Frétt

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir / Erindi flutt á rækjuhátíðinni Kampalampinn 2003 | 14.08.2003 | 09:29Upphaf rækjuveiða við Ísland

Ole G. Syre og Simon Olsen
Ole G. Syre og Simon Olsen
Það þarf því ekki að koma á óvart að þeir tveir menn sem öðrum fremur teljast frumkvöðlar rækjuveiða og rækjuiðnaðar á Ísafirði, skyldu vera af erlendum uppruna, framsýnir menn með önnur viðhorf en landinn. Þetta voru Norðmennirnir Ole Gabrielsen Syre og Símon Olsen frá eynni Karmöy sem er rétt sunnan við Haugasund í Noregi. Sá fyrrnefndi var búsettur á Íslandi frá árinu 1909, lengst af á Ísafirði. Hann var einn af upphafsmönnum síldarsöltunar þar og rak síldarútveg og lifrarbræðslu um árabil. Syre var opinn fyrir öllum nýjungum í sjávarútvegi og reyndi fyrir sér við margt. Um miðjan þriðja áratuginn stundaði hann reknetaveiðar í Ísafjarðardjúpi og var því þaulkunnugur fiskigöngum og öllum aðstæðum við Djúp. Hann hefur án nokkurs efa veitt rækjunni í Djúpinu athygli og gert sér grein fyrir þeim möguleikum sem fólgnir voru í rækjuveiðum enda gjörþekkti hann slíkar veiðar frá heimabyggð sinni.

Árið 1924 keypti Ole Syre 56 brúttólesta vélbát í Noregi sem hann gaf nafnið Hrönn og var skráður á Ísafirði frá 23. júlí 1924. Nokkrum dögum seinna, eða þann 27. júlí, segir í Skutli: „O.G. Syre hefur fengið laglegan bát frá Noregi, c. 60 tons; skal hann hefja síldveiðar.“ Með þessum báti kom Símon Olsen ásamt Harald Hauge sem var mágur Syre en móðir hans var föðursystir Símonar. Höfðu þeir frændur með sér rækjunót frá Noregi og er talið fullvíst að þá um sumarið hafi þeir félagar Syre og Olsen, ásamt Harald Hauge, gert tilraun til að veiða rækju í Ísafjarðardjúpi. Reyndu þeir rækjuvörpuna tvisvar og fengu dágóðan afla. Eftir þessa tilraun sneru þeir sér hins vegar að öðrum verkefnum næstu árin enda ekki nokkur einasta leið að selja þessa vöru hérlendis og hægara sagt en gert að koma henni á markað erlendis.

Segir síðan fátt af kampalampaveiðum þar til árið 1930 en þá segir fulltrúi Fiskifélags Íslands á Vestfjörðum, Kristján Jónsson frá Garðsstöðum, frá því í Ægi að slíkar veiðar hafi verið reyndar haustið 1930. Segir hann svo frá í skýrslu sinni:

„Meðal nýjunga má geta þess að tilraunir hafa verið gerðar með veiði á kampalampa (ræker sem Norðmenn nefna) og með samskonar veiðiáhaldi og notað er í Noregi. Veiðiáhald þetta er nokkurskonar eftirmynd af botnvörpu, og með örlitlum hlerum, og varpan dregin ofurhægt af vélbát. Fiskurinn er látinn lifandi í sjóðandi vatn, og að vörmu spori tekinn upp og látinn í blikkílát, sem geymast þurfa á hæfilega köldum stað. Það var Sveinn Sveinsson, sem tilraun þessa gerði. Keypti hann vörpuna af manni hér í bænum, er hefur átt hana en ekki notað. Sveinn hafði með sér Norðmann vanan ræker-veiðum. Þeir voru parta úr fáum dögum að veiðum þessum hér í Djúpinu í haust, því veður hamlaði jafnan, en ekki er unnt að stunda þær nema í góðu veðri. Fengu þeir alls um 50 kg. Veiðina seldu þeir að mestu í farþegaskipin fyrir um 3 kr. kg. og líkaði vel. Mætti vel svo fara, að veiðar þessar yrðu drjúg tekjulind, þar sem greiðar eru samgöngur, og hægt væri að stunda þær að staðaldri, að vori og sumri.“

Sumarið 1934 tóku þeir Símon Olsen og Ole G. Syre upp þráðinn að nýju, leigðu bát og hófu rækjuveiðar aftur. Voru menn almennt undrandi á Norðmönnunum að þeir skyldu fara út í svona „fokk“ eins og þeir nefndu það. Veiðarnar gengu hins vegar vel og tók Sláturfélag Suðurlands af þeim ópillaða rækju og hafði til sölu í Matardeild félagsins í Hafnarstræti í Reykjavík. En áhugi íslenskra kaupenda reyndist enn sem fyrr takmarkaður. Þeir félagar létu þó engan bilbug á sér finna og héldu veiðunum áfram næsta sumar og þá með útflutning í huga. Segir Kristján frá Garðsstöðum svo í skýrslu sinni fyrir árið 1935:

„Kampalampaveiðar voru stundaðar héðan um tíma í sumar af þeim O.G. Syre og Simon Olsen [...] Veiðarnar gengu vel, enda víst stundaðar af góðri kunnáttu. Voru þeir félagar mest að veiðum í Djúpfjörðunum, einkum Hestfirði, en á þann fjörð gengur eigi þorskur. Fengu þeir stundum 400 kg á dag, en í Noregi segja kunnugir, að vel sé talið veiðast, fáist 200 kg á dag með sömu veiðitækjum. Þessar kampalampa- eða rækjuveiðar, eins og nú er farið að nefna þær á íslenzku, eru orðnar all-mikilsverð atvinnugrein í Noregi [...] Eftir þeirri reynslu, sem þegar er fengin, virðist gnægð af kampalampa hér í Djúpinu. En þá eru það markaðsskilyrðin, sem brestur. Þetta, sem veiddist hér í sumar, var reynt að selja innan lands og í farþegaskipin, en alltof lítið seldist. Til þess að unnt verði að stunda þessar veiðar, þarf að setja á stofn niðursuðu í þessu skyni. Eftir þeim upplýsingum, sem þegar eru fyrir hendi, eru þess háttar niðursuðutæki ekki ýkja dýr. Fiskimálanefnd hefir haft mál þetta til athugunar, fyrir áskorun bæjarstjórnarinnar hér, og hefir bæjarstjórnin nýlega samþykkt að leitast eftir allt að 25 þúsund króna láni hjá Fiskimálanefnd til stofnsetningar niðursuðuverksmiðju o.fl. í þessu skyni.“

Þetta sama ár stofnuðu þeir Ole G. Syre og Símon Olsen félag í samvinnu við Gunnar Juul, apótekara á Ísafirði, og Magnús Sch. Thorsteinsson, fyrrverandi útbústjóra Íslandsbanka hf. á Ísafirði. Hlaut það nafnið Hf. Kampalampi og sendi það bæjarstjórn Ísafjarðar bréf í ársbyrjun 1936 og sótti um lóð og vinnsluleyfi fyrir væntanlega rækjuverksmiðju. Meirihlutinn hafnaði umsókninni en samþykkti jafnframt tillögu þess efnis að bærinn færi sjálfur út í rekstur niðursuðuverksmiðju enda væri slíkur rekstur einfaldlega betur kominn í höndum bæjarfélagsins heldur en einstaklinga. Varð það úr og með stuðningi Fiskimálanefndar var Rækjuverksmiðju Ísafjarðar komið á laggirnar. Til að koma verksmiðjunni af stað voru fengnir tveir ungir menn sem báðir höfðu kynnt sér niðursuðu erlendis, þeir Þorvaldur Guðmundsson, sem síðar var kenndur við fyrirtæki sitt, Síld og fisk, og Tryggvi Jónsson frá Akureyri, sem síðar var kenndur við fyrirtæki sitt Ora hf.. Þeir tóku að sér að stjórna verksmiðjunni og skipuleggja vinnslu og alla starfshætti þar. Verksmiðjan tók síðan til starfa 23. júní 1936 en kvöldið áður höfðu þeir félagar Ole G. Syre og Símon Olsen komið með góðan afla að landi. Voru þá soðnar niður rækjur í 100 dósir en næsta dag barst meiri afli og voru þá soðnar niður 300 dósir.

Rækjan var öll handpilluð í ákvæðisvinnu og unnu um 35 stúlkur við pillunina fyrst í stað. Bæði Tryggvi og Þorvaldur voru mjög strangir um allan þrifnað í verksmiðjunni og þóttu aðstæður þar allar til fyrirmyndar. Framleiðslan fór vel af stað en fljótlega fór að gæta sölutregðu og átti verksmiðjan við sívaxandi erfiðleika að stríða vegna skorts á rekstrarfé og gekk illa að standa í skilum með vinnulaun og greiðslur á afla. Í árslok 1939 var Rækjuverksmiðja Ísafjarðar seld Jóni Kjartanssyni, forstjóra Sælgætisgerðarinnar Víkings hf., ásamt fleiri einstaklingum sem búsettir voru í Reykjavík. Hlaut fyrirtækið nafnið Niðursuðuverksmiðjan á Ísafirði hf. og var Böðvar Sveinbjarnarson ráðinn verksmiðjustjóri en hann hafði unnið við verksmiðjuna nálega frá byrjun.

En víkjum nú aftur að þeim Símon Olsen og Ole G. Syre sem máttu horfa upp á það að hugmynd þeirra um rækjuverksmiðju var nánast stolið eftir að þeir höfðu unnið að undirbúningi hennar og fjármögnun. Þeir voru í fyrstu einir um að veiða rækju fyrir Rækjuverksmiðju Ísafjarðar og höfðu þá fest kaup á 8 rúmlesta fiskibát sem var smíðaður í Noregi og gáfu þeir honum nafnið Karmöy eftir heimabyggð sinni í Noregi. Síðar eignaðist Símon hlut Syre í bátnum en Símon og sonur hans Kristján fórust með þessum bát á Mjóafirði haustið 1961. Hafði Símon þá gert hann út um aldafjórðungsskeið.

Fljótlega eftir að rækjuverksmiðjan hóf starfsemi fóru fleiri bátar að stunda rækjuveiðar. Þetta voru mest 6-7 lesta bátar og voru tveir menn á hverjum bát. Veiðin gekk yfirleitt ágætlega og mun betur en menn höfðu þorað að vona og var hver bátur að fá um 300 kg á dag til jafnaðar. Fyrstu rækjuvörpurnar voru mjög litlar, um 6 metrar á lengd og pokinn þá meðtalinn. Höfuðlínan var 64 fet, en fótreipið 3 fetum lengra. Ekkert op var á pokanum til losunar, heldur var rækjan háfuð úr pokanum með handháf. Þessi veiðarfæri voru ekki stærri en það, að auðvelt var að halda á þeim undir annarri hendinni en með trollunum voru notaðir toghlerar sem voru 45-50 kg að þyngd. Með þessum útbúnaði gátu menn fengið allt upp í 1200 kg á skömmum tíma ef vel veiddist. Voru rækjutroll sem þessi í notkun í 30 ár eða til ársins 1966 þegar farið var að framleiða rækjutroll úr gerviefni (en þau höfðu áður verið úr bómullarefni) með 100 feta höfuðlínu, sem hafði 10-12 feta skver og alllangan belg.

Helstu miðin fyrsta árið voru í Hestfirði, Seyðisfirði og Álftafirði. Síðar var svo farið að stunda veiðar í Djúpinu fyrir innan Ögurhólma. Yfirleitt var góð veiði á þessum svæðum en veturinn 1938 brást veiðin í Djúpinu algjörlega. Fóru þá þrír bátar vestur í Arnarfjörð og veiddu þar ágætlega. Segir Kristján frá Garðsstöðum svo frá í skýrslu sinni sumarið 1938:

„Var um tíma uppgripaafli í Arnarfirði en er nú mikið tregari en í vetur [...] Gömlu rækjumiðin í fjörðunum hér á Djúpinu er nú látin í friði. Hyggjast rækjuveiðarmenn að geyma þau til haustsins, þegar örðugra gerist að sækja langt. Þessi mið voru talin alveg þurrausin í haust eða vor, hvort sem rækjan sækir þangað aftur strax eða langt árabil þarf til þess að að hún veiðist þar aftur. Úr því verður reynslan að skera.“

Það er við hæfi að ljúka þessari umfjöllun um upphaf rækjuveiða á orðum Kristjáns. Jú, víst eru menn reynslunni ríkari eftir 80 ára rækjuveiðar og -vinnslu. Á ýmsu hefur gengið. Framan af gekk vinnslan vel en við erfiðar markaðsaðstæður var að etja, einkum á stríðsárunum og fram yfir 1950 þegar algjör ládeyða var í rækjuveiðum og heita mátti að þær leggðust nánast af við Ísafjarðardjúp. Um miðjan sjötta áratuginn snerust mál þó til betri vegar og góð veiði hélst í hendur við þróun nýrrar tækni í rækjuvinnslu. Rækjupillunarvélar komu til sögunnar og á skömmum tíma leystu vélar handaflið af hólmi. Jafnframt fóru menn að frysta rækjuna og jókst frystingin ár frá ári þar til hún leysti niðursuðuna nánast alveg af hólmi. Fleiri verksmiðjur voru stofnaðar og aukin afköst kölluðu á meira hráefni. Rækjuútgerðarmönnum fjölgaði ár frá ári og bátarnir stækkuðu en bætt markaðsstaða átti líka stóran þátt í að rækjuiðnaðinum óx verulega fiskur um hrygg þegar leið á seinni hluta síðustu aldar. Eftir sem áður hafa menn ævinlega mátt glíma við sveiflur, bæði í veiðum og markaðsmálum. Því má að sumu leyti segja að þrátt fyrir stærri skip, háþróaða tækni og fullkomin veiðarfæri sem gerir mönnum kleift að sækja þúsundir tonna af rækju á fjarlæg mið, hafi kannski ekki mikið breyst á þessum 80 árum, í það minnst eru vandamálin þau sömu og brautryðjendurnir þurftu að glíma við.


Helstu heimildir:
Jón Páll Halldórsson: Frá línuveiðum til togveiða. Þættir úr sögu útgerðar á Ísafirði frá 1944–1993. Ísafirði 1999.
Jón Páll Halldórsson: Fiskvinnsla í sextíu ár. Þættir úr sögu fiskvinnslu á Ísafirði frá 1934 til 1993. Ísafirði 2003.
Högni Torfason: Stóri kampalampi. Rækjusaga úr Djúpinu. Skákprent 1990.
Ægir. Rit Fiskifélags Íslands um fiskveiðar og farmennsku. Reykjavík 1931–1938.

bb.is | 21.10.16 | 16:50 Ívarsliðar kepptu á Íslandsmóti í boccia

Mynd með frétt Um síðustu helgi tók íþróttafélagið Ívar þátt í Íslandsmóti í einliðaleik í boccia sem haldið var á Sauðárkróki. Það voru átta keppendur sem tóku þátt í mótinu, þau: Magnús Guðmundsson, Matthildur Benediktsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, Guðmundur Þórarinsson, Guðný S. Jónsdóttir, Ásta Sveinbjörnsdóttir, ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 15:49Fallegir hrútar draga að

Mynd með fréttHrútadómar fóru fram á Ketilseyri í Dýrafirði í gær. Það er félagsskapur sauðfjárbænda í V-Ísafjarðarsýslu sem stendur fyrir viðburðinum og hafa vestfirskir bændur hafa skipst á að hýsa viðburðinn í áraraðir. Það eru bændur af norðanverðum Vestfjörðum sem mæta til hrútadómana ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 14:44Sakar fyrrverandi oddvita flokksins um tengsl við vændi og mansal

Mynd með fréttJens G. Jensson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sakar fyrrverandi oddvita flokksins í Reykjavík um að vera tengdur við vændi og mansali. Þetta kom fram í Forystusætinu á RÚV í gær. Jens var í gær spurður um aðdraganda þess að oddvitar ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 11:49Kannast ekki við Panamafélag

Mynd með fréttÍ gögnum lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca er finna aflandsfélag sem tengist bolvíska útgerðarmanninum Jakobi Valgeir Flosasyni. Í frétt Reykjavík Media í gær er greint frá nöfnum og tengslum íslenskra útgerðarmanna og fiskútflytjenda við aflandsfélög. Félagið sem Jakob Valgeir er tengdur við heitir ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 10:58Píratar og Sjálfstæðisflokkur stærstir

Mynd með fréttPíratar mælast með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið sem birt er í dag. Þeir mælast með 22,6 prósent, einu og hálfu prósentustigi meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur næstur. Vinstri græn mælast með 18,6 prósent, Framsóknarflokkurinn 9,1 prósent, Viðreisn ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:37100 milljóna fjárframlag til Kerecis

Mynd með fréttLíftæknifyrirtækið Kerecis, sem vinnur lækningavörur úr þorskroði, hefur gengið frá samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um gerð sérútgáfu af sáraroði til að meðhöndla brunasár á særðum hermönnum. Frá þessu var greint í frétt á Vísi og þar sagt frá því að í ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 09:01Jöklafræði Drangajökuls á súpufundi á Café Riis

Mynd með fréttÍ vetur verða haldnir súpufundir á Hólmavík þar sem margvíslegt félagsstarf og fyrirtæki verða kynnt auk vísinda, fróðleiks og fræða. Á fyrsta súpufundi vetrarins sem er hádegisfundur á Café Riis í dag, föstudaginn 21. október kemur Eyjólfur Magnússon frá Jarðvísindastofnun Háskólans ...
Meira

bb.is | 21.10.16 | 07:24Ísafjarðarbær hyggst byggja 13 íbúðir

Mynd með fréttÍsafjarðarbær var meðal 14 aðila sem sóttu um stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa leiguíbúðir, svonefnd Leiguheimili. Ætlun Ísafjarðarbæjar er að 13 leiguheimili rísi á Ísafirði. Þess er ekki langt að bíða að fyrstu íbúarnir í nýju húsnæðiskerfi flytji ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 16:48Gestir setja spor sitt í söguna

Mynd með fréttGestum og gangandi gefst kostur á að setja handbragð sitt á nýjan refil sem listakonan Marsibil Kristjánsdóttir í Dýrafirði hefur hannað og segir sögu Gísla Súrssonar. Refillinn er um sex metra langur og hálfur metri á breytt, hann prýða tuttugu myndir ...
Meira

bb.is | 20.10.16 | 15:53Kosningakönnun á bb.is

Mynd með fréttSamkvæmt könnun á bb.is í liðinni viku leggja lesendur vefsins fyrst og fremst áherslu á heilbrigðis- og samgöngumál fyrir kosningarnar en 33% svarenda nefndu heilbrigðismál sem áhersluatriði en 27% samgöngumál. Næst á eftir voru atvinnumál sem voru hugleikin 12% svarenda en ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli