Strandaður hnúfubakur við Hringsdal í Arnarfirði

Náttúrustofu Vestfjarða barst á dögunum tilkynning um hvalreka í flæðarmáli við Hringsdal í Arnarfirði.

Erfitt var að tegundagreina hvalinn af fyrstu myndum sem bárust. En stuttu seinna bárust aðrar myndir frá Veigu Grétarsdóttur, en með dróna náði hún myndum úr lofti og með þeim var auðvelt að greina helstu sérkenni hnúfubaks.

Eitt helsta tegundareinkenni hnúfubaka eru sérstaklega löng bægsli, sem samsvara um einum þriðja af heildarlengd hvalsins. Fremri brún bægslanna og aftari brún sporðsins hafa mjög óreglulega og hnúðótta lögun.

Auk þess er bakuggi hnúfubaka frábrugðinn bakugga annarra skíðishvala, hann er hlutfallslega lítill og fyrir framan hann stendur lítill hnúður. Nafn tegundarinnar er einmitt dregið af þessum litla hnúði.

Hnúfubakur er frekar kubbslega vaxinn, sverastur um miðjuna en mjókkar til beggja enda. Fullorðinn er hann 13 til 17 metra langur og 25 til 40 tonn á þyngd. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir eins og er um alla skíðishvali. Hausinn er um þriðjungur af heildarlengd hvalsins. Skíðin eru svört á lit og öllu styttri en skíði annarra skíðishvala af svipaðri stærð. Hnúfubakurinn hefur 330 pör af skíðum og eru þau um 60 cm á lengd og 30 cm á breidd þar sem þau eru breiðust, sú hlið skíðanna sem snýr inn að munnholi er alsett hárum.

Eitt helsta sérkenni hnúfubaks eru gríðarlöng bægsli. Þau geta orðið fimm til sex metra löng eða um einn þriðji af skrokklengd. Fremri brún bægslanna er alsett misstórum hnúðum.

DEILA