Frétt

Eiríkur Örn Norðdahl | 03.03.2004 | 18:16Sterkur Grettir hjá MÍ

Eiríkur Örn Norðdahl.
Eiríkur Örn Norðdahl.
Úr sýningunni á Gretti. Mynd: Birgir Þór Halldórsson.
Úr sýningunni á Gretti. Mynd: Birgir Þór Halldórsson.
Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi rokksöngleikinn Gretti í Sundatanga, föstudagskvöldið 27. febrúar. Söngleikurinn fjallar um Gretti Ásmundarson, afskaplega auman gagnfræðing sem druslast um eins og viljalaus tuska í leit eftir vinsældum og ást Siggu skólasystur sinnar. Sigga platar Gretti til að brjótast inn í sjoppu bróður síns, það fer út um þúfur og Grettir lendir í fangelsi. Grettir lyftir lóðum, verður sterkur, fræg sjónvarpsstjarna (í hlutverki Grettis Ásmundarsonar hins fyrri). Grettir fær Siggu en þá kemur ærslasjónvarpsdraugurinn Glámur til sögunnar, en hann ofsækir sjónvarpsáhorfendur sem krefjast þess að Grettir takist á við Glám.

Glámur leggur linsubölvun á Gretti, sem getur eftir það ekki horfst í augu við sjónvarps- eða myndavélalinsur. Þessu næst stelur ærslasjónvarpsdraugurinn kærustu Grettis, Siggu, og fer með henni til útlanda. Sýningunni lýkur svo á því að blaðasnápar ljósmynda Gretti fram af húsþaki og hann deyr. (Já, og einhvers staðar þarna á milli breyttist pabbi Grettis í górillu). Allt er þetta bundið í tónlist eftir Egil Ólafsson.

Leikritið er misvel skrifað. Það er nefnilega mjög vel skrifað fyrir hlé, en mjög illa eftir hlé. Tónlistin er þó skemmtileg allan tímann.

„Erfitt að toppa þetta“
Væntanlega þarf ekki lengur að taka fram að hér á svæðinu eigum við ótrúlega hæfileikaríkt fólk á sviði leiklistar, og hefur það bara ágerst með árunum. Nú er svo viðbúið að leiðin geti eingöngu legið niður á við. Líkt og þegar Rómaveldi náði sínum hæstu hæðum sér maður ekki fyrir sér að hægt verði að komast hærra án þess að stefna beint í úrkynjunina (Versló – Andrew Lloyd Weber).

Eigi menntaskólakrakkarnir á næsta ári að toppa menntaskólakrakkana í ár er eins gott þau fari öll úr fötunum og fljúgi svo í lausu lofti (taugarlaus) fitusogin og sílíkonsprengd, stífmáluð eða þá uppfituð (að hætti Theron og Zellweger) og út úr sjúskuð af færustu sérfræðingum í förðun og ólifnaði.

En svona í alvöru talað. Ég veit ekki hvernig venjulegur menntaskóli á að geta toppað svona nokkuð. Ég get sannast sagna ekki ímyndað mér að búið verði að greiða fyrir þetta leikrit að ári.

En það er ekki bara íburðurinn, ef það væri svo þá hefðu krakkarnir að ári víst ekki miklu að kvíða. Leikur og söngur var með eindæmum frábær. Tónlistarútsetningar Ingvars Alfreðssonar voru hæverskar en þéttar, og hljómsveitin sló ekki feilnótu alla sýninguna svo mín eyru tækju eftir. Ingvar var þar að auki mjög öruggur Glámur, eiginlega allt að því of öruggur. Hann hefði ábyggilega verið tilþrifameiri ef hann hefði verið pínulítið stressaður, og fundist hann þurfa að sanna sig. Og Glámur má alveg vera svolítið tilþrifamikill. Virðingin er öllum listamönnum skeinuhætt.

Leikarar fóru á kostum
Leikfélagið tekur til þess ráðs að hafa Grettina tvo, einn auman og einn sterkan. Einn í fyrri hálfleik og annan í seinni hálfleik. Báðir stóðu sig mjög vel, en að Hauki ólöstuðum þá er Helgi Þór augljóslega reynslumeiri, og vanari leiksviðinu. Haukur Sigurðsson vann hins vegar þann stórkostlega leiksigur að fá undirritaðan til þess að trúa því að hann væri sterkur, þó hann sé í raun allt eins lítill og grannur og Helgi. Bara með því að þenja kassann og brosa smeðjulega.

Þó ég eigi erfitt með að rifja upp hvort nokkur leikaranna hafi beinlínis gert annað en að standa sig vel, þá þarf nú samt að minnast nokkurra, þó allir verði augljóslega ekki taldir upp. Ársæll Níelsson var ótrúlega góður smámæltur íþróttakennari, Tómasi Árna Jónassyni tókst óvænt að lífga upp á hið gamalgróna Spaugstofu/Skaupshlutverk „fulli presturinn”. Bríet Ruth Árnadóttir var skemmtilega ýkt í hlutverki vandræðaunglingsins, og Örnólfur Þórir Örnólfsson var viðbjóðslega slepjulegur Heimdellingur. Telma Björk Kristinsdóttir var óhugnanlega sannfærandi í hlutverki hinnar loftkenndu systur Grettis, Gullauga, sem gengur í gegnum veggi og af hverrar vörum drjúpa málshættir. Telma söng síðan klassíker sýningarinnar, Gegnum holt og hæðir, og var það einn af hápunktunum þó hún væri að lagi loknu látin ráfa um sviðið eins og blábjáni meðan hljómsveitin kláraði gítarsóló og annað slíkt. Þetta hlýtur að skrifast á leikstjórann, og er í raun óskiljanlegt. Eini mögulegi tilgangurinn með þessu slóri var að drepa niður aðdáun áhorfenda áður en til lófaklapps kæmi. Enda fékk Telma hvergi nærri það lófaklapp sem hún átti skilið.

Og kemur þá að hápunkti sýningarinnar, sem átti sér alls ekki staðið innan venjulegs söguramma heldur í útúrdúr sem er svo eftirminnilegur að um mig mun fara flisshrollur að minnsta kosti næsta árið. Atli Ásmundarson ræður ofurmennið Tarzan til að vinna í sjoppunni sinni, og Tarzan reynist fyndnari en bananahýði-á-víðavangi og bundnar skóreimar samanlagt. Hann var eiginlega svo fyndinn að það var til vandræða, þar sem nærliggjandi leikhúsgestir lögðust hver um annan þveran í hlátrasköllum. Ég veit ekki hvort þetta átti svona ótrúlega vel við hann, eða hvort Oddur Elíasson er nýfætt kómískt séní, en ég vona innilega að hið síðarnefnda eigi við. Og sjálfsagt gerir það ef með Oddi býr metnaður til þess. Oddur söng Harmsöng Tarzans og fékk blessunarlega allt það lófatak sem áhorfendur áttu til í fingrunum sínum, flaut og frammíköll.

Sundurlaust stykki og ónóg leikstjórn
En auðvitað var sýningin ekki fullkomin þó leikarar og hljómsveit hefðu staðið sig svona vel. Lýsingin var vandræðalega mikið hipsum haps, hist og her og stóð yfirleitt þannig á leikarana að ekki sást framan í þá, annað hvort fyrir yfirþyrmandi ljósinu eða svörtum þungum skugga. Ég þori ekki að kenna Friðþjófi Þorsteinssyni, sem skrifaður er fyrir lýsingunni, um þetta, því þó ég viti ekki betur en hann sé vanur maður þá hlýtur leikstjórinn, Björn Gunnlaugsson, að bera nokkuð þunga ábyrgð á jafn tæknilegum hlut og lýsingunni, enda eini maðurinn með leikhúsmenntun, og þar að auki á launum. Auk þess grunar mig að Björn þjáist af ljósblindu, af því þetta vandamál var líka hjá leikurunum sem voru afskaplega gjarnir á að lyfta míkrafónunum upp að andlitunum og sverta þannig ásjónur sínar myrkri. Hér átti leikstjórinn að vera löngu búinn að grípa inn í.

Eitthvað skorti upp á samhæfingu í dansatriðum. Skrifast það á æfingaleysi. Í seinni hálfleik sýningar virtist um stund sem þessi annars frábæra sýning ætlaði að leysast upp í höndunum á manni þegar skjávarpi klikkaði og í nokkrar mínútur birtust leikhúsgestum nakin error-boðin. Að atriðinu loknu var engin leið að vita hvort skjávarpinn væri kominn í lag, en á þessum skjá lifði annar lykilkarakter leikritsins, ærslasjónvarpsdraugurinn Glámur. Maður beið því milli vonar og ótta eftir næsta atriði þar sem Glámur kæmi fyrir, og meðan maður nagaði á sér neglurnar og beið byrjaði skyndilega að ýla í hljóðkerfinu á annarri hverri nótu. Ekki bætti úr skák að það er einmitt um þetta leyti sem handritið fer út um þúfur. Og þó þetta hafi allt jafnað sig eftir nokkrar mínútur (að undanskildu handritinu) þá var þetta nógu langur tími til að maður datt úr gír. Ég veit hreinlega ekki hverjum maður kennir um svona klúður. Auðvitað er hægt að segja að svona nokkuð geti alltaf gerst, en það breytir því engan veginn að svona nokkuð má alls ekki gerast í leikhúsi. Og alls ekki allt á sama tíma. Við þessu ætti að liggja dauðasök.

Nema hvað. Sýningin var auðvitað eins og segir víðar í þessum dómi stórkostleg, en það var líka leikurum, tónlist og hljómsveit að þakka að sundurlaust stykki sem þar að auki galt fyrir frekar slappa (eða litla?) leikstjórn, náði að rísa upp í að vera feikna skemmtileg kvöldstund.

– Eiríkur Örn Norðdahl skrifar um frumsýningu Menntaskólans á Ísafirði á rokksöngleiknum Gretti.


Gylfi Ólafsson. | 28.10.16 | 07:30 Sakar Óðinn um hræðsluáróður

Mynd með frétt Málflutningur Óðins Gestsonar, framkvæmdastjóra Íslandssögu á Suðureyri, um uppboð á aflaheimildum er „korter í hræðsluáróður“. Þetta segir Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, í aðsendri grein í BB í gær. Óðinn er einn af fjölda fólks sem rætt er við í ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 16:51Flókin tengsl í þorpi sem margir gera tilkall til

Mynd með fréttSjávarþorpið Flateyri og staðartengsl íbúa þar verður til umfjöllunar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur búsettur á Flateyri, veltir því m.a. upp hvað það sé sem fær listamenn og þjóðfræðing til að eiga athvarf í afskekktu þorpi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 15:56Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kosningaspá

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu í kosningaspá Kjarnans. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám. Vinstri græn mælast með 16,9% í spá Kjarnans, Framsóknarflokkurinn með 10,1% ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 14:57Vestfirska forlagið með fimm nýjar bækur

Mynd með fréttNæstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu. Gunnar B. Eydal hefur skrifað bókina Vegprestar vísa veginn. Bókin er „er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu,“ segir höfundur og framsetningin svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 13:23Súrsynir eru mættir í Haukadal

Mynd með fréttÍ blaði vikunnar 2. hluti teiknimyndasögu Ómars Smára Kristinssonar og Elfars Loga Hannessonar og nú eru Súrsyni komnir í Haukadalinn eftir hremmingar í Súrnadal í Noregi. Þar hafði samkvæmt fyrsta hluta sem birtist í 36. tölublaði Bæjarins besta slegist upp á ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 11:51Ágætt sátt um strandveiðar

Mynd með fréttAð mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 10:56Veður og færð ættu ekki að tefja talningu

Mynd með fréttVeður og færð ættu ekki að tefja talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjörkössum úr öllu kjördæminu er keyrt í Borgarnes þar sem atkvæði verða talin. „Ég hef verið í sambandi við Vegagerðina og þetta ætti ekki að vera vandamál. Það spáir hlýnandi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:37Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með fréttFiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 07:32Hinir ríku verða miklu ríkari

Mynd með fréttHrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli