„Túristar og Landinn“

Var í góðri ferð um Strandir og Inndjúpið í kuldakastinu fyrir stuttu. Ég fékk mér Kúkúkampers á leigu og ók um eins og sannur útlendur ferðamaður. Því miður var ég tvisvar sinnum vör við fordóma gangvart „túristum“ á svæðinu sem lifir að mestu á slíkum gestum.

Í fyrra skiptið var ég að koma frá Norðurfirði til Hólmavíkur til þess að gista þar á tjaldstæðinu. Bíllinn var haugdrullugur eftir regnblauta, grófa malarvegina og engir kústar eða slöngur á bílaþvottaplaninu  við fyrrum bensínsjoppu. Ég ók því niður á bryggju og þvoði bílinn þar enda alltaf tiltækar vatnsslöngur þar. Svo brá við að þegar ég var að skrúfa fyrir vatnið kom til mín maður og spurði á ensku hvort ég hefði skolað bryggjuna. Ég varð hvumsa við og sagðist telja það því mikið vatn  hefði runnið um bryggjuna  með bíldrullunni. Þetta sagði ég á íslensku. Maðurinn sagði: “Nú, ertu Íslendingur. Þetta er örugglega í góðu lagi.“ Ég bauðst svo til þess að færa bílinn og skola bryggjun betur en hann taldi það óþarfa.

Í seinna skiptið sem ég varð vör við fordóma gangvart „túristum“ var úti á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp. Ég hafði ekið um opið hlið á mínum KÚKÚ niður að húsinu Lyngholti (fyrrum skólahúsi) til þess að ganga þar um snyrtileg hlöð og taka myndir. Þá kemur akandi maður niður að húsinu til mín og tekur mig tali. Ég flýtti mér að afsaka mig og sagðist hafa ekið niður að bænum því opið hliðið hafði boðið mig velkomna með upplýsingaskiltum um bæjarnafn og skóla. Maðurinn. „Jú,  allt í lagi, ég hélt þú værir „túristi.““

Nú spyr ég, 75 ára gömul íslensk kona úr Hveragerði, sem leigði sér „túristabíl“ til þess að skoða Strandir og Inndjúpið: Af hverju þurfa erlendir ferðamenn að skola betur bryggjuna á Hólmavík heldur en Íslendingar? Af hverju þarf að fylgjast betur með ferðum erlendra ferðamanna um Snæfjallaströndina  heldur en Íslendingum?

Íslendingar hafa aldrei haft fordóma gagnvart þorskinum  sem hefur verið mesta tekjulind þjóðarinnar. Nú hefur ferðamamannaiðnaður toppað þoskinn hvað varða landstekjur svo sýnum nú „túristunum“ jákvætt viðmót og virðingu.

Það voru afskaplega hlýlegar móttökur sem ég fékk á Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd,  Steinshúsi á Langadalsströnd, Norðurfirði sem og í Sundlaug Hólmavíkur. E.t.v. vegna þess að ég var Íslendingur?! Krambúðin á Hólmavík er gott framtak til þess að þjóna ferðamönnum af öllum þjóðernum, snyrtileg húsakynni og rúmgóð.

Gangi ykkur vel í ferðamannamálum sem og öðru.

Sesselja Guðmundsdóttir Hveragerði

DEILA