Frétt

bb.is | 19.07.2004 | 13:08Hvatt til stofnunar háskóla á Vestfjörðum

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setti ráðstefnuna í Hömrum á fimmtudagskvöld.
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setti ráðstefnuna í Hömrum á fimmtudagskvöld.
Runólfur Ágústsson, rektor viðskiptaháskólans á Bifröst, hvatti til stofnunar Háskóla á Vestfjörðum í erindi sínu á ráðstefnunni Með höfuðið hátt þegar fjallað var um samfélagsleg áhrif menntunar og sóknarfæri í Hömrum á Ísafirði á föstudagskvöld. Runólfur sagði góða reynslu af starfi Viðskiptaháskólans á Bifröst sem hefði vaxið mjög að umfangi en baráttan um fjármagn til rannsókna væri erfið og mikil tregða gegn því að flytja fé norður fyrir Elliðaár.

Í umræðum að erindinu loknu var vitnað til þess að fyrsti árgangur Háskólans á Akureyri hafi verið afar fámennur og þannig geti mjór verið mikils vísir. Runólfur sagði Vestfirðinga vera komna mikið lengra en á byrjunarreit því þegar væru á annað hundrað nemendur í fjórðungnum í fjarnámi á háskólastigi en auk þess væru starfandi fræðimenn á svæðinu og vísaði þar m.a. til Náttúrustofu Vestfjarða. Því hvatti hann Vestfirðinga til að byggja á því sem þeir hefðu og mynda háskólasamfélag með því að leiða nemendur og fræðimenn saman. Aðspurður um hvað væri æskilegt að kenna í háskóla á Vestfjörðum sagðist Runólfur ekki geta sagt til um það en hvatti Vestfirðinga til að skoða þarfir sínar og kenna það sem nemendur vildu læra.

Smári Haraldsson, forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, fór yfir ýmsar hugmyndir í menntamálum og gerði m.a. að umtalsefni muninn á því sem hann kallar skjalfesta þekkingu og þögla þekkingu, sem jafnvel mætti kalla bókvit og verkvit. Hann sagði þýðingarmikla þá þekkingu sem ungmenni hafa fengið í gegnum tíðina með þátttöku í ýmsum störfum samfélagsins og en þegar verkvitið og bókvitið færu saman byggi fólk yfir afar öflugri menntun. Þá nefndi Smári mikilvægi þess að Vestfirðinga yrðu bæði veitendur og þiggjendur í menntunarmálum. Hann sagði að í hvert sinn sem einhver þegn samfélagsins settist á skólabekk ykist þekkingarstig samfélagsins en ekki síður þegar einverjir þegnanna tækju saman þekkingu til að undirbúa kennslu.

Háleit markmið nauðsynleg
Á laugardag voru ýmis mál rædd á ráðstefnunni og hófst dagskráin á liðnum „Nýsköpun eða brjálæði“ þar sem framsögumenn voru þeir Neil Shiran K. Þórisson, viðskiptafræðingur, og Úlfar Ágústsson, kaupmaður og framkvæmdastjóri Siglingadaga. Úlfar sagði háleit markmið nauðsynleg fyrir samfélagið sem þyrfti að vaxa en ein helsta ógnun þess væri doði, miðjumoð og tillitssemi við smákónga. Hann sagði að samdráttur eða jafnstaða væri óásættanleg og menn ættu ekki að kætast yfir því hvað samdrátturinn hefði verið lítill frá árinu áður. Vöxtur væri lífsnauðsyn og hugmyndirnar þyrftu að vera stórar til að hægt væri að virkja alþjóðlegt fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd.

Þannig nefndi hann að menn ættu ekki að hræðast að t.d. Þingeyri yrði keypt upp og þar byggður upp ferðamannabær sem með tímanum myndir telja þúsundir íbúa. Þá sagði hann að Ísfirðingar ættu að setja sér það markmið að þjónustu tvö skemmtiferðaskip á dag yfir sumarmánuðina. Tengsl Ísafjarðar og Grænlands eru honum hugleikin enda verður fjallað um siglingaleiðir milli Íslands og A-Grænlands á sérstakri ráðstefnu á Siglingadögum á þriðjudag.

Shiran sagði að erfitt gæti verið að draga mörkin milli nýsköpunar og brjálæðis enda hefðu frumkvöðlar á svæðinu sett á stofn og rekið fyrirtæki sem fyrirfram mætti telja ansi framúrstefnuleg og nefndi t.d. sushiverksmiðju Sindrabergs og True-Viking rakspírann sem Koss ehf. framleiðir. Þá væru þekkt mörg geggjuð dæmi erlendis frá. Hann sagðist vilja sjá öflugra atvinnuþróunarfélag á svæðinu eða frumkvöðlasetur sem gæti betur stutt við nýsköpun en sami vandi væri að hefta frumkvöðlastarf alls staðar á landinu, þ.e. viðvarandi skortur á áhættufjármagni. Hann sagðist telja að fjölmörg tækifæri væru til að stofna fyrirtæki á Vestfjörðum og væru þau flest falin í „útflutningi“ því heimamarkaðurinn væri hér um bil mettur. Þörf væri á fleiri frumkvöðlum.

10-15 ára þróunarstarf framundan í þorskeldi
Eftir hádegishlé voru tekin fyrir sóknarfæri Vestfirðinga í sjávarútvegi þar sem framsögumenn voru sjávarútvegsfræðingarnir Þórarinn Ólafsson, verkefnisstjóri fiskeldis hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru, Einar Hreinsson, veiðarfærasérfræðingur við Netagerð Vestfjarða og Guðrún Anna Finnbogadóttir hjá Sindrabergi. Þórarinn sagði frá þorskeldi HG sem hefði gefið ágæta raun og færi vaxandi. Hann fyrirtækið vilja fara varlega í sakirnar en stefna á að verða stórir á endanum. Ljóst væri að aukning á neyslu þorsks myndi koma frá eldi en þorskveiðar á heimsvísu væru um fjórðungur af því sem þær voru á sjötta áratuginum. Frekara þróunarstarf þyrfti að fara fram og á næstu 10-15 árum myndu menn komast að því hvort hægt væri að stunda þorskeldi við Ísland sem arðbæra atvinnugrein.

Einar Hreinsson sagði veiðitæknina frumstæða og það ætti frekar þátt í bágu ástandi fiskistofna en hversu háþróuð hún væri. Þannig vissu menn sáralítið hvað gerðist meðan veiðarfærin væru í sjónum og hvaða áhrif þau hefðu á lífríkið. Lítið hafi verið rannsakað í gegnum tíðina og samfélagslegur kostnaður vegna þekkingarleysis á lífríkinu í sjónum og áhrifum veiða á það væri gríðarlegur. Þó sagði hann stöðu Íslendinga betri en margra annarra þar sem enn væri fiskur við strendur landsins en víða hefðu stofnar hrunið. Hann sagði að síauknar kröfur væru um menntun fólks í sjávarútvegi. Sjávarútvegur framtíðarinnar væri þekkingariðnaður og Vestfirðingar ættu að hasla sér völl við rannsóknir á sjávarútvegi. Sagði hann góðar aðstæður fyrir hendi á norðanverðum Vestfjörðum þar sem fólk með fjölbreytta þekkingu væri til staðar og lítið mál væri að starfa með sérfræðingum annars staðar þar sem samgöngur og fjarskipti væru greið.

Guðrún Anna Finnbogadóttir sagði að fiskvinnsla yrði í síauknum mæli hátæknigrein, vélvæðing héldi áfram og þáttur mannshandarinn myndi enn minnka. Framtíðarmöguleikarnir lægju í ferskleika og matvælum tilbúnum til neyslu. Hún lýsti gangi mála hjá sushiverksmiðjunni Sindrabergi en gengið hafi á með éljum í rekstrinum frá upphafi. Mikill árangur hafi hins vegar náðst í að bæta framleiðsluna og salan ykist jafnt og þétt.

Deildar meiningar um Evrópumál
Heldur hitnaði í kolunum þegar Evrópumálin voru tekin til umræðu. Frummælendur voru Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögfræðingur á Ísafirði, og stjórnmálafræðingarnir Eiríkur Bergmann Einarsson og Úlfar Hauksson. Sigríður Björk taldi óásættanlegt fullveldisafsal felast í inngöngu í ESB og að Íslendingar myndu mega sín lítils þar innanborðs en Eiríkur Bergmann var á öndverðum meiði og sagði Íslendinga hafa tekið yfir stóra hluta af löggjöf ESB í gegnum EES samningnum en hefðu lítið um lagasetninguna að segja. Úlfar Hauksson fór yfir sjávarútvegsstefnu sambandsins sem hann taldi að myndi falla ágætlega að hagsmunum Íslendinga sem einir hefðu veiðireynslu á Íslandsmiðum. Fóru þau vandlega yfir málin og fluttu fræðandi erindi en óhætt er að halda því fram að Evrópuumræðan sé í flóknara lagi og erfitt að nálgast afgerandi niðurstöðu.

Ráðstefnunni var slitið í lokahófi í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á laugardagskvöld. Aðstandendur voru hæstánægðir með hvernig til tókst og sérstaklega með góða aðsókn. Auk fundarhalda var efnt til ýmissa uppákoma m.a. varðelds í Suðurtanga þar sem sent var flöskuskeyti til Evrópusambandsins. Aðstandendur ráðstefnunnar tóku ekki afstöðu til inngöngu í ESB og var því ákveðið að senda hlýjar kveðjur til nágrannanna á meginlandinu.

Ýmsir góðir gestir sóttu ráðstefnuna m.a. flestir af þingmönnum Norðvesturkjördæmi og forseti Íslands sem ávarpaði ráðstefnuna á föstudagskvöld og tók þátt í umræðum fyrri part dags á laugardag.

kristinn@bb.is

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli