Arnarfjörður: Skipulagsstofnun hægir á lagningu sæstrengs

Kort Landsnets.

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að lagning nýs 66 kV jarðstrengs á milli tengivirkis við Mjólká og Bíldudals með sæstreng yfir Arnarfjörð kalli á verulega breytingu á aðalskipulagi. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafði í sumar komist að þeirri niðurstöðu að aðalskipulagsbreytingin væri óveruleg. Skipulagsstofnun hefur hafnað ákvörðun bæjarstjórnar og verður málsmeðferðin því tímafrekari en annars hefði verið.

Verkefnið er að leggja nýjan 16 km langs 66 kV jarðstrengs frá Mjólká að Hrafnseyrarhúsi og þaðan með sæstræng yfir Arnarfjörð í átt að Bíldudal. Fyrirhugaður strengur er hluti af stærra verkefni við að styrkja flutningskerfið á sunnanverðum Vestfjörðum. „Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að auka áreiðanleika raforkuafhendingar á sunnanverðum Vestfjörðum“ segir í minnisblaði Verkís til bæjarstjórnar frá júní 2022.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til Ísafjarðarbæjar dags 21. júlí kemur fram að Skipulagsstofnun hafi borist athugasemd við strenglöngina. Þar er gerð athugasemd við lagnaleið, skort á samráði við landeigendur vegna landtöku strengsins og mat framkvæmdaaðila á ahrifum af sæstrengnum á veiðar. Í framhaldi af athugasemdinni fellst Skipulagsstofnun ekki á að aðalskipulagsbreytingin sé óveruleg og að beri að fara með hana sem verulega.

Það vekur athygli að athugasemdin er gerð við tillögu Svæðisráðs að strandsvæðaskipulagi sem er í vinnslu.

Nú þarf, samkvæmt bréfi Skipulagsstofnunar, að gera grein fyrir þeim valkostum sem voru skoðaðir eða komu til greina fyrir jarðstreng og fjalla um umhverfisáhrif þeirra m.a. skerðingu á nýtingu hafsvæðisins. Þá þurfi að hafa samráð við landeigendur á strengleiðinni og á landtökustað. Einnig sé eðlilegt að hafa samráð við þá sem nýta viðkomandi hafsvæði.

DEILA