Tálknafjörður: sveitarstjóri fær 1.550.000 kr/mán

Lilja Magnúsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps, og Ólafur Þór Ólafsson handsala ráðningu sveitarstjóra fyrir kjörtímabilið 2022-2026.

Mánaðalaun Ólafs Þór Ólafssonar, sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps eru 1.550.000 kr samkvæmt nýgerðum ráðningarsamningi sveitarstjórnar við hann. Ólafur var fyrst ráðinn í febrúar 2020 og voru launin þá 1.400.000 kr. Launin hækka um hver áramót miðað við breytingar á launavísitölu. Ólafur Þór fær greidda 400 km á mánuði fyrir akstur skv taxta ríkisstarfsmanna. Sveitarfélagið greiðir fyrir notkun á farsíma og fyrir nettengingu. Ólafi Þór er óheimilt að taka að sér störf í þágu annarra án samþykkis sveitarstjórnar. Þó er honum heimilt að gegn starfi formanns knattspyrnudeildar Reynis í Sandgerði.

Samningurinn gildir til loka maí 2026. Gagnkvæmur 6 mánaða uppsagnarfrestur er og greidd verða þriggja mánaða biðlaun verði Ólafur Þór ekki endurráðinn í lok samningstímans. Sveitarstjórn hefur aðgang að sveitarstjóra í einn mánuð eftir starfslok án sérstakra launagreiðslna.

DEILA