Frétt

Guðmundur Guðmundsson / Ársrit 1999 | 28.12.2001 | 11:34Hnífsdalur í upphafi aldarinnar

Byggðin í Hnífsdal á fyrstu áratugum aldarinnar, séð frá Hnífsdalsvíkinni.
Byggðin í Hnífsdal á fyrstu áratugum aldarinnar, séð frá Hnífsdalsvíkinni.
Hraun í Hnífsdal sumarið 1969. Ljósmynd: Ingólfur Davíðsson.
Hraun í Hnífsdal sumarið 1969. Ljósmynd: Ingólfur Davíðsson.
Búðarhyrnan, Heimabæjarhúsin og byggðin við ána í Hnífsdal.
Búðarhyrnan, Heimabæjarhúsin og byggðin við ána í Hnífsdal.
Áhöfnin á vélbátnum Páli. F.v.: Albert Ingimundarson, Borgar Guðmundsson, Halldór Pálsson,formaður, Helgi Tómasson, Jóhann Júlíusson og Tómas Helgason.
Áhöfnin á vélbátnum Páli. F.v.: Albert Ingimundarson, Borgar Guðmundsson, Halldór Pálsson,formaður, Helgi Tómasson, Jóhann Júlíusson og Tómas Helgason.
Uppdráttur af verslunarlóðinni í Hnífsdal frá 1908. Teikning eftir Samúel Eggertsson.
Uppdráttur af verslunarlóðinni í Hnífsdal frá 1908. Teikning eftir Samúel Eggertsson.
Byggðin í Hnífsdal um 1930.
Byggðin í Hnífsdal um 1930.
Mb. Guðmundur í eigu Magnúsar Guðmundssonar í Hnífsdal.
Mb. Guðmundur í eigu Magnúsar Guðmundssonar í Hnífsdal.
Hraun í Hnífsdal sumarið 1969. Ljósmynd: Ingólfur Davíðsson.
Hraun í Hnífsdal sumarið 1969. Ljósmynd: Ingólfur Davíðsson.
Búðarhyrnan, Heimabæjarhúsin og byggðin við ána í Hnífsdal.
Búðarhyrnan, Heimabæjarhúsin og byggðin við ána í Hnífsdal.
Áhöfnin á vélbátnum Páli. F.v.: Albert Ingimundarson, Borgar Guðmundsson, Halldór Pálsson,formaður, Helgi Tómasson, Jóhann Júlíusson og Tómas Helgason.
Áhöfnin á vélbátnum Páli. F.v.: Albert Ingimundarson, Borgar Guðmundsson, Halldór Pálsson,formaður, Helgi Tómasson, Jóhann Júlíusson og Tómas Helgason.
Uppdráttur af verslunarlóðinni í Hnífsdal frá 1908. Teikning eftir Samúel Eggertsson.
Uppdráttur af verslunarlóðinni í Hnífsdal frá 1908. Teikning eftir Samúel Eggertsson.
Byggðin í Hnífsdal um 1930.
Byggðin í Hnífsdal um 1930.
Mb. Guðmundur í eigu Magnúsar Guðmundssonar í Hnífsdal.
Mb. Guðmundur í eigu Magnúsar Guðmundssonar í Hnífsdal.
Skálavíkurnafnið gæti trúlega verið komið til af því, að í fjöllunum sem umlykja Hnífsdal eru fimm „skálar“ – Bakkahvilft, Miðhvilft, Fremstahvilft, Grjóthvilft og Lambaskál. Milli Bakkahvilftar og Miðhvilftar er fell eitt mikið, sem ber heitið Þórólfsgnúpur. Það rennir frekari stoðum undir þá tilgátu, að þarna hafi staðið landnám Þórólfs brækis. Í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, 8. árg., bls. 9, skrifar Ólafur Þ. Kristjánsson um landnám í Skutulsfirði og telur þar líkur fyrir svipaðri niðurstöðu. Hvenær Skálavíkurnafnið hefur verið lagt af og staðarheitið Hnífsdalur tekið upp er óljóst.

Neðri- eða Stærri-Hnífsdalur kemur fyrst við sögu í skjallegum heimildum árið 1562. Þá endurnýjuðu þeir Jón Þorsteinsson og séra Jón Þórðarson kaupmála er þeir höfðu gert fimm árum áður og seldi klerkur þar nafna sínum jörðina gegn því að hann annaðist þrjú bróðurbörn hans uns þau yrðu matvinnungar. Hafði Jón Þorsteinsson annast börnin fimm undangengin ár. Miklu hefir séra Jón Þórðarson viljað kosta til þess að sjá frændsystkinum sínum farborða er hann lætur svo góða jörð sem Hnífsdal þeim til uppeldis. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1710 er Neðri-Hnífsdalur sagður 24 hundraða jörð, heimajörðin 16 hundruð og hjáleigurnar tvær, Búð og Hraun, 4 hundruð hvor. Í athugasemdum Árna og Páls segir, að útræði hafi löngum verið mikið úr Hnífsdal og jörðin ein hin besta í sveitinni. Áður hafi þrjár vermannabúðir staðið þar en séu nú (1710) allar í eyði. Guldu vermenn landsdrottni venjulegan vertoll. Í Seljadal á Óshlíð átti Hnífsdalur tvö uppsátur að sögn Jarðabókarinnar, Róminn og Selvör. „Í Rómnum eru þrjár vermannabúðir, aðrar þrjár eru af grjóti afteknar. Í Selvör tvær.“ Vermenn þar á hlíðinni greiddu einnig venjulegan toll. Hinar fornu verstöðvar úti á Óshlíðinni voru mikil hlunnindi þótt grjóthrun og skriðuföll gerðu þar tíðum mikinn usla. Þaðan var mun skemmra til miða en úr Hnífsdalsvör.

Í Seljadal má enn sjá búðatóftir á sjávarkambinum. Örnefni frá þeim tíma eru til staðar. Klettur í fjöruborðinu heitir Páfinn, framundan þar sem stóð verbúðin Róm. Hún stóð fram yfir síðustu aldamót, var rifin og nokkuð af timbrinu úr henni flutt til Ísafjarðar og notað í íbúðarhús er þar var byggt. Var húsið nefnt Rómaborg og er nú húsið nr. 23 við Sundstræti. Í ævisögu Jóns Indíafara er sagt frá því, að hann hafi róið í Róm í Seljadal og mun því hafa verið róið þaðan í byrjun sautjándu aldar. Hnífsdælingar stunduðu einnig útróðra frá Kálfadal, sem er litlu utar á Óshlíðinni en Seljadalur. Íbúðarhús stóð lengi í Hnífsdal þar sem Félagsheimilið er nú. Það var áður verbúð í Kálfadal. Hún var rifin um aldamótin og byggð upp í Hnífsdal og ávallt kölluð Kálfadalsbúð.

Þegar Óshlíðarvegurinn var lagður munu allar búðatóftir í Kálfadal frá þessum tíma hafa verið afmáðar. Til er vísa frá því róið var úr Kálfadal:

Brim þar óðar brýtur sval,
bannar ró og næði.
Kvöl er að róa úr Kálfadal
og koma af sjó um flæði.

Greinarhöfundi var sagt að tilurð vísunnar væri sú, að þannig háttaði til með lendinguna í Kálfadal að vörin gekk inn á milli klappa í flæðarmálinu. Í þeim voru pollar þar sem sjór sat í um fjöru. Aflann þurfti að bera upp brattan malarkambinn að verbúðunum. Það þótti því hagræði að því að koma úr sjóferð þegar lágsjávað var (fjara). Þá var gert að fiskinum í lendingunni og hann þveginn upp úr pollunum. Var þá minna að bera upp fjörukambinn.

Á unglingsárum mínum í Hnífsdal var ég samtíða mönnum, er stundað höfðu róðra frá þessum verstöðvum á Óshlíðinni, þar á meðal Sigurði Jónssyni, er lengi bjó í Bugnum, og Páli Níelssyni, er bjó innst á Stekkjunum. Báðir voru þeir formenn á sexæringum og farnaðist vel. Þó að útræði muni hafa verið stundað frá Hnífsdal meira eða minna frá því er efnt var til búsetu þar, er staðurinn ekki talinn til verstöðva í annálum fyrri alda. Bolungarvík er frá landnámi talin meiri háttar verstöð og kemur víða við sögu. Það var jafnan meiri aflavon á ytri miðum Bolvíkinga. Í bók Jóhanns Bárðarsonar, Áraskipum, segir: „Bolungarvík mun vera elzta verstöð á Íslandi. Hún var fram yfir aldamót stærsta veiðistöð landsins.“ Þaðan var styst til miða við utanvert Ísafjarðardjúp og sjaldnar fiskþurrð þar en í innanverðu Djúpinu. Óðalsbændur í Ísafjarðardjúpi sem höfðu yfir miklum mannafla að ráða gerðu jafnan út eitt eða fleiri skip frá Bolungarvík og voru þá oft sjálfir formenn. Þorvaldur Thoroddsen jarðfræðingur ferðaðist um Ísland á árunum 1882–1898 til rannsókna á jarðfræði og landshögum. Ferðabækur hans í þrem bindum hafa að geyma miklar upplýsingar um byggð og landshagi. Sumarið 1887 ferðaðist hann um Ísafjarðarsýslur og segir svo frá í 2. bindi: „Hinn 25. júlí fór ég frá Ísafirði til Bolungarvíkur til þess að skoða surtarbrandinn á Stigahlíð. Skammt fyrir utan Ísafjörð er dalverpið Hnífsdalur. Þar er útræði mikið og snoturt fiskiþorp, eitt hið laglegasta á Íslandi. Í Hnífsdal eru efnaðir menn og duglegir en Bolvíkingar eru fátækir og lítilsigldir og hafa ekki orð á sér fyrir að vera neinir sérstakir snyrtimenn. En vonandi er að þessi gullfallega veiðistaða taki framförum með tímanum.“ Þessi von vísindamannsins átti svo sannarlega eftir að rætast.

Þar sem Bolungarvík hafði um aldir verið ein af stærstu verstöðvum landsins, svo sem vitnað er til hér að framan, er lýsing Þorvaldar Thoroddsens á íbúum og umhverfi ekki í samræmi við það, sem vænta hefði mátt miðað við þau umsvif í sjávarútvegi sem þarna höfðu átt sér stað. Í bókunum Áraskipum, útg. 1940, og Brimgný, útg. 1943, er fjallað um fiskveiðar og formenn í Bolungarvík fyrir og eftir aldamótin. Bækurnar skrifar Jóhann Bárðarson, formaður í Bolungarvík á þessu tímabili, gjörkunnugur öllum staðháttum. Í VII. kafla í bókinni Brimgný er fjallað um aðkomumenn. Þar segir: „Það þarf nú engan að furða á því, þó að þessir aðkomumenn, sem oftast voru fullur þriðjungur og stundum helmingur allra sjómanna í Bolungarvík, væru nokkuð fyrirferðarmiklir þar og drættirnir í heildarsvip veiðistöðvarinnar mótuðust af þeim að einhverju leyti. Ekki er vitað að útróðramenn úr Djúpinu ættu frumkvæði að nytja- eða framfaramálum í Bolungarvík né styddu þeir neinar framfarir þar. Þeir greiddu þar enga skatta, þeir borguðu einu sinni ekki fyrir þau hlunnindi sem Bolvíkingar létu þeim í té. Þeir notuðu til dæmis vatnsból Bolvíkinga, óhreinkuðu þau og þrengdu þar fyrir án nokkurs endurgjalds. Sama er að segja um vegi og annað land, sem þeir þurftu að fara yfir. Vertolla þá, sem þeir greiddu áttu Bolvíkingar ekki, þeir fóru allir út úr sveitinni og urðu Bolvíkingar sjálfir að greiða jafnháa uppsáturstolla. Einu hlunnindi, sem Bolvíkingar höfðu af veru útróðramanna, voru viðskipti þeirra við kaupmenn eftir að verslanir fóru að starfa í Bolungarvík. Þessi viðskipti munu þó ekki hafa verið mikil. Þau stóðu að minnsta kosti ekki lengi, því að vermennskan lagðist niður um sama leyti eða litlu síðar. Hins vegar höfðu Bolvíkingar nokkur óþægindi af þessum góðu gestum og efnahagslegt tjón.“

Að loknum lestri ofanritaðrar frásagnar Jóhanns Bárðarsonar mætti álykta að svo kunni að vera, að arðurinn af fiskveiðunum hafi ekki skilað sér til Bolvíkinga í þeim mæli sem aðstaðan hefði átt að gefa tilefni til. Þarna er ef til vill fengin skýring á því hve illa þeir voru staddir, er Þorvaldur Thoroddsen var þar á ferð í lok síðustu aldar, svo sem fram kemur í lýsingu hans hér að framan.

Þessu var öðruvísi farið hvað viðkom Hnífsdælingum. Um langan aldur hafði ríkt þar eins konar ættarsamfélag. Eignarhald á öllu jarðnæði í dalnum hafði gengið í erfðir innan sömu ættar og nutu íbúarnir arðsins af gæðum lands og sjávar. Landrými bauð ekki upp á það, að aðkomumenn kæmu þangað til útróðra, svo nokkru skipti.

Á árunum 1813–1861 bjuggu í Hrauni í Hnífsdal hjónin Margrét Pálsdóttir og Kjartan Jónsson. Hann var sonur Jóns Jónssonar í Hrauni og höfðu forfeður hans búið í Hnífsdal frá því á 17. öld og margir verið í hópi fremstu manna sveitarinnar. Þau Margrét og Kjartan eignuðust 13 börn og koma fimm þeirra við sögu Hnífsdals eftir 1870, þau Kristján, Elísabet, Margrét, Sigríður og Kristjana. Kjartan í Hrauni átti á sinni tíð allan Hnífsdalinn. Þegar hann var kominn á efri ár skipti hann jarðeignum á milli barna sinna og varð það til þess að þau ílentust öll í dalnum.

Við skiptin kom Bakki í hlut Elísabetar. Hún giftist árið 1856 Þorvarði Sigurðssyni frá Fremri-Hnífsdal og voru þau í Hrauni til 1858, síðan í Neðri-Hnífsdal 1859–1863 en fluttust þaðan að Bakka og bjuggu þar uns Þorvarður lést árið 1895. Þá hélt Elísabet áfram búskapnum um 10 ára skeið með stuðningi Jónasar sonar síns, sem tók þá við jörðinni og bjó á henni til 1945.

Afkomendur Elísabetar og Þorvarðar áttu síðan eftir að taka virkan þátt í þróun atvinnulífs og byggðar fram á fimmta tug tuttugustu aldar. Árið 1877 voru 40 bátar gerðir út í Eyrarhreppi, meiri hluti þeirra úr Hnífsdal og Arnardal. Frá 9. áratugnum hafa engar tölur varðveist um bátaeign Eyrhreppinga, en ein heimild getur þess, að um 1879 hafi „að meðaltali“ gengið nær 40 skip úr Hnífsdal og Seljadal. Hér eru að líkindum einungis taldir bátar, sem voru í eigu hreppsbúa, en ekki getið þeirra, sem gengu til veiða úr hreppnum en voru í eigu utansveitarmanna. Árið 1900 er bátaeign í Eyrarhreppi 44, þar af 4 tveggjamannaför, 16 fjögramannaför og 14 sexæringar.

Þegar farið er yfir manntöl fyrir aldamót vekur athygli, hve margir íbúar eru skráðir á hinum einstöku býlum í Hnífsdal. Árið 1885 eru heimilismenn í Fremri-Hnífsdal 26, Hrauni 22, Bakka 14, Búð 29, Neðri-Hnífsdal 30 og Stekkjum 25. Áður voru Stekkir taldir með Neðri-Hnífsdal.

Hin einstöku býli höfðu ekki miklar landsnytjar, því dalurinn er þröngur. Búfjárafurðir hafa sennilega ekki gefið meira af sér en það, sem nauðsynlegt var til heimilisþarfa. Sjávarútvegurinn hefir því staðið fyrir stórum hluta af tekjuöflun íbúanna, svo sem bátaeignin bendir til. Skammt var á fiskimið Hnífsdælinga á árabátaöld og voru þau innan við hefðbundin mið Bolvíkinga, þar til breyting varð á með tilkomu vélbátanna. Sjósóknin á róðrarbátunum útheimti mikla vinnu og slit á líkamskröftum, enda urðu menn yfirleitt ekki langlífir á þessum tímum, þó að undantekningar væru þar á, svo sem oft vill verða. Eftir róður á miðin og þegar búið var að draga línuna var þreytan oft farin að segja til sín, sér í lagi ef andófið var erfitt. Þá áttu menn fyrir höndum landróðurinn, sem oft gat verið erfiður, sér í lagi ef vindur var mótstæður.

„Það að sitja með átta metra langa ár í höndum, svo að segja alla sjóferðina, oft í vonskuveðri og berja blóðuga baráttuna, er sá mesti þrældómur, sem ég hefi lent í á minni löngu ævi. Oft og mörgum sinnum urðu menn að beita ýtrustu kröftum klukkutímum saman til að ná landi, því að um lífið var að tefla næðist ekki land.“ Þegar að landi var komið var stritinu síður en svo lokið. Þá var eftir að gera að aflanum, slægja og salta og setja á hjalla það sem átti að herða.

Árið 1902 má telja eitt mesta tímamótaár í sögu útgerðar á Íslandi, því 25. nóvember var farið í siglingu á Pollinum á Ísafirði á fyrsta vélbátnum í eigu Íslendinga. Það var sexæringurinn Stanley, í eigu Árna Gíslasonar formanns og Sophusar J. Nielsen verslunarstjóra á Ísafirði. Má lesa ítarlega frásögn af þessum merka atburði í bók Árna Gíslasonar, Gullkistunni, útg. 1944.

Hnífsdælingar létu ekki á sér standa með að tileinka sér þessa nýjung. Hófust þeir handa um að breyta sexæringum sínum þann veg, að hægt var að setja vélar í þá. Var skipt um afturstefni, þeir borðhækkaðir og böndin styrkt fyrir undirstöður vélarinnar.

Hnífsdælingar voru að sumu leyti betur settir en aðrir þegar til þessara framkvæmda kom. Árið 1896 fluttist Ásmundur Ásmundsson bátasmiður til Hnífsdals. Hann var ættaður frá Neðra-Hálsi í Stafholtstungum í Mýrasýslu, hafði ungur lært bátasmíði hjá Brynjólfi skipasmið í Engey.

Ásmundur byggði sér stórt hús á tveimur hæðum og var íbúð á þeirri efri en smíðaverkstæði á neðri hæðinni þar sem hann gat tekið báta inn til viðgerðar. Húsið stóð þar sem félagsheimilið er nú. Þegar Ásmundur gerðist aldraður byggði hann sér annað hús og minna og stóð það framar og nær ánni. Þar hafði hann verkstæði og íbúðarherbergi á sömu hæð. Eldra húsi Ásmundar var síðar breytt í samkomuhús og var þá kallað Ungmennafélagshúsið. Var það um langan tíma aðalsamkomuhús Hnífsdælinga.

Þegar skipakostur við Ísafjarðardjúp breyttist á skömmum tíma úr áraskipum í vélbáta tók Ásmundur mikinn þátt í þeirri framþróun. Hann stóð að breytingum flestra sexæringanna í Hnífsdal og víðar. Þá smíðaði hann fyrstu þilfarsbátana, sem byggðir voru sérstaklega fyrir vélar. Þegar mest var umleikis hjá honum hafði hann jafnan nokkra menn sér til aðstoðar. „Mun ekki ofmælt að Ásmundur hafi átt flestum mönnum meiri þátt í eflingu vélbátaútgerðarinnar í upphafi þessarar aldar.“

Ásmundur var alla tíð einbúi, en hafði lag á því að laða að sér unglinga og veitti þeim tækifæri til að svala athafnaþrá sinni við ýmiskonar föndur á verkstæði sínu, eftir að hann var að mestu hættur að taka að sér verkefni. Undirritaður var nábúi hans í fimmtán ár og einn af unglingunum, sem nutu góðvildar hans. Ásmundur var óáreitinn og lifði í sátt við samtíðina. Utan vinnu stytti hann sér stundir við lestur bóka og átti allnokkurt bókasafn. Hann lést í Hnífsdal 8. janúar 1936, 77 ára.

Eins og fyrr hefir komið fram voru fyrstu vélbátarnir opnir sex-æringar og var því mjög takmarkað hvað hægt var að sækja á þeim á dýpri mið. Þegar vélvæðingu fiskibátanna var fram haldið og menn fóru að láta smíða stærri og dekkaða báta, kom að því að Hnífsdælingar áttu erfitt með að fylgja þeirri þróun eftir til jafns við aðra, vegna lélegrar hafnaraðstöðu er þeir bjuggu við. Hnífsdalsvíkin er grunn og því mikið útfiri. Var því óhægt um vik að lenda stærri vélbátum og hífa þá upp á land að lokinni sjóferð ef ekki gaf til róðra næsta dag, eins og háttur var Bolvíkinga, því þar var aðdýpið meira.

Hnífsdælingar urðu því að fara með bátana til Ísafjarðar þegar ekki var talið fært að láta þá liggja á víkinni. Þeir höfðu sérstök legufæri í Sundunum innan við Norðurtangann, svokallaða „múrninga“, en það voru þung anker og sverar keðjur þar sem bátarnir voru öruggir í öllum veðrum. Þegar svo bar til að komið var úr sjóferð og uppgangsveður var í aðsigi og því ekkert útlit fyrir að gæfi til sjóferðar næsta dag, fóru menn með bátinn í legufærin í Sundunum á Ísafirði.

Áhöfnin fór síðan gangandi út í Hnífsdal, að vetrarlagi oft í ófærð og illa búin til þessarar göngu. Þegar veður var verst var gist á Ísafirði, á Herkastalanum eða annars staðar. Ef tíðarfar var umhleypingasamt gat það komið fyrir að veðurútlit hafði breyst til hins betra að morgni og var þá lagt á Eyrarhlíð á ný til að sækja bátana og búast til sjóferðar. Má nærri geta, að miklir erfiðleikar voru á því að stunda sjóinn við þessar aðstæður.

Er mér næst að halda, að hvergi annars staðar hafi menn þurft að búa við viðlíka aðstöðu. Ef ekki var höfð á því varasemi gat farið illa, því þess voru dæmi að sjólag breyttist skyndilega til hins verra, – „hann reif upp sjó á einni nóttu“ – svo að illfært gat orðið á róðrarbát fram á víkina til að bjarga bátunum. Man ég eftir atburðum þar sem menn lögðu sig í lífsháska undir slíkum tilvikum.

24. apríl 1913 skall á norðanrok með bleytu og kafaldshríð, var veðrið með því versta sem gerist. Fjórir bátar sukku í Hnífsdal og brotnuðu mikið. Hafnleysið varð þess valdandi, að útgerð Hnífsdælinga var ekki samkeppnisfær við það sem gerðist annars staðar á Vestfjörðum, þar sem hafnarskilyrði voru betri. Úr því rættist ekki fyrr en á fjórða tug aldarinnar, þegar hafist var handa og byggð bryggja innan við Skeljavík árið 1931.

Ef brugðið væri upp mynd af því hvernig einn róður gekk fyrir sig, gæti hún litið þannig út: Segjum að ekki hafi gefið til róðra í nokkra daga. Formaðurinn telur fært til sjóferðar og vekur hásetana. Tveir leggja af stað til Ísafjarðar að sækja bátinn, hinir fara að beita línuna. Þegar því er lokið og báturinn er kominn á Víkina er flutningabáturinn settur niður og línan tekin um borð. Sem flutningabátar voru oft notaðir gamlir sexæringar. Þessi bátur er nú skilinn eftir í legufærunum meðan verið er á sjónum.

Sjóferðin hefur gengið vel. Þegar komið er að landi er aflanum kastað yfir í flutningabátinn og róið til lands. Báturinn er síðan hífður upp á kamb og fiskinum kastað upp á „planið“ þar sem gert er að honum. Þegar vel aflaðist þurfti að fara fleiri en eina ferð. Ítrustu varkárni þurfti að hafa við þessa flutninga, sér í lagi ef vindur stóð af Snæfjallaströndinni. Gat þá verið vaðandi bára í lendingunni. Ef bátnum sló flötum fyrir bárunni og sjór komst í hann gat illa farið. Hvað er nú það sem kallað var „plan“, sbr. hér að framan?

Reknir voru staurar niður í fjöruborðið og timbur klætt innan á þá. Þetta voru nokkurs konar kassar með þá hlið opna, sem sneri að landinu. Var síðan fyllt upp með möl og grjóti og yfirborðið lagt steinsteypu. Hæðin afmarkaðist af legu landsins ofan við fjöruna. Á þessum „plönum“ var fiskurinn slægður, hausaður, flattur og þveginn og honum síðan ekið í hjólbörum upp í húsið þar sem saltað var.

Fyrr á árum, áður en fiskimjölsverksmiðjur komu, var öllum úrganginum, hausum, slógi og hryggjum, kastað í fjöruna fram af „planinu“ og varð af mikil maðkaveita að sumarlagi. Man ég að silungur sótti mikið í það æti. Athafnasvæðið var á strandlengjunni fyrir botni víkurinnar. Yst, næst Óshlíðinni, var Bugurinn. Þar var kallað að eiga heima úti í Bug. Þar voru verbúðir og fiskverkunarhús. Þetta var í Búðarlandi. Í Búð bjó upp úr aldamótum Hálfdán Hálfdánarson, þá formaður og síðar hreppstjóri Eyrarhrepps.

Athafnasvæði Hálfdáns var Bugurinn. Rak hann þar útgerð og fiskverkun, einnig nokkra verslun. Eftir 1924 flutti hann útgerð sína og verslun að mestu til Ísafjarðar og gerði þar út stærri báta. Keypti hann land og húseignir í Norðurtanga og byggði þar síðan hraðfrystihús.

Framundan bænum í Búð var Búðarnes. Gaf það dálítið skjól fyrir innri víkina er vindur og sjór stóðu af hafi. Rétt innan við nesið var hin eiginlega og gamla Búðarvör. Kostaði mikla vinnu að halda henni hreinni, þar sem rutt var í gegnum stórgrýti. Þar innar var komið í Heimabæjarvör. Voru „plön“ beggja vegna vararinnar, þar sem Heimabæjarbræður höfðu aðsetur. Þeir voru Halldór, Jóakim og Páll, synir Halldórs Pálssonar og Helgu Jóakimsdóttur, er áður bjuggu í Heimabæ. Páll faðir þeirra andaðist árið 1900, 51 árs að aldri. „Hann var einn stærsti útgerðarmaður í Hnífsdal, gerði um tíma út fimm skip. Jafnframt útgerðinni hafði hann myndarbú í Heimabæ. Páll var almennt virtur af samtíðarmönnum sínum fyrir dugnað og drengskap.“

Helga Jóakimsdóttir stjórnaði búverkum og útgerð að eiginmanni sínum látnum uns synirnir tóku við, en þeir fetuðu allir í fótspor föðurins og gerðust útvegsbændur. Þeir hófu allir formennsku á árabátum um tvítugsaldur og eignuðust síðar vélbáta er þeir komu til sögunnar og áttu allir eftir að koma mikið við atvinnusögu Hnífsdals.

Elstur Heimabæjarbræðra var Halldór, f. 1878. Hann fórst með bát sínum Páli 28. mars 1933. Halldór var ötull sjósóknari, aflamaður, léttur í lund, hafði jafnan gamanmál á vörum í góðra vina hópi. Næstur var Jóakim, fæddur 1879, dó úr lungnabólgu 1914. Hann var formaður á bát sínum Stíganda. Hjörtur Guðmundsson tók við formennsku á Stíganda eftir lát Jóakims. Hjörtur var mjög þægilegur maður í umgengni. Hann rak eigin útgerð fram undir 1940, síðast á bátnum Gylfa. Sá er þetta ritar var vélstjóri hjá Hirti eina vertíð.

Yngstur Heimabæjarbræðra var Páll, fæddur 1883 og lifði til hárrar elli, dáinn 1975. Hann var um margt sérstæður maður, mikill sjósóknari og aflamaður, hélt vel utan um það sem hann hafði með höndum og farnaðist vel. Páll skrifaði dagbók sem er varðveitt. Þar má lesa margt um fyrri daga, atvinnuhætti og daglegt líf.

Sautján ára var ég háseti hjá Páli. Aðrir skipverjar voru Páll og Jóakim, synir hans. Páll gjörþekkti öll fiskimið í og út af Ísafjarðardjúpi. Við ungu mennirnir gengum í skóla hjá honum í þessum fræðum. Heimabæjarbræður gerðu hvort tveggja, að verka sinn afla sjálfir eða selja hann kaupmönnum.

Upp af Heimabæjarvörinni var stór verbúð, kölluð Bræðrabúð. Þar bjuggu aðkomusjómenn uppi en á neðri hæð var aðstaða til að vinna við uppstokkun og beitingu á línunni. Þeir feðgar byggðu fjölskyldum sínum reisuleg hús, raunar stórhýsi á þeirrar tíðar mælikvarða. Páll eldri byggði Pálshús árið 1887 en Brekkuhúsið byggðu þeir Halldór og Jóakim árið 1907. Samhliða sjávarútvegnum voru þeir einnig með nokkurn búskap til heimilisþarfa.

Hið næsta Heimabæjarplani var Valdimar Þorvarðarson með sinn atvinnurekstur og rak jafnframt allstórt bú og verslun. Valdimar var einn systkinanna frá Bakka, er áður getur. Valdimar var fæddur 1864, bjó á Bakka 1888–92 og síðan í Heimabæ til 1942 og rak verslun, útgerð og fiskverkun. Hann var sérstæður í háttum og fór sínar eigin leiðir. Orð fór af því, að hann ætti það til að greiða aðeins hærra fiskverð en aðrir til þess að laða að sér viðskipti. Var talið að það væri ekki vel séð af forráðamönnum bankanna.

Þau urðu örlög Valdimars, að ekið var á hann á götu í Reykjavík og lést hann af afleiðingum þess slyss. Þegar hann var allur lagðist atvinnurekstur hans niður. Sonur Valdimars, Valdimar Björn, var með föður sínum í atvinnurekstrinum þar til yfir lauk. Hann fluttist þá til Reykjavíkur, stundaði þar vörubílaakstur og stóð fyrir útgáfu á bókum um Arnardalsætt og Eyrardalsætt. Árið 1930 byggði Ólafur Andrésson bát fyrir Valdimar Þorvarðarson og hlaut hann nafnið Gamli Valdi. Þessi bátur var um 8–9 rúmlestir með Bolindervél. Hann var þá stærsti landróðrabáturinn í Hnífsdal og hinn fyrsti af bátum í þessum stærðarflokki við Ísafjarðardjúp sem var raflýstur. Olíulugtir og karbítljós voru eingöngu notuð sem ljósgjafar um borð í bátunum fram að þeim tíma.

Næst fyrir innan athafnasvæði Valdimars var Guðmundur Sveinsson með sinn atvinnurekstur. Hann varð fyrstur til að stofna til sveitaverslunar í Hnífsdal 1890, var fæddur að Tungu í Skutulsfirði 4. janúar 1852. „Hann hóf ungur að sækja sjó, var formaður á áraskipi liðlega tvítugur og þótti bæði heppinn og aflasæll. Með ýtrustu sparsemi og dugnaði tókst honum að safna álitlegri peningaupphæð og árið 1885 keypti hann nýtt þilskip frá Noregi og stýrði því sjálfur. Um útgerð þessa skips er annars ekkert vitað og má vera að hún hafi aðeins staðið skamman tíma. Vorið 1882 fékk Guðmundur svo annað þilskip en útgerð þess virðist ekki hafa staðið lengi. Gerði Guðmundur jafnan út nokkra árabáta og er vélbátar komu til sögu festi hann kaup á tveimur slíkum, en hélt þó áfram útgerð árabáta. Guðmundur þótti framfarasinnaður og stórhuga í útgerð sinni. Þegar mest var gerði Guðmundur þannig út 8–10 báta og ein heimild hermir að hann hafi átt 10 verbúðir, stórar og smáar, auk annarra bygginga og mannvirkja.“ Guðmundur Sveinsson og Ingólfur Jónsson skipstjóri voru fyrstir til að setja vél í þilfarsbát við Djúp. Var það vélbáturinn Ingólfur Arnarson en hann var smíðaður í Hnífsdal veturinn 1903–1904.

Efnið í bátinn pöntuðu þeir félagar frá Danmörku. Kom það í aprílmánuði (1903) en þótti ólempið því allt var það ótiltelgt nema kjölefnið. Efnið í stefni og bönd var sent í þeim lengdum sem beðið var um, en með berki og kvistum eins og það var höggvið úr skóginum.

Ásmundur Ásmundsson og Jón Gunnlaugsson tóku að sér að smíða bátinn og tókst þeim svo greiðlega með verkið, að í ágúst sama ár (1904) var því nær lokið. Umboðsmaður vélar þeirrar, er átti að kaupa, var faktor Tangsverslunar S. Nielsen og hafði verið hugsuð 6 hestafla vél. Ingólfi voru nú faldar framkvæmdir í því máli og hugsaði Nielsen að hafa vélina ekki minni en 10 hestöfl, stærri vélar voru þá ekki framleiddar. Hann fékk talsverðar ádrepur hjá ýmsum óviðkomandi mönnum fyrir að ætla að hafa vélina svo kröftuga, álitu þeir að hún mundi rífa bátinn utan af sér og skilja mannskapinn eftir á botninum. En hann var á öðru máli, hafði tekið vel eftir vél Árna og vissi að alltaf var hægt að hemja ganginn í henni. Þessi vél var af sömu tegund og vélin í Stanley, bát Árna Gíslasonar, en hún var aðeins 2 hestöfl.

Sjávarmegin við verslunarhús Guðmundar var aðstaða til þess að gera að fiskinum á Guðmundarplani. Guðmundur hafði alla tíð með höndum umtalsverðan landbúnað. Afurðir sem ekki nýttust til heimilisþarfa voru seldar þorpsbúum.

Árið 1881 byggði Guðmundur sér íbúðarhús. Þetta hús var á þeim tíma reisulegasta einbýlishúsið í dalnum og var mjög vandað til smíðinnar. Þar bjó Guðmundur alla tíð. Húsið stendur enn en hefur nú verið breytt að verulegu leyti. Árið 1892 var lagður sími milli Ísafjarðar og Hnífsdals, svokallaður „Telephon sýslunnar“ með endastöðvum hjá Skúla Thoroddsen sýslumanni á Ísafirði og Guðmundi kaupmanni Sveinssyni í Hnífsdal. Var sá sími reyndur í fyrsta sinn þann 11. sept. 1892. Ekki var sími þessi mikið notaður af almenningi, munu formenn hér (á Ísafirði) þó hafa fregnað um veðurútlit í Hnífsdal, sem betur sást þaðan en frá Ísafirði.

Árið 1915 kom til Guðmundar ungur maður, Einar Steindórsson, þá 19 ára. Einar var sonur Steindórs Gíslasonar og Sigurborgar Márusdóttur, er áður bjuggu að Leiru í Jökulfjörðum en fluttust síðar til Hnífsdals. Bræður Einars voru Hjörleifur og Benedikt Rósi, er báðir áttu eftir að verða áhrifamenn í dalnum. Benedikt var lengi á togurum frá Reykjavík, fór í Sjómannaskólann og gerðist skipstjóri og útgerðarmaður með eigin útgerð á stærri bátum í Hnífsdal.

Einar Steindórsson átti eftir að hafa mikil afskipti af atvinnulífinu í Hnífsdal meðan honum entist aldur. Hann var ungur settur til mennta í verslunarskóla og kom aftur heim að loknu námi og gerðist starfsmaður Guðmundar Sveinssonar. Þegar Guðmundur lést kom tengdasonur hans, Þórhallur Sæmundsson lögfræðingur, að fyrirtækinu en hafði skamma viðdvöl. Þórhallur varð síðar lögreglustjóri á Akranesi um langa hríð.

Það atvikaðist svo, að Einar Steindórsson gerðist eigandi að fyrirtæki fóstra síns, Guðmundar. Stóð rekstur Einars fyrst í Hnífsdal og í sama formi og verið hafði hjá Guðmundi. Þegar lokið var við að byggja bryggjuna innan við Skeljavík byggði Einar þar fiskverkunarhús, er síðar varð hluti af byggingu Hraðfrystihúss Hnífsdælinga.

Guðmundur Sveinsson var elstur þeirra kaupmanna í Hnífsdal síðari hluta nítjándu aldar og fram á fjórðung þeirrar tuttugustu. Hann hafði meiri umsvif en aðrir í heimabyggð. Æviferill Guðmundar er dæmigerður fyrir þá einstaklinga, sem á síðari hluta 19. aldar brutust út úr þröngu bændasamfélagi og létu að sér kveða á þeim vettvangi, sem átti eftir að leiða þjóðina úr fátækt til bjargálna. Hann átti enga ættarfylgju, sem greiddi honum leiðina og varð því að treysta á eigið framtak. Guðmundur lést 31. október 1926.

Elsti sonur Þorvarðar Sigurðssonar og Elísabetar á Bakka var Sigurður, fæddur 27. september 1860. Athafnasvæði hans var á Stekkjunum innan við Hnífsdalsána. Skildi áin að lönd milli hans og Guðmundar Sveinssonar. Sigurður var kvæntur Halldóru, systur Guðmundar. Þau byggðu sér íbúðarhús á Stekkjunum 1890.

„Sigurður byrjaði ungur að sækja sjóinn og hafði verið formaður á árabátum frá 17 ára aldri. Eftir að hann hætti sjómennsku um síðustu aldamót annaðist hann um tíma fiskmóttöku fyrir Ásgeirs-verslun í Hnífsdal. Árið 1907 var veitt heimild til að setja á stofn verslun í Hnífsdal, var þá gefið út verslunarleyfi til handa Sigurði. 1908 hóf hann síðan rekstur verslunar og brauðgerðarhúss. Árið 1916 réðist þangað Alfons Gíslason, er síðar varð tengdasonur Halldóru og Sigurðar, en hann hafði lært bakaraiðn á Ísafirði. Það mun hafa verið í kringum 1912 sem Sigurður og sonur hans Þorvarður hefja útgerð í félagi við Karvel Jónsson skipstjóra, er síðar varð tengdasonur Sigurðar 1915, er hann kvæntist Ólafíu Guðfinnu.“

Brátt urðu mikil umsvif í útgerðinni hjá þeim félögum. Létu þeir smíða þrjá báta í Noregi og Danmörku, Sæfara, 26 brl. 1913, Bifröst, 28 brl. 1915 og Snarfara, 26 brl. 1915. Voru þeir allir gerðir út frá Hnífsdal. Þetta var upphaf tímabils hinna svokölluðu stóru báta. Voru þeir á útilegu með 10–12 manna áhöfn og söltuðu aflann um borð. Þessir bátar færðu sig gjarnan til miða við Snæfellsnes og í Faxaflóa, ef aflavon var meiri þar en á Vestfjarðamiðum, og komu þá oftast með aflann heim til verkunar.

„Jafnframt eigin útgerð stunduðu þeir feðgar, Sigurður og Þorvarður, fiskkaup af öðrum og fiskútflutning. Brátt kom að því að aðstaða til atvinnurekstrar í Hnífsdal þrengdist og varð erfiðari sökum hafnleysis þegar stærri bátar komu til sögunnar. Því varð það úr að þeir feðgar keyptu hálfa Langeyri við Álftafjörð árið 1916 á móti togarafélaginu Græði á Ísafirði. Á Langeyri var gömul hvalveiðistöð og þar var ákjósanleg aðstaða til að reka sjávarútveg í stórum stíl. Fyrst og fremst vegna góðra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi. Kaupin voru gerð í því augnamiði að reka þar stórfellda síldarsöltun, en á þeim tíma veiddist síld í Ísafjarðardjúpi. Sú áætlun brást og keyptu þeir feðgar hlut Græðis í Langeyri 1919. Byggðu þar upp hafskipabryggju og nauðsynleg hús til útgerðarrekstrar og ráku þar síðan mikla útgerð og fiskverkun.“

Árið 1925 keyptu þeir feðgar 98 rúml. gufuskip svo til nýtt. Skipið var skírt Þuríður sundafyllir, skráð frá Hnífsdal en gert út til línuveiða frá Langeyri. Þótti þetta mikið framtak. Mikil umsvif Sigurðar við atvinnurekstur í Hnífsdal og á Langeyri urðu þess valdandi, að hann mátti oft leggja nótt við dag er hann ferðaðist fótgangandi milli staðanna.

Það var honum mikill styrkur að hafa Þorvarð son sinn sér við hlið og því meira áfall er hann féll frá í blóma lífsins 1928, 44 ára. Þorvarður var mikill á velli, svo að eftir honum var tekið, vinsæll af þeim er hann átti viðskipti við. Sigurður hélt áfram atvinnurekstri á Langeyri til 1935. Eftir það bjó hann í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar í Hnífsdal. Hann lést 11. janúar 1950, nær níræður. Eftir andlát Þorvarðar kom það í hlut Alfons að hafa með höndum atvinnureksturinn í Hnífsdal og er Sigurður hætti keypti hann allar eignir hans í Hnífsdal.

Alfons átti eftir að koma mikið við sögu sveitarstjórnarmála, var í hreppsnefnd og hreppstjóri Eyrarhrepps í 25 ár, símstöðvarstjóri í 30 ár. „Alfonsi var margt til lista lagt þótt hann flíkaði því ekki öllu, enda óvenjulega vel gerður maður og svo prúður að af bar.“

Næstelstur sona Þorvarðar og Elísabetar á Bakka var Jónas, fæddur 27. nóv. 1861. Bakki var jafnan talinn höfuðbólið í Hnífsdal. Þar bjuggu höfðingjar sveitarinnar og hafði svo verið um aldir. Þorvarður hóf búskap á Bakka 1863. Hann var mikill áhugamaður um jarðabætur og fékk búfræðinga til að vinna að ræktuninni. Landið var heldur illa fallið til ræktunar, sums staðar grýtt og votlent. „Þegar Þorvarður andaðist í september 1894 tók Elísabet við búsforráðum en sonur þeirra, Jónas, gerðist ráðsmaður móður sinnar. Hann keypti síðan jörðina af henni skömmu fyrir aldamótin.

Jónas var forystumaður í mörgum hreppsmálum, var lengi oddviti hreppsnefndar og kom mjög við sögu helstu framfaramála sveitarinnar. Jónas hóf ungur sjósókn eins og bræður hans en rak síðan um langt árabil umfangsmikla útgerð, fiskverkun og verslun ásamt búskapnum. Fiskreita- og verslunaraðstöðu hafði hann á malarkambinum fyrir innan Stekkina, og lá reiturinn að Innstubúð, er svo var kölluð og var innst verbúða í Hnífsdal, innundir Gjögrum. Rétt fyrir utan reitina var verslunarhúsið sem var einlyft með risi, fremur lítið. Ástæða þess að aðstaða Jónasar var svo innarlega var sú, að landið þar tilheyrði Bakka og hafði Elísabet móðir Jónasar á sínum tíma látið draga fiskihús þangað inneftir til að hafa allt sitt sín megin árinnar.“

„Árið 1898 byggði Jónas upp bæinn á Bakka, reif gamla torfbæinn, sem þar hafði staðið og reisti í hans stað myndarlegt timburhús og var það tvær hæðir með sæmilega manngengu háalofti og kjallara undir.“ Þetta hús hefir nú verið rifið og stendur grunnurinn eftir. Jónas á Bakka var ávallt með talsverð umsvif í landbúnaði enda var Bakki stærsta jörðin í dalnum, svo sem áður er getið. Jónas lét af atvinnurekstri nær áttræður og tók tengdasonur hans, Elías Ingimarsson, við rekstrinum. Jónas lést í Reykjavík 20. des. 1945, 84 ára.

Svo sem fram hefir komið höfðu atvinnurekendur í Hnífsdal flestir verslun með ýmsan nauðþurftavarning. Mun það hafa verið viss þáttur í rekstrinum að hafa aðstöðu til þess að geta að hluta til greitt vinnulaunin með vöruúttekt til heimilisþarfa og fá þannig notið einhvers ágóða af þeim viðskiptum. Varð ekki vart við annað en að þessi tilhögun gengi upp af beggja hálfu. Peningar lágu ekki alltaf á lausu í veltunni. Það má segja, að langt fram á fjórða tug þeirrar aldar, sem senn er á enda, hafi ríkt einskonar bræðra- og vinasamfélag meðal þeirra sem stóðu að atvinnurekstri í Hnífsdal á þessum tíma. Kemur þá upp í hugann „þröngt mega sáttir sitja“, því athafnasvæðið hjá hverjum einum var ekki stórt. Það er ekki ólíklega til getið, að þetta hafi verið einsdæmi hér á landi og ekki var vitað annað en að sambúðin gengi fyrir sig án árekstra.

Þó að hér að framan hafi eingöngu verið getið þeirra, sem voru stærstir í atvinnurekstri í Hnífsdal fyrir og upp úr síðustu aldamótum, voru þó fleiri sem komu þar við sögu. Kjartan Bjarni Guðmundsson, bóndi í Fremri-Hnífsdal, hreppstjóri í Eyrarhreppi um árabil, gerði tilraun til útgerðar, sem að vísu stóð stuttan tíma. „Árið 1897 var þilskipið Margrét, sem Kjartan átti, skráð frá Hnífsdal, 9,98 lestir að stærð og á því voru sex hásetar. Úthaldstími þess það ár var frá 24. maí til 21. ágúst, en aflinn var heldur í lakara lagi og sennilega hefir Kjartan ekki gert skipið út nema þetta eina sumar. Þess er a.m.k. ekki getið í skýrslum eftir það.“

Pétur Tyrfingur Oddsson fluttist til Hnífsdals 1884 og hóf þar útgerð en hafði skamma viðdvöl í dalnum. Hann fluttist til Bolungarvíkur, þar sem hann síðar rak umfangsmikið fyrirtæki og varð máttarstólpi þeirra Bolvíkinga í nær 30 ár. Um æviágrip Péturs má lesa í bókinni Brimgný eftir Jóhann Bárðarson.

Einar Guðfinnsson fluttist í Hnífsdal um áramótin 1919–20 og hóf starfsferil sinn þar með því að standa fyrir fiskmóttöku fyrir Hæstakaupstað hf. á Ísafirði. Í Einars sögu Guðfinnssonar segir:

Það var mikið mannval í Hnífsdal á þessum árum og er ég efins um að meira mannval hafi safnast saman í eitt lítið sjávarpláss ... Á þessum árum gengu frá Hnífsdal 10–12 mótorbátar og margir árabátar á vorin og heildaraflinn sem barst á land var litlu minni en í Bolungarvík. Lokavetur minn í Hnífsdal gerði ég út tvo vélbáta, Styrkár og Elliða, sem ég átti að hálfu á móti formönnunum. Ég sá í hendi mér, að möguleikar mínir til útgerðarreksturs voru meiri í Bolungarvík en í Hnífsdal, og þótt mér væri ekki ljúft að yfirgefa Hnífsdal, ákvað ég nú að gera það og fór að vinna að kaupum á eignum Hæstakaupstaðar hf. í Bolungarvík.“

Þegar Einar fluttist til Bolungarvíkur var hann búinn að vera í Hnífsdal í tæp fimm ár. Hann fann sér ekki olnbogarými í Hnífsdal frekar en Pétur Oddsson, en báðir áttu þessir miklu athafnamenn eftir að marka djúp spor í sögu Bolungarvíkur. Eigi verður þessum skrifum lokið án þess að getið sé manns, er markaði sér ákveðinn þátt í lífsbaráttu Hnífsdælinga á tímabili.

Ingimar Bjarnason var fæddur 8. maí 1877, fór til náms í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og tók þaðan skipstjórapróf 1904. Ingimar var síðan í siglingum utanlands og innan um tíma. Kona hans var Halldóra Halldórsdóttir, Sölvasonar, bónda í Fremri-Hnífsdal. Ingimar bjó um tíma í Fremri-Hnífsdal en fluttist síðar í þorpið. Ingimar var oddviti í Eyrarhreppi til fjölda ára og hafði mikil afskipti af málefnum sveitarfélagsins. Þegar Verkalýðsfélag Hnífsdælinga var stofnað 24. des. 1924 var Ingimar kosinn formaður félagsins og var það til 1935, er hann gaf ekki kost á sér lengur.

Á upphafsárum félagsins var barist fyrir því að atvinnurekendur viðurkenndu rétt félagsmanna til að semja um kaup og kjör. Í þessari baráttu reyndist Ingimar traustur foringi og leiddi liðið til sigurs. Það er athyglisvert, að Ingimar var ekki þátttakandi þarna vegna eigin hagsmuna. Þeir voru á öðrum vettvangi. Þarna var hugsjóna-maður, sem lagði öðrum lið í lífsbaráttunni.

Hamfarir náttúruaflanna settu sitt mark á líf Hnífsdælinga í upphafi aldarinnar. Upp úr áramótum 1910 gekk veður til norðaustanáttar er stóð svo vikum skipti og kyngdi niður miklum snjó. Að morgni 18. febrúar féll snjóflóð úr Búðargili og á sjó út. Flóðið féll á verbúðir er stóðu við sjóinn og fórust 19 manns, þar af voru fimm menn sem voru á gangi á veginum meðfram sjónum og börn á leið í skólann. Einn maður lést síðar af áverkum er hann hlaut í snjóflóðinu. Hinir látnu voru jarðsettir í einni gröf í kirkjugarðinum á Ísafirði. Nærri má geta að þessi atburður hefir haft örlagarík áhrif á lífið í dalnum. Lengi var þessa atburðar minnst með því að fánar voru dregnir í hálfa stöng í Hnífsdal 18. febrúar hvers árs.

Verður þá lokið að sinni að skrá þessi brot úr atvinnu- og byggðarsögu Hnífsdals. Skrásetjara er ljóst, að fleiri hafa komið við sögu en þeir er hér hefir verið getið. Skortir nokkuð á heimildir til að gera því frekari skil. Upp úr 1930, eftir að hafnaraðstaðan var bætt í Hnífsdal, fór stærri bátum að fjölga. Ungir, framsæknir menn komu til starfa og hafa haldið í horfinu til þessa, svo að til fyrirmyndar er.

Heimild: Ársrit Sögufélags Ísfirðinga árið 1999.

bb.is | 20.10.16 | 16:48 Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með frétt Gestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 14:50Er lausaganga almennings bönnuð í Skutulfirði?

Mynd með fréttÍ grein sem birtist á vef Bæjarins besta í gær veltir Hörður Högnason upp þeirri spurningu hvort lausaganga almennings sé nú bönnuð í Skutulsfirði eftir að skilti var sett upp við hina nýju varnargarða ofan við Urðarveg sem bannar umferð gangandi ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 13:23Þorpin þurrkast út með uppboðsleiðinni

Mynd með fréttÞað tæki 2-3 ár fyrir þorp eins og Suðureyri að þurrkast út verði uppboðsleiðin svokölluð að veruleika. Þetta er mat Óðins Gestssonar, framkvæmdastjóra Íslandssögu á Suðureyri. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa síðustu daga birt myndbönd á vefsíðu sinni þar sem varað ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 11:50Grunur um að Þorlákur verði gerður út í verkfallinu

Mynd með fréttVerkfall sjómanna hefst þann 10. nóvember og allur fiskiskipaflotinn verður bundinn við bryggju náist ekki samningar fyrir þann tíma. Í Bolungarvík er verið að gera Þorlák ÍS kláran á snurvoðaveiðar, en báturinn hefur ekki verið á sjó síðan Jakob Valgeir ehf. ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 10:51Grísk haustjógúrt frá Örnu gleður

Mynd með fréttMjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hefur nú sett á markað Gríska haustjógúrt, sem er líkt og nafnið gefur til kynna, árstíðabundin vara. Jógúrtin sem er með handtíndum vestfirskum aðalbláberjum er fallega pökkuð í glerkrukkur líkt og gert var fyrir jólin í fyrra ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 09:36Djúpmannatal komið út

Mynd með fréttLangþráð Djúpmannatal er komið út en í því er að finna æviskrár Djúpmanna frá 1801-2011. Er með því átt við alla þá Djúpmenn sem heimildir herma að hafi á þessu tímabili stofnað til heimilishalds við Djúp í þrjú ár eða lengur ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 09:0135 milljóna bætur vegna Bolungarvíkurganga

Mynd með fréttFjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Vegagerðina til að greiða verktakafyrirtækinu Ósafli 35 milljónir króna í bætur vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng. Verktakafyrirtækið, sem er í eigu Íslenskra aðalverktaka og svissneska fyrirtækisins Marti Contractors, annaðist gangagröft og vegagerð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 07:37Jakob Valgeir og Salting með rúmlega átta prósent kvótans

Mynd með fréttBolvísku útgerðirnar Jakob Valgeir ehf. og Salting ehf. ráða yfir ríflega átta prósentum af krókaaflamarkskvótanum. Stakkavík ehf. í Grindavík er sem fyrr stærsta útgerðin í litla kerfinu, eins og krókaaflamarkskerfið er kallað í daglegu tali. Kvóti Stakkavíkur er 1.928 þorskígildistonn, litlu ...
Meira

bb.is | 19.10.16 | 16:50Muggi og hinir Guðmundarnir verðlaunaðir

Mynd með fréttMarkaðsherferðin Ask Guðmundur hlaut fimm Euro Effie verðlaun við hátíðlega athöfn í Brussel í gærkvöldi, þar sem verðlaunað var fyrir árangursríkustu auglýsingar ársins. Margir muna eflaust eftir herferðinni þar sem hver landshluti tefldi fram sínum eigin „Guðmundi“ og sáust hinir ýmsu ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli