Tillaga að Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2021-2033

Reykhólahreppur hefur auglýst tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi fyrir Reykhólahreppur, þ.e. Aðalskipulag Reykhólahrepps 2021-2033 samkvæmt 31. gr. skipulagslaga. 

Tillagan er til sýnis á skrifstofu Reykhólahrepps, að Maríutröð 5a og hjá Skipulagsstofnun, Borgartúni 7b, Reykjavík. 

Meðal þess se,m kemur fram í þessum skipulagstillögum er að sú framtíðarsýn sem er höfð að leiðarljósi tekur mið af svæðisskipulagi Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar sem tók gildi árið 2018.

Í tillögunni er lögð áhersla að styrkja þorpið á Reykhólum svo til verði heildstæður bær með tíð og tíma. Í þeim tilgangi eru sett fram markmið um að mótuð verði skýrt afmörkuð og vel hirt rými sem til samans, með lágreistri og samfelldri byggð og landslagssérkennum, skapa fallega bæjarmynd Reykhóla.

Á verslunar- og þjónustusvæði á Króksfjarðarnesi, ofan þjóðvegar, er bætt inn heimild fyrir frístundahús og íbúðarhús til að skilgreining nái til þeirra húsa sem þar eru fyrir og til að auka sveigjanleika aðalskipulags.

Mörkuð er stefna um orkuvinnslu, þ.m.t. vindorku. Hnykkt er á stefnu um aukna nýtingu jarðhita. Aðalskipulagstillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu vindorkugarðs á Garpsdalsfjalli, í landi Garpsdals. Skilgreint er iðnaðarsvæði þarf sem áformað er að reisa vindmyllur til raforkuframleiðslu með allt að 89 MW uppsettu afli með það að markmiði að auka framboð á raforku í sveitarfélaginu, fjölga atvinnutækifærum og styrkja sveitarfélagið sem framtíðarbúsetukost. Stærð iðnaðarsvæðisins er um 4,37 km2. Áætlað er að innan svæðisins verði allt að 21 vindmylla, safnstöð raforku, aðkomuvegur og vegir innan svæðis, jarðstrengur auk athafnasvæðis verktaka. Virkjunarkosturinn er ekki í gildandi rammaáætlun og í samræmi við skipulagsreglugerð og lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 er
iðnaðarsvæðið skilgreint sem varúðarsvæði í aðalskipulagi.

Iðnaðarsvæði í Karlsey er stækkað með um 2 ha landfyllingu og skilmálar útvíkkaðir til að auka svigrúm fyrir hafnsækna starfsemi og starfsemi sem tengist nýtingu sjávarnytja.
Á verslunar- og þjónustusvæði á Reykhólum þar sem gert hefur verið ráð fyrir heilsuhóteli er heimild aukin úr 40 í allt að 80 herbergi í allt að 4000 m2 byggingu skv. ósk landeiganda.
Gert er ráð fyrir nýju tjaldsvæði í Djúpadal að ósk landeiganda.
Afmarkaður er nýr reitur fyrir verslun og þjónustu á Brekku fyrir fræðslustarfsemi og ferðaþjónustu, að ósk landeiganda.

Tillögurnar í heild sinni er að finna á vefsíðu Reykhólahrepps og athugasemdir eiga að berast fyrir 27. ágúst 2022.

DEILA