Héraðsdómur: landakröfum Drangavíkur hafnað

Landamerki Drangavíkur sem Héraðsdómur dæmir rétt.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í gær landakröfum meirihlutaeigenda Drangavíkur á hendur eigendum Ófeigsfjarðar, Engjaness og minnihlutaeigendum Drangavíkur í Árneshreppi og gerði dómurinn stefnendum að greiða hinum stefndu háan málskostnað alls 12,4 m.kr. Eru eigendum Engjaness og Ófeigsfjarðar dæmdar sameiginlega 8.4 m.kr. í málskostnað, eigendum minnihluta Drangavíkur 3 m.kr. og ríkinu eru dæmdar 1 m.kr. í málskostnað.

Undirtónninn í málaferlunum er Hvalárvirkjun en ef landakröfur stefnenda hefðu verið teknar til greina hefðu vatnsréttindin fylgt með og fyrirliggjandi samningar Vesturverks við landeigendur um virkjun vatnsfallanna hefðu verið í uppnámi.

„Að virtum aðstæðum á vettvangi og að teknu tilliti til allra gagna málsins telur dómurinn að sú lýsing í óumeildu landamerkjabréfi Engjaness að landamerki fylgi hæstu fjallsbrún séu fremur í samræmi við það sem gagnstefnandi og stefndu halda fram, að mörk jarðanna liggi eftir brún Drangavíkurfjalls inn á heiðina og fylgi svo hæstu brún á vatnaskilum í norðvestur ofan Drangavíkurdals að landamörkum í hnúk þar sem landamerki Dranga, Drangavíkur og Engjaness mætast, en ekki að landamerkjalínan liggi niður af brún Drangavíkurfjalls að Eyvindarfjarðará þar sem hún rennur úr Eyvindarfjarðarvatni, svo sem stefnendur halda fram.“

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur er í samræmi við það sem lögmaður eiganda Engjaness, Felix von Longo-Liebenstein sagði í viðtali við Bæjarins besta þann 27.6. 2019 að hann hefði ekki stórar áhyggju af þessum landakröfum. Lögmaðurinn sagðist ekki geta lesið þetta út  landamerkjabréfum. Hann sagði að kröfurnar komi eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Það hefur aldrei verið ágreiningur við nokkurn mann um landamerkin milli jarðanna.

Landamerki Drangavíkur sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði.

DEILA