Könnun: best að læra íslensku við hversdagslegar aðstæður

Ekki alls fyrir löngu stóð Theresa Henke hjá Háskólasetri Vestfjarða að óformlegri könnun gegnum Facebook á því hvernig lærendum íslensku hugnast best að læra málið. Könnunina gerði hún fyrir átakið Íslenskuvænt samfélag og var og er henni hugsað að hjálpa til við að stuðla að notkun málsins. Þátttakendur voru 347 talsins.

Boðið var upp á ýmsa möguleika sem þátttakendur gátu valið úr. Stóð þeim einnig til boða að bæta við sínum möguleikum.

Valmöguleikarnir voru eftirfarandi:

Staðbundið námskeið, unnið með vinnuumhverfi.

Í talhópi.

Íslenska í gegnum leik.

Íslenska við hversdagslegar aðstæður; eins og að panta á veitingastað/bakaríi, tala við fólk í verslunum …

Með einkakennara.

Námskeið 1-2 kvöld í viku.

Vinnustaðanámskeið.

Gegnum netið.

Stíf námskeið á hverjum degi í 2-4 vikur.

Það er skemmst frá því að segja að íslenska við hversdagslegar aðstæður hlaut flest atkvæði eða 94. Í öðru sæti var netkennsla (50 atkvæði) og í því þriðja íslenskunámskeið 1-2 í viku (39) atkvæði.

Sýnir þessi niðurstaða fram á nauðsyn þess að notast við íslensku við sem flestar aðstæður, í því felst æfing fyrir alla aðila. Í ljósi þessa er ekki úr vegi að vinnuveitendur á svæðinu gefi næsta framlínunámskeiði Íslenskuvæns samfélags gaum. Fræðslumiðstöð Vestfjarða stendur að því 19. júlí næstkomandi frá klukkan 09:30-11:00. Fræðslumiðstöðin tekur við skráningum gegnum  þennan hlekk. Nánari upplýsingar má fá í gegnum islenska@uw.is eða símleiðis í gegnum númerið 8920799.

Starfshópur Íslenskuvæns samfélags.

DEILA