Jónsson á sjómannadeginum þá um sumarið. Það var mjög vel til fundið að yngsti maðurinn í ferðinni skyldi heiðraður fyrir hönd þeirra sem þar voru. Hann leiddi hópinn og með ratvísi sinni gerði hann það kleift að björgun þessi gæti tekist svo vel sem raun bar vitni.

Hvorki fyrr né síðar hef ég upplifað eins miklar skapsveiflur á einum sólarhring. Fyrst sú óstjórnlega reiði sem kom yfir mig þegar ég hélt að björgunarmennirnir hefðu yfirgefið okkur og síðan sú ofsalega gleði sem gagntók mig þegar síðasti maðurinn kom í land.

bb.is | 25.10.16 | 16:54 Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með frétt Jón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 15:53Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Þingeyri á morgun

Mynd með fréttÁ undanförnum áratugum hefur kosningaþátttaka í kosningum á Íslandi farið minnkandi, og þá sérstaklega í sveitarstjórnarkosningum. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa farið fram umræður um hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun og snúa henni við. Meðal annars ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 14:56Stórskotaliðið mætti til Ísafjarðar

Mynd með fréttHelstu skyttur landsins voru samankomnar á Ísafirði um helgina þegar landsmót Skotíþróttasambands Íslands fóru fram. „Þetta voru tvö landsmót í sitt hvorri greininni,“ segir Guðmundur Valdimarsson, formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar, en félagið hafði umsjón með mótunum sem fóru fram í aðstöðu félagsins ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 11:50Vill strandveiði- og byggðakvóta á uppboð

Mynd með fréttPáll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. „Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 10:02Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Mynd með fréttSamkvæmt þingsætaspá Kjarnans er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í Norðvesturkjördæmi. Bæði Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eiga öruggt þingsæti samkvæmt spánni og þriðji maður á lista, Teitur Björn Einarsson, er ekki langt undan og 72% líkur á að hann ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 09:01„Á erfiðleikastuðli 1 til 10 var þetta 50“

Mynd með fréttÞau eru margvísleg störfin sem björgunarsveitarfólk á Íslandi sinnir og þurfa félagsmenn að kunna að vinna við hinar ýmsu krefjandi aðstæður. Átta félagar í Björgunarfélagi Ísafjarðar unnu á laugardag það erfiða verkefni að ganga með efni til stigagerðar upp brattar hlíðar ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 07:33Leikmaður Vestra rotaður

Mynd með fréttÍ leik Vestra og ÍA í körfubolta á sunnudaginn hlaut Nökkvi Harðarson, leikmaður Vestra, þungt höfuðhögg eftir olnbogaskot Fannars Freys Helgasonar leikmanns ÍA. Nökkvi þurfti í kjölfarið að dvelja á sjúkrahúsi í sólarhring. Myndband náðist af atvikinu og glöggt má ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 16:50Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með fréttGríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli