Frétt

Guðmundur Sveinsson | 19.12.2001 | 14:25Fiskverkun á Hafrafellsskeiði

Hér er starfsfólkið stillt upp fyrir myndatöku. Takið eftir hve fiskurinn er stór.
Hér er starfsfólkið stillt upp fyrir myndatöku. Takið eftir hve fiskurinn er stór.
Fiskgeymslan á Skeiðinu. Starfsfólk við breiðslu á fiski. Þessi reitur var nefndur Húsreitur. Bátarnir sem liggja fyrir landi, drógu minni báta, sem fluttu fiskinn inneftir frá Kompaníinu. Annar þeirra er Bolvíkingur, eign föður greinarhöfundar. Myndirnar
Fiskgeymslan á Skeiðinu. Starfsfólk við breiðslu á fiski. Þessi reitur var nefndur Húsreitur. Bátarnir sem liggja fyrir landi, drógu minni báta, sem fluttu fiskinn inneftir frá Kompaníinu. Annar þeirra er Bolvíkingur, eign föður greinarhöfundar. Myndirnar
„Sæmundur hitti að máli Jóhann Eyfirðing. Jóhann sagði, að þeir Halldór Bjarnason frá Viðfirði ættu fisk inni á Skeiði, þeir vildu gjarnan ráða Sæmund sem verkstjóra. Jóhann reið síðan inneftir og kom Sæmundi fyrir í húsnæði og fæði hjá Jóni E. Guðmundssyni, bónda á Hafrafelli í Skutulsfirði. Og um kvöldið fór Sæmundur inn að Hafrafelli með dót sitt. Morguninn eftir fór hann svo út að Skeiði; þess skal getið að Hafrafell er rétt innan við Hafrafellshálsinn, líklega svona fimm mínútna gangur út á Skeiðið. Þá var Halldór Bjarnason þar fyrir, hann var með Sæmundi um daginn, sagðist mundu koma við og við og hafa umsjón með verkinu. Fiskurinn var þveginn niðri við sjó, síðan var hann borinn upp á bakka, upp á Skeiði. Átta stúlkur voru við fiskþvottinn, en bögsulega gekk að fá sumar til að vinna eins og þeim bar. Fiskþvotturinn var ákvæðisvinna og voru nokkrar af stúlkunum mjög óvandvirknar, enda mun það með sanni næst að ekki muni það hafa verið neitt sérstakt úrval úr verkakonum bæjarins, sem þeir höfðu fengið þarna inneftir, Halldór og Jóhann.

Sæmundur heimtaði vandaða vinnu og sló allhart með honum og stúlkunum, en ekki batnaði verkshátturinn að heldur. Ákvað hann þá að reka fjórar úr vinnunni. Halldór kom öðru hverju inneftir, hann fylgdist með því hvernig fiskurinn var þveginn og þegar hann hafði séð, hvernig sá fiskur var útlits sem brottreknu stúkurnar höfðu unnið við sagði hann að Sæmundur hefði helst átt að vera búinn að reka þær fyrir löngu. Ég vildi nú draga það í lengstu lög og var að vona að þær bættu sig, svaraði Halldór. Verkunin gekk yfirleitt heldur illa, veður var óhagstætt, þurrkar mjög stopulir. Þótti Sæmundi fyrir um hve seint miðaði þurrkuninni.“

Dagverðardalur, inn af Ísafirði, er öllum kunnugur, hann endar á dálítilli flatneskju, sem gengur í sjó fram með háum bökkum. Þessi flatneskja er fremur lítil; þar stendur Holtahverfi í dag. Allhátt fjall rís þarna uppaf, sem heitir Kubbi, og endar það með hálsi, eins og ljón sem liggur fram á lappir sínar, og heitir þar Hafrafellsháls. Hálsinn endar á dálítilli grasflöt og heitir þar Hauganes.

Á Hauganesi var í þetta skipti búið að reisa þinghús fyrir hreppsbúa til að mæta til þinga og annarra skemmtana og var það mikið notað til þess. Verkafólk, sem var þarna, frekar fátt framan af, bjó í þinghúsinu.

En fiskverkun á Hafrafellsskeiði, sem var svo kallað til aðgreiningar frá Tunguskeiði, sem var fyrir utan Úlfsá, mun hafa byrjað um aldamót, og mun afi minn, Guðmundur Oddsson, bóndi á Hafrafelli, hafa rekið þarna fiskverkun löngu áður en Jóhann Eyfirðingur byrjaði. Þannig háttar, að þarna eru háir bakkar og þegar ég man fyrst eftir mér var búið að gera plan þarna fyrir neðan og þar voru vöskunarkörin höfð í fyrstunni. Mjög erfitt var að fá vatn þarna og var geymt vatn, eða sjór, sem tekinn var á flóði til að þvo fiskinn uppúr, og var honum ausið í körin og við getum rétt ímyndað okkur hvernig aðstaða stúlknanna hefur verið að vaska þarna fisk, þar sem vatn var líka mjög af skornum skammti.

Gata, smásneiðingur, var lögð upp á bakkann og þar fyrir ofan voru reitirnir og var fiskurinn borinn á handbörum uppá bakkana, uppá reitina. Þessir reitir höfðu ýmis nöfn. Á Skeiði var búið að reisa fiskhús og var sá reitur kallaður Húsreitur, var hann allstór. Þegar ég man fyrst eftir mér var ég í vinnu hjá Sæmundi við að taka upp grjót í Hafrafellshálsi. Því var ekið á hestkerru niður eftir og búinn til reitur, sem var mjög þakinn eggjagrjóti og yfirleitt skófrekur, og var honum gefið nafnið Eggersreitur. Rétt fyrir utan hann var annar reitur, búinn til úr brimmöl, sem ég veit eiginlega ekki hvaðan hefur komið. Á þeim reit þótti mjög gott að vinna og var hann kallaður Frúarreitur. Allstór laut var fyrir utan reitina og var reiðgatan inn í fjörð um hana. Þarna voru ekki klósett eða önnur hreinlætisaðstaða og urðu menn að fara út í lautina til að kasta af sér vatni og hægja á sér, það var vanalega gert neðst í lautinni, niður undir fjöru. Oftast fóru tvær stúlkur saman þarna úteftir og stóð þá önnur vörð og átti að gefa þeirri, sem var að athafna sig, merki, ef einhver kynni að koma. Oft var brosað að þessu og mikið hlegið ef svo hittist á að einhverjir komu ríðandi inneftir. Vegurinn náði þá ekki lengra en inn að Seljalandi og lá þaðan uppeftir Tunguskeiði og þaðan vestur.

Mjög erfitt var að koma fiski að þarna. Smábryggja var gerð fyrir framan planið og fiskurinn fluttur inneftir á nótabátum. Búin var til handgrafin renna, frammeftir fjörunni, en hún er nokkuð löng þarna á Hafrafelli, líklega svona um 80 metrar. Þessi renna kom að miklu gagni því að bátarnir flutu upp þó að ekki væri stórstraumur. Fiskinum var kastað uppúr bátunum, uppá bryggju og hann síðan borinn upp að vöskunarkörunum. Enn brátt sáu menn frammá, að aðstaðan til fiskverkunar á Skeiðinu, gæti trauðla orðið til frambúðar, nema meira vatn fengist. Úr Bröttuhlíð rann lítill lækur niður að Góustöðum og niður Góustaðatúnið, rétt fyrir innan Úlfsárbæinn, sem þá var torfbær. Þar var brunnhús í mínu ungdæmi og þangað sótt vatn, sem notað var til þvotta, en vatn, sem notað var til neyslu var sótt í Úlfsá. Ég minnist þess, að eitt haust tók faðir minn að sér í ákvæðisvinnu, að grafa læknum nýjan farveg og veita honum niður á Hafrafellsskeið. Þetta var gert um haustið til þess að lækurinn gæti hreinsað sig yfir veturinn. Þegar læknum hafði verið breytt voru vöskunarkörin flutt upp á bakkana og stóðu þá rétt á milli Eggersreits og Frúarreits, rétt við lækinn. Þarna var höfð slanga og vatn látið renna upp í vöskunarkörin, sem ég man að aldrei voru fleiri en tvö. Þarna á skeiðinu er næðingssamt í norðanátt á vorin og oft á sumrin og má heita furðulegt að fyrstu árin var ekki haft þarna eitt einasta skýli til að skýla stúlkunum, en síðan var reist skýli, sem segl var breitt yfir.

Fiskverkun á Skeiðinu fór fram á þann hátt, sem algengur var í gamla daga, þegar fiskurinn var orðinn sæmilega þurr var honum hlaðið í háa stafla og látin vera þakmyndun á þeim, síðan voru sett á þá 8-10 tommu breið borð, sem kölluð voru valborð. Á borðin var síðan borið mikið grjót og fiskurinn þannig fergður, því hann varð að vera, að mig minnir, 95% þurr. Fiskurinn var ákaflega fallegur þegar hann kom úr þessum þurrki, snjóhvítur og ef hann var ekki fluttur strax út var honum staflað inn í fiskhúsið. Við fiskhúsið voru síðan byggðir tveir skúrar og þannig aukið húsrýmið til geymslu á þurrum fiski.

Þannig var sú aðstaða, sem ég man helst eftir á Hafrafellsskeiði. Sæmundur Sæmundsson var verkstóri stuttan tíma. Hann fór og gerðist skipstjóri á Kára. Þá minnig mig að hafi komið maður, sem hét Jón Kristjánsson og var kenndur við Læk. Hann tók við verkstjórn af Sæmundi það sumar, en mig minnir, að næsta sumar hafi Þorsteinn Eyfirðingur komið, skipstjóri með meiru. Það sumar var byggt stórt og mikið hús við þinghúsið á Hauganesinu og grafinn djúpur brunnur, mitt á milli fiskgeymsluhússins og þessa íveruhúss. Úr honum var tekið vatn til neyslu. Íveruhúsið var stórt. Í því var stór innri salur, þar sem kvenfólkið hélt til, þá var lítil kompa fyrir verkstjórann og gegnt henni var búr, en í norðurenda gangsins, sem sneri að Skipeyri, var eldhús. Þar var matseld og var matreitt fyrir starfsfólk, a.m.k. kvölds og morgna. Þetta hús stóð lengi á Hauganesinu, en síðar flutti Jón Guðmundsson, bóndi á Hafrafelli, sem áður var nefndur, það inn að Hafrafelli og þar stendur það enn. Nú er það þó ekki notað sem íbúðarhús.

Mig minnir að Þorsteinn Eyfirðingur hafi verið verkstjóri á Skeiðinu í tvö ár, en við tók af honum Sveinbjörn Kristjánsson frá Ísafirði. Hann er faðir Solveigar, Önnu og Daníelu Sveinbjarnardætra, sem allar eru búsettar í Reykjavík. Solveig mun hafa gifst Lofti Bjarnasyni.

Ekki veit ég hvenær Jóhann Eyfirðingur hóf fiskverkunina á Skeiðinu og mér hefur ekki tekist að afla upplýsinga um það, hvenær henni lauk. Eftir að hætt var að flytja fiskinn inneftir á bátum var tekið að aka honum á bílum, sem Bjarni Bjarnason keyrari kom með í bæinn. Bílstjórar voru m.a. Þórir, bróðir Bjarna, og Björgvin Bjarnason, sonur hans, sem síðar var kunnur útgerðarmaður. Ef fiskur barst inneftir á bátum var honum ekið á bílum upp á Skeiðið, upp troðninginn, sem hafði verið breikkaður. Einnig var fiski stundum ekið upp úr bátunum á hestkerru; ég man sérstaklega eftir að Rósmundur Jónsson, bóndi í Tungu, var þarna oft með hest sinn, sem kallaður var Jörp. Hún dró kerruna með fiskinum í upp bakkann og upp á Skeiðið.

Við útflutning á fiski frá þessum stað minnist ég þess, að þarna komu norsk skip. Þau lögðust fram af Hauganesinu og fiskurinn síðan fluttur út í þau á bátum og hífður um borð í stórum seglum. Eitt sinn vann ég sem unglingur við að stafla í eitt þessara norsku skipa. Þá var byrjað úti við síðuna og þar hlaðið hæst. Fiskurinn var lagður í lög, hnakkinn sneri upp og var hlaðið hringinn í kringum lestina og var fiskurinn allur ópakkaður. Hvert lagið var lagt yfir annað og var þetta vandaverk. Sérstakur maður stóð yfir okkur og sá um að vel væri staflað. Stöflunin var mikið verk og erfitt, ekki síður en vandasamt, en svona voru saltfiskskipin ávallt hlaðin.

Enginn vafi er á því að fiskverkunin á Hafrafellsskeiði hafði mjög góð áhrif á atvinnulíf í firðinum. Ég minnist þess m.a. að fólk úr Engidal kom og hélt til hjá okkur á Góustöðum og vann við fiskverkun á Skeiðinu. Í íveruhúsinu gat það ekki fengið inni vegna þess hve margir voru þar fyrir, aðallega Bolvíkingar, sem komu inneftir og unnu við fiskverkunina hjá Jóhanni. Mikið fjör var oft við fiskverkunina og um helgar gerði fólk sér margt til gamans. Til að mynda var dansað í stóra íveruhúsinu.

Ekki man ég hvert kaupið var á Skeiðinu, en þó minnist ég þess, að eftirvinna var ekki borguð fyrr en menn höfðu unnið í 10 tíma. Eitt sinn var unnið að útskipun, sem varð að fara fram í þurrki og var því unnið að henni í lotu. Þá byrjaði einn maður að vinna klukkan sex að kvöldi og fékk hann ekki eftirvinnu fyrr en klukkan fjögur um nóttina.

Síðast mun fiskur hafa verið verkaður á Skeiðinu árið 1926. Um það leyti mun Jóhann J. Eyfirðingur hafa hætt fiskverkun, en síðar fékkst hann við ýmiskonar aðra atvinnustarfsemi. Hann keypti t.d. mikið gærur af bændum í Djúpinu og seldi. Það var þó nánast tómstundagaman hjá honum því hann var þá kvæntur Sigríði Jónsdóttur, sem rak verslunina Dagsbrún.

Fyrirtæki Jóhanns Eyfirðings var kallað Kompaníið og voru skrifstofur þess þar sem Póllinn er nú. Þar var fiskinum skipað upp úr bátum, sem gengu á útvegi Jóhanns. Hann átti Persi, sem Þorsteinn Eyfirðingur var fyrst skipstjóri á. Síðan mun hann hafa eignast bát, sem hét Rask, og loks keypti hann línuveiðarann Fróða og varð Þorsteinn skipstjóri á honum.

Þorsteinn Eyfirðingur var afburða fiskisæll og lék það orð á, að sama væri hvar hann legði lóðir í sjó, alltaf fiskaði Þorsteinn. Þorsteinn var afar sérkennilegur maður, en til hans völdust kjarnakarlar, þeirra á meðal Torfi Halldórsson, sem hefur sagt margar sögur af Þorsteini.

Fiskverkunin á Hafrafellsskeiði er aðeins þáttur þeirrar sögu, hvernig menn reyndu að bjarga sér og þeim verðmætum, sem nauðsyn var að njóta og skapa. Þau bættu hag fólksins.

Heimild: Ársrit Sögufélags Ísfirðinga árið 1983.

bb.is | 26.10.16 | 16:50 Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með frétt Það var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 15:49Mælt með leiðinni um Teigsskóg

Mynd með fréttVegagerðin leggur til að nýr Vestfjarðavegur um Gufudalssveit verði lagður eftir leið sem kölluð er Þ-H. Hún liggur yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og um Teigsskóg í Þorskafirði. Í frummatsskýrslu sem send hefur verið Skipulagsstofnun kemur fram að það er ódýrasta leiðin ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 14:53Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er stærstur samkvæmt nýrri MMR-könnun sem gerð var 19. til 26. október. Píratar eru næststærstir og Vinstri græn þriðju stærst. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í nýju könnuninni mælist 21,9% en var 21,4% í síðustu könnun MMR fyrir einum mánuði. Fylgi Pírata er ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 13:24Sýnir alltaf á kjördag

Mynd með fréttLaugardaginn 29. október 2016, sama dag og kosið verður til alþingis, opnar Kristján Guðmundsson sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Kristján opnaði fyrst sýningu á kosningadegi árið 1987 og síðan þá hefur skapast ákveðin hefð fyrir því að listamaðurinn komi ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 11:4321 ár frá snjóflóðinu á Flateyri

Mynd með frétt26.október líður mörgum landsmönnum seint úr minni og þá sérstaklega þeirra sem bjuggu á Flateyri þennan dag fyrir tuttugu og einu ári síðan, er gríðarstórt snjóflóð féll úr Skollahvilft yfir hluta byggðarinnar og hreif með sér tuttugu mannslíf. Flóðið féll rétt ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 10:57Vel heppnaður kvennafrídagur í Bolungarvík

Mynd með fréttKonur í Bolungarvík sýndu mikla samstöðu og baráttuanda er þær komu saman í Félagsheimilinu í Bolungarvík á kvennafrídaginn, en á bilinu 60-70 konur voru á staðnum þegar að mest var. Kveikjan að viðburðinum var tölvupóstur frá sveitarfélaginu sem barst foreldrum leikskólabarna ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:37Ertu undirbúin fyrir þriggja daga rof á innviðum?

Mynd með fréttNemendur í grunnskólum á Vestfjörðum voru áhugasamir að ræða við sjálfboðaliða Rauða krossins um mikilvægi þess að vera undirbúinn með heimilisáætlun og viðlagakassa ef neyðarástand skapast. Nokkrir sögðu að líf og starf væri afar undarlegt án netsambands í lengri tíma, þó ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 09:01Gísli á Uppsölum sýndur á Ströndum

Mynd með fréttKómedíuleikhúsið heimsækir Strandir á morgun, fimmtudagskvöldið 27. október, og sýnir leikritið Gísli á Uppsölum í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Sýningin hefst kl. 20. Gísli á Uppsölum er 40. leikverkið sem Kómedíuleikhúsið setur á svið. Meðal annarra verka leikhússins má nefna verðlaunaleikinn Gísla ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 07:36Vilja byggja íbúðarblokk á Ísafirði

Mynd með fréttÍsafjarðarbær stefnir að byggingu fjögurra hæða íbúðarblokkar við Sindragötu 4a á Ísafirði. Bærinn hefur sótt um stofnframlag til Íbúðalánasjóðs vegna byggingar hússins. Gert er ráð fyrir þrettán íbúðum í blokkinni að stærðinni 57 m2 til 163 m2. Sjö minnstu í ...
Meira

bb.is | 25.10.16 | 16:54Allt fer í skrúfuna ef konur leggja niður störf

Mynd með fréttJón Páll Hreinsson, hinn nýi bæjarstjóri í Bolungarvík, lætur sig ekki muna um að gera það sem gera þarf til að hlutirnir í bænum fari á sem bestan veg. Líkt og alþjóð veit var kvennafrídagurinn í gær og fjölmargar konur um ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli