Frétt

mbl.is | 28.12.2004 | 08:22Bankamaður verður byltingarforingi

Víktor Jústsjenko var lengi dyggur þjónn hins miðstýrða valdakerfis sem hélt velli í Úkraínu þótt Sovétríkin liðu undir lok. Nú fer hann fyrir "byltingarmönnum" í úkraínskum stjórnmálum. Víktor Jústsjenko, hinn nýkjörni forseti Úkraínu, er hagfræðingur að mennt og fyrrum forsætisráðherra landsins. Hann varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar er hann tók að berjast fyrir efnahagsumbótum að hætti vestrænna ríkja en barátta hans á sér einnig þjóðernislegar rætur því marga Úkraínumenn dreymir um að losna undan rússneskum áhrifum sem jafnan hafa mótað samfélag þeirra og þjóðfélagsgerð.

Jústsjenko hefur jafnframt orðið eins konar táknmynd þess hversu hættulegt það getur reynst að boða svo róttæk umskipti. Jústsjenko var fluttur í skyndi á sjúkrahús í Vínarborg í septembermánuði nokkrum dögum eftir að hann hafði veikst illa er hann snæddi kvöldverð með yfirmanni öryggislögreglu Úkraínu. Hann var um skeið í lífshættu. Eftir miklar rannsóknir komust sérfræðingar að þeirri niðurstöðu að eitrað hefði verið fyrir hann með díoxíni. Sú niðurstaða var í samræmi við þá fullyrðingu hans að honum hefði verið sýnt banatilræði. Hann segir stjórnvöld ábyrg, þau neita sök.

Jústsjenko hafði jafnan verið talinn maður myndarlegur og heldur fríður en andlit hans hefur verið afmyndað frá því að honum var byrlað eitrið. Segja læknar að batahorfur hans séu góðar og að tvö ár eða svo muni líða þar til útlit hans verður hið sama og áður.

Jústsjenko varð forsætisráðherra Úkraínu í desembermánuði árið 1999 eftir að hafa náð nokkrum árangri sem bankastjóri seðlabanka Úkraínu. Embætti forsætisráðherra hélt hann þar til í apríl 2001. Þá hafði hann átt í útistöðum við Leoníd Kútsjma forseta sem var andvígur breytingum og vildi umfram allt tryggja óbreytt ástand sem var valdakerfinu þóknanlegt. Svo fór að Kútsjma svipti hann forsætisráðherraembættinu með því að beita þinginu fyrir sig.

Þessi atburður varð til þess að Jústsjenko gerðist leiðtogi bandalags stjórnarandstöðunnar sem myndað hafði verið skömmu áður. Raunar er fullyrt að hann hafi í fyrstu verið tregur í taumi því hann hafi vart getað hugsað sér að fara gegn Kútsjma og valdakerfinu sem lítt hafði breyst frá sovéttímanum. Samstaða stjórnarandstöðunnar breytti hinu pólitíska landslagi í Úkraínu á undraskömmum tíma og til varð nýtt afl í samfélaginu.

Hversu áhrifamikið þetta nýja afl var kom í ljós í liðnum mánuði þegar Jústsjenko stóð frammi fyrir tugum þúsunda stuðningsmanna sinna í höfuðborginni, Kíev, og neitaði að viðurkenna úrslit síðari umferðar forsetakosninganna sem fram hafði farið 21. nóvember. Andstæðingur hans, Víktor Janúkovítsj forsætisráðherra, hafði þá verið lýstur sigurvegari og réttkjörinn forseti Úkraínu.

Jústsjenko og stuðningsmenn hans hættu ekki baráttu sinni fyrr en hæstiréttur Úkraínu hafði ógilt úrslitin vegna víðtækra kosningasvika.

"Appelsínugula byltingin" var orðin að veruleika í Úkraínu. En um leið hafði breyting orðið á stöðu Jústsjenkos. Nú var hann ekki einungis foringi stjórnarandstöðunnar heldur raunverulegur "byltingarleiðtogi" sem boðaði uppgjör við þá pólitísku kyrrstöðu sem einkennt hafði ástandið í Úkraínu frá því að Sovétríkin leystust upp. Maðurinn sem hafði verið dyggur þjónn þessa valdkerfis hafði nú snúist gegn því. Jústsjenko tók að boða djúpstæðar breytingar á flestum sviðum þjóðlífsins. Þar hefur borið einna mest á herferð sem hann hyggst efna til gegn spillingu í landinu. Þá vill hann innleiða vestræn viðmið á sviði stjórnsýslu, efnahags- og fjármála ekki síst til að búa í haginn fyrir inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið (ESB). Hann hefur og sagt að innganga Úkraínu í Atlantshafsbandalagið (NATO) gæti reynst álitlegur kostur. Þessar yfirlýsingar hafa fallið í grýttan svörð í Rússlandi enda líta ráðamenn þar á Úkraínumenn sem bræðraþjóð og að landið falli undir rússneskt áhrifasvæði. Nái vilji Jústsjenkos og "umbótasinnuðu þjóðernissinnanna" sem honum fylgja fram að ganga skapast áður óþekkt ástand í þessum heimshluta; ástand sem Rússar munu líta á sem ögrun.

Jústsjenko er fimmtugur að aldri. Eiginkona hans er bandarískur ríkisborgari og er því iðulega haldið fram að hann sé í raun aðeins strengjabrúða í höndum bandarískra ráðamanna. Þetta sjónarmið nýtur einkum stuðnings í suður- og austurhluta Úkraínu þar sem Rússar eru fjölmennir og rússnesk áhrif mótandi. Því hefur verið haldið fram að Bandaríkjamenn og þá einkum leyniþjónustan, CIA, standi að baki "appelsínugulu" byltingunni í Úkraínu. Þessum ásökunum hefur Jústsjenko jafnan vísað á bug.

Þegar Jústsjenko var forsætisráðherra reyndi hann að beita sér fyrir umbótum á ýmsum sviðum en komst fljótlega að því að viljinn til breytinga var takmarkaður hjá ráðandi öflum í landinu. Hann hafði náð nokkrum árangri á afmörkuðum sviðum sem seðlabankastjóri og hafði hug á að fylgja því starfi eftir er hann varð forsætisráðherra. Honum tókst að slá á óðaverðbólgu sem lengi hafði geisað og tryggja stöðugleika gjaldmiðils landsins, hryvnya. Þá tókst honum að milda áhrif þess að Rússar greiddu Úkraínumönnum ekki skuldir sem stofnað hafði verið til á sovéttímanum.

Sem forsætisráðherra reyndi Jústsjenko að vinna gegn spillingu og vildi að horfið yrði frá sérlega óhagkvæmum, miðstýrðum ríkisrekstri helstu fyrirtækja en hafði ekki erindi sem erfiði.

Kommúnistar á þingi, bandamenn Kútsjma forseta, sviptu hann forsætisráðherraembættinu og forsetinn einsetti sér að koma í veg fyrir að Jústsjenko kæmist á ný í áhrifastöðu í Úkraínu. Almennt er litið svo á að það hafi verið Kútsjma sem ákvað að Janúkovítsj forsætisráðherra skyldi vera mótframbjóðandi Jústsjenkos í forsetakosningunum og þar með fulltrúi valdakerfis sem ráðið hefur öllu í landinu í tæp 14 ár. Raunar fór svo að þetta bandalag þeirra riðlaðist er Janúkovítsj tók að gagnrýna forsetann og freista þess að koma fram sem boðberi breytinga í landinu líkt og keppinauturinn.

Jústsjenko er því afar umdeilur maður í Úkraínu. Segja má að annaðhvort elski menn hann eða hati. Stuðningur við hann er svo til eingöngu bundinn við vesturhluta landsins. Jústsjenko má lýsa svo að hann sé úkraínskumælandi þjóðernissinni sem leita vilji til Vesturlanda eftir vernd frá rússneskum áhrifum með þeim afleiðingum að spenna er hlaupin í samskipti forysturíkja austurs og vesturs, Rússlands og Bandaríkjanna.

Víktor Jústsjenko fæddist í Sumy-héraði í norðausturhluta Úkraínu, nærri rússnesku landamærunum, 23. febrúar 1954. Hann lærði hagfræði og vann við bókhald á vegum ríkisins. Að því er fram kemur í hinni opinberu ævisögu hans var hann kallaður til starfa fyrir Ríkisbanka Sovétríkjanna. Hann vann sig upp innan bankakerfisins og varð loks seðlabankastjóri Úkraínu eftir hrun Sovétríkjanna.

Jústsjenko er tvíkvæntur og á fimm börn. Áhugamál hans eru sögð myndlist, höggmyndalist og knattspyrna. Þá var hann á árum áður mikill áhugamaður um fjallaklifur.

bb.is | 25.10.16 | 16:54 Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með frétt Jón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 15:53Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Þingeyri á morgun

Mynd með fréttÁ undanförnum áratugum hefur kosningaþátttaka í kosningum á Íslandi farið minnkandi, og þá sérstaklega í sveitarstjórnarkosningum. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa farið fram umræður um hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun og snúa henni við. Meðal annars ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 14:56Stórskotaliðið mætti til Ísafjarðar

Mynd með fréttHelstu skyttur landsins voru samankomnar á Ísafirði um helgina þegar landsmót Skotíþróttasambands Íslands fóru fram. „Þetta voru tvö landsmót í sitt hvorri greininni,“ segir Guðmundur Valdimarsson, formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar, en félagið hafði umsjón með mótunum sem fóru fram í aðstöðu félagsins ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 11:50Vill strandveiði- og byggðakvóta á uppboð

Mynd með fréttPáll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur eðlilegt að bjóða upp strandveiðikvóta og byggðakvóta. En þó ættu menn að fara varlega með að stokka upp núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. „Það er alveg ljóst að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er það besta í heiminum og hefur ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 10:02Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Mynd með fréttSamkvæmt þingsætaspá Kjarnans er staða Sjálfstæðisflokksins mjög sterk í Norðvesturkjördæmi. Bæði Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eiga öruggt þingsæti samkvæmt spánni og þriðji maður á lista, Teitur Björn Einarsson, er ekki langt undan og 72% líkur á að hann ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 09:01„Á erfiðleikastuðli 1 til 10 var þetta 50“

Mynd með fréttÞau eru margvísleg störfin sem björgunarsveitarfólk á Íslandi sinnir og þurfa félagsmenn að kunna að vinna við hinar ýmsu krefjandi aðstæður. Átta félagar í Björgunarfélagi Ísafjarðar unnu á laugardag það erfiða verkefni að ganga með efni til stigagerðar upp brattar hlíðar ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 07:33Leikmaður Vestra rotaður

Mynd með fréttÍ leik Vestra og ÍA í körfubolta á sunnudaginn hlaut Nökkvi Harðarson, leikmaður Vestra, þungt höfuðhögg eftir olnbogaskot Fannars Freys Helgasonar leikmanns ÍA. Nökkvi þurfti í kjölfarið að dvelja á sjúkrahúsi í sólarhring. Myndband náðist af atvikinu og glöggt má ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 16:50Fjölmenni á Silfurtorgi

Mynd með fréttGríðargóð mæting var á mótmælafund gegn kynbundnu launamisrétti sem haldinn var á Silfurtorgi kl. 15:00 í dag. Það voru heitar umræður á facebook um helgina sem ræstu baráttu- og skipulagsgenið hjá aðgerðasinnum Ísafjarðar, ganga konur út eða fá þær ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 15:51Söngvarar óskast í nýja sýningu Óperu Vestfjarða

Mynd með fréttÓpera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja ...
Meira

bb.is | 24.10.16 | 14:38„Ísafjarðarbær samþykkir ekki kynbundinn launamun“

Mynd með fréttBæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kanna með jafnlaunavottanir fyrir sveitarfélög og á fundi bæjarráðs í morgun var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Kynbundinn launamunur er algjörlega ólíðandi og honum ber að útrýma. Það er sorgleg staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli