Frétt

bb.is | 04.03.2004 | 07:11Ráðningarferli gjaldkera: Bæjarstjóri og þrír embættismenn fóru yfir umsóknir

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.
Svo virðist sem margt hafi farið úrskeiðis við auglýsingu og ráðningu í starf gjaldkera hjá Ísafjaðarbæ fyrir skömmu. Í upphafi voru fyrrverandi gjaldkera ekki kynntar fyrirhugaðar breytingar á starfinu. Ekki virtist vera á hreinu í hverju hið nýja starf átti að felast þegar auglýsing um starfið birtist. Fjórir embættismenn bæjarins fóru yfir umsóknir en það kom ekki í veg fyrir að til starfans var ráðinn maður sem að eigin sögn hafði aldrei unnið á skrifstofu. Könnun á bakgrunni umsækjenda virðist hafa verið áfátt af hálfu fjármálastjóra.

Sem kunnugt er varð mikil umræða í kringum ráðningu gjaldkera hjá Ísafjarðarbæ fyrir nokkrum vikum. Sá sem metinn var hæfastur til starfans var ráðinn. Í kjölfar frétta bb.is þar sem upplýstist að hann hefði aldrei unnið á skrifstofu hittu forsvarsmenn Ísafjarðarbæjar hinn nýráðna gjaldkera á Reykjavíkurflugvelli. Hinn nýráðni gjaldkeri var þá á leið vestur til þess að taka við hinu nýja starfi. Að loknum fundi þessara aðila dró gjaldkerinn umsókn sína til baka. Í kjölfarið tilkynnti Halldór Halldórsson bæjarstjóri að rannsókn yrði viðhöfð á öllu ráðningarferlinu. Sú rannsókn hefur staðið undanfarnar vikur.

Á bæjarráðsfundi í vikunni lagði bæjarstjóri fram bréf til bæjarráðs þar sem farið er yfir nokkur atriði í þessu ráðningarferli og einnig kynntar tillögur til úrbóta. Í upphafi bréfsins er sagt frá auglýsingunni og tilgreindir þeir átta sem sóttu um stöðuna. Fjórir embættismenn bæjarins fóru yfir þær umsóknir sem bárust. Auk bæjarstóra fóru bæjarritari, aðalbókari og fjármálastjóri bæjarins yfir umsóknirnar. Eftir að þessir aðilar höfðu farið yfir umsóknirnar var fjármálastjóra falið að sjá um ráðninguna. Þrennt lagði bæjarstjóri áherslu á við hann. Í fyrsta lagi bæri fjármálastjóri ábyrgð á ráðningunni. Í öðru lagi segist bæjarstjóri hafa lagt áherslu á að svo virtist sem flestir umsækjendur væru hæfir, margir hefðu reynslu af skrifstofustörfum og allir nema einn byggju í Ísafjarðarbæ. Í þriðja lagi vakti bæjarstjóri athygli á því að „einn umsækjandi væri með mikla menntun og því óneitanlega sérstakt að fá umsókn frá manni með þetta mikla menntun í svona starf en um leið fagnaðarefni. Að viðkomandi umsækjandi virtist ekki með mikla starfsreynslu samkvæmt. umsókn. Lagði bæjarstjóri því þunga áherslu á að bakgrunnur umsækjenda allra væri skoðaður vel og starfsviðtöl vönduð þannig að ekki léki nokkur vafi á hver væri hæfasti umsækjandinn að mati fjármálastjóra“, segir í bréfi bæjarstjóra til bæjarráðs.

Þá kemur fram í bréfi bæjarstjóra að eftir starfsviðtöl og athugun á bakgrunni umsækjenda hafi fjármálastjóri kynnt sér að hann teldi tvo umsækjendur koma til greina og sá er ráðinn var væri hæfastur í starfið. Ekki kemur fram í bréfi bæjarstjóra með hvaða hætti bakgrunnur umsækjenda var kannaður. Þá segir í bréfinu um þann sem ráðinn var: „Hann væri með góða menntun og líklegastur til þess að ráða við þann þátt starfsins sem sneri að breytingum og innleiðingu nýrra verkferla. Í trausti þess að bakgrunnur umsækjenda hefði verið rækilega kannaður staðfesti undirritaður þessa ákvörðun fjármálastjóra. Í umsókn kemur fram að hann hafi starfað við eitt og annað m.a. skráningarvinnu, sem umsjónarmaður með öryggi og ástandi bygginga, víðtæka tölvureynslu o.s.frv. Einnig er tekið fram að öðrum störfum sé ekki lýst þannig að í starfsviðtali var nauðsynlegt að fá fram betri upplýsingar“ segir í bréfi bæjarstjóra. Ekki kemur fram í bréfinu hvað hafi komið fram í starfsviðtali við þann sem ráðinn var.

Um þá atburði sem gerðust í kjölfar ráðningarinnar segir bæjarstjóri í bréfi sínu: „Í kjölfar ákvörðunar um ráðningu koma fram ábendingar til bæjarstjóra um að ekki hafi verið farið yfir bakgrunn allra umsækjenda og að sá sem ákveðið var að ráða hafi sáralitla sem enga reynslu af skrifstofustörfum. Eins og kunnugt er leiddi eftirgrennslan það af sér að hann ákvað að draga umsókn sína til baka.“

Um hugsanlegt hæfi þess er ráðinn var sagði bæjarstjóri síðan í bréfi sínu:„Ekki reyndi því á hvort mat fjármálastjóra. á því hver væri hæfasti umsækjandinn, væri rétt.“

Þegar hinn nýráðni gjaldkeri hafði dregið umsókn sína til baka ræddi bæjarstjóri við alla umsækjendur. Um það segir m.a. í bréfinu: „Einn umsækjenda sem rætt var við samkvæmt. upplýsingum fjármálastjóra segist ekki hafa verið boðuð í viðtal heldur aðeins rætt við fjármálastjóra í síma þegar hún spurðist fyrir um starfið. Að öðru leyti voru umsækjendur þokkalega sáttir við starfsviðtölin og ráðningarferlið.“ Með öðrum orðum hafði fjármálastjóri látið fyrirspurn í síma nægja sem starfsviðtal.

Sem kunnugt er var fyrrverandi gjaldkera hjá Ísafjarðarbæ sagt upp störfum vegna fyrirhugaðrar breytingar á starfinu. Um það segir í bréfi bæjarstjóra: „Eins og kynnt var í bæjarráði sl. haust var ástæðan fyrir því að starf gjaldkera var auglýst að nýju mikil breyting á starfinu. Breytingin var að mati lögmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga það mikil að rétt væri að segja starfi þáverandi gjaldkera upp og auglýsa nýtt og breytt starf með möguleika á endurráðningu.“

Í samtali við fyrrverandi gjaldkera á bb.is í janúar að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar hafi aldrei verið kynntar fyrir sér heldur hafi sér einfaldlega verið sagt upp án skýringa.

Í bréfi bæjarstjóra kemur fram að þrátt fyrir að störfum hafi verið breytt hafi það ekki verið lagt fyrir fagnefndir sérstaklega. Í ljósi umræðunnar um ráðningu gjaldkera leggur bæjarstjóri til að nokkur atriði komist í framkvæmd. Þau eru eftirfarandi: Að settar verði reglur um ráðningu starfsmanna og launakjör hjá Ísafjarðarbæ. Starfsviðtöl verði ávallt í samráði við starfsmannastjóra (bæjarritara) og hann sjálfur, bæjarstjóri eða formaður viðkomandi nefndar taki starfsmannaviðtöl með sviðsstjóra eða deildarstjóra. Nýjar starfslýsingar eða breytingar á þeim verið ávallt lagðar fyrir viðkomandi nefndir til staðfestingar áður en starf er auglýst eða því breytt. Í samræmi við stefnumótun Ísafjarðarbæjar í atvinnumálum frá 1999-2003 verði stofnaður svokallaður umbótahópur stjórnsýslunnar. Að síðustu leggur bæjarstjóri til að drög að starfslýsingu fyrir gjaldkera/bókara verði lögð fyrir bæjarráð til samþykktar. Raunar telur bæjarstjóri að nær væri að kalla starfið fulltrúa á fjármálasviði.

Í niðurlagi bréfs bæjarstjóra segir: „Mikil umræða hefur verið um það mál sem hér er fjallað um. Margt gagnrýnivert hefur komið í ljós við að fara yfir það frá upphafi til enda. Hluta af umræðunni hefði verið hægt að skýra með betri upplýsingum á þeim tíma. Hins vegar er alltaf erfitt að tjá sig með opinberum hætti um mál sem snýr beint að nafngreindum einstaklingum. Undirritaður leggur áherslu á að þeim sé hlíft eftir bestu getu þegar svona mál kemur upp sem því miður getur gerst. Ekkert kerfi er svo fullkomið að það geti ekki brugðist. Gagnrýni er af hinu góða. Það er auðvelt að gagnrýna, auðveldara heldur en að bregðast við gagnrýni og nýta hana til góðra verka“ segir bæjarstjóri Halldór Halldórsson að lokum í bréfi sínu til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Hver endanleg niðurstaða þessa ráðningarmáls verður er ekki hægt að segja. Samkvæmt upplýsingum bæjarstjóra mun hann leggja fram á næsta bæjarstjórnarfundi trúnaðarbréf til bæjarfulltrúa vegna málsins. Hann segir að fjármálastjóri hafi ekki sætt áminningu.

Rétt er að geta þess að bb.is óskaði eftir afriti af bréfum sem hugsanlega hefðu farið á milli fjármálastjóra og bæjarstjóra vegna rökstuðnings fyrir ráðningu umrædds manns í starf gjaldkera. Þessari beiðni bb.is var hafnað. Í svari við beiðni bb.is sagði bæjarstjóri meðal annars: „ Ég hef engin bréf frá fjármálastjóra þar sem hann rökstyður ákvörðun sína
um ráðningu á Einari B. Bjarnasyni meðan á sjálfu ráðningarferlinu stóð. Í greinargerð minni til bæjarráðs kemur ekkert fram um bréf fjármálastjóra. Hins vegar urðu bréfaskipti milli undirritaðs og fjármálastjóra sem tengjast honum persónulega og hafa ekki verið lögð fyrir bæjarráð. Samkvæmt.ráðleggingu bæjarlögmanns mun ég leggja þau bréf fyrir bæjarráð en sem trúnaðarmál.“

Ennþá er óráðið í starf gjaldkera og af bréfi bæjarstjóra má ráða að það verði auglýst að nýju og því virðist ljóst að Ísafjarðarbær verði án gjaldkera enn um sinn. Fyrrverandi gjaldkeri lét af störfum seinni hluta janúarmánaðar.

hj@bb.is

bb.is | 21.10.16 | 09:01 Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með frétt Í vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 14:50Er lausaganga almennings bönnuð í Skutulfirði?

Mynd með fréttÍ grein sem birtist á vef Bæjarins besta í gær veltir Hörður Högnason upp þeirri spurningu hvort lausaganga almennings sé nú bönnuð í Skutulsfirði eftir að skilti var sett upp við hina nýju varnargarða ofan við Urðarveg sem bannar umferð gangandi ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 13:23Þorpin þurrkast út með uppboðsleiðinni

Mynd með fréttÞað tæki 2-3 ár fyrir þorp eins og Suðureyri að þurrkast út verði uppboðsleiðin svokölluð að veruleika. Þetta er mat Óðins Gestssonar, framkvæmdastjóra Íslandssögu á Suðureyri. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa síðustu daga birt myndbönd á vefsíðu sinni þar sem varað ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 11:50Grunur um að Þorlákur verði gerður út í verkfallinu

Mynd með fréttVerkfall sjómanna hefst þann 10. nóvember og allur fiskiskipaflotinn verður bundinn við bryggju náist ekki samningar fyrir þann tíma. Í Bolungarvík er verið að gera Þorlák ÍS kláran á snurvoðaveiðar, en báturinn hefur ekki verið á sjó síðan Jakob Valgeir ehf. ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 10:51Grísk haustjógúrt frá Örnu gleður

Mynd með fréttMjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hefur nú sett á markað Gríska haustjógúrt, sem er líkt og nafnið gefur til kynna, árstíðabundin vara. Jógúrtin sem er með handtíndum vestfirskum aðalbláberjum er fallega pökkuð í glerkrukkur líkt og gert var fyrir jólin í fyrra ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 09:36Djúpmannatal komið út

Mynd með fréttLangþráð Djúpmannatal er komið út en í því er að finna æviskrár Djúpmanna frá 1801-2011. Er með því átt við alla þá Djúpmenn sem heimildir herma að hafi á þessu tímabili stofnað til heimilishalds við Djúp í þrjú ár eða lengur ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 09:0135 milljóna bætur vegna Bolungarvíkurganga

Mynd með fréttFjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Vegagerðina til að greiða verktakafyrirtækinu Ósafli 35 milljónir króna í bætur vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng. Verktakafyrirtækið, sem er í eigu Íslenskra aðalverktaka og svissneska fyrirtækisins Marti Contractors, annaðist gangagröft og vegagerð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli