Frétt

bb.is | 07.10.2003 | 15:47Ný bók frá hendi Jóns Páls Halldórssonar – Fiskvinnsla í sextíu ár

Jón Páll Halldórsson með nýju bókina: Kápuna prýðir þorskroðsmynstur, eins og telja má allvel við hæfi.
Jón Páll Halldórsson með nýju bókina: Kápuna prýðir þorskroðsmynstur, eins og telja má allvel við hæfi.
Á bókarkápu segir einnig: „Saltfiskverkun hafði um árabil verið undirstaða útflutnings sjávarfangs frá Ísafirði, þegar hér var komið sögu. Í miðri kreppunni á fjórða áratug aldarinnar var hafin hraðfrysting botnfiskaflans, sem síðan fór vaxandi á stríðsárunum. Á sama tíma hófu Ísfirðingar veiðar og vinnslu rækju, sem var algjört nýmæli hér á landi. Í bókinni er þróun og uppbygging þessara tveggja atvinnugreina rakin ítarlega, allt til ársins 1993. Þá er sagt frá saltfisk- og skreiðarverkun á þessu tímaskeiði. Einnig eru frásagnir af þeim mönnum, sem lögðu grunn og stóðu í fararbroddi í þessari uppbyggingu.“

Í samtali við bb.is kvaðst Jón Páll hafa byrjað að „dunda“ við þetta verk eftir að fyrri bókin var komin út eða í ársbyrjun 2000. Hann segir að gagnaöflun hafi gengið frábærlega vel. Meðal annars hafi hann góðfúslega fengið aðgang að gerðabókum og öðrum frumgögnum fyrirtækja sem koma við sögu. „Mig langar að koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa veitt mér upplýsingar og ekki síst til þeirra sem hafa verið mér innan handar með myndefni. Margar myndanna hafa ekki birst áður og ýmsar sem hafa birst munu nú flestum gleymdar.“ Þar nefnir Jón Páll meðal annars myndir sem Þorsteinn Jósepsson, hinn landsþekkti blaðamaður og ljósmyndari, tók á Ísafirði fyrir liðlega hálfri öld.

Aðspurður segir Jón Páll að verk þetta hafi ekki reynst erfitt. „Nei, fyrst og fremst var þetta gaman. Ég þekki þetta tímabil mjög vel. Margt sem þarna kemur fram var í þann veginn að falla í gleymsku. Mér þótti mjög skemmtilegt að rifja upp þessa liðnu tíma með þeim sem til þekktu og komu við sögu.“

Útgefandi bókarinnar er Sögufélag Ísfirðinga. Umbrot annaðist H-prent ehf. á Ísafirði en Prentsmiðjan Oddi hf. annaðist prentun og bókband. Í bókarlok eru heimildaskrá, nafnaskrá og myndaskrá. Ljóst er að höfundur hefur leitað heimilda afar víða og myndefnið er eins og áður sagði mjög ríkulegt. Bókin er komin til sölu í Bókaverslun Jónasar Tómassonar (Bókhlöðunni) á Ísafirði og Verslun Bjarna Eiríkssonar (Bjarnabúð) í Bolungarvík. Að öðru leyti annast Hið íslenzka bókmenntafélag dreifingu hennar í verslanir um land allt.

hlynur@bb.is


Í eftirmála bókarinnar segir Jón Páll Halldórsson:

Fyrir fjórum árum tók ég saman helztu þættina í útgerðarsögu Ísafjarðar á 50 ára tímabili, frá 1944 til 1993. Þessi samantekt kom út árið 1999 í bókinni Frá Línuveiðum til togveiða. Ýmsir hvöttu mig þá til að gera hliðstæða samantekt um fiskvinnsluna á sama tímabili. Árangur þeirrar samantektar kemur hér með í ljós, en ýmissa hluta vegna taldi ég eðlilegra að hefja söguna tíu árum fyrr. Þar réð mestu, að árið 1936 markar ákveðin tímamót í þessari sögu. Þá var Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. breytt í hraðfrystihús, sem markar upphaf hraðfrystingar sjávarfangs á Ísafirði og sama ár var stofnuð Rækjuverksmiðja Ísafjarðar, sem er upphaf rækjuvinnslu hér á landi. Þessa atburði vildi ég báða fella inn í frásögnina. Hún spannar því sextíu ára tímabil, frá 1934 til 1993.

Þegar nú er sleginn botninn í þessa upprifjun mína, er rétt að taka fram, að hér er um sundurlausa þætti að ræða. Þessari samantekt er fyrst og fremst ætlað að vera söguleg upprifjun um þróun og uppbyggingu fiskiðnaðar á Ísafirði, en þó hefir verið reynt að tengja hana markaðsstarfinu og þróun efnahagsmála í landinu, eftir því sem nauðsynlegt hefir verið talið vegna sögulegs samhengis. Saga þessa tímabils hefir á margan hátt verið viðburðarík og spannar eitt mesta framfaraskeiðið í íslenzkum fiskiðnaði. Í upphafi þessa tímabils voru Íslendingar ein fátækasta þjóðin í Evrópu, og hér ríkti alvarleg efnahagskreppa, en í lok þess voru þeir orðnir ein ríkasta þjóðin í Evrópu. Þennan árangur má að verulegu leyti þakka stórstígum framförum í veiðum og vinnslu sjávarfangs og öflugu markaðsstarfi. Til að lesandinn átti sig sem bezt á þeim breytingum, sem urðu á þessu tímaskeiði, hefir verið reynt að lýsa framþróun í tækjum og búnaði í greininni eftir því sem tök eru á.

Eins og áður hefi ég notið liðsinnis fjölmargra vina minna við þessa samantekt. Nefni ég þar sérstaklega til sögu Hans W. Haraldsson, samstarfsmann minn í nær þrjá áratugi, og Hjalta Einarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra SH, sem lásu yfir allt handritið og bentu mér á margt, sem betur mætti fara. Már Elísson, fyrrverandi fiskimálastjóri og forstjóri Fiskveiðasjóðs, las einnig yfir handritið, sérstaklega þá kafla, sem snerta efnahagsþróun í landinu, og færði einnig margt til betri vegar. Veturliði Óskarsson, málfræðingur, las prófarkir og benti mér á margt, sem honum fannst til bóta. Fjölmargir aðrir hafa lagt mér lið, þó að þeir séu ekki nefndir sérstaklega. Öllum þessum aðilum eru færðar einlægar þakkir.

Fjölmargir aðilar hafa lánað mér myndir til birtingar í bókinni. Margar þeirra eru sóttar í myndasafn Héraðsskjalasafnsins á Ísafirði. Eru Jónu Símoníu Bjarnadóttur, safnverði, færðar sérstakar þakkir fyrir ómælda aðstoð við leit að gömlum myndum í safninu. Bogi Indriðason, framleiðslustjóri Námsgagnastofnunar, lánaði mér einnig margar myndir úr myndasafni Þorsteins Jósepssonar, blaðamanns, sem hann tók á ferð sinni til Ísafjarðar árið 1949. Hrafn Snorrason hefur lánað mér myndir, sem hann hefir tekið á liðnum árum, og endurunnið margar gamlar myndir. Fjölmargir aðrir hafa lánað mér myndir, og er skrá um ljósmyndara eða eigendur þeirra birt í bókarlok. Öllum þessum aðilum eru færðar þakkir, en án framlags þeirra hefði þetta orðið svipminna verk.

Starfsmönnum H-prents ehf. á Ísafirði þakka ég ánægjulega samvinnu í alla staði. Sérstaklega er mér ljúft að þakka Jóni Hallfreði Engilbertssyni einstaka þolinmæði og ljúft samstarf við umbrot bókarinnar og myndvinnslu.


Hér fara á eftir nokkrir kaflar og kaflabrot úr bókinni. Sýnishorn þessi eru valin nánast af handahófi.


Íshúsfélag Ísfirðinga hf.
Framkvæmdastjórar, verkstjórar og vélstjórar


Eins og áður segir tók Baldur T. Jónsson við starfi framkvæmdastjóra síðla árs 1954. Engin breyting varð á því, þegar nýir eigendur tóku við rekstrinum í ársbyrjun 1958, og gegndi hann starfinu næstu tvö árin, en þá flutti hann sig um set og tók við starfi framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins Norðurtanga hf. Haraldur Valdimarsson hafði tekið við starfi verkstjóra árið 1951, og gegndi því til ársins 1964. Jón Kristmannsson varð aðstoðarverkstjóri Haralds árið 1960. Hann var síðan ráðinn yfirverkstjóri, þegar Haraldur féll frá í árslok 1964, og gegndi því starfi fram til ársins 1998. Aðrir verkstjórar í vinnslusal hafa verið Guðjón Loftsson og Guðbjörg Ásgeirsdóttir, en útiverkstjórar, sem hafa séð um löndun og aðra fiskverkun: Jón B. Jónsson, Jóhann Júlíusson, Halldór Friðbjörnsson og Jóhannes Sigurðsson.

Þegar Baldur T. Jónsson hætti störfum hjá Íshúsfélaginu árið 1960, tók Helgi G. Þórðarson, rekstrarverkfræðingur, við starfi framkvæmdastjóra og gegndi því næstu fjögur árin. Helgi er Vestfirðingur, ættaður frá Odda í Ögursveit, en fluttist til Reykjavíkur að loknu landsprófi á Ísafirði. Hann hóf störf sem sérfræðingur hjá tæknideild SH árið 1958 og var verksvið hans þar að hafa yfirumsjón með framleiðslutækni, sem þá var nýjung innan deildarinnar. Eitt fyrsta verkefni hans var að gera tillögur um ýmsar lagfæringar og nýskipan í húsnæði frystihúsanna með tilliti til framleiðslu- og flutningarása. Einnig vann hann að undirbúningi skráningar á magntölum einstakra vinnsluþátta með það að leiðarljósi að bæta nýtingu hráefnisins og lækka vinnulaunakostnað. Þær aðferðir, sem hér höfðu þróazt í tímans rás, beindust fyrst og fremst að hraða, en lítið var hugsað um nýtingu hráefnisins. Karfi var t.d. oftast flakaður með einu handbragði, en með því að flaka hann eins og þorsk, varð miklu minna eftir af holdi á beinunum. Helgi hafði því góðan grunn til að byggja á, þegar hann réðst framkvæmdastjóri Íshúsfélagsins. Þann grunn byggði hann ofan á á starfstíma sínum þar. Hann hætti störfum hjá félaginu 1963, þegar hann gerðist framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Helgi hefir um árabil rekið verkfræðistofu í rekstrarráðgjöf í Hafnarfirði.

Á útmánuðum árið 1963 hættu einnig störfum sem vélstjórar þeir Helgi Ketilsson og Bjarni Gunnarsson, sem um árabil höfðu starfað hjá félaginu. Gunnar Kristjánsson kom þá til starfa hjá Íshúsfélaginu sem vélstjóri, og ári síðar Hreinn Þ. Jónsson, og voru þeir vélstjórar hjá félaginu allt það tímabil, sem þessi samantekt nær yfir. Á því tímaskeiði var endurnýjaður og aukinn allur frystivélakostur hússins, sem og allur frystibúnaður þess.

Þegar Helgi hætti sem framkvæmdastjóri Íshúsfélagsins tók Marías Þ. Guðmundsson við starfinu og gegndi hann því í 11 ár, til ársins 1974. Marías er Hnífsdælingur. Að loknu prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1943 gerðist hann útibússtjóri Kaupfélags Ísfirðinga í Súðavík og framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Andvara hf. í Súðavík. Hann starfaði síðan sem bókari hjá Olíusamlagi útvegsmanna á Ísafirði 1947–1963 og framkvæmdastjóri Síldarsöltunar Ísfirðinga á Siglufirði yfir sumarmánuðina frá árinu 1959. Marías var einn af stofnendum og í stjórn útgerðarfélagsins Hrannar hf. á Ísafirði 1955. Hann tók mikinn þátt í félagsmálum á Ísafirði og var bæjarfulltrúi og varabæjarfulltrúi þar 1950–1958. Einnig gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum í tengslum við sjávarútveginn, bæði í héraði og í Reykjavík. Hann sat í varastjórn SH á árunum 1968–1973. Þegar hann hætti störfum hjá Íshúsfélaginu gerðist hann framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestfirðinga og gegndi því starfi til ársloka 1980, en þá hóf hann störf hjá Fiskifélagi Íslands í Reykjavík.

Jóhannes G. Jónsson tók við starfi framkvæmdastjóra félagsins 1974 og gegndi því allt til ársloka 1995 eða í 21 ár. Hann átti farsælan starfsferil og lengstan að baki allra þeirra, sem gegnt hafa framkvæmdastjórastarfi hjá félaginu, þegar hann hætti störfum. Hann hafði áður verið skrifstofustjóri félagsins um árabil og gegndi starfi framkvæmdastjóra um skeið á árinu 1963, eftir að Helgi hætti störfum. Jóhannes gegndi ýmsum trúnaðarstörfum innan sjávarútvegsins á þessum árum og átti sæti í aðalstjórn SH 1995 til 1996. Hann átti einnig sæti í bæjarstjórn Ísafjarðar 1966–1970 og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið.

Í lok starfsferils Baldurs hófust framkvæmdir við endurbyggingu húseigna félagsins og má segja, að þær hafi staðið með hléum næstu tvo áratugina. Á þessu tímaskeiði keypti félagið nærliggjandi húseignir og byggði upp á lóðunum. Húseignir félagsins standa nú á öllum reitnum milli Eyrargötu, Þumlungsgötu og Fjarðarstrætis.


Íshúsfélag Ísfirðinga hf.
Hráefnisöflun og framleiðsla


Ekki er ofmælt, að skipzt hafi á skin og skúrir í rekstri Íshúsfélagsins fyrstu tvo áratugina eftir að því var breytt í hraðfrystihús. Þar veldur vafalítið mestu, að allan þennan tíma var félagið háð öðrum og óskyldum aðilum í sambandi við hráefnisöflun og þar var aldrei á vísan að róa. Félagið eða eigendur þess voru ekki þátttakendur í útgerð á þessu tímabili, ef frá er talin hlutafjáreign félagsins í Hf. Muninn. Starfsemi félagsins var því allan þennan tíma háð þeim sveiflum, sem útgerðarhættir mótuðust af á hverjum tíma. Oft var því lítil sem engin starfsemi í húsinu vegna hráefnisskorts og lá starfsemi þess þá niðri. Framleiðsla frystra afurða hjá félaginu sveiflaðist á þessu tímabili frá 300 lestum á ári í rúmar 500 lestir á ári, en komst í 700 lestir þrjú seinustu árin. Með tilkomu nýrra eigenda í árslok 1957 verður mikil breyting og í kjölfarið fylgir mikil uppsveifla í framleiðslu hússins. Þrjú þeirra fyrirtækja, sem þá gerðust eignaraðilar, höfðu yfir að ráða öflugum bátaflota, sem sá frystihúsinu fyrir nægilegu hráefni meginhluta ársins og urðu burðarásar í hráefnisöflun þess. Á sjötta áratugnum framleiddi félagið 6.600 lestir af frystum sjávarafurðum. Næsta áratuginn tvöfaldaðist framleiðslan og fór þá í 13.200 lestir. Þessi þróun hélt svo áfram næstu áratugina með stærri skipum, auknum afla, aukinni vélvæðingu í landi og bættri framleiðsluaðstöðu á öllum sviðum. Framleiðslan óx með ári hverju. Mikil framleiðsluaukning varð eftir að skuttogararnir komu í byrjun áttunda áratugarins. Þann áratug framleiddi félagið 30.000 lestir, hafði hún þá nálega fimmfaldast frá sjötta áratugnum. Sama magn var síðan framleitt á níunda áratugnum, um 30.000 lestir.

Eins og áður segir sá bátafloti eignaraðilanna Íshúsfélaginu lengst af fyrir nægilegu hráefni til vinnslunnar. Vorið 1971 varð nokkur uppstokkun í bátaflota þessara aðila eftir að samningar um kaup á skuttogurunum voru staðfestir. Gunnvör hf. og Hrönn hf. seldu þá hvort sinn bátinn. Um haustið festu þessi útgerðarfélög, ásamt Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. kaup á togaranum Siglfirðingi SI 150, til þess að tryggja félaginu aukið hráefni til vinnslunnar. Útgerð Siglfirðings gekk erfiðlega, og var hann seldur ári seinna til Vestmannaeyja. Eftir þetta tók félagið ekki þátt í útgerð í nálega tvo áratugi. Gunnvör hf. keypti frystitogara árið 1989 og flutti veiðiheimildirnar yfir á hann. Í kjölfar þess var ísfisktogari félagsins, Júlíus Geirmundsson, seldur. Þetta þýddi verulegan samdrátt í hráefnisöfluninni hjá Íshúsfélaginu. Stjórn félagsins brást við þessum vanda með stofnun nýrra hlutafélaga, sem gerðu út skip til hráefnisöflunar. Fyrsta félagið var stofnað í júní 1989. Það hlaut nafnið Magni hf., eins og félagið sem átti Gunnhildi á sínum tíma. Félagið keypti vélbátinn Fróða frá Ólafsvík, og hlaut hann nafnið Hafdís og var gerður út til línuveiða frá Ísafirði til ársins 1992. Árið 1989 stofnaði Íshúsfélagið og eigendur þess annað hlutafélag, ásamt Fáfni hf. á Þingeyri og Kaupfélagi Dýrfirðinga. Það hlaut nafnið Arnarnúpur hf. Það félag keypti togarann Framnes frá Þingeyri, sem áður var í eigu Fáfnis hf. Loks stofnaði Íshúsfélagið hlutafélagið Þorfinn hf. í ársbyrjun 1993. Þetta félag keypti togarann Gylli frá Flateyri. Hlaut hann fljótlega nafnið Stefnir, og var heimahöfn hans flutt til Ísafjarðar.

Framleiðsla frystra sjávarafurða var meginþátturinn í starfsemi Íshúsfélagsins eftir að því var breytt í hraðfrystihús. Önnur framleiðsla á vegum félagsins var aldrei í stórum stíl. Á fyrri hluta sjöunda áratugarins stunduðu bátarnir netaveiðar á Breiðafirði síðari hluta vertíðar og sigldu heim með aflann annan hvern dag. Hluti aflans fór þá í skreiðarverkun fyrir Nígeríumarkað og var félagið með umtalsverða skreiðarverkun á þessum árum. Skreiðarverkunin lagðist síðan af hjá Íshúsfélaginu á dögum Biafra-stríðsins, eins og öðrum skreiðarframleiðendum í landinu. Hún var síðan tekin upp á ný um miðbik áttunda áratugarins. Þá barst oft mikill afli á land af togurunum, sérstaklega yfir sumarmánuðina, sem örðugt var að vinna í frystihúsinu. Saltfiskverkun var einnig um skeið, en aldrei í miklum mæli. Skreiðar- og saltfiskverkunin var mest til þess að bjarga verðmætum, þegar mikill afli barst að landi á skömmum tíma.

Um árabil rak Íshúsfélagið fiskbúð í húsakynnum Glámu við Sólgötu, en þegar farið var að selja soðninguna í öðrum matvöruverzlunum í bænum var þeirri starfsemi hætt.


Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal
Framkvæmdir hafnar, framkvæmdastjóri og starfsmenn ráðnir


Stjórn félagsins sat ekki auðum höndum. Hún kom saman strax að loknum framhaldsstofnfundinum 19. janúar. Á þeim fundi var samþykkt, að fela Jóni Jónssyni, trésmið frá Flateyri, að annast innkaup á vélum og öðru efni, sem með þyrfti til fyrirhugaðrar frystihússbyggingar í samráði við stjórnina. Jón Jónsson frá Flateyri kom mjög við sögu í sambandi við uppbyggingu hraðfrystiiðnaðarins á Vestfjörðum á fyrstu árum hans. Hann var einn af stofnendum Hraðfrystihúss Flateyrar hf. 1938 og byggði fjölda frystihúsa víðsvegar um landið á næstu árum, auk annarra verklegra framkvæmda, sem hann hafði með höndum.

Einnig samþykkti stjórnin að fela Elíasi Ingimarssyni að annast allar daglegar framkvæmdir viðkomandi undirbúningi og framkvæmd málsins. Bendir margt til þess, að verulegur undirbúningur hafi farið fram áður en gengið var til sjálfrar félagsstofnunarinnar. Fljótlega eftir að félagið var stofnað, var gengið frá kaupum á tveim fiskverkunarhúsum, sem stóðu við Hnífsdalsbryggju. Þessi hús voru í eigu þeirra Elíasar Ingimarssonar og Einars Steindórssonar. Var kaupverð hvors húss kr. 10.000. Byggingarframkvæmdir hófust í júní. Þá voru húsin tengd saman og stækkuð. Í þessum húsum var komið fyrir fiskmóttöku, vinnsluaðstöðu, vélahúsi og frystigeymslu. Til að einangra frystigeymsluna var sótt reiðingstorf norður í Grunnavík. Um sama leyti og byggingarframkvæmdir hófust kom frystipressan til landsins, en Vélsmiðjan Héðinn hf. í Reykjavík sá um pöntun á henni og smíði og uppsetningu á öðrum búnaði hússins. Á hluthafafundi, sem haldinn var 20. desember 1941, upplýsti framkvæmdastjóri, að byggingarkostnaður með vélbúnaði næmi kr. 149.000.

Á fundi stjórnar félagsins 31. marz 1942 var gengið endanlega frá ráðningu Elíasar Ingimarssonar sem framkvæmdastjóra félagsins og honum sett einskonar erindisbréf. Þar segir m.a.:

„Hann skal hafa á hendi allan daglegan rekstur frystihússins, svo sem útvegun hráefnis til vinnslunnar og allra nauðsynlegra umbúða og áhalda, útborgun vinnulauna og ráðningu verkafólks, reikningshald og varðveizlu lausafjár.

Hann ræður fasta starfsmenn í samráði við stjórnina og ákveður laun þeirra. Hann má segja upp starfsmönnum, enda sjái hann um að hver maður leysi starf sitt vel og samvizkusamlega af hendi, sérstaklega óskar stjórnin þess að framkvæmdastjóri verði viðstaddur í hvert sinn, sem afskipun á framleiðslu félagsins fer fram.

Hann skal bera ábyrgð fyrir stjórninni og skal hann bera undir hana allar tillögur um breytingar á rekstri og tilhögun.“


Aðrir fastir starfsmenn voru ráðnir: Sigurður Baldvinsson, sem var ráðinn verkstjóri. Hann hafði þá unnið um árabil hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. og þekkti því orðið vel til hraðfrystingar á fiski. Vélstjórar voru ráðnir Magnús Guðmundsson og Ingimar Finnbjörnsson. Magnús hafði þá unnið um tíma við uppsetningu á véla- og frystibúnaði hússins með starfsmönnum Vélsmiðjunnar Héðins hf. Í ágúst 1942 varð hörmulegt slys í húsinu. Starfsmenn þess voru að sprengja fyrir grunni vegna stækkunar á vélahúsi. Voru þeir að vinna við hvellhettur, þegar eldur komst í hvellhettur, sem geymdar voru í vélahúsinu. Þetta hús var byggt úr timbri. Sprakk það út og slösuðust allir þeir, sem inni voru. Það voru þeir Sigurður Baldvinsson, Ingimar Finnbjörnsson og Sigurður Sv. Guðmundsson. Sigurður Baldvinsson og Ingimar Finnbjörnsson voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði, og náðu þeir sér tiltölulega fljótt, en Sigurður Sv. Guðmundsson var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Hann hlaut varanlega örorku af völdum slyssins og var blindur upp frá því.

Sigurður Baldvinsson hætti störfum hjá Hraðfrystihúsinu hf. eftir slysið og sneri sér að öðrum störfum. Ingimar Finnbjörnsson var ráðinn verkstjóri, þegar hann kom heim af sjúkrahúsinu, og gegndi hann verkstjórastörfum til ársins 1958, en þá var Halldór Pálsson ráðinn verkstjóri. Hann gegndi starfi yfirverkstjóra til ársloka 1981. Þá var Einar Garðar Hjaltason ráðinn yfirverkstjóri, en hann hafði þá gegnt starfi aðstoðarverkstjóra hjá Halldóri um tíma. Einnig gegndi Jens Hjörleifsson starfi aðstoðarverkstjóra tímabundið. Einar óskaði eftir að láta af starfi verkstjóra árið 1986 og var Sveinn Guðjónsson þá ráðinn yfirverkstjóri. Útiverkstjórar á þessu tímaskeiði hafa aðeins verið tveir: Jóakim Hjartarson og Sveinn Guðbjartsson.

Magnús Guðmundsson var vélstjóri fyrstu árin, en tók við verkstjórn í fiskimjölsvinnslunni, þegar hún tók til starfa 1954. Þá tóku við vélstjórninni Hjörtur Guðmundsson og Högni Sturlaugsson og síðar Sveinn Guðbjartsson, Karl Sigurðsson og Kristján Kristjánsson, sem hefir verið vélstjóri hússins um langt árabil.

Elías Ingimarsson lét af starfi framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins í maí 1946 og tók við starfi sem framkvæmdastjóri Síldarverksmiðju ríkisins á Skagaströnd. Hann hafði þá gegnt starfinu í rúm fimm ár. Hann varð síðar yfirfiskmatsmaður á Norðurlandi og fyrsti frystihússtjóri Útgerðarfélags Akureyringa hf. árið 1957. Frá og með 1. júní 1946 var Einar Steindórsson ráðinn framkvæmdastjóri og setti stjórnin honum erindisbréf, sem að mestu leyti var samhljóða því erindisbréfi, sem hún setti Elíasi á sínum tíma. Einar Steindórsson gegndi starfi framkvæmdastjóra til ársloka 1976, en þá óskaði hann eftir að láta af störfum vegna aldurs. Hann hafði þá gegnt starfinu í rúm 30 ár og stýrt þar mikilli uppbyggingu. Konráð Jakobsson var ráðinn skrifstofustjóri félagsins 1. október 1973. Hann tók síðan við starfi framkvæmdastjóra í ársbyrjun 1977, þegar Einar Steindórsson lét af því starfi. Hann er borinn og barnfæddur Ísfirðingur. Þegar Konráð kom til starfa hjá Hraðfrystihúsinu hf. hafði hann verið skrifstofustjóri Vélsmiðjunnar Þórs hf. og Fiskimjöls hf. á Ísafirði í tvo áratugi. Í mörg ár hafði hann annazt bókhald og reikningshald fyrir útgerðir í Hnífsdal í frístundum sínum og þekkti því vel til allra hluta þar, þegar hann kom þar til starfa. Hann var framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins hf. nokkuð fram yfir það tímabil, sem þessi samantekt tekur til og gegndi á því tímabili fjölþættum störfum innan sjávarútvegsins og í samtökum hans.

Bakgrunnur þeirra Elíasar Ingimarssonar og Einars Steindórssonar var að mörgu leyti ólíkur. Elías var borinn og barnfæddur Hnífsdælingur. Hann var sonur Ingimars Bjarnasonar, bónda og skipstjóra í Fremri-Hnífsdal, sem var hreppsnefndaroddviti og lengi í forsvari fyrir Hnífsdælinga. Elías var giftur Guðnýju, dóttur Jónasar Þorvarðarsonar, útgerðarmanns og bónda á Bakka í Hnífsdal. Hann átti því stóran og traustan frændgarð í Hnífsdal, sem hafði ráðið miklu um uppbyggingu staðarins um langt árabil. Þessu uppbyggingarstarfi hélt Elías áfram, þegar hann komst til ára. Hnífsdælingum var því nokkur vandi á höndum, þegar Elías var skyndilega kallaður til annarra starfa og fluttist til Skagastrandar og síðar Akureyrar. Einar Steindórsson var aftur á móti aðfluttur og á því gerðu Hnífsdælingar skarpan greinarmun á þessum árum. Hann var fæddur á Leiru í Grunnavíkurhreppi, en fluttist með foreldrum sínum og systkinum til Hnífsdals, þegar hann var innan við fermingu. Fljótlega eftir að fjölskyldan frá Leiru settist að í Hnífsdal, réðst Einar sem vikapiltur til Guðmundar Sveinssonar, kaupmanns í Hnífsdal. Eftir það dvaldi hann á heimili hans og vann við atvinnurekstur hans, þar til Guðmundur lézt árið 1926. Keypti hann þá eignir hans og rak útgerð og fiskvinnslu í Hnífsdal í nokkur ár, ýmist einn eða í félagi við aðra. Það verður ekki sagt, að sól hafi verið í fullu suðri, þegar Einar Steindórsson tók við stjórn Hraðfrystihússins hf. í Hnífsdal. Það kom í hans hlut að treysta fjárhagslegan grundvöll þess á erfiðum tímum eftirstríðsáranna og byggja upp framtíðarrekstur þess. Í þessu starfi naut hann óskoraðs trausts annarra forystumanna Hnífsdælinga, sem allir sneru bökum saman í þeirri baráttu. Allt starf Einars einkenndist af hógværð og yfirlætisleysi, en á bak við lá sterkur vilji og heilsteypt skapgerð. Hann sótti mál sitt ávallt af ákveðni og lipurð, en þegar hann beitti sér, varð flest undan að láta. Lifa enn í dag ýmsar sögur um það, hvernig Einar sótti mál sitt, þegar honum þótti mikið liggja við. Eftirfarandi sögur sýna það:

Haustið 1951 var Einar staddur í Reykjavík, þegar félagi hans, Ingimar Finnbjörnsson, hringdi til hans og sagði honum, að vatnsleiðsla hefði sprungið í frystihúsinu, vatnsrör væru ófáanleg á Ísafirði og frystihúsið væri því óstarfhæft, nema hann gæti útvegað vatnsrör í Reykjavík og sent vestur. Þetta var á tímum innflutningshafta og mjög erfitt að fá alla hluti. Einar tekur strax símann og hefur leit að vatnsrörum, en kemur hvarvetna að luktum dyrum. Að lokum er honum bent á, að reynandi sé að leita að rörunum hjá Landssmiðjunni, en tilgangslaust sé að ræða þar við neinn annan en Pétur Pétursson, sem þá var skrifstofustjóri fyrirtækisins. Einar gengur á fund Péturs, sem telur öll vandkvæði á því að láta rörin af hendi, því að þeir hyggist nota þau til eigin starfsemi. Einar spyr þá, hvort hann treysti sér til að bera ábyrgð á því, að Hraðfrystihúsið í Hnífsdal sé óstarfhæft og Hnífsdælingar þurfi að ganga atvinnulausir af þeim sökum. Það telur Pétur ekki vera sitt mál. Hann eigi fyrst og fremst að hugsa um, að starfsemi Landssmiðjunnar gangi snurðulaust.

Þegar hér var komið sögu, biður Einar skrifstofustjórann að lána sér síma. Hann hringir heim til Ólafs Thors, sem þá fór með atvinnumál í ráðuneyti Steingríms Steinþórssonar, og kemur beint að efninu, eins og hans var vandi. Hann gerir Ólafi stuttlega grein fyrir erindinu og vandkvæðum Hnífsdælinga, en skrifstofustjórinn neiti að selja sér vatnsrör og spyr Ólaf, hvort hann sem atvinnumálaráðherra fari ekki með málefni Landssmiðjunnar og geti því gefið skrifstofustjóranum fyrirmæli um að selja sér rörin. Ekki er að orðlengja það, að Ólafur sagðist hafa mikla ánægju af að liðsinna honum, biður hann að leyfa sér að tala við Pétur. Einar sendi vatnsrörin til heimabyggðarinnar í Hnífsdal með næstu skipsferð.

Í ársbyrjun 1952 gaf Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna fyrirmæli til allra frystihúsa innan samtakanna um að hætta framleiðslu á karfa fyrir Sovétríkin vegna mikillar birgðasöfnunar. Eftir áramótin kom langur óveðurskafli, línubátar komust ekki á sjó og togararnir lágu undir Grænuhlíðinni dag eftir dag. Einar fréttir, að togarinn Neptúnus sé einn þeirra togara, sem liggi undir Grænuhlíðinni, en skipstjóri á honum var þá Bjarni Ingimarsson, einn af stofnendum Hraðfrystihússins hf. og mikill vinur Einars. Hann lætur kalla Bjarna upp í talstöðina og skýrir fyrir honum vandkvæði Hnífsdælinga, engin vinna dag eftir dag vegna gæftaleysis og vonleysi að grípa um sig á æskustöðvum hans. Hann verði að muna eftir æskustöðvunum, þegar svona hart sé í ári. Bjarni segir honum, að hann sé til í að leggja upp þennan afla, sem hann sé kominn með, og byrja nýja veiðiferð, þegar veðrið gangi niður. Þetta séu um 25 lestir, sitt lítið að hverju, þorskur, ýsa, ufsi og karfi.

Minnugur fyrirmæla Sölumiðstöðvarinnar skýrir Einar skipstjóranum frá því, að hann geti ekki tekið karfann, en allt sé í lagi með hinar fisktegundirnar. Það sé blátt bann við því að frysta karfa. Bjarni telur það ekki koma til mála að landa aðeins hluta aflans. „Allt í lagi, Bjarni minn, við frystum karfann bara fyrir áramót,“ svaraði Einar að bragði og átti þá við, að hagræða mætti dagsetningu framleiðsluskýrslunnar, hún yrði dagsett fyrir áramót. Það gat varla talizt stór synd. Allt gekk eftir, Bjarni kom inn með aflann til löndunar og vinna hófst á ný í frystihúsinu hjá Einari.

Á nær þrjátíu ára starfsferli sínum, tókst Einari Steindórssyni að gera Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal að traustu og öruggu fyrirtæki. Á þessum árum var hann óumdeildur héraðshöfðingi Hnífsdælinga, virtur af sveitungum sínum og samferðamönnum.

Stjórn félagsins, sem kosin var á stofnfundi þess, sat óbreytt til ársins 1947. Þá gekk Elías Ingimarsson úr stjórninni, og var Jóakim Pálsson, skipstjóri, kosinn í stjórnina í hans stað. Á aðalfundi félagsins 1951 hætti Páll Pálsson í stjórninni, en hann hafði setið í stjórn félagsins frá stofnun þess. Í stjórn félagsins voru þá kosnir: Jóakim Pálsson, sem var kosinn formaður, Hjörtur Guðmundsson og Magnús Guðmundsson. Þessi stjórn sat óbreytt til ársins 1967, en þá var Jóakim Hjartarson kosinn í stjórnina í stað föður síns, Hjartar Guðmundssonar, sem lézt árið áður. Árið 1969 var svo Ingimar Finnbjörnsson kosinn í stjórn í stað Magnúsar Guðmundssonar. Hann sat í stjórn félagsins til aðalfundar 1980, en þá var sonur hans, Björn Elías Ingimarsson, skipstjóri, kosinn í stjórnina. Var stjórn félagsins þannig skipuð allt til ársins 1994.


Hraðfrystihúsið Norðurtangi hf.

Árið 1924 keypti Hálfdán Hálfdánsson frá Búð í Hnífsdal land, húseignir og bryggju í Norðurtanga á Ísafirði af Íslandsbanka hf., en bankinn hafði eignazt þetta við gjaldþrotaskipti fyrri eiganda. Hálfdán hafði um árabil stundað saltfiskverkun í Norðurtanga, þegar ófriðurinn skall á og saltfiskmarkaðir í Miðjarðarhafslöndunum lokuðust. Honum var ljóst, að möguleikar saltfiskverkunar yrðu takmarkaðir næstu árin, þó að styrjöldinni lyki, og sala á ísvörðum fiski til Bretlands gæti ekki verið til frambúðar. Í ljósi þessa tók Hálfdán þá ákvörðun snemma árs 1942 að reisa hraðfrystihús í Norðurtanganum. Í maí 1942 sendi hann bygginganefnd Ísafjarðar umsókn um byggingarleyfi fyrir hraðfrystihúsið og fylgdu henni afstöðuteikningar.

Bygginganefnd ræddi málið á tveim fundum og samþykkti á fundi sínum 11. maí að veita leyfið, en þó með ákveðnum skilyrðum um stærð og frágang. Bygginganefndarmenn virðast hafa óttazt ónæði frá hinu nýja hraðfrystihúsi, því að í fundargerð nefndarinnar frá 11. maí segir svo:

„Nefndin vill benda bæjarstjórn á, að hún telur óhæfilegt að væntanlegt frystihús verði drifið með mótorvjel, eða öðrum slíkum orkugjafa, er valdi hávaða.“

Þegar frystihúsið var risið af grunni, kom í ljós, að ekki var nægileg raforka frá orkuverinu í Engidal, sem tók til starfa 1937, nema til að knýja aðra frystipressu hússins. Varð því að kaupa sérstaka aflvél til raforkuframleiðslu, svo að húsið gæti starfað með eðlilegum afköstum. Var hún notuð fram yfir 1950. Bygginganefndarmönnum hefir því verið fullljóst, hvað þeir voru að tala um, þegar þeir bentu á, að óhæfilegt væri að frystihúsið yrði drifið með mótorvél, eins og fram kom í bókun nefndarinnar frá 11. maí. Bæjarstjórn Ísafjarðar veitti leyfi til framkvæmdanna í ágúst 1942 með því skilyrði einu, að frágangi hússins að utan yrði lokið eigi síðar en sumarið 1943.

Hálfdán Hálfdánsson var dæmigerður fulltrúi þeirrar kynslóðar, sem nefnd hefir verið aldamótakynslóðin. Hann var fæddur 1878, sonur Hálfdáns Örnólfssonar hreppstjóra í Meirihlíð í Hólshreppi og konu hans, Guðrúnar Níelsdóttur. Hálfdán ólst upp með foreldrum sínum við þau lífskjör, sem þá voru tíðust hjá bændafólki á Íslandi. Faðir hans var bóndi í Meirihlíð, en jafnframt útgerðarmaður og formaður í Bolungavík. Kunnugir töldu Hálfdán hafa hlotið í arf dugnað og fyrirhyggju frá föðurnum, en manngæði og langrækni móðurinnar. Sá arfur reyndist honum happadrjúgur á lífsleiðinni.

Hann byrjaði róðra í Bolungavík um fermingu og varð formaður á sexæringi 18 ára gamall. Þegar hann var rúmlega tvítugur, fór hann í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk þar námi árið 1900. Þá gerðist hann skipstjóri á vélbátum við Djúp. Reyndist hann í senn farsæll skipstjóri og aflasæll, eins og faðir hans hafði verið.

Eftir aldamótin settist Hálfdán að í Hnífsdal. Hann kvæntist Ingibjörgu Halldórsdóttur frá Búð í Hnífsdal árið 1903, og hófu þau búskap þar. Eftir það var hann alltaf kenndur við Búð. Hann gerðist þá þegar umsvifamikill athafnamaður og stundaði óslitið búskap, útgerð og fiskverkun í Hnífsdal í rúma tvo áratugi.

Eins og áður segir keypti hann árið 1924 „? eignina svonefndan Norðurtanga á Ísafirði með geymsluhúsi og timburbryggju, svo og öllum gögnum og gæðum, sem eigninni fylgja og fylgja ber, allt í því ástandi, sem það er í.“ Kaupverðið var 28 þús. krónur. Þá hófst nýr þáttur í lífi Hálfdáns í Búð og skömmu síðar fluttist hann frá Hnífsdal til Ísafjarðar. Í Norðurtanganum hóf hann fljótlega útgerð og saltfiskverkun. Sú starfsemi lánaðist vel, eins og flest sem hann tók sér fyrir hendur. Um tíma gerði hann út fjóra báta og var með umtalsverða saltfiskverkun. Þegar heimsstyrjöldin brauzt út haustið 1939 stóð starfsemi hans í Norðurtanganum með blóma.

Hálfdán Hálfdánsson skar sig úr í fjölmenni. Hann var mikill maður vexti og fyrirmannlegur í sjón, svipmikill að yfirbragði, hressilegur í viðræðum og persónan bar með sér, að þar fór maður mikillar gerðar. Hann naut sín því vel með öðru fólki. Skapstór var hann og ráðríkur, en kunni þó yfirleitt vel að gæta hófs. Á seinni árum gekk hann jafnan við staf og pjakkaði honum fast niður, ef honum var mikið í skapi. Fyrir kom að hann rauk snögglega upp og varð þá orðhvatur og tunguhvass, en tók sig á fyrr en varði og jafnaði sakirnar. Að öllu jöfnu var hann ekki langrækinn, en gat þó verið það þegar honum þótti verulega gert á sinn hlut. Hálfdán var maður athafna en ekki orða. Honum lét ekki vel að tjá sig í ræðustól. Skap hans var of stórt og ákaflynt til að standa í slíku, en enginn þurfti að velkjast í vafa um skoðanir hans. Þær fór hann aldrei í launkofa með. Hálfdán var þekktur fyrir að líta vel eftir að fólk sitt ynni og halda því vel til verks. Hann var þó alla tíð sérlega hjúasæll, þrátt fyrir ákaflyndi sitt, og starfsfólk hans vissi mæta vel, hvar hjarta hans sló.

Hálfdán var kominn af léttasta skeiði, þegar hann ákvað að hefjast handa við byggingu hraðfrystihúss í Norðurtanganum. Hann var framkvæmdamaður og tilbúinn að takast á við ný og krefjandi verkefni, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður vegna styrjaldarinnar. Hann þótti alla tíð fyrirhyggjusamur maður og gætinn. Ef hann var ekki tilbúinn að samþykkja hugmyndir og tillögur viðmælenda sinna, svaraði hann gjarnan: „Það má alltaf gera það seinna, kannski.“ Merkingu þeirra orða skildu allir. Á þessum árum gekk oft erfiðlega að fá byggingarefni til framkvæmda, en Hálfdán hafði séð fyrir þessu. Hann átti skúra í Hnífsdal, sem hann lét rífa og notaði timbrið úr þeim til uppsláttar, svo að ekki kom til efnisskorts af þeim sökum, þegar framkvæmdir hófust í Norðurtanganum.


Hraðfrystihúsið Norðurtangi hf.
Verkstjórar og vélstjórar


Fyrsti verkstjóri hraðfrystihússins Norðurtanga hf. var Guðbjartur Ásgeirsson, en strax á árinu 1945 tók Guðmundur M. Jónsson við yfirstjórn vinnslunnar. Stýrði hann vinnslunni í 50 ár, allt það tímabil, sem hér er til umfjöllunar. Átti hann lengri starfsferil að baki á þessu svið en nokkur annar maður svo vitað sé. Guðmundur var hjúasæll, með afbrigðum útsjónarsamur og reikningsglöggur og hafði sérlega næmt auga fyrir góðri nýtingu hráefnisins.

Síðari hluta níunda áratugarins fór umræða um innra eftirlit í fiskvinnslufyrirtækjum mjög vaxandi í öllum helztu markaðslöndum okkar, bæði austan hafs og vestan. Markmið stjórnvalda í þessum löndum var að tryggja heilnæmi vörunnar og vernda neytendur gegn hugsanlegum skaða við neyzlu hennar. Í kjölfarið fylgdi aukin áherzla á, að hægt væri að rekja uppruna og vinnsluferil vörunnar. Allt fram að þessum tíma var megináherzlan lögð á eftirlit með snyrtingu og pökkun, en minna sinnt um aðra þætti framleiðslunnar. Nú var farið að leggja aukna áherzlu á allan vinnsluferilinn – frá því að fiskurinn kom um borð í veiðiskip, þar til hann fór sem fullunnin vara um borð í flutningaskip. Það eftirlitskerfi, sem unnið hafði verið eftir fram til þessa, fullnægði ekki lengur hertum kröfum viðskiptavinanna og kallaði á aukið eftirlit. Vorið 1984 kom Kristján G. Jóakimsson til starfa hjá félaginu að loknu námi í sjávarútvegsfræðum við háskólann í Tromsø í Noregi. Vann hann að margvíslegri vöruþróun og framleiðsluútreikningum, en jafnhliða tók hann að sér að byggja upp innra eftirlit í framleiðsluferli fyrirtækisins.

Með vaxandi umsvifum og aukinni framleiðslu tók Jón Þ. Eggertsson við verkstjórn við hlið Guðmundar M. Jónssonar um tíma og síðar Rúnar Guðmundsson, sonur hans. Aðrir verkstjórar í vinnslusal á þessu tímabili voru: Hjörleifur Jensson frá Hnífsdal, Einar Guðmundsson frá Bolungavík, Jakob Hagalínsson, Stígur Stígsson, Hildur Jóhannesdóttir, Rósa Magnúsdóttir og Matthías Vilhjálmsson. Útiverkstjórar voru: Guðmundur E. Guðmundsson, Gísli Jónsson og Jóhann Kárason.

Vélgæzlu önnuðust Ásmundur Magnússon, Sigurður Sigurðsson, Arinbjörn Guðnason, Brynjólfur Guðmundsson, Guðmundur Bárðarson, Jón Kr. Kristjánsson, Helgi Björnsson, Jón Þ. Eggertsson, Pétur Jónsson og Óli Lyngmo.


Harðfiskstöðin hf.

Harðfiskstöðin hf. var stofnuð 5. október 1945. Stofnendur félagsins voru Matthías Ásgeirsson, Sigríður Gísladóttir, Garðar Finnsson, Einar Steindórsson og Halldór Halldórsson, og var hlutafé félagsins kr. 40.000. Félagið kom sér upp starfsaðstöðu á Stakkanesi, þar sem áður var fiskimjölsverksmiðja Björgvins Bjarnasonar. Þar reisti félagið hjalla til framleiðslu á harðfiski fyrir innlendan markað. Matthías Ásgeirsson hóf útgerð tveggja vélabáta árið 1940. Hét annar þeirra Áslaug ÍS 551, en hinn Svandís ÍS 57. Báðum þessum bátum hélt Matthías úti á stríðsárunum. Hann var skipaður skattstjóri í Vestfjarðaumdæmi árið 1944 og hætti þá allri útgerð. Árið eftir stofnaði hann og fjölskylda hans, ásamt Einari Steindórssyni í Hnífsdal og Halldóri Halldórssyni, bankastjóra, Harðfiskstöðina hf. Þetta félag framleiddi mikið af harðfiski fyrir innlendan markað næstu árin.

Ísfirðingur hf. og fimm einstaklingar keyptu öll hlutabréfin í Harðfiskstöðinni hf. haustið 1952. Næstu árin herti félagið mikið af fiski fyrir innlendan markað, aðallega ýsu. Þessari framleiðslu stjórnaði Gísli Hólmbergsson (1895–1988), sem var þaulkunnugur slíkri verkun. Eins og fram kemur í inngangi þessarar samantektar var skreiðin orðin verðmæt útflutningsvara strax á 14. öld og var verðmætasta útflutningsvara landsmanna næstu fimm aldirnar, en síðan lagðist þessi framleiðsla af. Upp úr 1935 hófst skreiðarverkun á ný hér á landi. Þá að norskri fyrirmynd. Fiskurinn var spyrtur og hengdur upp með hrygg og látinn síga og þorna á trönum. Hluti aflans, aðallega stórufsi, var þó yfirleitt verkaður í ráskerðing, sem kallað var. Þá var hryggurinn tekinn úr. Þessi skreiðarverkun var því alls óskyld þeirri skreiðarverkun, sem hér var stunduð á fyrri öldum. Skreiðarverkun var allmikil hér á landi á árunum 1936–1946, en féll þá alveg niður í ein fimm ár. Uppúr 1950 fór skreiðarverkun að aukast á ný. Mest varð framleiðslan árið 1954, en þá voru verkaðar um 13 þús. lestir af skreið hér á landi. Fljótlega eftir að Ísfirðingur hf. keypti Harðfiskstöðina hf. festi hún kaup á landi á Hauganesi við Skutulsfjörð og reisti þar 40 hjalla (fisktrönur) til skreiðarverkunar. Þeir voru fljótir að fyllast og var þá keypt meira land í Skutulsfirði og reistir þar um 150 hjallar. Gísli Hólmbergsson sá um að reisa skreiðarhjallana og tók einnig að sér verkunina og stýrði henni meðan Harðfiskstöðin hf. var í eigu Ísfirðings hf. Skreiðarframleiðslan gekk vel næstu árin. Framleiddi félagið yfir 600 lestir af skreið á árunum 1953–1954. En þegar skreiðin var orðin þurr, þurfti hún mikið húsrými, þar til hún var tilbúin til útflutnings. Flugmálastjórn hafði látið reisa flugskýli í Suðurtanga, sem aldrei hafði verið notað sem flugskýli og staðið autt í mörg ár. Samningar tókust um leigu á því, og var það notað sem skreiðargeymsla næstu árin. Þar var skreiðin geymd, metin og pökkuð til útflutnings. Þetta flugskýli keypti Skipasmíðastöð M. Bernharðssonar hf. árið 1961, þegar stöðin var að undirbúa smíði stálskipa, og byggði við það.

Margt varð þess valdandi, að skreiðarverkun jókst svo mikið hér á landi á sjötta áratugnum. Eins og áður er komið fram, settu Bretar löndunarbann á allan innflutning á íslenzkum fiski til Bretlands haustið 1952. Það setti stórt strik í reikninginn. Togararnir gátu því ekki siglt lengur með ísvarinn fisk til Bretlands, eins og þeir höfðu gert um árabil. Frystihúsin voru einnig vanbúin að taka allan togaraaflann til vinnslu. Uppbygging þeirra var ekki við það miðuð. Einnig var elzti hluti aflans ekki nægilega ferskur til að fara í frystingu. Verð á skreið var aftur á móti hagstætt og gott verð fékkst fyrir ýmsar fisktegundir, sem lítið verð fékkst fyrir í aðra vinnslu, eins og t.d. keilu og ufsa. Skreiðarverkunin var því kærkomin viðbót við fiskiðnað okkar og renndi nýjum stoðum undir sjávarvöruframleiðslu landsmanna. Löndunarbannið sem hafði þann augljósa tilgang að lama íslenzkan sjávarútveg, varð þannig á ýmsan hátt lyftistöng fyrir þennan atvinnuveg og skapaði miklu meiri vinnu innanlands við vinnslu sjávarfangs, heldur en orðið hefði, ef ísfiskmarkaðirnir í Bretlandi hefðu verið opnir. Þessa aukna vinnuframboðs nutu ekki hvað sízt unglingar og skólafólk yfir sumarmánuðina. Þessi vinna var því mörgum kærkomin.

Árið 1961 keyptu Íshúsfélag Ísfirðinga hf. og Þórður Júlíusson hlutabréf Ísfirðings hf. í Harðfiskstöðinni hf., en þá var skreiðarverkun farin að dragast verulega saman. Biafra-stríðið í Afríku braust út árið 1967 og eftir það hefir skreiðarmarkaðurinn í Afríku ekki verið samur og áður. Í ársbyrjun 1997 keypti Íshúsfélag Ísfirðinga hf. hlutabréf annarra hluthafa í félaginu og var Harðfiskstöðin hf. sameinuð Íshúsfélaginu í framhaldi af því.


Rækjuverksmiðja Ísafjarðar tekur til starfa

Fiskimálanefnd tók til starfa í ársbyrjun 1935 og hafði hún tvíþættu hlutverki að gegna, eins og áður er komið fram, þ.e. að styðja nýjungar á sviði fiskveiða og fiskiðnaðar og veita fjárhagslega aðstoð í því sambandi. Forráðamenn Ísafjarðar sneru sér því strax til nefndarinnar í leit að tæknilegri og fjárhagslegri aðstoð við uppbyggingu verksmiðjunnar. Þorvaldur Guðmundsson, sem síðar var kenndur við fyrirtæki sitt, Síld og fisk, og Tryggvi Jónsson frá Akureyri, sem síðar var einnig kenndur við sitt fyrirtæki, Ora hf., voru báðir nýkomnir heim frá námi í niðursuðu, þegar hér var komið sögu. Þorvaldur gerðist ráðunautur Fiskimálanefndar, en Tryggvi tók að sér ákveðin verkefni á þessu sviði og gerðist ráðgjafi bæjarstjórnarinnar í sambandi við stofnun verksmiðjunnar. Hann mætti á fund fjárhagsnefndar Ísafjarðar 10. febrúar 1936 og lagði þar fram áætlun um stofn- og reksturskostnað verksmiðjunnar. Áætlað var að vélar til verksmiðjunnar kostuðu tæpar 5 þús. krónur, og átti verksmiðjan að geta soðið niður 160–170 lestir af rækju yfir árið með venjulegum vinnutíma.

Umsókn bæjarstjórnar Ísafjarðar um lán og styrk til að koma upp og starfrækja rækjuniðursuðu á Ísafirði var send Fiskimálanefnd í kjölfar þessa fundar. Umsókninni fylgdi greinargerð um stofnun og reksturskostnað verksmiðjunnar. Nefndin ákvað að styrkja fyrirtækið á eftirfarandi hátt:

– með því að veita Ísafjarðarkaupstað 7.500 kr. lán með 5% vöxtum, og skyldi lánið greiðast með jöfnum afborgunum í 7 ár.
– með því að kaupa niðursuðuvélar fyrir reikning nefndarinnar fyrir 5.000 krónur og lána þær síðan leigulaust í eitt ár með rétti til kaupa að ári liðnu, og skyldi þá andvirði vélanna greiðast með sömu kjörum og lánið.
– með því að veita fyrirtækinu 2.500 króna óendurkræfan styrk.


Fiskimálanefnd tók að sér að panta vélar til verksmiðjunnar í samráði við Tryggva og Finn Jónsson, sem var formaður atvinnumálanefndar bæjarins. Voru þær keyptar frá Noregi. Hér var ekki um mikinn eða flókinn vélakost að ræða. Hann samanstóð af fótstiginni lokunarvél, sem dósunum var lokað með, kolakyntum suðupotti, því að engin raforka var þá fyrir hendi, og þrýstisjóðara (autoklav).

Á fundi fjárhagsnefndar Ísafjarðar 3. júní 1936 var Tryggvi ráðinn forstöðumaður verksmiðjunnar „fyrst um sinn“ og þess getið, að hann „vinni þar saman við Þorvald Guðmundsson og fjárhagsnefnd“. Á þessum fundi var Þorvaldur Guðmundsson einnig mættur, en hann var þá starfandi ráðunautur Fiskimálanefndar, eins og áður segir. Skýrði bæjarstjóri frá því á þessum fundi, að „Fiskimálanefnd léti bænum í té endurgjaldslaust ráðunaut sinn, Þorvald Guðmundsson, meðan verið væri að koma niðursuðunni af stað“, eins og segir í fundargerðinni. Á fundi nefndarinnar 10. febrúar 1936 kom fram, að Tryggvi kynni til „margháttaðrar niðursuðu, þar á meðal kampalampa. Tryggvi kann þó ekki að búa til sósuna á kampalampann, en hefur í hyggju að sigla nú á næstunni, til þess að útvega sér þá þekkingu.“ Þeirrar þekkingar hafði Þorvaldi tekizt af afla sér í Danmörku „með óvenjulegum en svolítið djörfum hætti“, eins og hann segir í endurminningum sínum. Það var ekki háttur Þorvalds Guðmundssonar að gefast upp í fyrstu atrennu, þó að á móti blési. Hann hafði haft spurnir af mjög fullkominni rækjuverksmiðju í Skagen á Jótlandi, sem hann langaði til að heimsækja. Í þeim tilgangi leitaði hann aðstoðar Sveins Björnssonar, sendiherra í Kaupmannahöfn, en hann var vel kunnugur eiganda verksmiðjunnar. Nokkrum dögum síðar tilkynnti hann Þorvaldi, að ekki gæti orðið af þessu, eigendur danskra rækjuverksmiðja litu á starfsemi sína sem framleiðsluleyndarmál, og þau sjónarmið þeirra bæri að virða. Sveinn Björnsson var embættismaður af gamla skólanum og benti Þorvaldi á, að þar sem Íslendingar veiddu ekki rækju, hefði hann í rauninni ekkert gagn af að læra vinnslu hennar. Þessu sjónarmiði andmælti Þorvaldur og hugsaði sitt ráð.

Með aðstoð kunningja síns, sem bjó í Skagen, tókst Þorvaldi að komast inn í verksmiðjuna sem blaðamaður. Fékk Þorvaldur að skoða alla verksmiðjuna og forstjórinn útskýrði rækjuvinnsluna nákvæmlega fyrir honum og svaraði spurningum hans. Þar með hafði draumurinn rætzt. Þorvaldur hafði fengið þær upplýsingar, sem hann þurfti til að geta starfað við rækjuvinnslu, og það átti svo sannarlega eftir að koma Ísfirðingum að gagni.

En samskiptum Þorvalds og sendiherrans var ekki lokið. Eigandinn komst að því, að blaðamaðurinn væri nemandi í niðursuðu. Hann bar fram harðorð mótmæli við Svein Björnsson, sendiherra, sem hann kom til skila með eftirminnilegum hætti. Veitti hann Þorvaldi harða ádrepu og sagði honum, „að hann hefði orðið landi og þjóð til skammar“ með framkomu sinni. Þorvaldi þótti auðvitað leitt, að hafa reitt sendiherrann til reiði, en þjáðist ekki af neinni sektarkennd.

Verksmiðjan tók til starfa 23. júní 1936. Þeir félagar, Símon Olsen og O. G. Syre, höfðu komið með góðan afla kvöldið áður og fiskuðu þeir fyrir verksmiðjuna fyrstu starfsdagana. Rækjan var öll handpilluð í ákvæðisvinnu og unnu um 35 stúlkur við pillunina fyrst í stað. Aðstæður allar voru mjög frumstæðar. Þeir Tryggvi og Þorvaldur voru miklir mátar og gengu í öll verk, sem vinna þurfti og mættu þeim erfiðleikum, sem á vegi þeirra urðu. Starfsdagurinn varð því oft langur hjá þeim félögum og karlmönnunum, sem með þeim unnu. Fyrstu starfsmenn verksmiðjunnar voru Þórhallur Leósson, Gabríel Syre og Hermann Guðmundsson, en seinna komu þar til starfa bræðurnir Halldór og Böðvar Sveinbjarnarsynir og Högni Jónsson, síðar lögfræðingur. Bátunum var fljótlega fjölgað. Komu þeir að landi að kvöldlagi og var rækjan unnin jafnóðum. Aðalatriðið var að fá rækjuna sem ferskasta til að fá hinn rétta rauða blæ á hana. „Við Tryggvi lögðum mikla áherzlu á hreinlæti og hollustuhætti í verksmiðjunni. Starfsfólkið gætti ýtrasta hreinlætis og fór eftir öllum þeim reglum og fyrirskipunum, sem við gáfum,“ segir Þorvaldur Guðmundsson í viðtali við Högna Torfason.

En ekki er sopið kálið, þó í ausuna sé komið. Framleiðslan fór vel af stað, en fljótlega fór að gæta sölutregðu. Um það segir Þorvaldur í áðurnefndu viðtali sínu:

„Við urðum aldrei fyrir neinum skakkaföllum á markaðnum og það segir mikið um gæði vörunnar. En snemma kom að því að selja þurfti rækjuna. Nokkuð var selt á innanlandsmarkað, en tæpast umtalsvert. H. Ólafsson & Bernhöft og Sambandið seldu fyrir okkur, en varan var óþekkt og lítil eftirspurn, en vann sig þó alltaf upp.

En verksmiðjustjórnin hafði talið sig hafa sölusamband í Danmörku, en það hafði brugðizt og ég vaknaði upp við vondan draum þegar í ljós kom, að ekkert hafði verið selt út og komnir á lager 650 kassar, hver með 100 dósum. Það þótti nú mikið á þeim árum og ófært að hafa ekki sölusambönd erlendis. Þá var það samþykkt hjá þeim bæjarstjórnarmönnum, að ég færi út að selja rækjuna.

Ég hafði aldrei lært neitt til sölumennsku, en tók þetta að mér fyrir bjartsýni og áræði, ja, léttlyndi má segja. Ég fór um sjö lönd með þessa rækju og kom með ágæta samninga til baka. Þetta byrjaði eiginlega í Færeyjum. Færeyingar keyptu lítilsháttar af rækju. En mjög góð sambönd náðust í Danmörku og Englandi og nokkuð var selt til Frakklands, en illa gekk í Hollandi, Belgíu og Þýzkalandi. Þessi sölusambönd héldust svo lengi sem ég vissi til og aldrei safnaðist neitt fyrir. Ég sagði, að við hefðum fengið einum eyri meira en Norðmenn fyrir dósina, og það var vegna þess að rækjan okkar var betri og snyrtilegar pakkað í dósirnar. Það var einungis pakkað í eina dósastærð, svo kallaða kvart-Dingley.“


Fiskimálanefnd samþykkti að veita verksmiðjunni styrk að fjárhæð kr. 1.800 til þessarar markaðsleitar.

Tryggvi Jónsson hætti störfum hjá Rækjuverksmiðju Ísafjarðar seint um sumarið 1936, en hann var þá búinn að binda sig til starfa við niðursuðuverksmiðju í Danmörku. Þorvaldur hætti svo haustið 1937, en þá var hann búinn að starfa við verksmiðjuna í hálft annað ár. Verksmiðjan var þá komin í fullan rekstur. Í árslok 1937 var ráðin norsk stúlka, Helga Nielsen Rakka, til verksmiðjunnar. Hafði hún unnið lengi við rækjuvinnslu í Noregi og var vel að sér í þeim efnum. Varð að ráði, að hún tæki að sér stjórn úrvinnslu hráefnis. Starfaði hún hjá verksmiðjunni um tveggja ára bil og viðhélt þeirri nákvæmni og vandvirkni, sem þeir Þorvaldur og Tryggvi höfðu innleitt. Þórhallur Leósson tók þá við sem verkstjóri, og var Böðvar Sveinbjarnarson ráðinn aðstoðarmaður hans. Framkvæmdastjóri verksmiðjunnar var Gunnar Andrew, og sá hann um bókhald og allar fjárreiður hennar.

Þrátt fyrir gott gengi í vinnslunni, átti verksmiðjan við sívaxandi erfiðleika að stríða vegna skorts á rekstursfé og söluerfiðleika á framleiðslunni. Gekk verksmiðjunni illa að standa í skilum með vinnulaun og greiðslur á afla. Veturinn 1939 voru þessir erfiðleikar orðnir það miklir, að farið var að ræða um leigu eða sölu á verksmiðjunni. Framtíð verksmiðjunnar var því mjög óráðin um þessar mundir. Bæjarstjórn kaus verksmiðjunni strax í upphafi sérstaka stjórn, og var Guðmundur G. Hagalín formaður hennar allan tímann, sem hún starfaði. Í minningabók sinni, Þeir vita það fyrir vestan, segir Hagalín: „En ég hafði mikla trú á framtíð niðursuðu á Ísafirði, og fékk ég svo Önfirðinginn Jón Kjartansson til að kaupa verksmiðjuna og reka hana áfram.“ Verksmiðjan var síðan seld Jóni Kjartanssyni, forstjóra í Reykjavík, og Jónasi Þorbergssyni, útvarpsstjóra, 5. nóvember 1939 og stofnuðu þeir hlutafélag um reksturinn með fleiri aðilum. Náinn og gróinn vinskapur var með þeim Jóni Kjartanssyni og Hagalín, eins og fram kemur í bók hans, og varð Hagalín einn af hluthöfunum í hinu nýja fyrirtæki og gegndi þar stjórnarformennsku næstu árin.

Jón Kjartansson var Önfirðingur, ættaður frá Efrihúsum í Mosvallahreppi. Hann var farkennari í Mosvallahreppi veturinn 1910–11, þá á átjánda ári og síðan áfram tvo næstu vetur, þar sem ekki tókst að ráða lærða kennara. Haustið 1916 kom Jón Kjartansson aftur til kennslustarfa í heimabyggð sinni, þá búinn að vera í kennaraskólanum, og kenndi hann þann vetur á tveim bæjum í hreppnum. Hann stundaði síðan verzlunarstörf, búrekstur, útgerð o.fl. í Reykjavík frá 1918 og stofnaði Sælgætisgerðina Víking árið 1931.


Rækjuverksmiðjan í Hnífsdal hf. og Bakki hf.

Það var vorið 1959, sem þeir Sigurður Sv. Guðmundsson (1910–1997) í Hnífsdal og Böðvar Sveinbjarnarson stofnuðu til rækjuvinnslu í Hnífsdal. Nefndu þeir fyrirtækið Rækjuverksmiðjuna í Hnífsdal hf. Upphaflega voru eignarhlutföll þannig, að Sigurður átti 1/3, en Böðvar 2/3 í verksmiðjunni. Eftir tvö ár keypti Sigurður eignarhluta Böðvars. Frá árinu 1961 var verksmiðjan alfarið í eigu fjölskyldu Sigurðar, hans sjálfs, eiginkonu hans og barna þeirra. Verksmiðjunni var valinn staður við Hnífsdalsána, því að „þá var hægt að losa úrganginn beint út í Hnífsdalsána“. Byggingarframkvæmdir við verksmiðjuna hófust vorið 1959, og tók hún til starfa 12. september 1959. Húsakynnin voru á einni hæð, 120–130 fermetrar að flatarmáli og störfuðu þar um 30 konur við pillun. Við verkstjórninni tók Guðmundur Tr. Sigurðsson, sonur Sigurðar, og var hann verkstjóri allan þann tíma, sem verksmiðjan starfaði.

Fyrstu 11 árin var öll rækjan handpilluð, en árið 1970 var keypt pillunarvél af Scrametta-gerð. Þessar vélar pilluðu rækjuna hráa, en þeir feðgar, Sigurður og Guðmundur, létu útbúa sérstakan forsjóðara, sem þeir notuðu með góðum árangri í nokkur ár. Var pillunin þá miklu auðveldari, heldur en á hrárri rækju. Scrametta endurbætti seinna þessar vélar og fór að framleiða þær með sérstökum sjóðara. Þegar vélin var tekin í notkun tóku þeir feðgar á leigu húsakynni á Stekkjunum í Hnífsdal, sem voru í eigu Útvegsbanka Íslands á Ísafirði. Nokkrum árum síðar festu þeir kaup á þessum húsakynnum og byggðu við þau. Jafnframt var aukið við vélakostinn og þegar kom fram á níunda áratuginn var verksmiðjan komin með þrjár pillunarvélar.

Sumarið 1970 leigði verksmiðjan vélbátinn Mími frá Hnífsdal til tilraunaveiða á úthafsrækju. Voru þeir Björn Elías Ingimarsson og Jón Kr. Jónsson skipstjórar til skiptis. Þær tilraunir báru takmarkaðan árangur. Á sama tíma var Árni Þorgilsson að gera slíkar tilraunir á vélbátnum Sigrúnu frá Súðavík. Hann náði fljótlega þokkalegum árangri og upp frá því fór þessi veiðiskapur að þróast. Fljótlega fundust góð mið á stóru svæði fyrir öllu Norðurlandi, allt austur á Héraðsflóa. Síðar fundust góð rækjumið í Kolluál.

Jafnframt auknum úthafsveiðum á rækju fóru verksmiðjurnar við Djúp að kaupa rækju af erlendum veiðiskipum til endurvinnslu. Í lok níunda áratugarins fóru grænlenzkir togarar að koma til Ísafjarðar með rækju til umskipunar. Þessir togarar voru mest að veiðum á Dohrn-banka. Stærri rækjan var þá send áfram á markað í Asíu og Evrópu, en minni rækjan var seld hér á landi til endurvinnslu. Einnig keyptu verksmiðjurnar verulegt magn af færeyskum og rússneskum togurum, sem voru að veiðum í Barentshafi. Allt stuðlaði þetta að aukinni framleiðslu og bættri nýtingu verksmiðjanna.

Rækjuverksmiðjan í Hnífsdal starfaði í rúman aldarfjórðung, til ársins 1987. Á útmánuðum árið 1987 ákváðu eigendurnir að selja verksmiðjureksturinn. Festu þeir Aðalbjörn Jóakimsson, skipstjóri á rækjutogaranum Hafþóri, og Kristján K. Jónasson, framkvæmdastjóri Djúpbátsins hf., ásamt eiginkonum sínum, kaup á húseignum og vélum verksmiðjunnar, en rækjubátinn Sigga Sveins og aðrar eignir félagsins keypti Guðmundur Tr. Sigurðsson. Þeir Aðalbjörn og Kristján stofnuðu hlutafélag um reksturinn og hlaut það nafnið Bakki hf. Það félag tók við rekstrinum í byrjun marz árið 1987. Aðalbjörn Jóakimsson tók við framkvæmdastjórn fyrirtækisins, en fljótlega eftir stofnun Bakka hf. tók Agnar Ebenezersson þar við framleiðslustjórn.

Stofnun og starfsemi rækjuverksmiðjunnar Meleyrar hf. á Hvammstanga tengist óneitanlega Rækjuverksmiðjunni í Hnífsdal með óbeinum hætti. Meleyri hf. var stofnuð árið 1972 með 650 þús. kr. hlutafé, og voru stofnendur Sigurður Sv. Guðmundsson og sonur hans Guðmundur Tr. Sigurðsson í Hnífsdal, Theódór Norðquist og Sigurjón Hallgrímsson á Ísafirði, Guðrún Farestveit og Hreinn Halldórsson í Reykjavík, Karl Sigurgeirsson, Brynjólfur Sveinbergsson og Ingólfur Guðnason á Hvammstanga, svo og Rækjuverksmiðjan í Hnífsdal hf. og Verzlun Sigurðar Pálmasonar á Hvammstanga. Stjórnarformaður fyrstu árin var Sigurður Sv. Guðmundsson, en framkvæmdastjóri Hreinn Halldórsson.

Náið samstarf var alla tíð á milli þessara tveggja fyrirtækja, Meleyrar hf. og Rækjuverksmiðjunnar í Hnífsdal, og þegar Guðmundur Tryggvi seldi hlut sinn í Hnífsdalsverksmiðjunni, fluttist hann til Hvammstanga og stjórnaði verksmiðjunni þar til ársins 1999. Hann hafði þá starfað við rækjuvinnslu í fjóra áratugi.


Framfarir í sextíu ár

Fyrstu fjórir áratugir liðinnar aldar voru miklir breytingatímar í ísfirzku atvinnulífi. Allt fram til aldamótanna voru þilskipin, sem komu um miðja 19. öldina, og árabátarnir þýðingarmestu atvinnutæki Ísfirðinga. Í byrjun aldarinnar kom fyrsta bátsvélin til bæjarins og átti eftir að gjörbreyta allri sjósókn á undraskömmum tíma. Vélvæðing bátaflotans markaði upphaf atvinnubyltingar, sem stóð allt fram að byrjun síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1939. Það er á vissan hátt athyglisvert, að á sama tíma verða engar umtalsverðar breytingar í verkun sjávaraflans, ef undan er skilin síldarsöltunin, sem var viðbót við annars einhæfa framleiðslu sjávarafla. Norðmenn hófu síldarsöltun á ný hér við land í byrjun 20. aldar og fylgdu Íslendingar fljótlega í kjölfarið. Árið 1912 veiddu Íslendingar helming síldaraflans á móti Norðmönnum og tóku síðan forystuna fjórum árum síðar. Síldarsöltun var stunduð yfir sumarmánuðina flest árin, en verðmæti síldarafurða var aldrei í líkingu við verðmæti saltfisksins. Allt þetta tímabil var saltfiskverkunin grundvöllur fiskvinnslunnar. Vöxtur og viðgangur Ísafjarðar byggðist á verkun og útflutningi saltfisks öll þessi ár. Saltfiskurinn var helzta og verðmætasta útflutningsvara bæjarbúa, sem og landsmanna allra. Í hugum flestra landsmanna var fiskur á þessum árum hversdagsmatur, en ekki munaðarvara. Við vorum enn þá á „soðningarstiginu“. Litlar sem engar breytingar áttu sér stað í framleiðslunni og umbúðirnar voru hinar sömu. Saltfiskurinn var vigtaður í 50 kg pakka og pakkaður í hessíanstriga. Þannig stóð þetta fram yfir 1940, að freðfiskurinn leysti saltfiskinn af hólmi.

Heimskreppan hófst hér á landi árið 1930, nokkru seinna en annars staðar í heiminum, og setti svip sinn á atvinnulíf landsmanna allan fjórða áratuginn. Hún hófst með miklu verðfalli á útflutningsafurðum og jafnframt tók að gæta sölutregðu á mörkuðum erlendis. Á þriðja áratugnum höfðu Íslendingar notið hagstæðs verðlags erlendis og eftirspurn eftir íslenzkum sjávarafurðum hafði verið mikil. Áratugurinn 1930–1940 reyndist atvinnulífinu í landinu því misviðrasamur. Þessi ár voru auk þess tímabil aukinnar skipulagshyggju og ríkisafskipta á öllum sviðum, en því miður jafnframt tími stöðnunar og jafnvægisleysis, sem heimskreppunni verður ekki kennt um nema að hluta til. Röng gengisskráning krónunnar var heimatilbúinn vandi, sem ekki er hægt að kenna öðrum um. Undirstöðuatvinnuvegur landsmanna – sjávarútvegurinn – varð fyrir stöðugum ágjöfum allt þetta tímabil. Hann barðist lengst af í bökkum og forystumenn hans sáu aldrei til sólar. Þetta varð til þess að tefja alla framþróun og framfarir innan greinarinnar á þessu tímaskeiði. Hlutverk stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækjanna varð öðru fremur að reyna að halda sjó. Það er fyrst í lok þessa tímabils, sem farið er að leita nýrra leiða til aukinnar og breyttrar hagnýtingar sjávaraflans. Ber þar hæst hraðfrystingu botnfiskaflans og niðursuðu rækju.

Þegar England hvarf frá gullmyntfætinum haustið 1931, fylgdi íslenzka krónan pundinu, eins og gjaldmiðlar hinna Norðurlandanna. Danska krónan var síðan lækkuð allverulega, sem og sænska krónan. Árið 1926 var danska krónan skráð á 119,61 en árið 1937 á 100,00. Sænska krónan var skráð á 122,20 árið 1926, en 114,36 árið 1937. Íslenzka krónan hækkaði því verulega gagnvart hinum Norðurlandakrónunum á þessum árum. Þessi gengisstefna þrengdi stöðugt að framleiðsluatvinnuvegunum og bitnaði það harðast á þeim byggðarlögum, sem voru að framleiða útflutningsafurðir og áttu allt sitt undir því verði, sem fékkst fyrir afurðirnar á erlendum mörkuðum. Fyrir þessi byggðarlög hafði utanríkisverzlunin mun meiri þýðingu heldur en þau byggðarlög, sem framleiddu vörur fyrir innlendan markað eða byggðu afkomu sína á margvíslegri þjónustustarfsemi. Í stað þess að efla útflutningsatvinnuvegina til aukinnar gjaldeyrisöflunar stuðluðu stjórnvöld á þessum árum að framleiðslu neyzluvarnings fyrir innlendan markað og margvíslegum óarðbærum framkvæmdum. Í árslok 1934 var allur fiskiskipaflotinn metinn á ca. 13 millj. kr., en árin 1933–1937 voru byggð hús í Reykjavík einni saman fyrir 5,0–6,5 millj. kr. árlega. Á þessum fimm árum var því lagt í ný hús í Reykjavík tvöfalt andvirði alls fiskiskipaflotans, sem samtímis var að ganga saman, og sáralítil uppbygging varð í fiskvinnslu á þessum árum.

Þegar líða tók á fjórða áratuginn, var flestum stjórnmálamönnum landsins orðið ljóst, að þetta ástand gæti ekki gengið öllu lengur og breytinga væri þörf. Stjórnmálaástandið var hvikult á þessum árum og útlitið uggvænlegt, efnahagsmálin voru í öngþveiti og ástand sjávarútvegsins sérstaklega alvarlegt. Þar við bættist að í alþjóðamálum hafði skapazt hættuástand vegna styrjaldarógnar. Þegar Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi um gengislækkunarfrumvarpið á útmánuðum 1939, komst hann svo að orði: „að þingmenn væru sammála um, að framleiðslan, ekki sízt til sjávarins, sé að hruni komin.“ Og íslenzka krónan sé „í raun og veru mikið fallin í verði“ og flestir viðurkenni að svo sé. Um þetta séu ekki skiptar skoðanir, heldur hitt, hvaða ráðstafanir gera þurfi vegna verðfellingar hennar.

Stefán Jóh. Stefánsson, sem þá var nýlega orðinn formaður Alþýðuflokksins, tók í sama streng. Hann lýsir ástandinu þannig í Minningum sínum:

„Útlitið í heimsmálunum hafði farið stöðugt versnandi og auk þess voru horfurnar í efnahagsmálum orðnar ískyggilegar, sérstaklega var illa komið fyrir togaraflotanum og þurfti þar mikil átök og afleiðingarík til þess að bjarga málunum við. Meðal annars var ljóst orðið að óhjákvæmilegt mundi vera að skerða gengi krónunnar nokkuð.“

Svipuð sjónarmið setti Eysteinn Jónsson, ritari Framsóknarflokksins, fram í umræðum um gengislækkunarfrumvarpið. Það var því ekki um skoðanaágreining að ræða hjá þessum þrem flokksleiðtogum í þessu máli.

Þjóðstjórnin, sem skipuð var fulltrúum þriggja flokka, Alþýðuflokksins, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, tók við stjórnartaumum 17. apríl 1939. Nokkru áður en stjórnin kom til valda náðist samkomulag milli þeirra flokka, sem að stjórninni stóðu, um leiðréttingu á gengi krónunnar. Gengið var fellt með lögum frá Alþingi 4. apríl 1939. Samkvæmt lögunum hækkaði sölugengi sterlingspunds úr kr. 22,15 í kr. 27,00. Í greinargerð með frumvarpinu sagði m.a.: „Þegar til lengdar lætur, er ákaflega örðugt og raunar ókleift að halda við gengisskráningu, sem er mjög fjarri því verði, sem gjaldeyririnn yrði seldur á í frjálsum viðskiptum.“ Það höfðu stjórnvöld þó gert um langt árabil. Gengið hafði verið óhreyft allt frá árinu 1926, þó að aðrar þjóðir leiðréttu gengi sinna gjaldmiðla, eins og áður er komið fram. Ennfremur segir í greinargerðinni, að í frumvarpinu felist aðeins viðurkenning á þeirri staðreynd, að gengi íslenzku krónunnar hafði verið fallið, miðað við erlendan gjaldeyri. Til að vega upp á móti þeim kjaraskerðingaráhrifum, sem gengislækkuninni voru samfara, skyldi takmörkuð dýrtíðaruppbót greiðast á lægri laun en að öðru leyti voru launahækkanir bannaðar með lögum til 1. apríl 1940.

Flutningsmenn frumvarpsins voru fjórir úr þrem stjórnmálaflokkum: Ráðherrar atvinnu- og fjármála Skúli Guðmundsson og Eysteinn Jónsson, Alþýðuflokksmaðurinn Finnur Jónsson og Pétur Ottesen frá Sjálfstæðisflokknum. Þröngsýn og skammsýn sjónarmið ráða oft ferðinni, þegar kemur til samvinnu stjórnmálaflokka um afgreiðslu þýðingarmikilla mála. Það sannaðist átakanlega við afgreiðslu gengislækkunarlaganna 1939. Allir þingmenn Framsóknarflokksins greiddu atkvæði með frumvarpinu og einnig allir þingmenn Alþýðuflokksins, nema Sigurjón Á. Ólafsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, sem greiddi atkvæði á móti. Einnig greiddu allir þingmenn Sósíalistaflokksins atkvæði á móti frumvarpinu. Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði í tvo jafna hluta í afstöðu sinni um málið og greiddu níu atkvæði með frumvarpinu, en átta voru á móti. Formaður flokksins, Ólafur Thors, beitti sér mjög fyrir samþykkt frumvarpsins, ásamt þeim þingmönnum, sem aðallega sóttu fylgi sitt til sjávarbyggða landsins. Þeir skildu öðrum fremur, hvar skórinn kreppti. Ólafur kvaðst vera meðal þeirra, sem teldu gengisfellingu ekki aðeins færustu leiðina, eins og ástatt væri, „heldur einustu leiðina“. Hinu leyndi Ólafur ekki, að flokkur sinn hefði „skipta afstöðu til málsins?, eins og hann orðaði það. En þrátt fyrir harðfylgi formannsins, og rómaða áróðurshæfileika tókst honum ekki að sveigja flokksbræður sína til fylgis við frumvarpið. Helmingur af þingliði flokksins treysti sér ekki til að ganga í berhögg við sjónarmið verzlunarstéttarinnar í Reykjavík. Árni Jónsson frá Múla, sem þá var einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og stjórnmálaritstjóri dagblaðsins Vísis, segir í inngangi að Þjóðstjórnarannál sínum, sem hann gaf út árið 1942: „Þótt löggjöf þessi væri vel séð í hópi útgerðarmanna, fór því fjarri, að hún ætti fylgi að fagna meðal kjósenda höfuðstaðarins almennt.“ ? „Verzlunarstéttin, sem dyggilegast hafði stutt Sjálfstæðisflokkinn, stóð svo að segja óskipt gegn gengisfellingunni.“ Hér er ekkert verið að fara í felur með það, að verzlunarstéttin og kjósendahræðsla réðu afstöðu flestra þingmanna Reykvíkinga í þessu máli. Það er að sjálfsögðu mikil einföldun og fjarri öllu lagi, að jafnbreið pólitísk samstaða hefði náðst um málið, ef það hefði aðeins þjónað hagmunum nokkurra útgerðarmanna. Hér var tekizt á um hagsmuni þeirra sem unnu framleiðslustörfin í landinu og þurftu að fá eðlilegt verð fyrir framleiðslu sína, annars vegar, og verzlunarstéttarinnar í Reykjavík, sem byggði afkomu sína á þjónustustörfum, hins vegar. Einhvern tíma hefði þetta verið nefnd óeðlileg kjósendafyrirgreiðsla, en stundum halda menn, að Laugavegurinn í Reykjavík sé naflastrengur þjóðarinnar.

Árni Jónsson frá Múla var einn þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem greiddi atkvæði á móti frumvarpinu um gengisfellinguna. Hann taldi nægilegt að lækka gengið um 10%, þegar frumvarpið gerði ráð fyrir 22% gengislækkun. Aðrir þingmenn vildu veita uppbætur á sjávarafurðir, til þess að þurfa ekki að hrófla við genginu. Sú stefna varð vinsæl hjá mörgum ríkisstjórnum síðar á öldinni, eins og alkunna er og síðar verður vikið að. Árni Jónsson var svarinn andstæðingur Þjóðstjórnarinnar og fór ekki dult með þá afstöðu sína í skrifum sínum í dagblaðinu Vísi.

Meginmarkmið Þjóðstjórnarinnar var „að efla framleiðslustarfsemina í landinu“. Með leiðréttingu gengisskráningarinnar voru sköpuð skilyrði til þess að það mætti takast. Skömmu eftir að stjórnin tók við völdum skall á heimsstyrjöld. Dr. Magnús Jónsson, prófessor, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma, studdi gengislækkunarfrumvarpið og var eindreginn stuðningsmaður stjórnarinnar, segir um stjórnarsamstarfið:

„Hafi menn verið í vafa um þörfina á því, að flokkarnir gengju til samvinnu, hvarf sá vafi, þegar ófriðurinn brauzt út um mánaðamótin ágúst-september 1939. Má það heita einstakt lán, að samvinnan skyldi takast nokkru áður, því að bæði voru ráðstafanir þær, sem gerðar höfðu verið mjög gagnlegar, og auk þess voru ráðherrarnir nú orðnir vanir samstarfinu og miklu betur búnir undir þær ráðstafanir, sem gera þurfti, en verið hefði ef samsteypustjórn hefði verið sett á laggirnar í skyndi í ófriðarbyrjun.“

Enginn vafi er á því, að gengisbreytingin hleypti nýju lífi í sjávarútveginn í landinu strax á árinu 1939, þegar hann fékk á ný eðlilegt verð fyrir afurðir sínar. En strax um haustið fóru áhrif heimsstyrjaldarinnar að segja til sín. Sjö hraðfrystihús höfðu tekið til starfa hér á landi árið 1936. Eitt þessara húsa var Íshúsfélag Ísfirðinga hf., sem var komið með verulega vinnslu, þegar heimsstyrjöldin skall á. Hið sama er að segja um Rækjuverksmiðju Ísafjarðar, sem hóf starfsemi á sama tíma. Segja má, að þessir tveir vaxtarbroddar hafi markað upphaf þeirrar framþróunar, sem varð í ísfirzkum fiskiðnaði næstu áratugina. Strax á stríðsárunum tóku tvö önnur hraðfrystihús til starfa, þ.e. Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal og Hraðfrystihúsið Norðurtangi hf. Þessi þrjú fyrirtæki urðu burðarásar í atvinnulífi byggðarlagsins næstu áratugina og héldu uppi mikilli atvinnu, þó að framleiðsla þeirra væri ekki stór í sniðum fram til 1970. Þá urðu þáttaskil með tilkomu skuttogaranna og aukinni vélvæðingu vinnslunnar. Til marks um þá framleiðsluaukningu, sem þá varð má benda á, að sjöunda áratuginn framleiddu þessi þrjú frystihús um 34 þús. lestir, á áttunda áratugnum var framleiðslan 75 þús. lestir og var lítt breytt níunda áratuginn eða 72 þús. lestir. Mikil uppbygging varð í þessari atvinnugrein á þessum tíma, flökunarvélar leystu mannshöndina af hólmi á áttunda áratugnum og rafeindatæknin gjörbreytti allri vinnslunni á níunda áratugnum.

Í rækjuvinnslunni varð hliðstæð framþróun. Árið 1959 var fyrsta pillunarvélin tekin í notkun og á sjöunda áratugnum lagðist handpillun algjörlega af. Eftir 1970 var öll rækja vélpilluð og frystingin tók að mestu leyti við af niðursuðunni. Í byrjun níunda áratugarins fór úthafsrækjan að hafa meira vægi í vinnslunni, en fram til þess byggðist rækjuvinnslan alfarið á innfjarðarækjunni, sem veidd var í Ísafjarðardjúpi. Árið 1983 varð stökkbreyting í þessum efnum með stóraukinni veiði úthafsrækju. Einnig fóru verksmiðjurnar þá í vaxandi mæli að kaupa rækju til endurvinnslu af erlendum veiðiskipum. Þessu fylgdi mikil uppsveifla og uppbygging í greininni næstu árin. Frystitækninni fleygði einnig fram með tilkomu afkastamikilla lausfrysta og rækjuvinnslan tók rafeindatæknina í þjónustu sína á sama hátt og frystihúsin.

– – – – –

Eftir að uppbótakerfið var aflagt – sem vissulega var mikið framfaraspor – tók við svo nefnd núll-afkomustefna stjórnvalda. Gengisskráningin og afkoma útflutningsatvinnuveganna var miðuð við það, að fyrirtækin næðu núll-punkti í afkomu. Fyrirtækjum var nær fyrirmunað að skila arði. Það var litið á bættan hag þeirra sem dæmi um fjandsamlega afstöðu stjórnvalda til samtaka launafólks.

Það er í sjálfu sér mjög æskilegt, að halda gengi gjaldmiðilsins sem stöðugustu, en það markmið næst ekki á verðbólgutímum án illbærilegra fórna. Á áttunda og níunda áratugnum var hér í landi óðaverðbólga, lengst af 50–84%. Á sama tíma var hér við lýði verðtryggingarkerfi, sem tryggði yfirleitt flest annað en sæmilega afkomu fyrirtækjanna. Gripið var til ýmissa ráða, til þess að stöðva verðbólguskriðið, tekin var upp sveigjanleg gengisstefna og gengið látið síga, en vaxandi verðbólga innanlands leiddi til hraðara gengissigs, heldur en stjórnvöld höfðu búizt við, svo að þessi breyting gekk ekki upp. Þessi ár einkenndust því af miklum óstöðugleika og engin ríkisstjórn, sem hér var við völd á þessu tímaskeiði, þorði að höggva að rótum vandans, afnámi verðtryggingarkerfisins. Í lok níunda áratugarins var komið að vatnaskilum. Með þjóðarsáttarsamningunum í ársbyrjun 1990 og hliðarráðstöfunum, sem gerðar voru í tengslum við þá, tókst loks að tryggja þann stöðugleika, sem atvinnureksturinn hafði beðið eftir alla öldina.

Í upphafi þess tímabils, sem hér hefir verið fjallað um, voru Íslendingar að koma út úr mikilli efnahagskreppu með tilheyrandi atvinnuleysi. Það var því meginmarkmið stofnenda þeirra atvinnufyrirtækja, sem hér hefir verið fjallað um, að stofna til heilbrigðrar atvinnustarfsemi fremur en hagnaðarvon. Þessari starfsemi var ætlað að skapa ný og aukin atvinnutækifæri fyrir bæjarbúa, sem gætu fyllt það skarð sem myndaðist, þegar saltfiskverkunin lagðist af. Segja má, að þetta hafi verið leiðarljós allra þeirra, sem héldu um stjórnvöl þessara fyrirtækja allt þetta tímabil. Ekki verður annað sagt, en þolgæði stjórnenda og eigenda þeirra hafi oft á tíðum fleytt þeim yfir erfiðar hindranir, eins og áður hefir verið vikið að. Þess vegna tókst að ná þeim markmiðum, sem stofnendurnir settu sér í upphafi. Þessi nýju fyrirtæki myndu í dag flokkast undir það, sem kallað er „sprotafyrirtæki“. Þau sköpuðu mikla atvinnu í bænum og gáfu skólafólki tækifæri til að vinna við framleiðslustörf yfir sumarmánuðina, eins og á saltfiskárunum, bæði í frystihúsunum og rækjuverksmiðjunum, þegar annað starfsfólk þessara fyrirtækja tók sér sumarleyfi. Einnig stuðluðu þessi fyrirtæki að fjölþættri þjónustustarfsemi í mörgum greinum innan bæjarfélagsins. Því fer þó víðs fjarri, að þau hafi verið rekin sem einskonar félagsmálastofnanir, eins og stundum hefir verið látið í veðri vaka. Markviss uppbygging allt þetta tímabil og bætt vinnuaðstaða starfsmanna sýnir allt annað.

Í byrjun tíunda áratugarins urðu umtalsverðar breytingar á fjármálamarkaði hér á landi. Verðbréfa- og hlutabréfamarkaðir komu til sögu og allt fjármálaumhverfi breyttist á tiltölulega skömmum tíma. Nýir tímar og breytt rekstrarumhverfi kallaði á breyttar áherzlur. Í kjölfarið hófst mikil umræða um sameiningu rækjuverksmiðjanna og síðar frystihúsanna. Bankar og fjármálastofnanir ýttu mjög undir þessa þróun. Ísfirzkt atvinnulíf hafði frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar ýmist verið rekið í samvinnufélagsformi eða af lokuðum hlutafélögum. Nú var atvinnulífið í landinu að færast í vaxandi mæli yfir í opin hlutafélög, sem gátu sótt nýtt fjármagn út á markaðinn, þegar henta þætti. Í mörgum tilfellum var einnig farið að halla á starfsævi margra eigenda og stjórnenda þessara fyrirtækja og komið að því að nýir stjórnendur tækju við stjórnartaumum. Þessar breytingar gengu fyrir sig á tiltölulega skömmum tíma og miklar sameiningar áttu sér stað í lok liðinnar aldar. Í landinu var risin upp ný stétt með ný lífsviðhorf. Þar er lífið ekki saltfiskur eða freðfiskur heldur verðbréf. Þar er lífssýnin afföll, vextir og arður. Hefðbundin uppbygging atvinnulífsins telst hégóminn einn. Þetta tilheyrir hins vegar öðru tímabili heldur en hér er til umfjöllunar. Því verður enginn dómur lagður á það, hvort þessar sameiningar og breytingar hafa fært Ísfirðingum heilbrigðari og betri atvinnustarfsemi en áður var. Eitt má þó öllum vera ljóst, að ísfirzkt atvinnulíf hefir tekið miklum og umtalsverðum breytingum frá því sem var um miðbik og á síðari hluta fyrri aldar. Hugsjónir stofnendanna ráða ekki lengur ferð. Framlag starfsfólksins til uppbyggingar og aukinnar verðmætasköpunar er nú minna metið. Markaðsöflin – fjármagnið og arðsemi þess – eru nú leiðarljósið og ræður nú meiru í rekstri fyrirtækjanna en áður var. Allt breytist í tímans rás.

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli