Frétt

Pétur Bjarnason, fyrrum skipstjóri á Ísafirði: | 15.01.2003 | 16:39Eftirminnileg Englandsferð á fiskflutningaskipinu Richard

Pétur Bjarnason.
Pétur Bjarnason.
Richard ÍS 549.
Richard ÍS 549.
Á stríðsárunum var mikill hluti vertíðaraflans fluttur ísvarinn til Bretlands. Hér liggur ms. Richard ásamt erlendum fisktökuskipum við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ljósmynd: Martinus Simson. Myndin er tekin úr bókinni <i>Frá línuveiðum til togveiða</i> eftir Jón Pál Halldórsson.
Á stríðsárunum var mikill hluti vertíðaraflans fluttur ísvarinn til Bretlands. Hér liggur ms. Richard ásamt erlendum fisktökuskipum við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ljósmynd: Martinus Simson. Myndin er tekin úr bókinni <i>Frá línuveiðum til togveiða</i> eftir Jón Pál Halldórsson.
Richard ÍS 549.
Richard ÍS 549.
Á stríðsárunum var mikill hluti vertíðaraflans fluttur ísvarinn til Bretlands. Hér liggur ms. Richard ásamt erlendum fisktökuskipum við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ljósmynd: Martinus Simson. Myndin er tekin úr bókinni <i>Frá línuveiðum til togveiða</i> eftir Jón Pál Halldórsson.
Á stríðsárunum var mikill hluti vertíðaraflans fluttur ísvarinn til Bretlands. Hér liggur ms. Richard ásamt erlendum fisktökuskipum við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ljósmynd: Martinus Simson. Myndin er tekin úr bókinni <i>Frá línuveiðum til togveiða</i> eftir Jón Pál Halldórsson.
Richard ÍS 549.
Richard ÍS 549.
Á stríðsárunum var mikill hluti vertíðaraflans fluttur ísvarinn til Bretlands. Hér liggur ms. Richard ásamt erlendum fisktökuskipum við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ljósmynd: Martinus Simson. Myndin er tekin úr bókinni <i>Frá línuveiðum til togveiða</i> eftir Jón Pál Halldórsson.
Á stríðsárunum var mikill hluti vertíðaraflans fluttur ísvarinn til Bretlands. Hér liggur ms. Richard ásamt erlendum fisktökuskipum við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ljósmynd: Martinus Simson. Myndin er tekin úr bókinni <i>Frá línuveiðum til togveiða</i> eftir Jón Pál Halldórsson.
Heim fyrir jólin

Það var eitt stríðsárahaustið. Við höfðum komið heim af síldinni á Richard í lok ágúst og byrjuðum strax að þrífa lestar og mála og gera klárt fyrir fiskimóttöku. Það hafði aflast vel við Djúp um sumarið og fiskflutningaskipin, bæði innlend og erlend, þurftu lítið að bíða eftir lestun og röðuðu sér út Sundin áleiðis til Englands. Nú var komið fram í desember og við vorum búnir að fara tvo túra sem báðir höfðu gengið vel.

Við lágum við Bæjarbryggjuna og höfðum unnið við móttöku á fiski alla nóttina og klukkan 9 um morguninn var búið að ganga frá og gera sjóklárt og taka olíu og vatn á alla tanka og taka kost til ferðarinnar. Aðallestin í Richard tók 75 tonn og afturlestin sem var undir matsalnum tók 5 tonn. Áður en hleðslumerkjareglugerðin kom var sett þil fyrir aftan stigann í lúkarinn og innréttingarnar teknar á land á veturna svo að þar myndaðist pláss fyrir 10 tonn. Samtals voru þetta 90 tonn en þá var hann orðinn svo hlaðinn að það var ökladjúpur sjór á miðdekkinu fyrir framan yfirbygginguna. Þannig sigldum við honum alla fyrstu stríðsveturna og gekk vel. Á leiðinni léttist hann því olían eyddist úr tönkunum og ísinn bráðnaði úr fiskinum og dældist út, svo að þegar komið var á leiðarenda eftir fimm daga var allt dekkið komið upp úr sjó. Ég kom fyrst á Richard vorið 1941 og var á honum samfleytt vetur og sumar þar til að ég fór á Stýrimannaskólann og strax að námi loknu kom ég aftur og gerðist stýrimaður á Richard.


Undirbúningur ferðarinnar

Richard var sérlega sterkbyggður bátur, allur úr eik. Fremst var hár hvalbakur og undir honum voru tveir stórir skápar með þykkum hurðum úr mahoní sem þéttar voru með gúmmíköntum, svo að þegar skrúfað var fyrir loftræstigötin voru þeir eins og flotholt þegar siglt var á móti sjó og vindi. Yfirbyggingin var öll úr járni upp að gluggum og bátadekk í heilu lagi og endaði sem loft yfir stóru skuthúsi sem fylgdi lögun bógsins að aftan. Skuthúsið var stórt og var ætlað til geymslu á beitu og fleira ef farið yrði á veiðar. Hurðirnar á því voru einnig þéttaðar með gúmmíköntum svo að það virkaði sem flotholt ef siglt var undan sjó og vindi.

Þegar öllum frágangi var lokið sagði skipstjóri að við mættum fara heim en vera mættir aftur til brottferðar kl. eitt eftir hádegi. Ég fór strax heim til mömmu með pokann minn og fékk hjá henni hrein föt og fór síðan út í Sundhöll í sturtu og hitti pabba sem vann þar sem kyndari því að þá var laugin olíukynt. Hann sagði mér að Guðrún systir mín vildi hafa tal af mér. Þegar ég hafði kvatt pabba gekk ég upp í Pólgötu á skrifstofu Björgvins hf. og hitti Ólaf gjaldkera og fékk hjá honum eitthvað af peningum. Síðan fór ég og hitti Guðrúnu systur mína, sem þá var gift Kjartani Ólafssyni kaupmanni. Þegar pabbi hætti að þola stöðurnar á netaverkstæðinu fékk hann vinnu við Sundhöllina. En kaupið var svo lágt að það dugði ekki fyrir heimilisreikningunum, því fjölskyldan var stór og ennþá voru systkinin heima. Við Guðrún gerðum því samkomulag um að greiða alltaf inn á heimilisreikninginn hjá versluninni svo að hann væri alltaf í skilum. Þegar ég hafði fengið henni peninga fyrir mínum hlut bauð hún upp á kaffi.

„Verðið þið komnir aftur heim fyrir jólin?“ spurði hún.

Ég sagði henni að ef allt gengi vel eins og í tveimur síðustu túrum ættum við að ná heim á Þorláksmessu. Þá spurði hún hvort ég væri nokkuð trúlofaður.

Ég hló og sagði að svo væri ekki. „Þú veist að það er alltaf verið að skjóta niður skip og menn að farast, konur að verða ekkjur og börn munaðarlaus. Þó að bærinn okkar sé fullur af fallegum og góðum stúlkum sem bæði ég og aðrir værum fullsæmdir af, þá kæmi ekki til mála að stofna til slíks sambands. Ég valdi sjálfur þann starfsvettvang sem ég starfa á og þar er best að vera einn á ferð. En hvers vegna spyrð þú svona?“

„Vegna þess“, svaraði hún, „að mig vantar herra fyrir dömu á síðkjólaball um jólin og þú ert alveg tilvalinn ef þú verður í landi. Þessi stúlka er úr Reykjavík og er að læra hjúkrun. Hún á að fara út á land og valdi að koma hingað. Hún kemur með Esjunni rétt fyrir jólin og verður hérna hjá mér yfir hátíðarnar og fer síðan að vinna á sjúkrahúsinu hérna.“

„Jæja, systir góð. Ég get alveg eins heitið á þig eins og hvað annað og ég skal gera þetta fyrir þig ef við verðum komnir heim fyrir jólin. En nú verð ég að fara, því tíminn líður.“


Siglingin til Vestmannaeyja

Ég fór síðan heim til mömmu og borðaði þar. Áður en ég fór fékk ég mömmu eitthvað af peningum til jólagjafakaupa. Einnig geymdi hún sparisjóðsbókina mína. Mér fannst hún best geymd hjá henni ef eitthvað kæmi fyrir mig. Síðan kvaddi ég heima og fór um borð. Skipstjórinn, Magnús Jónsson, og tveir hásetar, þeir Ásgrímur Benediktsson og Jón Magnússon, tóku það sem eftir var af hádegisvaktinni en við Haraldur Valdimarsson frá Blámýrum fórum í koju. Þegar við tókum við kl. 4 vorum við komnir út af Galtarvita. Það var norðaustan allhvass vindur og þungur sjór. Skipstjórinn kvaðst vera með flensu og bað mig að taka fyrir sig næstu vakt. Ég sagði það sjálfsagt.

Við ösluðum áfram vestur með Núpunum og gátum haldið fullri ferð á undanhaldinu. Hann settist í báruna og fyllti gangana og seig í næstu báru. Þá tók skuthúsið við og lyfti honum að aftan svo að hann hellti öllum sjónum fram dekkið, sem síðan rann út yfir lunninguna og lensportin. Þegar við nálguðumst Látraröstina grynnkaði ég á okkur þar til við vorum komnir á mið sem heitir að vera á Gatinu. Þá er farið yfir röstina grunnt út af Bjargtangatánni á 20 faðma dýpi. Þar er röstin mjóst og fljótfarið yfir hana þó að tveimur til þremur mílum utar sé hún svo til ófær.

Þeir tóku nú við vaktinni, Ásgrímur og Jón. Haraldur fór niður á sína kojuvakt en ég fór inn í kortaherbergið inn af stýrishúsinu og hafði hurðina opna á milli og lagði mig svo á bekkinn og bað vaktina að vekja mig strax ef eitthvað óvænt bæri að. Þegar við Halli komum aftur á vakt vorum við að nálgast Snæfellsjökul í batnandi veðri. Við héldum svo áfram suður fyrir Reykjanes og náðum til Vestmannaeyja næsta dag. Þar tók á móti okkur Sighvatur Bjarnason, sem var tengdabróðir skipstjórans okkar. Þeir settust strax að sumbli niður í káetu og bað skipstjóri mig að fara í land og ganga frá pappírum á sýsluskrifstofunni. Ég fór í land með skipsdagbókina, skoðunarvottorð skipsins og hleðsluvottorð, ásamt starfsréttindaskírteinum mínum og skipstjóra og skýrði frá væntanlegum farartíma frá Vestmannaeyjum og væntanlegum komutíma okkar til Fleetwood.

Eftir að þessir pappírar höfðu verið stimplaðir fór ég á skrifstofu herstjórnarinnar og tók þar við og kvittaði fyrir bréfi sem á stóð, að ekki mætti opna fyrr en komið væri út fyrir landhelgi. Ennfremur sendu þeir mann um borð til þess að sannreyna að innsigli talstöðvarinnar hefði ekki verið rofið. Þetta bréf herstjórnarinnar innihélt fyrirmæli um hvernig siglingunni skyldi hagað. Við áttum að halda fyrst langt vestur í haf og nálgast síðan Írland vestan frá.

Þessi krókur hefði lengt túrinn hjá okkur um heilan sólarhring og þar með aukið hættuna á að skemma fiskinn. Eftir að Bretar flýðu frá Frakklandi lokuðust allar Ermarsundshafnirnar svo að öll birgða- og herflutningaskipin frá Ameríku urðu að fara norður fyrir Írland og þaðan inn Kanalinn til Glasgow og Liverpool, sem voru þá aðaluppskipunarhafnirnar. Þá hópuðust þýsku kafbátarnir þar saman og lágu niðri á dýpinu á daginn en komu svo upp í myrkrinu og skutu þá á allt sem þeir sáu. Öll stærri skip skutu þeir með tundurskeytum en togara og önnur minni skip skutu þeir með fallbyssum. Á þessum slóðum skutu þeir Reykjaborg, Pétursey, Jón Ólafsson og Jarlinn og fleiri skip og höfðu fyrirmæli um að hreinsa til með vélbyssum svo að enginn væri til frásagnar. Mennirnir tveir sem björguðust af Reykjaborg sluppu lifandi vegna þess að þeir fóru ekki upp á flekann fyrr en kafbáturinn var farinn, heldur héngu utan á flekanum meðan þeir sáu kafbátinn.

Eftir stoppið sem þessi skipatöp leiddu af sér fórum við að fara austar yfir hafið og taka land við Butt of Lewis sem er á austurenda Hebrideseyja og sigldum síðan suður sundin milli Hebrideseyja og Skotlands. Þetta voru þröng sund og skerjótt og vandfarin í myrkri en eftir að hafa farið þau í björtu fór maður að þekkja leiðina. Þá kom maður um Jurasund út í Kanalinn og var þá kominn inn fyrir hættulegustu kafbátasvæðin, en þá var aftur meiri hætta á árás frá þýsku flugvélunum sem voru að gera árásir á Glasgow og Liverpool.


Ævintýri Palla Færeyings

Herstjórnin lét setja einn riffil og eina létta vélbyssu, sem tók hundrað skot, í hvert skip og lögðu áherslu á, að ef við yrðum varir við þýskar flugvélar að byrja þá strax að skjóta, því þær legðu sig síður í hættu fyrir svo lítið skip ef þær yrðu varar við mótspyrnu. Ein kúla sem hitti vel gæti eyðilagt annan mótorinn eða jafnvel drepið flugmanninn. Við gripum þó aldrei til byssunnar þó við sæjum þýskar flugvélar ef þær sneru sér ekki beinlínis að okkur, og allra síst eftir ævintýrið hans Palla vinar míns frá Færeyjum. Palli var strákur á aldri við mig og var stýrimaður á skipi frá Færeyjum, sem faðir hans átti en hafði verið leigt til Vestmannaeyja. Við lágum síðbyrt við bryggjuna um tíma og urðum málkunnugir þar.

Þeir fóru svo nokkru á undan okkur af stað til Fleetwood. Þegar þeir komu í Kanalinn kom þýsk flugvél og byrjaði að skjóta á þá. Palli greip þá til byssunnar og skaut á móti nokkra stund. Þá kom ensk flugvél og byrjaði að skjóta á þá þýsku. Þá hætti Palli. Allt í einu hrapaði enska vélin en sú þýska flaug burt. Þeir sáu hvar enska vélin lenti í sjónum stutt frá þeim og fundu flugmanninn sem flaut í gulu lífbelti. Þeir töldu hann með lífsmarki og björguðu honum um borð til sín en hann dó nokkru síðar. Þegar þeir komu í land og sögðu frá komu hermenn og tóku líkið og fóru með það.

Skömmu síðar komu hermennirnir aftur og tóku Palla og fóru með hann í land. Þar settu þeir hann í fangelsi og sendu hann síðan til London, þar sem hann var dreginn fyrir herrétt og sakaður um að hafa skotið niður enska eftirlitsflugvél og drepið flugmanninn. Sagan um þýsku flugvélina væri bara lygi frá upphafi, en Palli stóð fast á sínum framburði. Á þessu gekk í hálfan mánuð. Þá var Palla kastað út á götu og sagt að koma sér sjálfur til Fleetwood og láta aldrei sjá sig meir. Hann stóð nú þarna allslaus en tókst svo að finna Hjálpræðisherinn og fékk að vera þar og komast símleiðis í samband við umboðsmann skipsins sem sendi honum peninga svo að hann kæmist til Fleetwood aftur.


Skipalestir í stríði

Við fórum frá Vestmannaeyjum í allhvassri norðaustanátt sem Veðurstofan sagði að færi minnkandi. Þá mátti ekki útvarpa veðurfregnum, heldur voru þær hringdar til símstöðvanna, sem hengdu þær síðan út í glugga þar sem almenningur gat lesið þær. Við settum stefnuna á Butt of Lewis, sem er á norðurenda Hebrideseyja. Vindur og sjór var þvert á bakborða, báran gekk inn á bakborða og út á stjórnborða svo hann var alltaf lunningafullur, en það kom ekki að sök því engin umferð var um dekkið þar sem allir sváfu aftur í. Veður fór batnandi eftir því sem fjær dró landinu og eftir sólarhrings siglingu var komið logn.

Skipstjórinn var enn með flensu og lá í rúminu. Ég var á stjórnpalli allar nætur en lagði mig á bekkinn í kortaherberginu á daginn og hafði hurðina fram í brúna opna og lagði svo fyrir að ég yrði vakinn strax ef vaktin sæi til skipa eða eitthvað bæri út af. Það var alltaf siglt ljóslaust og myrkrið var kolsvart þegar ekki gætti tungls. Það var þetta eilífa kolsvarta myrkur og sú ásiglingarhætta sem því fylgdi sem var farið að fara í taugarnar á manni síðustu árin sem stríðið stóð.

Á norðurenda Skotlands er staður sem heitir Loch Ewe. Þar er gott skipalægi og þar var safnað saman skipum í skipalestir, sem sigldu í skipulegum röðum til Íslands og síðan til Rússlands undir gæslu herskipa úr Hvalfirði. Bilið milli skipa í lestinni átti að vera um 50 metrar og hvert skip dró á eftir sér fleka í 50 metra langri línu sem tók inn sjó að framan og spýtti honum svo út um trekt að aftan, sem var sveigð upp á við svo að vatnið myndaði gosbrunn sem næsta skip fyrir aftan átti að hafa við stefnið hjá sér til að varast að sigla fram á næsta skip. Hverri lest fylgdu svo nokkrir tundurspillar og korvettur sem voru á eilífu flökti til og frá að leita að kafbátum, svo ásiglingarhættan var mikil þegar myrkur eða dimmviðri var. Línuveiðarinn Fjölnir frá Þingeyri lenti í árekstri og sökk. Þar fórust fimm menn. Eldborgin frá Borgarnesi lenti í árekstri og laskaðist svo, að hún varð að snúa aftur til Vestmannaeyja til viðgerðar.

Þar sem ég stóð við gluggann og rýndi út í myrkrið sá ég allt í einu einhverju hvítu bregða fyrir framundan á bakborðsbóginn, og nú aftur, og þá var ekki um að villast, þetta var bógalda frá stóru skipi sem þarna var á ferð og var rétt að komast yfir stefnu okkar. Rétt á eftir kallaði hásetinn sem var í stjórnborðsglugganum:

„Skip á stjórnborða, við erum komnir yfir stefnu þess“, sem þýddi að við vorum komnir inn í skipalest, sem var á norðurleið. Ég breytti nú stefnu okkar sem næst því að vera gagnstæð við stefnu skipalestarinnar og sáum við þá fljótlega skip á bæði borð. Síðan komu gosbrunnarnir í ljós og svo næstu skip, svo að við gátum haldið okkur í sundinu milli raðanna. Það vildi okkur til að veðrið var gott svo raðirnar voru skipulegar, en í brælu vildu raðirnar riðlast og þá gat ástandið versnað og ásiglingarhættan aukist. En við sluppum vel í þetta sinn og þegar við vorum vissir um að vera komnir í gegn gátum við komist á okkar fyrri stefnu aftur.


Kafbáti sökkt

Óðum leið á nóttina og fór að draga að morgni. Skömmu síðar fór að birta og sólin að koma upp. Ég fór að líta í kringum okkur og sá þá korvettu sem var að snúast í þriggja mílna fjarlægð framan til á bakborðsbóg. Það var venjan þegar skipalest varð fyrir árás og missti eitthvert skip, að þá varð lestin að halda áfram og mátti ekki reyna að bjarga neinu, heldur var sent herskip á staðinn til þess að hirða upp þá sem fundust lifandi á flekum eða bátum og það var þetta skip sýnilega að gera.

Mér varð nú gengið á stjórnborða og opnaði hliðarglugga þeim megin, því að þar var undan sól að sjá og sást langt til. Ég sá enga skipaferð þeim megin, en samt sá ég glampa á eitthvað á sjónum um það bil eina mílu frá okkur, og nú sá ég að þetta var eins og staur með hnúð á endanum. Mér brá illilega þegar ég gerði mér grein fyrir því að þetta var sjónpípa á kafbát. Eitthvað hef ég hrokkið við því Haraldur var strax kominn við hlið mér og sá þetta líka.

„Hvað nú?“ spurði Haraldur.

„Við skulum vera rólegir, Haraldur minn. Hann kemur ekki upp til þess að skjóta á okkur á meðan korvettan er þarna.“

Haraldur fór nú aftur að stýrinu en ég gekk inn í kortaklefann og tók ljósamorslampa sem stóð þar í skáp. Síðan gekk ég út á brúarvænginn bakborðsmegin og setti lampann þar á statíf sem var fyrir hann og dró fram hlífarnar sem vörnuðu því að merkin sæjust frá öðrum en þeim sem lampanum var miðað á. Ég sendi nú kallmerki nokkrum sinnum í röð og beið svo eftir svari, sem kom með stuttum glampa frá skipinu. Ég lét nú skeytið fara: „Það er kafbátur á stjórnborða við okkur um eina mílu frá, hann siglir sömu stefnu og við og á svipuðum hraða.“

Svarið kom strax með stuttum glampa. Um leið sást svartur reykur stíga upp úr skorsteininum, sem sýndi að vel var spýtt í vélina og hvít röstin aftur undan skrúfunni lengdist. Stefna korvettunnar var á þann stað sem við höfðum gefið upp og lá nú yfir okkar stefnu. Ég bað Harald beygja í bakborða og koma í norðaustur.

„Við eigum nú bóginn fyrir hann“, sagði Halli í þrjósku.

„Herskip eiga alltaf bóginn, Halli minn, við skulum stýra í norðaustur og láta síga um tvö strik til hvorrar handar til skiptis.“

Ég vildi komast sem lengst frá átakasvæðinu og varast að lenda í skotlínunni. Pétur Sigurðsson sjóliðsforingi kenndi okkur það í Stýrimannaskólanum, að ef við vissum hvaðan yrði skotið á okkur væri eina ráðið að snúa frá. Það væri verra að hitta skip eftir endilöngu heldur en frá hlið. Svo væri stjórnpallurinn fremst í yfirbyggingunni og kúla sem hitti skipið þyrfti að komast gegnum alla yfirbygginguna áður en hún gæti gert usla á stjórnpallinum. Korvettan kom nú á fullri ferð og þegar hún nálgaðist staðinn sem við höfðum gefið upp var hún eina og hálfa mílu frá okkur. Þar lét hún fimm djúpsprengjur fara hverja á eftir annarri. Höggin sem dundu á bátnum hjá okkur voru eins og hann væri laminn með sleggjum. Korvettan rann nú áfram nokkurn spöl og sneri svo við og lét aðra hrinu af djúpsprengjum fara og lá svo kyrr á staðnum. Við komum þá aftur á okkar fyrri stefnu og héldum ferðinni áfram.

Skömmu síðar sáum við töluvert brak á sjónum, lestarhlera og kassa og lífbát sem maraði í kafi og nokkur lík í beltum en ekkert lífsmark neins staðar. Nokkru síðar kom korvettan vaðandi fram með síðunni á okkur og sendi merki um að stöðva skipið strax. Ég hlýddi því og setti báða vélsímana á stopp. Jafnframt sá ég að bátur sem hangið hafði í davíðum var sjósettur og mannaður fjórum mönnum. Þegar báturinn nálgaðist sást að um borð voru tveir menn með léttar vélbyssur, einn stýrði en sá fjórði stóð miðskips og hélt á tösku í hendinni. Ég bað Harald að fara niður og taka á móti enda ef þeir vildu festa bátinn.


Korvettumenn koma um borð

Þegar þeir komu að síðunni rétti liðsforinginn Haraldi töskuna og stökk svo liðlega yfir á lunninguna hjá okkur. Haraldur fylgdi honum síðan upp í brú til mín þar sem hann heilsaði með handabandi og kynnti sig sem foringja í breska sjóhernum. Hann óskaði eftir að fá að sjá alla pappíra skipsins. Ég fékk honum umslagið sem ég hafði fengið í Vestmannaeyjum, þar sem fram kom nafn og númer skipsins og að farmur þess væri fiskur, farartími frá Vestmannaeyjum og væntanlegur komutími til Fleetwood. Ennfremur rak hann augun í starfsskírteini mitt og skipstjórans og spurði hvar hann væri. Ég sagði honum að ég væri stýrimaður á skipinu en skipstjórinn væri veikur og væri í koju. Hann gæti litið niður til hans ef hann vildi, sem hann og gerði, en kom strax upp aftur og kvað rétt vera, því hann væri sofandi og greinilega með hita.

„En hvað ert þú að gera hér svona austarlega ef þú ert á leiðinni til Fleetwood?“

„Það kemur til af því að þegar Bretar fóru frá Frakklandi lokuðust allar Ermarsundshafnirnar á Englandi og þá fóru amerísku og ensku hergagnaflutningaskipin að sigla norður fyrir Írland og þaðan inn Írska kanalinn til Glasgow og Liverpool, sem þá urðu aðaluppskipunarhafnirnar. Þá hópuðust þýsku kafbátarnir á svæðið fyrir vestan Barra Head og lágu þar niðri á dýpinu á daginn en komu svo upp þegar dimmdi og skutu á allt sem hreyfðist. Á flutningaskip brúka þeir tundurskeyti en á togara og önnur minni skip brúka þeir fallbyssur og hreinsa svo til með vélbyssum á eftir ef einhver hreyfing sést. Á því svæði voru skotin flestöll skipin sem við misstum. Þá fórum við að fara austar yfir hafið og taka land við Butt of Lewis, sem er á austurenda Hebrideseyja, og sigla síðan suður sundin milli Skotlands og Hebrideseyja. Þá komum við svo sunnarlega inn í Kanalinn að við vorum komnir inn fyrir verstu átakasvæðin. Á vestara svæðinu voru líka endalaus átök milli breskra herskipa og þýskra kafbáta og engin sæld að vera þar í kolsvarta myrkri og stanslausri skothríð, vitandi að hvenær sem var gæti maður lent í skotlínunni.“

„Hvar eru fyrirmælin sem þið fenguð frá herstjórninni í Vestmannaeyjum um það hvernig þið ættuð að haga siglingunni?“

Nú fór í verra. Ég vissi vel hvar bréfið var, en að láta hann sjá að við höfðum ekki einu sinni opnað það gat haft verri afleiðingar, þar sem hann var því ókunnugur hvernig við litum á þessi fyrirmæli. Ég þóttist leita í skúffunum undir kortaborðinu en fann ekkert.

„Kannski að skipstjórinn hafi tekið það niður. Ég má ekki yfirgefa stjórnpallinn eins og er. Mundir þú vilja skjótast niður og gá í skúffuna undir skrifborðinu?“

Hann sagði það sjálfsagt og hvarf niður stigann. Ég greip bréfið þar sem það lá undir kortunum og opnaði vasahnífinn minn og skar bréfið upp og kallaði um leið að ég væri búinn að finna bréfið.

„Það er eins gott“, sagði hann, „því skipstjórinn er steinsofandi og ekki líklegur til þess að vakna í bráð og lyktin er eins og í viskíverksmiðju. Sjáðu nú til“, sagði hann og benti á bréfið. „Finnst þér ekkert athugavert við það að ég skuli hitta þig hér, hundrað mílum austar en þú átt að vera samkvæmt þessum fyrirmælum, og í slagtogi við þýskan kafbát að auki?“

„Þessi fyrirmæli gilda fyrir skip sem flytja vörur sem þola geymslu, en tíminn sem fer í að fylgja þeim mundi skemma eða eyðileggja fiskinn. Við förum því alltaf stystu leiðir og alltaf einskipa. Um kafbátinn er það að segja, að hann hefði löngu verið búinn að skjóta okkur í rusl ef hann hefði ekki vitað af ykkur þarna og ætlað sér þar stærri bita, því hann hefur heyrt skrúfuhljóðið frá ykkur og þið frá honum.“

„Já, við heyrðum vissulega skrúfuhljóð frá ykkur en þótti það ótrúlega sterkt. En þegar þú sagðir frá kafbátnum, þá vissum við strax hvað klukkan sló. Við settum þá strax á fulla ferð og þá hefur hann orðið þess var og kafaði strax og kom þá beint inn á asdikkið hjá okkur. Þá var hann alveg dæmdur því hann var ekki kominn nema á 10 metra dýpi þegar hann fékk fyrri sprengjurnar og virtist fara í klessu strax og byrjaði að sökkva. Seinni hleðsluna létum við fara til öryggis og þá kom upp olía og drasl og tvö lík, sem sýndi að hann var alveg farinn. Og mátti alveg missa sig, því hann náði tveim skipum úr lestinni hjá okkur í gærkvöldi. Við vorum einmitt að enda við að hreinsa svæðið þegar þið komuð. Jæja, úr því sem komið er, þá er líklega best að leyfa þér að halda áfram ferð þinni og tefja ekki lengur. Ég vona að ykkur gangi vel. Ég fer að elta uppi lestina sem ég átti að fylgja svo að ég nái henni aftur fyrir myrkrið.“

Ég bað hann bíða aðeins og skaust niður í skipstjóraherbergið og náði í tvær viskíflöskur úr áteknum kassa sem þar var. Hann varð brosleitur og opnaði töskuna sína og þakkaði fyrir. Ég bað Harald að fylgja honum niður og koma við í matsalnum þar sem lúgan á afturlestinni var og ná í lúðu sem hafði verið látin ofan á yfirísinguna og láta hana í bátinn svo brytinn gæti eldað fyrir þá fiskisúpu í kvöldmatinn. Þeir veifuðu mikið og þökkuðu kærlega fyrir sig þegar þeir fóru. Við héldum síðan ferðinni áfram og náðum að lóðsinum við Fleetwood að kvöldi næsta dags.


Í Fleetwood

Við vorum teknir strax inn í fiskihöfnina. Umboðsmaður félagsins sem seldi fiskinn kom um borð og sagði okkur að fiskinum yrði landað um kl. fjögur að morgni. Hann lét okkur hafa peninga og bað mig að koma á skrifstofuna að morgni með pöntunarlista fyrir kokkinn og vélarrúmið. Síðan fór hann í land og tók skipstjórann með sér. Það kom vaktmaður úr landi svo allir gátu farið í land sem það vildu, en sjálfur fór ég að sofa, því ég þurfti að vera á vakt yfir lönduninni meðan hún stóð yfir og þangað til búið væri að selja og fiskurinn kominn í hendur kaupanda.

Um níuleytið fór ég í land og í verslun Choins, sem var Gyðingur en vel þekktur meðal íslenskra sjómanna fyrir að vera heiðarlegur og traustur. Þar pantaði ég tvíhnepptan smóking, skyrtu, sokka og skó. Ég var mældur á alla enda og kanta og lofaði karlinn að pakka þessu öllu í einn góðan kassa, því að hann yrði ekki opnaður fyrr en heima á Ísafirði. Síðan borgaði ég allt saman. Eftir það fór ég á skrifstofuna með listana frá kokknum og vélstjóranum. Þá sagði umboðsmaðurinn mér að við ættum að taka sement í frakt heim. Þar sem bannað var að hreyfa vél innan fiskihafnar kom dráttarbátur og færði okkur að kantinum þar sem sementið beið á vögnum.

Þegar löndunarkarlarnir voru búnir að þrífa lestina og stafla öllum lestarborðunum í fremstu stíurnar kom vagn með stórt hlass af grófum hálmi sem dreift var um lestargólfið og upp í síðurnar til þess að verja sementið fyrir bleytu. Ég varð að vera niðri í lestinni meðan á lestun stóð til þess að gæta þess að pokunum væri staflað í sléttar stæður, annars hefðu þeir bara híft stroffuna undan og látið pokana liggja í einum haug þar sem þeir voru komnir. Sement er miklu eðlisþyngra en fiskur þannig að lestin var ekki nærri full þegar skipið var komið á hleðslumörk.

Ég lét nú laga vel til í lestinni og gæta þess að hvergi væri tómarúm úti við síðurnar sem gæti valdið hættu ef við fengjum hliðarvelting á heimleiðinni. Þrátt fyrir nöldur í körlunum yfir þessu nostri breikkaði á þeim brosið þegar ég fékk formanninum tvö pund og sagði honum að gefa þeim bjór fyrir góða vinnu. Við gengum svo sjálfur í að loka lestum og sjóbúa. Þegar því var lokið gaf ég öllum frí til kl. 10 um kvöldið. Sjálfur fór ég upp á skrifstofu og tók við uppgjörspappírum fyrir söluna á fiskinum og kvittaði fyrir úttektinni.

Þegar þessu snatti var lokið var klukkan að verða sex og bjórstofurnar farnar að opna. Ég vissi nokkuð vel hvert mínir menn hefðu farið og gekk því við á sjoppu sem hét Rauða ljónið og fann þá þar. Ég settist við borð hjá Haraldi og við fengum okkur nokkra bjóra áður en við fórum um borð. Rétt fyrir kl. 10 kom umboðsmaðurinn um borð með skipstjórann með sér og lóðsinn. Þá voru festar leystar og haldið áleiðis heim.


Illviðri við Íslandsstrendur

Við fórum sömu leið til baka og fengum gott veður þar til við fórum að nálgast landið. Þá fór að vinda af austri. Þegar við áttum eftir 40 mílur í Dyrhólaeyjarvita tók ég radíómiðun af honum og Stórhöfðavita í Vestmannaeyjum og sýndi skipstjóranum staðinn á vaktaskiptunum. Hann tók síðan við vaktinni með sínum mönnum en við Haraldur fórum í kojuna. Þegar við Haraldur vorum ræstir út á næstu vakt hafði heldur orðið breyting á. Það var kominn austan stormur og mikill sjór.

Skipinu hafði verið snúið upp í og andæft upp í sjó og vind. Skipstjóri sagði að veður hefði farið versnandi alla vaktina og fyrir hálftíma hefði hann tekið inn vegmælirinn og snúið skipinu upp í. Hann sagðist ekki hafa þorað að senda mann fram á dekk til þess að taka tappann úr olíutunnunni sem var bundin föst við hvalbakshornið á stjór, en í hana var látin öll úrgangsolía þegar skipt var um olíu á vélunum. Ég hafði stundið gat á hana með melspíru og rekið trétappa í gatið. Við höfðum oft látið leka úr henni þegar við fengum mikið undanhald. Þar sem ekkert annað loftgat var á tunnunni lak olían mjög hægt úr henni og brákaði sjóinn svo aldrei braut upp úr báru þó allmikill sjór væri. Þegar skipstjórinn hafði litið með mér yfir kortin og fyllt út dagbókina fyrir sína vakt, þá sagði hann mér að sér hefði orðið kalt og það væri hrollur í sér og bað mig að taka næstu vakt fyrir sig.

„Þú heldur svo áfram strax og þér þykir fært.“

Haraldur vinur minn hafði tekið við stýrinu og var heldur stúrinn á svipinn.

„Við komumst seint heim með þessu lagi“, sagði hann. „Það hefði verið allt í lagi að halda áfram ef þeir hefðu tekið tappann úr tunnunni áður en ófært varð á dekkinu en héðan af fer enginn fram á dekk fyrr en hægir verulega og það getur orðið bið á því.“

„Við skulum nú sjá til, Halli minn“, sagði ég og fór inn í kortaherbergið.

Ég tók nú sem öruggasta radíómiðun af Dyrhólaey og Stórhöfða og fékk þá nokkuð öruggan fararstað. Við höfðum ætlað okkur að fara milli lands og Eyja en það var sýnilega ekki hægt. Þá hefðum við haft vind og sjó á stjórnborðshornið og það var ekki hægt. Ef við ætluðum að halda áfram urðum við að halda beint undan sjó og vindi en þá mundum við lenda milli Eyja og Geirfuglaskers. Ég tók nú herstjórnarriffilinn úr statífinu og tvö skot í hann. Öðru renndi ég í skothylki byssunnar en stakk hinu í vasann á úlpunni minni og gekk svo fram í brúna.

„Hvað er nú á seyði, elsku vinur?“ spurði Haraldur. „Hér er ekkert til að skjóta á, ekki einu sinni múkki.“

Ég opnaði gluggann og sætti lagi þegar hlé varð á ágjöfinni og miðaði neðst á tunnuna og hleypti af. Síðan sást svart gat við hliðina á tappanum og ljóst var að það byrjaði strax að drjúpa olía úr gatinu. Sjórinn á dekkinu byrjaði strax að brákast og brákin barst aftur af skipinu og þar myndaðist brákarblettur sem aldrei braut upp úr. Ég flautaði nú niður í vél til Snorra og bað hann að stöðva bakborðsvélina og athuga olíuna á henni, ég þyrfti að nota hana á fullu innan skamms tíma. Á meðan var aðeins hálf ferð á annarri vélinni og sakkaði báturinn það mikið aftur á bak að hann var kominn á lygnublettinn sem aldrei braut upp úr, þó sjórinn væri alltaf jafnmikill. Þegar Snorri hafði sett bakborðsvélina aftur í gang bað ég Halla að snúa stýrinu hart í stjórnborða og setti bakborðsvélina á fulla ferð áfram.

Báturinn snerist nú strax og á næstu báru var hann flatur fyrir og velti miklum sjó inn yfir bakborðslunninguna og fyllti dekkið en velti því svo út á stjórn og hélt beygjunni áfram. Þegar hann var kominn á stefnuna beint undan sjó og vindi setti ég á hæga ferð á báðum vélum. Þá var ljóst að allt gæti gengið vel ef aldrei braut upp úr, sem átti ekki að gerast meðan olían entist á tunnunni. Við létum nú síga svona undan veðrinu alla nóttina og fram á næsta dag. Ég fylgdist vel með miðunum og þegar við vorum komnir vestur fyrir Vestmannaeyjar fór ég að miða Reykjanes. Þá kom í ljós að með sömu stefnu mundum við lenda langt vestur af Reykjanesi. Nú hafði heldur dregið úr veðrinu og olían á tunnunni var greinilega farin að minnka. Ég breytti nú stefnunni um átta strik og lét hann hafa vind og sjó þvert á stjórnborða. Ég lét hann hafa fulla ferð á báðum vélum en stóð sjálfur við vélsímann stjórnborðsmegin og setti hann á stopp ef slæmt brot nálgaðist. Þá hálsaði hann upp í og tók brotið inn á hvalbakshornið og á vantinn á stjórnborða svo úr því var mesti krafturinn áður en það lenti á yfirbyggingunni.


Vestur um til Ísafjarðar

Þannig kjöguðum við áfram það sem eftir lifði nætur og fram á næsta dag. Þá var farið að draga úr mesta veðurofsanum. Við fórum fyrir Reykjanes eftir miðjan dag og settum stefnuna norður með fyrir Garðskaga og þaðan fyrir Snæfellsnes og nú var hægt að halda fullri ferð. Um kl. 6 um morguninn á Þorláksmessudag vorum við komnir í landvar vestur af Jöklinum. Ég sendi vaktina niður til skipstjórans til þess að láta hann vita hvert við værum komnir. Hann kom upp aftur og sagði skipstjórann sofandi og kófsveittan og sennilega með hita.

Ég ákvað nú að stoppa hér og hvíla mig. Ég var búinn að vera uppi á þriðja sólarhring. Ég bað Harald, sem var þaulkunnugur á þessum slóðum, að láta bara reka hér í landvarinu og vekja mig eftir þrjá klukkutíma. Niðri í borðsal hitti ég kokkinn, sem spurði hvort hann fengi nú frið til að elda. Ég bað hann steikja fyrir mig egg ofan á tvær brauðsneiðar meðan ég væri að þvo mér, og sjá svo um að allir væru búnir að borða þegar ég væri vakinn. Ég hakkaði nú í mig tvær brauðsneiðar með steiktu eggi og skolaði þeim niður með einni flösku af bjór. Stakk mér síðan inn í herbergið mitt og var sofnaður áður en ég var lagstur út af.

Kokkurinn ræsti mig eftir þrjá tíma og sagði mér að allir væru búnir að borða og við gætum haldið áfram þess vegna. Ég bað hann að segja Halla að setja á ferð norður með og að ég kæmi strax og ég væri búinn að borða. Á borðum var glóandi kjötsúpa. Þegar ég var búinn að borða og klæða mig í úlpuna tók ég eftir því að efst lá svo fallegur leggbiti að ég greip hann og stakk honum ofan í bréfpoka sem ég fann í skápnum og síðan í vasa minn, minnugur þess að við yrðum minnst fjóra tíma að Bjargi og yfir Breiðafjörðinn mætti búast við veltingi og látum.

Við fórum nú fyrir Öndverðarnes og settum stefnuna á Stálfjall. Ég var vanur því á þessari leið að setja stefnuna heldur innarlega yfir Bugtina norður á Flákann. Þá nýttist betur útstraumurinn meðfram Bjarginu. Mér fannst alltaf betra að nálgast röstina innan frá heldur en að fara dýpra og sækja svo á móti straumi til þess að komast upp á Gatið þar sem best var að fara yfir hana.

Það gekk vel yfir röstina og norður með Núpunum. Það var norðaustan þræsingur og mikill sjór svo ágjöf var mikil, en það var frostlaust sem betur fór svo ekkert ísaði. Þegar við vorum komnir norður fyrir Barðann fór ég niður og vakti skipstjórann. Hann sagði að sér liði nú mikið betur og bað um að láta senda sér heitt vatn svo að hann gæti þvegið sér og rakað sig. Það fóru nú allir að þvo sér og raka sig og skipta um föt, því enginn hafði farið úr fötum síðan við fórum frá Englandi.

Við komum svo að bryggju á Ísafirði á aðfangadagsmorgun. Á bryggjunni beið Ólafur Ásgeirsson tollari og kom um borð. Síðan var látið síga frá aftur meðan hann fór yfir tollskýrslur og fleira. Þegar við komum aftur að bryggjunni kom Björgvin Bjarnason um borð og bauð okkur velkomna. Við skyldum bara binda vel og fara svo hver heim til sín, hann myndi láta verkstjórann í landi sjá um skipið. Sementinu yrði landað milli jóla og nýárs og skipið síðan leigt til Gæslunnar eins og áður.


Í þjónustu Landhelgisgæslunnar

Á þeim árum var venja að Landhelgisgæslan tæki á leigu fjóra báta, einn í hverjum fjórðungi, til landhelgisgæslu og aðstoðar við fiskiflotann, hvern á sínu svæði, í janúar, febrúar og mars. Að því loknu var aftur tekið til við fiskflutningana, aðallega frá Vestmannaeyjum, og náðust oft þrír til fjórir túrar í apríl og maí. Þegar við vorum við eftirlitið sendi Gæslan skipstjóra frá sér um borð, sem voru misjafnlega lengi hver. Ég man sérstaklega eftir Gunnari Gíslasyni frá Papey, Haraldi Björnssyni og Hannesi Friðfinnssyni frá Reykjavík.

Venjan var að skipstjóri og stýrimaður sem fyrir voru máttu skipta með sér stýrimannsplássinu. En þar sem skipstjórinn okkar var fjölskyldumaður kaus hann frekar að vera heima hjá fjölskyldunni þann tíma. En ég var laus og liðugur og hafði ekkert á móti því að vinna með þessum þaulreyndu mönnum, sem ég vissi að ég gæti mikið af lært.

Eftirlitinu var þannig háttað, að þegar bátarnir voru á sjó, þá héldum við okkur á veiðislóðinni og höfðum miðunarstöðina stillta á neyðarbylgjuna og var alltaf annað hvort skipstjóri eða stýrimaður á vakt við hana. Það gat riðið á miklu að ná strax miðun af þeim sem óskaði aðstoðar. Ég fékk góða tilsögn og æfingu í að nota miðunarstöðina og ljósamorslampa til samskipta við eftirlitsskipin og varðstöðvar hersins, sem hafði aðsetur í hverjum firði og allir urðu að gera grein fyrir ferðum sínum hvort sem var að nóttu eða degi. Þá var oft flýtir að því að gera strax grein fyrir sér með morslampa áður en maður kom að viðkomandi höfn.


Hetjur eða huglausir aumingjar?

Ég fór á jólaballið með dömunni hennar systur minnar og við skemmtum okkur konunglega. En þegar við komum aftur frá Vestmannaeyjum og tími vannst til að athuga málin var hún farin suður aftur.

„Það eru fleiri fiskar í sjónum, systir mín“, sagði ég og hló.

Þetta vor lauk heimsstyrjöldinni og létti þá mörgum. Nú máttu menn sigla með fullum ljósum og allir vitar sýndu fullt ljósmagn. Vissulega skildi stríðið eftir mörg sár sem aldrei gátu gróið. Konur sem urðu ekkjur og börn sem urðu föðurlaus. Vissulega batnaði fjárhagur þeirra mikið eftir að við börðumst fyrir því að stríðstryggingar yrðu greiddar fyrir hvern sjómann sem týndist. Áður þurfti að sanna að viðkomandi skip hefði farist af hernaðarvöldum. Jafnframt fengum við samþykkta kröfu okkar um áhættuþóknun, sem allar útlagastjórnir sem gerðu út skip frá Englandi til siglinga á sama svæði og við fórum um höfðu greitt sínum sjómönnum.

Þegar við stoppuðum allar siglingar til þess að leggja áherslu á þessar kröfur okkar, þá kölluðu sum dagblöðin og ýmsir alþingismenn okkur huglausa aumingja og áhættuþóknunina hræðslupeninga. En á næsta sjómannadegi stigu þeir í stólinn og töluðu um hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar.

Það má með sanni segja að skjótt skipast veður í lofti.

– Pétur Bjarnason.


Smellið á tölustafina undir myndinni af höfundi til að skoða fleiri myndir.

bb.is | 27.10.16 | 16:51 Flókin tengsl í þorpi sem margir gera tilkall til

Mynd með frétt Sjávarþorpið Flateyri og staðartengsl íbúa þar verður til umfjöllunar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur búsettur á Flateyri, veltir því m.a. upp hvað það sé sem fær listamenn og þjóðfræðing til að eiga athvarf í afskekktu þorpi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 15:56Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kosningaspá

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu í kosningaspá Kjarnans. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám. Vinstri græn mælast með 16,9% í spá Kjarnans, Framsóknarflokkurinn með 10,1% ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 14:57Vestfirska forlagið með fimm nýjar bækur

Mynd með fréttNæstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu. Gunnar B. Eydal hefur skrifað bókina Vegprestar vísa veginn. Bókin er „er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu,“ segir höfundur og framsetningin svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 13:23Súrsynir eru mættir í Haukadal

Mynd með fréttÍ blaði vikunnar 2. hluti teiknimyndasögu Ómars Smára Kristinssonar og Elfars Loga Hannessonar og nú eru Súrsyni komnir í Haukadalinn eftir hremmingar í Súrnadal í Noregi. Þar hafði samkvæmt fyrsta hluta sem birtist í 36. tölublaði Bæjarins besta slegist upp á ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 11:51Ágætt sátt um strandveiðar

Mynd með fréttAð mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 10:56Veður og færð ættu ekki að tefja talningu

Mynd með fréttVeður og færð ættu ekki að tefja talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjörkössum úr öllu kjördæminu er keyrt í Borgarnes þar sem atkvæði verða talin. „Ég hef verið í sambandi við Vegagerðina og þetta ætti ekki að vera vandamál. Það spáir hlýnandi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:37Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með fréttFiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 07:32Hinir ríku verða miklu ríkari

Mynd með fréttHrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 16:50Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með fréttÞað var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli