Tálknafjörður: ekki allt í ráðningarsamningnum við sveitarstjóra

Lilja Magnúsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps, og Ólafur Þór Ólafsson handsala ráðningu sveitarstjóra fyrir kjörtímabilið 2022-2026.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri á Tálknafirði fær að fara suður aðra hverja viku og sinna starfi sínu þaðan þegar verkefni sveitarfélagsins krefjast ekki staðsetningar hans í Tálknafirði. Ekkert er hins vegar minnst á þetta samningsatriði í ráðningarsamningi hans.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta greindi Lilja Magnúsdóttir, oddviti sveitarstjórnar frá þessu fyrirkomulagi á opnum fundi sveitarstjórnar á þann veg að Ólafur Þór fengi að fara suður aðra hverja viku á fimmtudegi og koma aftur á mánudegi. Hefði þetta fyrirkomulag einnig verið á síðasta kjörtímabili en þó þannig að þá fór hann suður á föstudegi og kom aftur á mánudegi.

Þar sem ekkert er kveðið á þetta í ráðningarsamningi Ólafs Þórs, sem Bæjarins besta hefur fengið afrit af, var Lilja Magnúsdóttir, oddviti innt eftir þessari fjarveru og því hvernig launagreiðslum og ferðakostnaði væri þá háttað.

Lilja Magnúsdóttir segir í svari sínu að Ólafur haldi annað heimili í Sandgerði með börnum sínum. Síðar segir í svarinu:

„Þegar verkefni sveitarfélagsins krefjast ekki staðsetningar sveitarstjóra í Tálknafirði annan hvern föstudag, hefur hann heimild til að sinna vinnu sinni á Suðurnesjum þá daga en er í bæði tölvu- og símasambandi. Oftar en ekki nýtast þessir dagar líka til að sinna fundarsetu á höfuðborgarsvæðinu þannig að tími hans er nýttur til fulls þó hann sé staðsettur á suðvesturhorninu. Ólafur er því í vinnu þá daga sem hann er staddur á suðvesturhorninu og því á spurningin um laun ekki við. Hann greiðir þennan ferðakostnað úr eigin vasa en annars greiðir sveitarfélagið þann ferðakostnað sem hlýst af ferðum hans á vegum sveitarfélagsins.

Þessar ferðir Ólafs og ákvörðun um þessa fjarvinnu Ólafs ræðst alltaf af verkefnastöðunni hverju sinni hér heima og er rædd við oddvita og samþykkt í hvert sinn. Leyfi verkefnastaða sveitarfélagsins ekki fjarveru hans á þessum dögum er hann hér í Tálknafirði og sinnir sinni vinnu og fer þá suður að kvöldi föstudags.“

Í ráðningarsamningi Ólafs Þór er kveðið á um að sveitarstjóri skuli hafa fasta viðveru á opnunartíma skrifstofu nema fundir, ráðstefnur eða önnur störf á vegum sveitarfélagsins hamli.

Samkomulag er um að sveitarstjóri leigi íbúð af sveitarfélaginu og að hann skuli búa í sveitarfélaginu.

Beðið er svara við fyrirspurn Bæjarins besta um leigufjárhæð fyrir íbúðina.

DEILA