Knattspyrnan: Sigur og tap um helgina

Frá leik Vestra við Þrótt Vogum fyrr í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðu deildar lið Harðar frá Ísafirði gerði góða ferð suður á Álftanesið á laugardaginn og lagði KFB, knattspyrnufélag Bessastaða með fjórum mörkum gegn engu. Hörður hefur nú unnið tvo leiki í röð, en um síðustu helgi voru Ísbirnirnir úr Kópavoginum lagði að velli á Ísafirði 3:2.

Hörður leikur í A riðli deildarinnar og hefur 15 stig eftir 13 leiki og er í 6. sæti riðilsins af 8 liðum. Aðeins er einn leikur eftir og ljóst að Hörður leikur ekki eftir góða frammistöðu síðasta sumars. Þó má geta þess að Sigurður Arnar Hannesson er markahæsti leikmaður riðilsins með 14 mörk í sumar.

Vestri fékk Fylki, annað toppliðið í heimsókn. Leikurin var jafn og átti Vestri góðan leik. Svo fór að Fylkir nýtti eitt af fáum færum sínum og vann leikinn 1:0. Eftir 16 umferðir af 22 er Vestri með 22 stig í 8. sæti af 12. Liðið á varla lengur raunhæfa möguleika á að vinna sér sæti í Bestu deildinni og að sama skapi þarf mikið að ganga á til þess að liðið dragist niður í fallbaráttuna.

DEILA