Styrki til íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar vegna heimsfaraldurs

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um mótvægisstyrki til íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar vegna heimsfaraldurs.

Mennta- og barnamálaráðherra hélt í gær kynningarfund í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal, um fjárhagsstuðning stjórnvalda við íþrótta- og æskulýðsstarfs í tengslum við COVID-19. Auk ráðherra ávörpuðu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ fundinn.

Á fundinum var meðal annars farið vel yfir forsendur umsókna og fyrirkomulag umsóknarferlis. Markmiðið með stuðningnum er að bæta að hluta tekjutap og aukin útgjöld af völdum samkomutakmarkana.

Stjórnvöld hafa stutt vel við íþrótta- og æskulýðsfélög með ýmsum hætti á tímum kórónuveirufaraldursins, meðal annars með endurgreiðslum vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna, til fjölskyldna barna á efnaminni heimilum með sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum og fjárstuðningi vegna afleiðinga faraldursins á rekstrarumhverfi íþrótta- og æskulýðsfélaga.

Að þessu sinni verður allt að 500 milljónum króna veitt til stuðnings starfinu. 

Sérsambönd, íþróttahéruð, íþrótta- og ungmennafélög og deildir þeirra geta sótt um stuðning, auk æskulýðsfélaga. Umsækjendur verða að sýna fram á tekjutap eða kostnaðarauka vegna viðburða sem þurfti að fella niður eða breyta verulega vegna samkomutakmarkana af völdum COVID-19.

Ráðuneytið fól ÍSÍ umsjón með umsóknarferlinu og hefur nú upplýsingasíða varðandi umsóknir, ferlið og skilyrði verið opnuð á heimasíðu ÍSÍ.

Umsóknarfrestur er til og með 2. ágúst nk.

DEILA