Frétt

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur á Ísafirði | 28.11.2002 | 10:35Upphaf vélbátaútgerðar og áhrif hennar

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.
Vélvæðing og búsetuþróun

Vélvæðingin var hrein bylting í sögu landsins. Afleiðingar hennar urðu miklar bæði á sviði efnahagsmála og búsetu. Á 19. öld hafði verslunarfrelsi og saltfiskverkun verið undirstaða mikillar uppbyggingar í árabátaútgerð í kringum landið, ekki síst hér á Vestfjörðum. Þar við bættist svo öflug þilskipaútgerð kaupmanna á helstu verslunarstöðunum. Skútubæirnir urðu til á þessum tíma, Ísafjörður, Flateyri, Þingeyri og Bíldudalur eru dæmi um kaupstað og kauptún sem byggðust upp kringum verslun og skútur, með þeirri þjónustu sem slíkur rekstur þurfti, fiskverkun, handiðnað og stjórnsýslu. En á nítjándu öld urðu einnig til minni þéttbýli við sjávarsíðuna, sem spruttu upp vegna aukinna fiskveiða og hagstæðara verðs á lýsi og saltfiski. Þetta voru sjávarbyggðirnar sem áttu blómatíma sinn frá 1880 og fram yfir 1900. Hér við Ísafjarðardjúp finnast margar slíkar byggðir eða verstöðvaþorp, eða réttara sagt, leifar þeirra. Því þessi litlu þéttbýli eru næstum öll komin í eyði nú. Dæmi um þessar byggðir eru: Arnarnes við Skutulsfjörð, Folafótur í Seyðisfirði, Ögurnesið, Hesteyri, Aðalvík, Skálavík og Keldudalur í Dýrafirði. Á þessum stöðum bjuggu oft 80-100 manns í hverri verstöð. Þarna var blómlegt líf um tíma, skólar og samkomuhús byggð, jafnvel verslunarhús. En nú standa aðeins tóftirnar eftir. Þessar verstöðvar urðu undir þegar vélabátarnir komu til sögunnar.

Aðrar verstöðar héldu áfram að eflast eftir að vélbátar komu til sögunnar, svo sem Hnífsdalur, Súðavík, Suðureyri og ekki síst Bolungarvík. Það var hafnaraðstaðan sem gerði útslagið. Að vísu lentu bæði Hnífsdalur og Bolungarvík í tilvistarvanda, þegar vélbátarnir stækkuðu, því öruggar hafnir voru þar ekki til staðar frá náttúrunnar hendi. Hitt atriðið sem hjálpaði þessum þorpum var nálægðin við þjónustu, bæði vélaverkstæði og verslun, annaðhvort á stöðunum sjálfum eða inni á Ísafirði. Það er einmitt eftir tilkomu vélbátanna sem Ísafjarðarkaupstaður verður ótvíræður höfuðstaður Vestfjarða. Þar var allt til staðar til að fóstra vélbátaútgerðina. Ein besta höfn landsins, iðnaðarmenn og verslun til að þjóna þörfum útgerðarinnar og mannafli til að vinna úr aflanum. Þar sem þetta þrennt fór saman efldust staðirnir. Ekki bara Ísafjörður, heldur líka Flateyri, Þingeyri og Patreksfjörður, ef við lítum bara til Vestfjarða.

Þéttbýli og íbúafjöldi á Vestfjörðum

Lítum aðeins nánar á fólksfjöldaþróunina: Íbúar í Ísafjarðarkaupstað voru 1067 aldamótaárið 1900, og var bærinn þá þriðji fjölmennasti kaupstaður landsins á eftir Reykjavík og Akureyri. Áratuginn á undan hafði íbúum fjölgað um 237, enda var þetta blómatími þilskipanna og stóru verslunarfyrirtækjanna í bænum, en líka tími vesturferða og harðæris á landinu öllu. Næsta áratug 1901-1910 fjölgaði hins vegar í kaupstaðnum um heilar 787 manneskjur samkvæmt manntali og voru þá íbúar í bænum orðnir 1854. Næsta áratug, 1910 til 1920, fjölgaði hinsvegar aðeins um 126 manns á Ísafirði. (Þess má geta að áratuginn 1920-1930 fjölgaði aftur mikið, eða um 553 sálir í kaupstaðnum Ísafirði).

En það er þessi fjölgun milli 1901 og 1910 sem vekur mesta athygli: 787 manneskjur. Hvað var að gerast á þessum tíma? Svarið er aðeins eitt: VÉLBÁTAR.

Ef við lítum til Vestfjarða og skoðum þéttbýlisþróunina, þá sker Bolungarvík sig úr. Þar hafði verið blómleg verstöð um aldaraðir, en eins og títt var um verstöðvar, þá höfðu ekki margir þar fasta búsetu allt árið. Þetta breyttist með vélbátunum. Um aldamót taldist ekki þéttbýli í Bolungarvík, en árið 1910 voru 815 íbúar taldir í þéttbýli í Bolungarvík af rúmlega þúsund íbúum. Og aðrir þéttbýlisstaðir sóttu einnig fram á fyrsta áratug aldarinnar. Íbúafjöldi á hverjum stað árið 1910 var þessi:

Ísafjörður 1854 (1220 árið 1901)
Bolungarvík 815
Patreksfjörður 475 (372 árið 1901)
Þingeyri 337 (148 árið 1901)
Suðureyri 255
Hnífsdalur 144

Tveir staðir skera sig úr, þar sem skútuútgerð var öflug fyrir 1900, en fækkun varð eftir að vélbátarnir komu til:

Bíldudalur 285 (317 árið 1901)
Flateyri 218 (249 árið 1901)

Alls voru skráðir 4.558 Vestfirðingar í þéttbýli árið 1910, af 13.386 íbúum, eða 34 % íbúanna. (Árið 1901 var staðan sú að 2598 töldust búa í þéttbýli á Vestfjörðum, af 12.481 íbúa, eða tæp 21 %). Fyrsta áratug tuttugustu aldar fækkaði í strjálbýli á Vestfjörðum um eitt þúsund íbúa, en fjölgun í þéttbýli var um tvö þúsund. Þannig fjölgaði Vestfirðingum um eitt þúsund á þessu tímabili.

Það var ekki bara á Vestfjörðum sem fjölgaði í þéttbýlinu, því árið 1910 bjuggu 34% landsmanna í þéttbýli, en tíu árum áður var hlutfallið 20,8 %, sem er nákvæmlega sama hlutfall og á Vestfjörðum. Ef við tökum Reykjavík út úr, þar sem bjuggu 11600 manns, eða 13,6% af 85 þúsund íbúum á landinu öllu, þá er ljóst að þéttbýli var meira á Vestfjörðum, en í öðrum landshlutum.

Nýjar atvinnustéttir

Annað mikilvægt atriði í sambandi við þéttbýlisþróun í kjölfar vélbátanna, er sú staðreynd að fjölgunin varð mest í röðum verkafólks og sjómanna. Hásetar á árabátum og þilskipum áttu yfirleitt ekki sitt fasta heimili á útgerðarstöðunum. Þeir voru að stórum hluta vinnumenn bænda eða bændur úr nærsveitum. Þannig var meirihluti vertíðarmanna í Bolungarvík búsettur við Djúp, og sama var að segja um stóran hluta skútukarlanna á Ísafirði, þó menn kæmu einnig lengra að, úr Barðastrandarsýslum eða norðan úr Húnaflóa. Með vélbátunum lengdist sá tími sem menn voru á sjó, einkum þegar bátarnir urðu stærri. Og þá fylgdi föst búseta á útgerðarstaðnum, í þéttbýlinu. Eftir það fóru menn í kaupavinnu í sveit seinnipart sumars, en lifðu á sjómennsku og daglaunavinnu í þéttbýlinu aðra hluta ársins.

Með vélunum kom líka til ný stétt: Vélstjórar og vélsmiðir. Mótoristarnir voru fagmenn, iðnaðarmenn, og þeir voru yfirmenn á bátunum, eins og stýrimennirnir. Í landi voru reistar vélsmiðjur, þar sem gert var við vélarnar, og margir vélsmiðir og vélstjórar hlutu menntun og starfsþjálfun í fyrstu vélsmiðjunum. Fyrsta vélsmiðja á Íslandi var stofnuð hér á Ísafirði árið 1904 af J.H. Jessen. Hann var sendur hingað frá Möllerup vélasmiðjunum í Danmörku með fyrstu bátavélinni sem sett var í Stanley haustið 1902, kom svo aftur árið eftir til að setja niður aðra vél, og varð eftir, giftist íslenskri konu og starfrækti vélsmiðju sína hér í mörg ár. J.H. Jessen kenndi fjölmörgum nemum sem dreifðust í alla landsfjórðunga. Um þetta efni hefur Jón Páll Halldórsson ritað í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1985.

Iðnaðarmönnum fjölgaði líka í öðrum greinum á Ísafirði og atvinnulíf varð fjölskrúðugra á fyrstu árum síðustu aldar. Þeir sem lifðu á handverki og iðnaði á Ísafirði árið 1910 voru 382, sem voru 20% bæjarbúa. Á fiskveiðum og fiskvinnslu lifðu 755, eða rúm 40% íbúanna, auk þess sem daglaunamenn voru 11% af íbúum bæjarins. Af verslun og skyldri þjónustu lifðu 11 af hundraði, en embættismenn og þeirra fjölskyldur voru aðeins 4% íbúanna, eða það sem kallað var í manntalinu „ólíkamleg atvinna“. Þá vantar að flokka niður heimilishjú sem voru um 10% íbúanna. Tíu árum fyrr, um 1900, höfðu iðnaðarmenn og fjölskyldur þeirra verið um 13,4 % íbúanna, svo þeim hafði fjölgað umtalsvert. Verslunarmenn rétt 10% sem hafði þá haldist nokkuð óbreytt. Sjómenn og vinnufólk var þá 76% bæjarbúa (hafa þarf í huga að allar tölur er erfitt að bera saman, vegna mismunandi flokkunar).

Afli og verðmæti

Það er eftirtektarvert, að vélbátarnir fóru eins og eldur um sinu. Það sama gerðist allsstaðar á landinu: Þrem til fjórum árum eftir að fyrsti vélbáturinn var gerður út frá verstöð, höfðu flestir úrgerðarmenn eða útvergsbændur, skipt yfir í vélar. Þetta gerðist hér við Ísafjarðardúp, þar sem flestir bátar í Bolungarvík voru komnir með vél strax árið 1906. Sama gerðist á Austfjörðum, í Vestmannaeyjum og víðar, bara örfáum árum síðar en hér.

Þróunin varð þessi: Á Ísafirði voru um aldamótin 1900 gerð út 19 þilskip og lönduðu þau árið 1901 374 þúsund þorskum, samkvæmt Landhagsskýrslum. Sama ár voru gerðir út 10 árabátar frá bænum og var afli þeirra aðeins 54 þúsund þorskar.

Fimm árum síðar, árið 1906, var afli minni báta, sem flestir voru þá vélbátar orðinn jafnmikill og þilskipanna. Þilskipin voru 18 og öfluðu 341 þúsund þorska. Minni bátar voru 40 og öfluðu 329 þúsund þorska, samtals 670 þús. Að auki skiluðu þilskipin 680 tunnum af hákarlalifur, en bátarnir 50 tunnum af þorsklifur.

Árið 1910 hafði bátunum fækkað úr 40 í 22, en þá strax voru vélbátarnir orðnir stærri en fyrstu árin, enda afli á hvern bát miklu meiri. Bátarnir skiluðu 342 þúsund þorskum á land og 110 tunnum af lifur, en þilskipin voru 15 það árið og skiluðu 502 þúsund fiskum, og 1200 tunnum af hákarlalifur. Samtals 842 þús. þorskar. Skúturnar höfðu enn vinninginn, en bátarnir voru að stækka.

Vélbátarnir veiddu bæði á línu og handfæri, en stærri vélbátarnir sérhæfðu sig í línuveiðum. Á skútunum, eða þilskipunum, veiddu menn hins vegar aðeins með handfærum.

Á landinu öllu: Vetrarvertíðin 1902 einn vélbátur. Árið 1912, 406 vélbátar undir 12 tonnum og 8 yfir, alls 414 vélbátar. Það sem kalla má merkilegt er þó að á sama tíma hafði árabátum líka fjölgað í 1238 og enn voru gerð út 121 þilskip á landinu og nýju veiðitækin, togararnir, voru orðnir 20. Botnfiskafli landsmanna margfaldaðist á fyrstu áratugum aldarinnar, auk þess sem síldveiðar jukust gríðarlega.

Frumkvöðlarnir

Það var semsagt veturinn 1902-1903 sem Ísfirðingar settu vél í bát, og héldu til veiða með vélarafli. Það var ekki Íslendingur sem áttu frumkvæðið, heldur Dani búsettur á Ísafirði, enda hafa margar helstu framfarir landsins einmitt komið úr þeirri áttinni. Eigendur Stanleys voru Sophus J. Nielsen og Árni Gíslason.

Sophus J. Nielsen var danskur. Hann var verslunarstjóri í Hæstakaupstaðarverslun hér á Ísafirði á árunum 1884-1895. Þá var sú verslun í eigu stórgrósserans H.A. Clausens, sem rak útgerð og verslanir á fimm stöðum á landinu á þessum árum, auðvitað með aðalstöðvar í Kaupmannahöfn. Sophus fluttist til Ísafjarðar 18 ára gamall og stundaði verslunarstörf. Hann varð síðar verslunarstjóri í Hæsta og rak enn síðar eigin verslun. Sophus var vel metinn borgari í kaupstaðnum, sat í niðurjöfnunarnefnd (en hún ákvað útsvar manna í þá daga), var bæjargjaldkeri og kirkjuhaldari. Síðast starfaði hann sem bókari í útibúi Landsbankans á Ísafirði sem opnaði 1904, en Sophus dó árið 1905.
Sophus var tvígiftur og átti alls 23 börn með sjö konum, en mörg þeirra dóu í bernsku, eins og títt var í þá daga. Þegar Sophus tekur þátt í vélaævintýrinu með Stanley árið 1902, er hann orðinn roskinn maður, 59 ára, reynslumikill í útgerð og verslun á skútutímanum.

Árni Gíslason félagi hans var hins vegar þaulvanur íslenskur sjómaður, sem hafði stundað fiskveiðar um árabil. Árni segir frá því í endurminningum sínum, Gullkistunni frá 1944, að hann hafi hrifist af litlum vélbátum sem danskir kolaveiðimenn notuðu á Önundarfirði um þetta leyti. Hefur það verið í fyrsta sinn sem hann sá vélbát hér við land. Datt Árna þá í hug að ef til vill væri hægt að setja vél í venjulegan árabát, og létta þannig erfiðinu af sjómönnum við róðurinn. Árni nefnir ekki af hverju hann gekk í samstarf við Sophus um málið, en merkilegt er þetta samstarf þeirra kaupmannsins og sjómannsins. Sophus tengist hins vegar vélum þannig, að bróðir hans var verkstjóri í Möllerup vélaverksmiðjunum í Esbjerg í Danmörku, og þar frétti hann af þessum möguleika.

Eins og oft vill verða í sögunni, þá voru fleiri að hugsa það sama á þessum tíma, og spurningin bara hver ýtti fyrst úr vör. Aðstæðurnar höfðu skapast með því að Danir voru farnir að nota bensínmótora til að knýja áfram báta. Um aldamótin var sprengihreyfillinn frekar nýlega fundinn upp, bílar voru teknir að sjást, og nú voru slíkar vélar komnar í báta. Bátsskrúfan var líka frekar nýleg. Hún þróaðist í Bretlandi og gufuknúnir togarar sem hingað komu rétt fyrir aldamót, skörtuðu slíku þingi, enda fór skrúfan sigurför um heiminn á stuttum tíma. Sama gerðu reyndar gufutogararnir, en höldum okkur við vélbátana.

Um aldamótin var haldin sjávarútvegssýning í Kaupmannahöfn, þangað sem nokkrir íslenskir útvegsmenn fóru, og sáu þar danska vélbáta. Á sama tíma var þar einnig Sigfús Bjarnason, kaupmaður og konsúll á Ísafirði. Hann hóf að smíða vélbát fljótlega eftir heimkomuna, en vélinni seinkaði, og var báturinn sem nefndist Cesar, sjósettur vorið 1903. (Athyglisvert að tveir fyrstu vélbátarnir hétu alþjóðlegum nöfnum). Strax árið eftir voru fleiri komnir af stað, bæði hér við Djúp, og eins í öðrum landshlutum. Þá eignuðust Hnífsdælingar sinn fyrsta vélbát, Ingólf Arnarson. Eigendurnir voru Guðmundur Sveinsson kaupmaður og Ingólfur Jónsson skipstjóri. Vélina keyptu þeir hjá Nielsen, sem nú var orðinn sölumaður Möllerupvéla hér á landi. Þá strax voru vélarnar orðnar stærri. Vélin í Stanley var aðeins tvö hestöfl, en vélin í Ingólfi Arnarsyni var tíu hestöfl.

Fyrstu bátarnir voru opnir, líkt og árabátarnir, en strax 1905 var fyrsti þilfarsbáturinn með vél gerður út frá Ísafirði. Var hann keyptur erlendis vélarlaus, en Alpha-vél sett í hann hér. Eigandi bátsins var Helgi Sveinsson áður verslunarmaður en nýlega orðinn útibússtjóri Íslandsbanka á Ísafirði. Meðeigandi hans var Carl Löwe skipstjóri. Helgi var lengi umboðsmaður fyrir Alpha vélar og stundaði vélbátaútgerð í mörg ár meðfram bankastjórastörfum.

Af þessum mönnum sem hér hafa verið nefndir voru þeir Sophus J. Nielsen, Sigfús Bjarnason, Guðmundur Sveinsson og Helgi Sveinsson allir kaupmenn, og Sophus og Helgi auk þess bankamenn. Árni Gíslason, Ingólfur Jónsson og Carl Löwe voru hins vegar skipstjórar. Þannig var eignarhaldið á fyrstu vélbátunum. Kaupmenn og skipstjórar lögðu saman. Pöntuðu vél frá Danmörku, fengu fyrirgreiðslu hjá verslun eða banka, eða fjármögnuðu sjálfir, og svo var haldið til veiða með mótorafli.

Þekking, reynsla og fjármagn

Þegar bátarnir og vélarnar stækkuðu, varð fjármagnið mikilvægari hluti stofnkostnaðarins, og þá var mikilvægt að hér voru komnir til starfa báðir bankar landsins: Íslandsbanki og Landsbanki (sem yfirtók sparisjóð sem starfaði í bænum áður). Fyrst í stað var það frekar þekking og reynsla sem var mikilvægust, en aðgangur að fjármagni kom þar næst á eftir, þegar við rekjum ástæður vélbátabyltingarinnar. – Öfugt við það sem á við um togaraútgerð, þar sem fjármagn var helsta forsendan.

Þegar við svo skoðum, hverjir það eru sem standa að vélbátaflotanum, þá kemur í ljós að það eru ekki stórfyrirtæki á sviði verslunar og útgerðar, eins og var oftast þegar togaraútgerð átti í hlut, heldur velmegandi, sjálfstæðir kaupmenn og skipstjórar. Annarsstaðar hér við Ísafjarðardjúp voru það oft útvegsbændur sem keyptu vélbáta, og sama var upp á teningnum í Vestmannaeyjum.

Um aldamótin voru starfandi hér á Ísafirði þrjár stórverslanir. Ásgeirsverslun var þeirra stærst, svo kom Verslun Leonards Tang og loks Edinborgarverslun. Tvær þær fyrrnefndu voru stórtækar í þilskipaútgerð, en allar stunduðu þær fiskkaup af sjómönnum og saltfiskverkun hér á Ísafirði og víðar. Það er því athyglisvert að þessi stórfyrirtæki voru ekki brautryðjendur í vélbátaútgerð, heldur minni kaupmenn og skipstjórar af árabátum.

Aðstæður hér á Ísafirði voru ekki ólíkar því sem var í öðrum bæjum á landinu um síðustu aldamót: Hér var mikil útgerð þilskipa og saltfiskvinnsla. Hér voru öflugar verslanir með bein tengsl við útlönd, sérstaklega Danmörk. Hér voru starfandi margar smærri verslanir, þjónustufyrirtæki og iðnaðarmenn af ýmsum toga. En hvers vegna fékk Ísafjörður það hlutverk að verða brimbrjótur þessa merka viðburðar í Íslandssögunni, þegar vél var sett í fiskibát? Svarið gæti falist einhversstaðar í þessu erindi. Sagnfræðingar hafa ekki svar við öllu, en við leyfist þó ekki að segja „af því bara“. Ætli þekking, reynsla og fjármagn, auk fjölbreyttra atvinnuhátta á Ísafirði hafi ekki átt sinn þátt í því að upphaf vélbátabyltingarinnar varð einmitt hér.


Heimildir:

Jón Páll Halldórsson:
Vélsmiðjur á Ísafirði fyrstu fimm áratugi þessarar aldar. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1985, 7-38.

Jón Þ Þór:
Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. III. bindi. Ísafirði 1988.

Tölfræðihandbók 1984. Reykjavík 1984. (Hagskýrslur Íslands II, 82).


Erindi þetta flutti Sigurður Pétursson sagnfræðingur á Ísafirði á „Sumarkvöldi í Neðstakaupstað“ 11. júlí 2002. Hann flutti síðan styttri gerð þess við hátíðahöld á Ísafirði 23. nóvember 2002 þegar minnst var aldarafmælis vélvæðingar íslenskra fiskibáta og fyrstu sjóferðar sexæringsins Stanleys með vélarafli.

bb.is | 27.10.16 | 16:51 Flókin tengsl í þorpi sem margir gera tilkall til

Mynd með frétt Sjávarþorpið Flateyri og staðartengsl íbúa þar verður til umfjöllunar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur búsettur á Flateyri, veltir því m.a. upp hvað það sé sem fær listamenn og þjóðfræðing til að eiga athvarf í afskekktu þorpi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 15:56Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kosningaspá

Mynd með fréttSjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu í kosningaspá Kjarnans. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám. Vinstri græn mælast með 16,9% í spá Kjarnans, Framsóknarflokkurinn með 10,1% ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 14:57Vestfirska forlagið með fimm nýjar bækur

Mynd með fréttNæstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu. Gunnar B. Eydal hefur skrifað bókina Vegprestar vísa veginn. Bókin er „er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu,“ segir höfundur og framsetningin svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 13:23Súrsynir eru mættir í Haukadal

Mynd með fréttÍ blaði vikunnar 2. hluti teiknimyndasögu Ómars Smára Kristinssonar og Elfars Loga Hannessonar og nú eru Súrsyni komnir í Haukadalinn eftir hremmingar í Súrnadal í Noregi. Þar hafði samkvæmt fyrsta hluta sem birtist í 36. tölublaði Bæjarins besta slegist upp á ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 11:51Ágætt sátt um strandveiðar

Mynd með fréttAð mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 10:56Veður og færð ættu ekki að tefja talningu

Mynd með fréttVeður og færð ættu ekki að tefja talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjörkössum úr öllu kjördæminu er keyrt í Borgarnes þar sem atkvæði verða talin. „Ég hef verið í sambandi við Vegagerðina og þetta ætti ekki að vera vandamál. Það spáir hlýnandi ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:37Ráðgera tilraunaeldi á geldlaxi

Mynd með fréttFiskeldisfyrirtækið Arctic Fish, Stofnfiskur og Hafrannsóknastofnun ráðgera tilraunaeldi á ófrjóum laxi, svokölluðum þrílitna fiski. „Það verða tekin hrogn á næsta ári og stefnt að útsetningu seiða árið 2018,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish. Hann tekur fram að áætlanir séu enn ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 09:01Óboðnir gestir á Eyrarskjóli

Mynd með fréttÓboðnir gestir fóru um liðna helgi inn á lóð leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði og rifu þar niður talsvert magn bóka og blaða við eldstæði skólans. Eitthvað af pappírnum var búið að brenna en þó yfirleitt ekki nema að hluta til og ...
Meira

bb.is | 27.10.16 | 07:32Hinir ríku verða miklu ríkari

Mynd með fréttHrein eign ríkasta 0,1 prósent landsmanna jókst um 20 milljarða króna í fyrra. Hún hefur ekki aukist um svo háa upphæð milli ára síðan á milli áranna 2006 og 2007, á hápunkti bankagóðærisins. Alls átti þessi hópur, sem telur nokkur hundruð ...
Meira

bb.is | 26.10.16 | 16:50Hættur eftir 38 ár á Páli

Mynd með fréttÞað var stór stund í útgerðarsögu Páls Pálssonar ÍS þegar skipið lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Rétt eins og síðustu 38 árin var Jón Vignir Hálfdánsson um borð, en nú var komið að kveðjustund því Jón er hættur til ...
Meira


Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli