Strandabyggð: hrun framundan í sauðfjárrækt

Mynd: Bændablaðið.

Sveitarstjórn Strandabyggðar segir í ályktun um stöðu sauðfjárræktar, sem gerð var á fundi sveitarstjórnar í vikunnar, að verði ekkert að gert er viðbúið að hrun verði í sauðfjárrækt með tilheyrandi byggðaröskun. Það væri þungt högg fyrir atvinnulíf í Strandabyggð, þar sem sauðfjárrækt er undirstaða í dreifbýli sveitarfélagsins.

Vísað er til skýrslu sem Byggðastofnun vann nýlega fyrir innviðaráðuneytið, en í henni er dregin upp dökk mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi. Rekstrarafkoman hefur verið neikvæð undanfarin ár og engar breytingar fyrirséðar, vegna hækkana á aðföngum.

„Verði ekkert að gert er viðbúið að hrun verði í greininni með tilheyrandi byggðaröskun. Þetta væri þungt högg fyrir atvinnulíf í Strandabyggð, þar sem sauðfjárrækt er undirstaða í dreifbýli sveitarfélagsins. Landbúnaður er byggðafestugrein á svæðinu sem og hjá nágrannasveitarfélögum og því ljóst að landshlutinn í heild sinni á mikið undir. Sveitarstjórn Strandabyggðar skorar á stjórnvöld og hagaðila að taka höndum saman án tafar og vinna að viðsnúningi þessarar þróunar með fjölþættum aðgerðum.“

DEILA