Frétt

Sæmundur Bjarnason frá Ögri / Ársrit 1983 | 27.08.2002 | 15:55Svipmyndir úr Ögurnesi og Ögurvík

Byggðin á Ögurnesi eins og hún var árið 1929. Húsin eru, frá hægri til vinstri: Verbúð í eigu Ögursystra. Við hliðina er salthúsið, þar sem saltfiskverkunin fór fram. Á bak við þessi hús, ósýnilegt á myndinni, stóð hús Bjarna Einars og laugin þar skammt frá. Lága, rislausa húsið, plan-húsið, var notað til fiskmóttöku. Næst koma tvær verbúðir, Kálfavíkurbúð og Skálavíkurbúð. Næst kemur hús Helga Jónssonar og Dagbjartar Kolbeinsdóttur, gamla Ögurbúðin, sem var, að stofni til, elsta húsið í Ögurnesi. Þá kemur Andrésarhús og síðast hús Pálma Gíslasonar og Guðfinnu Andrésdóttur. Bátarnir fyrir landi eru Ásan (undir seglum), fimm manna far, og Guggan. Myndin er tekin 1929 af Guðmundi Breiðdal farandljósmyndara.
Byggðin á Ögurnesi eins og hún var árið 1929. Húsin eru, frá hægri til vinstri: Verbúð í eigu Ögursystra. Við hliðina er salthúsið, þar sem saltfiskverkunin fór fram. Á bak við þessi hús, ósýnilegt á myndinni, stóð hús Bjarna Einars og laugin þar skammt frá. Lága, rislausa húsið, plan-húsið, var notað til fiskmóttöku. Næst koma tvær verbúðir, Kálfavíkurbúð og Skálavíkurbúð. Næst kemur hús Helga Jónssonar og Dagbjartar Kolbeinsdóttur, gamla Ögurbúðin, sem var, að stofni til, elsta húsið í Ögurnesi. Þá kemur Andrésarhús og síðast hús Pálma Gíslasonar og Guðfinnu Andrésdóttur. Bátarnir fyrir landi eru Ásan (undir seglum), fimm manna far, og Guggan. Myndin er tekin 1929 af Guðmundi Breiðdal farandljósmyndara.
Húsið í Ögri og Ögurkirkja.
Húsið í Ögri og Ögurkirkja.
Húsið á Svalbarði í Ögurvík, jafnan nefnt á Barði.
Húsið á Svalbarði í Ögurvík, jafnan nefnt á Barði.
Frá Garðstöðum.
Frá Garðstöðum.
Húsið Sólheimar á Óbótatanga.
Húsið Sólheimar á Óbótatanga.
Húsið í Odda, nýbyggt árið 1928.
Húsið í Odda, nýbyggt árið 1928.
Hreppsnefnd Ögurhrepps 1942. Frá vinstri: Gísli Sæmundsson, Ögri, séra Óli Ketilsson, Hvítanesi, Bjarni Sigurðsson, Vigur, Hafliði Ólafsson, Garðsstöðum (síðar í Ögri) og Sæmundur Bjarnason, greinarhöfundur.
Hreppsnefnd Ögurhrepps 1942. Frá vinstri: Gísli Sæmundsson, Ögri, séra Óli Ketilsson, Hvítanesi, Bjarni Sigurðsson, Vigur, Hafliði Ólafsson, Garðsstöðum (síðar í Ögri) og Sæmundur Bjarnason, greinarhöfundur.
Húsið í Ögri og Ögurkirkja.
Húsið í Ögri og Ögurkirkja.
Húsið á Svalbarði í Ögurvík, jafnan nefnt á Barði.
Húsið á Svalbarði í Ögurvík, jafnan nefnt á Barði.
Frá Garðstöðum.
Frá Garðstöðum.
Húsið Sólheimar á Óbótatanga.
Húsið Sólheimar á Óbótatanga.
Húsið í Odda, nýbyggt árið 1928.
Húsið í Odda, nýbyggt árið 1928.
Hreppsnefnd Ögurhrepps 1942. Frá vinstri: Gísli Sæmundsson, Ögri, séra Óli Ketilsson, Hvítanesi, Bjarni Sigurðsson, Vigur, Hafliði Ólafsson, Garðsstöðum (síðar í Ögri) og Sæmundur Bjarnason, greinarhöfundur.
Hreppsnefnd Ögurhrepps 1942. Frá vinstri: Gísli Sæmundsson, Ögri, séra Óli Ketilsson, Hvítanesi, Bjarni Sigurðsson, Vigur, Hafliði Ólafsson, Garðsstöðum (síðar í Ögri) og Sæmundur Bjarnason, greinarhöfundur.
Ég, sem þessar línur rita, er fæddur í Ögurnesi árið 1916. Foreldrar mínir, Halldóra Sæmundsdóttir og Bjarni Einar Einarsson (alltaf nefndur Bjarni Einar), höfðu þá verið búsettir í Nesinu í tvö ár. Faðir minn hafði þó verið þar um árabil við róðra og fiskmóttöku. Ég var þeirra 4. barn, en alls urðum við systkinin 10, fædd á 15 árum. Móðurbræður mínir tveir voru í Ögri, Gísli ráðsmaður á búi þeirra Ögursystra, Halldóru og Ragnhildar Jakobsdætra, og Hjörtur, sem lengi var formaður á bátum búsins. Þessi tengsl við Ögur urðu til þess, að ég var tekinn í fóstur þar, meðan mamma lá á sæng að 6. barni sínu. Var ég þá 3 ára. En svo fór, að mér var aldrei skilað aftur í Nesið, og átti ég því heimili mitt í Ögri til þrítugsaldurs.

Milli Ögurs og Ögurness eru ekki nema tæpir 3 km. Var ég því tíður gestur þar, oft sem símsendill eða mjólkurpóstur, auk allra óformlegu ferðanna þangað. Þær voru margar. Í nær 4 áratugi hefi ég verið í Eyjafirði og látið Eyfirðinga og Þingeyinga spilla svo fyrir mér móðurmálinu, vestfirskunni, að skömm er að. Þegar ég var einn vetur í Borgarfirði, spurði mig bóndi einn þar: „Hvaðan ert þú eiginlega, Sæmundur?“ Ég runaði upp úr mér uppruna mínum vestfirskum, nokkurri dvöl á Suðurlandi og langri vist með Norðlendingum. Svaraði þá bóndi um hæl: „Þetta hlaut að vera. Þú talar ekkert mál.“ Vestfirðingurinn varð þá ærið skömmustulegur.

Hið forna höfuðból Ögur við Ísafjarðardjúp stendur fyrir miðri Ögurvíkinni ásamt Garðstöðum. Öguráin skilur lönd milli jarðanna, þar sem hún fellur til sjávar um víkina. Ögurnesið er milli Ögurvíkur og Viguráls, sem er í mynni Skötufjarðar. Nesið horfir beint til norðurs, móti opnu hafi. Örlítill vogur er fremst á nesinu með stórgrýttri fjöru. Þar hafa verið ruddar tvær varir, en stórgrýtisklappir eru á milli þeirra. Ekki eru þær lendingar heiglum hentar, þegar hafátt er, og oft er þar ólendandi. Meðan seglið og árarnar fluttu farið á miðin, var mikils um vert, að ekki væri langróið. Voru því viðleguplássin oft valin með tilliti til þess, en minna skeytt um aðstöðuna í landi. Heimanræði var frá flestum bæjum í Ögurhreppi, sem að sjó lágu. Auk þess var legið við í verbúðum í Breiðfirðinganesi, Selvík í Ögurhólmum, Garðstaðagrundum, Holubúð í Vigur og Ögurnesinu.
Ekki eru til neinar heimildir um upphaf róðra úr Nesinu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er Ögurnesið talið „tollver“ frá Ögri. Þaðan er þá aðeins gert út eitt skip, en vitað um, að þaðan höfðu gengið þrjú skip nokkrum árum áður, um aldamótin 1700.

Um miðja 19. öldina eru í Nesinu 3-4 stórar verbúðir, sem bændur í nágrenninu áttu. Auk stórrar búðar á Óbótatanga í Ögurvík átti Ögurbúið fjögurra skipshafna verbúð í Ögurnesinu, Stórubúð. Þar voru einnig búðir kenndar við Kálfavík og Skálavík, einnig Tómasarbúð, kennd við bóndann á Hjöllum. Þessar búðir rúmuðu tvær skipshafnir hver. Allar voru þesar búðir portbyggðar með svefnplássi undir skarsúð. Tveir menn munu hafa sofið í hverju rúmi. Lítil, einhólfa eldavél, kabyssa, var á loftum þessum, Þær munu fyrst hafa komið til landsins í gömlu færaskútunum og urðu þannig fyrirrennarar stærri eldavéla. Veiðarfæri voru geymd niðri, og línan beitt þar og stokkuð upp. Einnig var skorið úr skelfiskinum þar inni, þegar kaldast var. Getur Árni Gíslason þess í Gullkistunni, að stundum hafi skeljunum ekki verið mokað út, fyrr en menn voru farnir að reka sig upp í loftbitana. Ekki þarf að spyrja að, hvernig loftslagið hafi verið inni, fyrst eftir þær hreingerningar.

Þessar vönduðu verbúðir urðu því til þess, að byggð festist í Ögurnesinu. Þær gáfu í engu eftir torfbæjunum á kotunum, sem þá voru um allar sveitir við Djúp. Árið 1873 voru fyrstu íbúarnir skráðir til heimilis í Nesinu. Það voru hjónin Jón Árnason, húsmaður, 42 ár, og María Þorsteinsdóttir, 34 ára, og með þeim dóttir þeirra Marta, þá 10 ára. Síðast eru þau á manntali í Nesi árið 1886 og þá talin í „þurrabúð“. Tveimur árum áður, 1884, eru á manntali þar hjónin Gísli Jónsson og Solveig Þorleifsdóttir, hann talinn vera 44 ára en hún 38. Með þeim er sonur þeirra Árni, 18 ára. Árna Gíslason þarf ekki að kynna fyrir Vestfirðingum, en það er sá hinn sami, sem fyrstur Íslendinga lét setja „mótorvél“ í bát sinn, Stanley. Bók hans, Gullkistan, er a.m.k. öllum Djúpmönnum kunn. Gísla og Solveigu má með réttu telja fyrstu landnemana í Ögurnesi. Gísli byggði þar fyrstur hús til íbúðar, og hann hlóð langan grjótgarð umhverfis eina blettinn, sem ræktanlegur var á Nesinu, og hafði nokkrar kindur.

Svo var jarðvegurinn grunnur, að tæpast var torfristu að fá á öllu Nesinu. Hefir það eflaust bjargað aðal leikvangi barna og unglinga, Grundinni, annars hefði hún verið rist öll upp. Torfrista var hins vegar góð í svonefndum Augnavöllum, sem voru rétt innan og ofan við Hamarinn, hinn veglega virkisvegg um byggð Ögurnesinga. Hann náði fram í sjó, hár og breiður með tröllslegu hliði, Skarðinu, sem var rétt fyrir ofan sjávarmálið. Skarðið var hæfilega breitt fyrir tveggja grinda hlið á hagagirðingu Ögurbúsins.

Enginn bæjarlækur er í Ögurnesinu. Aðeins lítil en vatnsgóð lind kemur undan melbarði, sem lá að baki byggðarinnar, Barðinu. Það er forn sjávarkambur. Volg lind kom einnig undan Barðinu nokkru norðar, Laugin. Kringum hana voru lagðir nokkrir stórir hellusteinar, svo þar myndaðist pollur, sem sokkaplögg og vettlingar var þvegið í, og síðan „keppað“ á sléttum steini, sem til þess var ætlaður. Að keppa plögg, hvað er nú það, spyr eflaust keppnisfólk nútímans. Til þess verks var notaður trékeppur, 1-2 tommu þykkur og 3-4 tommu breiður. Á honum var handfang, sem fór vel í hendi. Það, sem þvegið var, var lagt á steininn og barið með keppnum, svo úr því gekk vatn og óhreinindi. Hve vel þvotturinn tókst, fór mikið eftir því, hversu vel var „keppað“. Þegar bílvegurinn var lagður eftir Barðinu, ætlaði einhver góðviljaður maður að hressa upp á gömlu laugina með því að hreinsa hana með jarðýtu. En sú gamla þoldi ekki véltækni nútímans, svo úr henni hefur ekki seytlað síðan.

Hátt fyrir ofan Nesið blasir við há og stæðileg varða, Selagónan. Nafnið eitt segir til um það, til hvers hún var hlaðin, og hvers vegna henni var valinn staður uppi á Miðhálsi. Frá henni sást, þegar selavöður gengu inn Djúpið. Selskutlarar voru margir snjallir við Djúp.

Örnefni voru mýmörg á Nesinu og í umhverfi þess. Mörg af þeim höfðu börnin búið til, því allt þurfti að eiga sín nöfn. Áttaheiti voru lítið notuð í heimahögum mínum. Menn fóru út í Nes og inn í Ögur, yfir að Garðstöðum, ofan í Vigur og Vigurfólk upp í Ögur. Þó fóru Ögurmenn norður í Æðey, en Æðeyingar aftur á móti vestur í Ögur. Þegar rafstöð var sett upp í Ögri, gerði það einn af þessum sjálflærðu meisturum í Skaftafellssýslum, Guðmundur Einarsson. Ég fékk þá virðingarstöðu að vera honum til aðstoðar, sumarlangt. Hann hafði þann leiða sið, að mér fannst, að nota áttaheiti jafnt innanhúss sem utan. Ögurhúsið er 4 hæðir og mörg herbergi á hverri hæð. Þegar ég var svo sendur eftir einhverju, sem átti að vera vestan við borðið í suðurherberginu, þóttu þær ferðir taka lengri tíma en hóf þótti að. Einkunn fyrir slíkar ferðir var, að Guðmundur sagði: „Þú ert nú meiri písarinn, lagsi.“ Þetta orð hefi ég aldrei heyrt, hvorki fyrr né síðar, en skildi þó strax, að það var ekki hrósyrði. Þegar ég skrifa þessar línur, norður í Hörgárdal, horfi ég norður í fjöllin gegnt glugganum mínum. Hér í dalnum eru þau vestan ár.

Að sjálfsögðu sóttu Ögurnesingar aðal lífsbjörg sína í sjóinn, þó sumir ættu nokkrar kindur. Þurftu þeir að fá slægjur handa þeim á ýmsum stöðum, oft all fjarri Nesinu. Ekki minnist ég kartöflugarða þar nema garðs Andrésar Jóhannessonar frá Blámýrum, en hafði keypt hús Gísla Jónssonar, þegar hann flutti úr Nesinu árið 1910. Garður Andrésar var fyrir neðan Laugina og naut yls frá henni.

Á öðrum og þriðja áratug aldarinnar fjölgaði fólki svo í Nesinu, að árið 1922 voru þar skráðir 39 íbúar, og árið 1925 voru þeir 44. Þá voru alltaf nokkrir menn þar, sem unnu við útgerð heimamanna, en áttu lögheimili sín annars staðar. Fram til ársins 1910 verkaði hver skipshöfn sinn eigin fisk til útflutnings. En það ár hóf Bjarni Einar fiskmóttöku í Ögurnesi fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði. Var þá byggt stórt fiskverkunarhús í Nesinu, Salthúsið. Það var portbyggt með háu risi. Á Salthúsloftinu bjuggu oft vertíðarmenn og verkamenn við fiskinn. Skrifstofa fiskmóttökumanns var þar einnig og afgreiðsla smávarnings frá versluninni á Ísafirði. Í þá daga þótti þetta stórhýsi. Nokkru síðar var byggt fiskmóttöku- og flatningshús. Það var með steinsteyptu gólfi, vel pússuðu, og því alltaf kallað Planhúsið. Í Salthúsinu var trégólf. Man ég eftir því, að ball var haldið þar. Ekki var ég orðinn ballfær þá, en man eftir þessu vegna þess, að allir „dönskuskórnir“ Ögurfólksins, sem allir fóru gljápússaðir og svartir á ballið, komu snjóhvítir heim af saltinu úr gólfinu. Var þó ekki sparað vatnið við undirbúning ballsins.

Lengi reru 10-12 bátar úr Ögurnesinu á vorin, og auk þess lögðu þar upp afla sinn bátar úr nágrenninu og allt norðan frá Snæfjallaströnd. Bjarni Einar hafði því oft marga menn í vinnu, oft bændur úr nágrenninu, sem margir voru góðir flatningsmenn, enda flestir verið sjómenn á yngri árum. Þótti þeim gott að fá sér nokkrar krónur, meðan hlé var á heima milli heys og grasa.

Saltið var flutt frá Ísafirði á 10-12 tonna bátum, stundum stærri. Var það flutt laust í lest ení pokum á dekki, sem notaðir voru til að selflytja saltið upp í fjöruna. Þaðan var það borið á bakinu upp í Salthús, sem var all langan spöl frá lendingunni. Þar sturtuðu menn því fram af sér í saltstíuna en til þess að geta það, þurfti að ganga upp nokkur þrep. Sóst var eftir að fá að komast í saltuppskipun, þó erfið væri. Fyrir hana var greitt hærra kaup en við aðra vinnu, 1 kr. á tímann, í stað 75 aura. Það var mikið keppikefli fyrir fríska stráka að fá að vera með. Sá, sem taldist „pokafær“, var þar með talinn í hópi karlmanna en ekki stráka. Venjulega var saltfiskur sendur til Ísafjarðar til fullverkunar með sömu bátunum og komu með saltið. Hann var borinn um borð í árabátana á handbörum, staflað þar lauslega, fluttur um borð og staflað þar aftur í lestina. „Að vera í lest“ var talin vinna fyrir börn og unglinga, enda fyrirferðarminni í þessum þröngu lestum. Þótti það virðingarstaða.

Í Ögurvíkinni var einnig fiskmóttaka, sem Einar Guðfinnsson í Bolungarvík rak þar. Þegar dekkaðir vélbátar komu til sögunnar í Inn-Djúpinu, var engin aðstaða í Ögurnesinu til að láta báta „liggja frammi“ milli róðra, en í Ögurvíkinni var og er besta bátalægi. Nú er þar bryggja fyrir Djúpbátinn.

Inn-Djúpsmenn brúuðu bilið milli árabátatímabilsins og mótorbátanna með utanborðsvélum, sem oftast gengu undir nafninu „rassmótorar“. Þetta voru eingöngu sænskar Penta vélar. Þær voru festar á slár, sem boltaðar voru á skut bátanna. Frá slánum voru hliðarfjalir festar fram í borðstokkana. Botn var settur í þríhyrningana, sem við þetta mynduðust. Var þá komið nokkurs konar hekk. Þessar vélar voru all kraftmiklar og höfðu þann stóra kost, að lengja mátti á þeim öxulinn með einu handtaki. Þannig var hægt að flytja þær milli misstórra báta eftir hentugleikum. Flestir áttu a.m.k. tvo báta, sexróinn bát og fjórróna skektu. Vélar þessar voru viðkvæmar fyrir bleytu og voru því vandmeðfarnar í ágjöf. Ekki var hægt að bakka þeim, og svo voru þær það harðgengar, að ekki var hægt að andæfa með þeim við lóðadrátt nema all hvasst væri. Ég reri eina vorvertíð með Pálma Gíslasyni á svona úthaldi. Þar var aldrei neitt til vandræða. Ótrúlegt var, hvað Pálma tókst að verja vélina fyrir ágjöf, sem ekki var sjaldgæft á svo litlu fari. Væri veður súldarlegt að kvöldi, bar hann vélina inn í eldhús. Þar átti hún sína slá, sem hún var fest á. Vélin var því alltaf þurr og heit með hreinu kerti, þegar til þurfti að taka, og því aldrei tafsamt að gangsetja hana. Þannig var öll umgengni þar á bæ.
Lengi gengu 3 dekkbátar úr Ögurvíkinni. Fyrstur kom með dekkbát í Ögurvíkina Hjörtur í Ögri. Reri hann einnig nokkrar vertíðir í Bolungarvík á þeim bát. Þegar Hjörtur tók að sér fiskmóttökuna fyrir Einar Guðfinnsson, var báturinn seldur til Bolungarvíkur.

Laust eftir 1920 byggði Hermann Hermannsson íbúðarhús fyrir ofan Óbótatanga. Nefndi hann hús sitt Svalbarð, venjulega kallað á Barði. Átti hann fyrst tvo árabáta og notaði á þá utanborðsmótor, þegar sú öld gekk í garð. Síðar keypti Hermann góðan dekkbát, „Hermóð“, sem hann gerði út í Ögurvíkinni, meðan hann átti þar heima. Árabáta sína átti hann alla tíð. Skektan var nauðsynleg, þar sem engin bryggja var í Víkinni og bátarnir urðu því að liggja frammi á legu milli róðra. Fiskurinn var jafnan fluttur í land og slægður í fjörunni upp úr árabátunum. Sexróni báturinn var notaður sem plógbátur. Þótt Inn-Djúpsmenn keyptu kúfisk á seinni árum, fóru menn „í fjöru“, þegar skelfisk vantaði. (Menn fóru að plóga kúfisk en plægja þúfurnar). Kona Hermanns Hermannssonar var Salóme Gunnarsdóttir. Á Barði komu þau hjón upp 11 mannvænlegum börnum. Fjölskyldan flutti til Ísafjarðar árið 1945.

Þórður Ólafsson frá Strandseljum byggði hús utan við Barðslækinn, innan við Skothúsnesið, og nefndi það í Odda. Útgerð hans þróaðist á líkan veg og útgerð Hermanns. Var mikil og góð samvinna milli þeirra nágrannanna og einnig þeirra annarra, sem gerðu út í Víkinni. Kona Þórðar í Odda er Kristín Helgadóttir frá Skarði. Þeirra börn eru fjögur. Húsið í Odda brann til kaldra kola árið 1943. Flutti fjölskyldan eftir það til Ísafjarðar og síðar til Reykjavíkur.

Þórarinn Guðmundsson flutti úr Ögurnesinu inn í Víkina með bát sinn, sem var of erfiður til setnings í Nesinu. Þórarinn hafði keypt gamla þinghúsið á Óbótatanganum, sem hætt var að nota, eftir að Ungmennafélagshúsið leysti það af hólmi. Þinghúsið lét Þórarinn stækka og bæta og nefndi Sólheima. Hann Þói Guðmunds sá alltaf til sólar, þó eitthvað syrti að í bili.

Tveir bændur í Skötufirði, þeir Pétur Finnbogason á Hjöllum og Óskar Þórarinsson á Skarði, gerðu báðir út dekkbáta. Þegar róið var á innmið, lögðu þeir upp fisk sinn í Ögurvíkinni, en væri sótt út í Djúp, lögðu þeir upp fiskinn, þar sem best lá við.

Inni á Garðsstaðagrundum höfðu Garðsstaðabændur lengi átt verbúð. Þar settust þau að hjónin Kristján B. Jónsson og Elísabet Hermannsdóttir. Þau höfðu búið í Þernuvík. Kristján reri vor og haust úr Grundunum en stundaði aðra vinnu þar fyrir utan. Þegar Alfons Hannesson flutti í Grundirnar, byggðu þeir Kristján saman nýtt hús, þar sem þeir bjuggu hvor í sínum enda. Fimm börn Kristjáns voru öll uppkomin, þegar Grundirnar fóru í eyði. Alfons flutti til Bolungarvíkur árið 1944. Kona Alfonsar var Hansína Hansdóttir, sem alin var upp að nokkru í Ögri. Þau hjón áttu mörg börn, sem öll voru í ómegð á þessum árum. Alfons var lengi á bátum í verstöðvum ytra og einnig í Ögurvík, uns hann sjálfur eignaðist bát, sem hann reri á úr Grundunum og seldi fisk sinn í Ögurvíkinni.

Hjörtur í Ögri annaðist fiskmóttökuna í Ögurvíkinni fyrir Einar Guðfinnsson. Vinnubrögðin þar voru nær þau sömu og hjá Bjarna mág hans í Ögurnesinu. Aðstaðan við sjóinn var þó öll miklu betri í Ögurvíkinni. Kjörgripi höfðu þó Ögurnesingar, sem ekki voru til í Víkinni. Þar var „bringingarbátur“, og líka „lausabryggja“. Úr gömlum, bikuðum, sexæringi, sem hét Skálholtið, höfðu verið teknar báðar miðþófturnar og rúmið milli hálsþóftu og skutþóftu klætt með borðum, innan á böndin. Lausabryggjan var dregin fram í fjöru við út- og uppskipun. Frá henni voru lagðir tveir plankar upp í kambinn, og eftir þeim var rogast með börur og poka. Stundum urðu smá óhöpp í þessum ferðum, sem krökkunum þótti fengur í að horfa á. Í Ögurvíkinni var að vísu til „búkki“. Það var langur sliski úr tveimur breiðum plönkum, sem undir voru tveir búkkar misháir, þannig að undir fremri endanum var mun hærri búkki en undir þeim, sem grynnra stóð. Hallinn á fjörunni var nokkuð jafn og var hæðarmismunurinn miðaður við það. Þess vegna var þessi „bryggja“ nokkurn veginn lárétt, hvernig sem stóð á sjó.

Fiskmóttaka lagðist alveg niðurá þessum stöðum snemma á stríðsárunum 1939-45, því þá var allur fiskur fluttur ísaður til Bretlands með stórum skipum. Skip þessi lágu annað hvort á Ísafirði eða Bolungarvík. Þegar bátarnir úr Inn-Djúpinu reru á útmið, sem oft var á vorin, lögðu þeir fisk sinn beint í þessi skip. Væri róið á miðin nær heimaslóðum, voru bátar sendir inn á Ögurvík og tóku aflann þar. Var fiskur hvers báts vigtaður þar. Eftir að útgerð dróst saman í Nesinu og nágrenninu, og aðeins þrír bátar voru í Ögurvíkinni, höfðu þeir félagar þann háttinn á, að þeir skiptust á um að fara með fiskinn úteftir. Fór þá hver formaður á sínum bát og með honum sinn maðurinn af hvorum hinna. Fiskurinn varð að vera aðskilinn í bátnum, sem flutti, því ekki var hægt að vigta hann fyrr en í móttökuskipinu. Þó afli væri oft rýr, var þó báturinn, sem flutti, oft þrauthlaðinn. Væri skaplegt veður, var fiskinum kastað milli bátanna frammi á miðunum. Bátar Ögurvíkinganna voru um og yfir 3 tonn, og voru þessar ferðir oft harðsóttar í skammdeginu, þó aldrei yrðu slys af. Þarna voru úrvals sjómenn að verki.

Inn-Djúpsmenn notuðu ljósabeitu, einkum grásleppu, nokkuð fram yfir aldamót, og alltaf mun kræklingur hafa verið notaður með. Eftir að kúfiskplógurinn kom til sögunnar, var kúfiskurinn mest notaður. Víða má finna fróðleik um öflun og notkun skelbeitunnar, og frægt er stríðið um kúfisklínuna milli Út- og Inndjúpsmanna, og verður því ekki orðlengt um það hér.

Ögurnes ber minjar þess enn eftir nær hálfrar aldrar skeið, síðan skelfiskur var notaður þar síðast, hver ódæmi hafa verið notuð þar af þeirri beitu. Varla verður sagt, að í Nesinu hafi verið stigið svo út úr dyrum, að ekki hafði verið gengið á skeljabrotum. Mér verður hugsað til mæðranna þar, sem þurftu að láta börn sín ganga á sauðskinnsskóm, og skæða þurfti allt að 20 fætur á sama heimili. Ekki hefir haföldunni enn tekist að skola burt þessum fornu minjum. Hún hefir þó ekki „sofið við sanda“ þar, þó fólkið færi.
Þegar kom fram á annan tug aldarinnar, hafði íbúum í Nesinu fjölgað svo, að um 20 börn innan fermingaraldurs voru þar. Þá réðu fjölskyldurnar í sameiningu til sín kennara á eigin kostnað. Man ég best eftir Kristjönu Helgadóttur frá Skarði. Eftir að ungmennafélagið í Ögurhreppi, U.M..F. Framsókn, hafði byggt samkomuhúsið sitt í Ögurvíkinni, hófst skólahald þar á vegum hrepps og ríkis. Gengu börnin úr Ögurnesinu þangað á hverjum degi. Þá höfðu bæst í hópinn börn lengra að komin, sem komið var til dvalar í Nesinu og Víkinni, meðan þau voru í skólanum. Börnin úr Nesinu og Grundunum höfðu með sér nesti í skólann og fóru því ekki heim, fyrr en skóla var lokið þann daginn. Matartíminn var mikil gleðistund. Börnin, sem skruppu heim í matinn, voru fljót í förum. Var þá ekki alltaf hljótt í salnum, þangað til kennarinn kom. Ekki var að því fundið, þó hann tefðist stundum. Skólinn í Ögurvíkinni var talinn til farskóla, þó kennt væri alltaf á sama staðnum, 6 mánuði hvern vetur. Þó var sú undantekning á, að ég kenndi í Vigur eitt haust til jóla.

Guðmundur Vernharðsson frá Hvítanesi kenndi í Ögurvíkinni frá byrjun skólahalds þar og þar til, að hann fór í Öldungadeild Kennaraskólans, þar sem hann lauk kennaraprófi með ágætum, vorið 1934. Ég var þá í gagnfræðaskóla í Reykjavík, og bjuggum við Guðmundur saman. Nauð ég því leiðsagnar hans einn vetur umfram þá fjóra, sem hann var kennari minn í Ungmennafélagshúsinu. Að loknu gagnfræðaprófi tók ég að mér kennslu í hreppnum og var þar kennari, þangað til skólinn var lagður niður, að undanteknum vetrinum sem ég var í Kennaraskólanum og lauk þaðan prófi, vorið 1937. Að loknu skólaárinu 1944-45 var skólinn í Ögurvíkinni lagður niður, en þá voru ekki nema 10 börn, sem sóttu skólann reglulega. Allt skyldunám í Djúpinu innan Súðavíkur var sameinað Reykjanesskólanum. Hann hafði þá starfað í nokkur ár undir stjórn Aðalsteins Eiríkssonar.

Síðustu nemendurnir, sem sóttu skólann úr Ögurnesi, voru tvær stúlkur: Sigríður systir mín og Hulda, dóttir Pálma Gíslasonar og Guðfinnu Andrésdóttur, er síðust kvöddu Ögurnesið. Í Ungmennafélagshúsinu var ég 14 vetur, fyrst sem nemandi og síðar kennari. Þaðan á ég því ótal minningar og allar góðar. Margar stundir aðrar í þessu húsi eru líka eftirminnilegar: Allir fundirnir og böllin, sem alltaf stóðu til morguns, að ógleymdri leikstarfseminni sem tók oft mikinn tíma, einkum fyrir þá, sem fær bjuggu. Þegar svo bar undir, að leika þurfti um hásláttinn, kom fyrir, að æfingarnar urðu ekki eins margar og þurft hefði. Listgagnrýnendur voru ófæddir þá, og allir skemmtu sér vel. Drep ég á þetta hér í þeirri von, að gamlir vinir og kunningjar frá þessum árum, sem línur þessar lesa, hverfi sem snöggvast í huganum til þessara löngu liðnu stunda.

Áður en skólinn tók til starfa í Ögurvíkinni, voru hópleikar barna í sveitinni nær óþekktir, þar sem stjálbýli var mikið. Eftir að fólki fjölgaði í Ögurnesinu, var öðru máli að gegna þar. Þótti okkur krökkunum í nágrenninu mikið sport í því að fá að fara út í Nes um helgar og „fá að vera með“. Þar var hægt að „skipta liði“. Helstu boltaleikirnir voru „stå“, „yfir“ og slagbolti. Þegar farið var í „yfir“, voru húsin valin eftir færni þátttakenda. Salthúsið var ekki nema fyrir úrvalslið. Busarnir drógu illa yfir svo hátt hús og voru bráðónýtir að grípa há köst, enda skotnir strax, þar sem þeir dratthöluðust á eftir öllum hinum, þegar hlaupið var. Slagbolti var uppáhaldsleikurinn og Grundin sjálfsagður leikvöllur. Þótti mikill fengur að fá einhverja fullorðna til að vera með. Minnumst við best Bena Helga, en svo var þúsundþjalasmiðurinn okkar jafnan nefndur. Kom hann þá með stýrissveifina af skektunni sinni, sem var úr eik og tággrönn. Sló Beni þá stundum boltanum eftir Grundinni endilangri. Gátu þá jafnvel busarnir hlaupið milli marka, aftur og fram, á einu höggi.

Skeljar settu svip sinn á „bú“ barnanna í Nesinu. Auk þess voru kúfskeljar, – auðvitað sagði enginn kúf-skel, – notaðar í „kappaleik“. Keppendur voru tveir, og safnaði hvor þeirra tilteknum fjölda kúfskelja. Valdar voru þykkustu skeljarnar, og voru það kapparnir. Annar keppandinn lagði eina skel á stein eða trékubb, en hinn sló á hana með sínum kappa. Sá vann í það skiptið, sem heila átti skelina. Þannig var skipst á, þar til annar hvor hafði misst lið sitt allt. Góður kappi var metfé, sem borgaður var háu verði, ef falur var. Kaupverðið var oftast einhver hlutur, sem eigandi kappans hafði ágirnd á, því krónur voru ekki í hvers barns vasa í þá daga. Einnig var keppt í því, hver gæti þeytt kúfskel lengst. Til þess að ná færni í þeirri list þurfti bæð þjálfun og þrek. Ekki var þessi leikur með öllu hættulaus, því skel, sem lenti í einhverjum, jafnvel þó hann væri í nokkurri fjarlægð, gat skilið eftir sig svöðusár, og bar margur ör eftir. Þessara leikja get ég öðrum fremur vegna þess, að þeir eru nú flestum gleymdir, einnig boltaleikirnir.

Hamarinn var vettvangur ýmissa leikja svo sem feluleiks og ræningjaleiks, auk þess sem klifur var mikið æft. Bagaði þá sundlið margan kappann, sem mikillátur var niðri á jafnsléttunni. Öfluðu menn sér lofs eða háðs, hver eftir færni sinni. Var mönnum ekki sama hverjar undirtektir áhorfenda voru, sem margir voru stuttpilsungar.

Það er nokkur upplifun að koma heim á æskustöðvarnar eftir að hafa verið á öðrum landshornum marga áratugi. Myndirnar, sem minningin geymir frá æskustöðvunum, standast ekki lengur viðmiðun fullorðinsáranna. Reyndar hefir fjarlægðin ekki gert fjöllin við Djúp blárri en þau eru enn, en tíminn hefur smækkað fyrir manni hlutina. Hvar er nú bratta brekkan, þar sem hengjan var, sem maður þaut niður á skíðunum, eins og að drekka kalt vatn? Ekki er þessi skora gjáin, sem hann Skari klifraði upp með kolapokann á bakinu. Þá var það Skessuketillinn, – þetta gímald, sem er fremst á Hamrinum, fullt af sjó og hálu slími. Það var betra að detta ekki ofan í hann, óvíst að maður kæmist upp úr honum aftur. Mikið virðist hann hafa látið á sjá og skroppið saman. Þetta eru að vísu nokkur vonbrigði, en hvað eru þau móti öllu því flóði bjartra minninga, sem að manni þyrpast, þegar komið er á þessar slóðir. Þegar kemur svo að því að festa eitthvað af þeim á blað, er úr vöndu að ráða. Hverju á að sleppa og hvað á að láta fljóta með?
Bið ég þá vel að virða, sem þetta lesa.

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli