Holt: settu ferðamenn í land í æðarvarp

Hanseatic Spirit innan við Flateyri. Mynd: aðsend.

Skemmtiferðaskipið Hanseatic Spirit sigldi inn á Önundarfjörðinn á miðvikudaginn innfyrir Flateyrarhöfn og settu farþega í landi í æðarvarpið í Holti. Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. sem býr þar og annast æðarvarpið staðfesti þetta en hún sagðist ekki hafa orðið vör við að ferðamennirnir hefðu gert neinn óskunda.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum friðlýsti æðarvarpið í landi jarðarinnar Holts í Önundarfirði í mars síðastliðnum. Friðlýsing æðarvarps gildir á tímabilinu 15. apríl til 14. júlí ár hvert. Friðlýsingin felur í sér að innan friðlýstra svæða er öll óviðkomandi umferð og röskun bönnuð, svo og óþarfa hávaði af völdum manna og véla, nema með leyfi varpeiganda.

Virtist við eftirgrennslan að útgerð skemmtiferðaskipsins hafi verið ókunnugt um friðlýsinguna og því hafi farist fyrir að afla leyfis fyrir landgöngunni í æðarvarpið.

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna segir að það hafi lengi verið vilji hafnaryfirvalda að settar verði reglur um landtöku farþega á erlendum skemmtiferðaskipum utan hafnarsvæða. Hér á landi væru engar reglur, nema sem lúta að friðlýstum svæðum, og því hefðu skemmtiferðaskipin komist upp með að setja farþega í land utan hafna. Bæjarins besta hefur fregnir af því að erlent skemmtiferðaskip hafi sett farþega í land í Dynjandisvogi í Arnarfirði. Guðmundur segir að erlendis sé þessu öðruvísi farið, landtakan sé ólögleg utan hafnasvæða.

DEILA