Frétt

bb.is | 14.09.2016 | 16:48Fiskeldi takmörkuð gæði en ólíkt hefðbundinni auðlindanýtingu

Rögnvaldur Hannesson. Mynd: Arnaldur Halldórsson.
Rögnvaldur Hannesson. Mynd: Arnaldur Halldórsson.

Auðlindarenta getur myndast í laxeldi í sjó, en frekar má líkja sjókvíaeldi við búfárrækt en hefðbundna auðlindanýtingu að því leyti að fiskurinn er fóðraður og hafður í girðingu. Fiskeldið er þó mun háðara umhverfisþáttum en búfjárrækt. Þetta segir Rögnvaldur Hannesson, prófessor emiritus í Viðskiptaháskólanum í Bergen. Rögnvaldur er einn nafnkunnasti hagfræðingur Íslendinga á alþjóðavettvangi og hefur helst látið að sér kveða í fiskihagfræði og auðlindahagfræði.

Takmarkanir geta myndað auðlindarentu

Takmörk eru sett á fjölda sjókvía á einstökum stöðum og ráða þar umhverfisþættir eins og straumar til að fóðurúrgangur safnist ekki upp og þéttleiki kvía má ekki vera of mikill til að sporna við hættu á smitsjúkdómum og flutningi á sníkjudýrum eins laxalúsa milli eldiskvía. Rögnvaldur segir í samtali við BB að með þessum takmörkunum gæti orðið til auðlindarenta, eða staðsetningarrenta sem væri hægt að líkja við hátt verð á lóðum í miðju stórborga.

„Sú auðlindarenta kemur til af því að laxinn vex hraðar við hagstætt hitastig, og kostnaður við að koma í veg fyrir sjúkdóma er minni þar sem straumur er nægur til að koma í veg fyrir mengun og minni hætta er á smiti annars staðar frá. Þessi hagnýting á sameiginlegri umhverfisauðlind – sem er sjórinn – er það sem laxeldið á skylt við fiskveiðar til dæmis, en að öðru leyti er laxeldið mjög ólíkt fiskveiðum. Fóðrið er ekki gefið af náttúrunni, og það er ekki samkeppni um að nýta slíka sameiginlega auðlind,“ segir Rögnvaldur.

Hægt að skattleggja rentuna

Íslendingar eru sjóaðir í umræðum um auðlindagjald í sjávarútvegi en slík umræða er eðlilega styttra á veg komin í fiskeldi. „Að því leyti sem laxeldið veldur kostnaði fyrir hið opinbera, er sjálfsagt að innheimta gjald sem staðið getur straum af slíkum kostnaði. Eftirlitskostnaður verður ævinlega nokkur vegna þess að laxeldið nýtir að nokkru sameiginlega auðlind, sem er sjórinn, nema þá að sama fyrirtæki hafi á hendi allt laxeldi í sama lífríki,“ segi hann.

Ef laxeldi er staðsett þar sem fyrrnefnd staðsetningarrenta er fyrir hendi segir Rögnvaldur að það sama gildi um hana og alla landrentu. Fræðilega er hægt að leggja á hana skatt án þess að skekkja hvatningar fyrirtækjanna til að festa fé og halda niðri kostnaði, en hvort það sé æskilegt segir Rögnvaldur að megi lengi deila um. „En svo er það, að álagning slíks skatts er ekki alltaf auðveld. Enn fremur er spurningin hvort hið opinbera fari endilega betur með peninga en fyrirtækin gera sjálf.“


Vandi að verðmeta stangveiði

Laxeldi er ekki óumdeilt og fremstir í flokki andstæðinga atvinnugreinarinnar fara stangveiðimenn og eigendur laxveiðiáa. Aðspurður segir Rögnvaldur að ef laxeldi valdi skaða á laxveiðiám þá ætti að vera hægt meta skaðann í peningum.„Spurningin er hvort laxeldið geti greitt fyrir þann skaða sem það veldur laxveiðinni. Ef laxeldið er algerlega ósamrýmanlegt laxveiðinni, hvort er þá meira virði í heild sinni, laxeldið eða laxveiðin,“ spyr Rögnvaldur.

Vandinn í þessu mati er einkum fólginn í mati á laxveiðinni. „Þetta er frístundagaman, og það sem fólk borgar fyrir þetta er að öllum líkindum minna en það væri tilbúið til að borga, þannig að sá kostnaður sem fólk leggur í til að stunda laxveiði væri vanmat á því hvað fólk telur laxveiði mikils virði. En það er mjög erfitt að meta hvað fólk er reiðubúið til að greiða fyrir gæði eins og laxveiði. Ef fólk er spurt beint og það veit að það þarf ekki að greiða það sem það segir sig viljugt til að greiða og veit þar að auki að svarið kann að hafa þýðingu fyrir framtíð laxveiðanna, þá ýkir fólk að sjálfsögðu hvað það er reiðubúið til að greiða. Við mundum þá lenda í því að bera saman verðmæti sem ekki eru til annars staðar en í ímyndun fólks og raunveruleg verðmæti sem snúast um atvinnutækifæri í laxeldi og matvælaframleiðslu.

Hóflegt gjald og tímabundin leyfi

Í Noregi er laxeldi stóriðnaður og regluverk hins opinbera mun þróaðra en á Íslandi. Það gjald sem fyrirtæki greiða fyrir laxeldisleyfi á Íslandi er málamyndagjald samborið við verð á leyfum í Noregi. Rögnvaldur segir að til að byrja með hafi ekki verið tekið gjald af laxeldisleyfum í Noregi, en það hefur breyst.

„Í fréttatilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu árið 2013 var sagt frá 45 nýjum leyfum sem ætlunin var að úthluta. Fyrir 30 af þessum leyfum átti að taka gjald upp á 10 milljónir norskra króna fyrir hvert. Lýsa átti eftir tilboðum í 15 leyfi. Í fréttatilkynningunni var þess getið að viðkomandi sveitarfélag ætti að fá hluta af þessu gjaldi, en ekki var þess getið hve mikið. Ég hef ekki fylgst með því hvernig þessi mál hafa þróast síðan,“ segir hann.

Norsku leyfin miðast við hámarkslífmassa hvers leyfis og lífmassinn er á bilinu 780-945 tonn, eftir því hvar í Noregi leyfin eru staðsett og leyfilegur lífmassi er mestur í Tromsfylki og Finnmörku.

Rögnvaldur segir að Íslendingar geti farið svipaða leið og Norðmenn en getur þess að laxeldisleyfin séu væntanlega minna virði á Íslandi vegna landfræðilegra aðstæðna, Ísland sé líklega á jaðri þess svæðis sem laxeldi er mögulegt og sjávarhiti lægri en víðast hvar í Noregi.

„Það kæmi til greina að leita eftir tilboðum í laxeldisaðstöðu á Íslandi, en spurningin er hvað fyrirtækin væru reiðubúin til að greiða og hvort það sé nóg samkeppni milli þeirra um slíka aðstöðu á Íslandi. Þar sem þetta er allt í deiglunni, væri líklega ráðlegast að byrja með hóflegt gjald og sjá hverju fram vindur og leigja ekki út aðstöðu til mjög langs tíma. Hve langs er erfitt að segja, kannski 10-15 ára; það ætti að vera nógu langur tími til að fyrirtækin fái eðlilegan hagnað af fjárfestingum.

Ólíkt kvótakerfinu

Kvótakerfið í sjávarútvegi hefur verið stanslaus uppspretta deilna á Íslandi í áratugi. Aðspurður hvort laxeldi geti í fyllingu tímans valdið sömu eða svipuðum deilum og kvótakerfið, segir Rögnvaldur hugsanlegt að starfsemin verði umdeild. „Ef laxeldi verður stór og mjög arðbær atvinnugrein á Íslandi og í höndum útlendra fyrirtækja sem hafa aðstöðu til langs tíma og fara með hagnaðinn út úr landinu, má vel ímynda sér að þessi starfsemi verði umdeild og hugsanlega þjóðnýtt í einu eða öðru formi. Norðmenn misstu bæði hvalstöðvar og síldarsöltun á Íslandi upp úr fyrstu heimsstyrjöld vegna þjóðernisstefnu á Íslandi.“

Hans mat er að deilurnar yrðu þó ólíkar átökunum um kvótakerfið. „Það eru íslensk fyrirtæki sem eiga kvótana og stunda fiskveiðar á grundvelli þeirra. Deilurnar eiga upptök sín í því að fiskurinn hefur verið sameiginleg auðlind, og mörgum gengur illa að skilja að það þurfi að takmarka aðganginn að henni ef vel á að fara, og eins að ef þjóðin á að bera eins mikið úr bítum úr þessari auðlind og hægt er þá verður að takmarka aðganginn við þá sem geta gert úr henni mest verðmæti. En svo vantar líka alvöru auðlindagjald sem gæti dreift þessum hagnaði til þjóðarinnar, enda þótt það megi halda því fram að þjóðin fái góðan hlut í þessu án milligöngu ríkissjóðs.“

smari@bb.is

bb.is | 30.09.16 | 16:54 Hvunndagshetja heiðruð

Mynd með frétt Sigurði Ólafssyni, fyrrum formanni Krabbameinsfélagsins Sigurvonar, var afhent bleika slaufan í gær sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf í þágu Sigurvonar. Bíi, eins og hann er betur þekktur í daglegu tali, lét af störfum fyrr á árinu eftir 15 ára formennsku. ...
Meira

bb.is | 30.09.16 | 15:21Svar ráðherra kemur ekki á óvart

Mynd með fréttSvar Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, kemur Pétri G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps ekki á óvart. Jóhanna María spurði ráðherra hvenær væri er ráðgert að rannsóknir og undirbúningur fyrir jarðgangagerð á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar ...
Meira

bb.is | 30.09.16 | 13:4914,5 kílómetri af jarðstrengjum komnir í jörð

Mynd með fréttFjarskiptamál í Önundarfirði hafa tekið miklum stakkaskiptum, en í vikunni var greint frá því að tvö ný fjarskiptamöstur væru komin til að þjónusta íbúa fjarðarins. Ekki nóg með það, heldur hafa miklar bætur verið gerðar á fjarskiptamálum á Ingjaldssandi er starfsmenn ...
Meira

bb.is | 30.09.16 | 11:48Álftafjarðargöng ekki á dagskrá næsta áratuginn

Mynd með fréttJarðgöng á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar eru ekki á teikniborði yfirvalda allt fram til ársins 2026 samkvæmt svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur þingmanns framsóknarflokksins, sem spurði ráðherrann hvenær ráðgert væri að rannsóknir og undirbúningur fyrir göngin hæfust. ...
Meira

bb.is | 30.09.16 | 10:01Útibú verði á Suðurfjörðunum

Mynd með fréttBæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur stjórnvöld að tryggja að eftirlit með fiskeldi í sjó sé með markvissum og ábyrgum hætti. Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar frá því í gær. Í henni segir að gríðarlegu máli skipti að vel takist til með þeirri ...
Meira

bb.is | 30.09.16 | 09:26Mikill munur á rekstrarkostnaði grunnskóla

Mynd með fréttMeðalrekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum landsins vegna yfirstandandi skólaárs er 1,72 milljónir króna samkvæmt tölum Hagstofunnar. Rúmlega fimmfaldur munur er á hæsta og lægsta kostnaði nemenda milli sveitarfélaga samkvæmt tölum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í ...
Meira

bb.is | 30.09.16 | 07:50Ráðgjafa- og nuddsetrið opnar á nýjum stað

Mynd með fréttRáðgjafa- og nuddsetrið á Ísafirði hefur fært sig um set og opnaði í dag í nýjum húsakynnum við Hafnarstræti 4, mitt í miðbænum þar sem Gullauga var áður til húsa. Það er Stefán Dan Óskarsson sem er potturinn og pannan á ...
Meira

bb.is | 29.09.16 | 17:07Vestfirðir verði ríkt samfélag

Mynd með fréttInnan áratugar munu útflutningstekjur af laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum geta numið 50 milljörðum króna á ári. Þetta er mat Matthíasar Garðarssonar, stofnanda Arnarlax, en hann hefur fjögurra áratuga reynslu á vettvangi atvinnugreinarinnar. Ég hef trú á því að auðveldlega megi ...
Meira

bb.is | 29.09.16 | 16:13Biðlistar vegna skorts á gistiplássi

Mynd með fréttErlent gönguskíðafólk hefur sýnt Fossavatnsgöngunni æ meiri áhuga, en skortur á gistiplássum Ísafirði veldur því að færri komast að en vilja . Daníel Jakobsson, stjórnarformaður Fossavatnsgöngunnar, nefnir sem dæmi að norsk ferðaskrifstofa sem selur ferðir á Fossavatnsgönguna er með 70 manns ...
Meira

bb.is | 29.09.16 | 14:50Stöndum fyrir kerfisbreytingar

Mynd með fréttAlþingiskosningar eru eftir rétt rúmar fjórar vikur og stjórnmálaflokkarnir flestir búnir að leggja fram lista sína. Nokkur ný framboð verða í kjöri og einna mest hefur borið á Viðreisn, en flokkurinn hefur mælst ágætlega í skoðanakönnunum síðustu vikur. Ísfirðingurinn Gylfi Ólafsson ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli