Halla Signý: boðaðar breytingar á strandveiðikerfinu skref til baka

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. Framsóknarflokksins er mjög gagnrýnin á boðaðar breytingar sjávarútvegsráðherra á strandveiðikerfinu.

„Þessar boðaðar breytingar finnst mér vera skref til baka og hætta á að öryggi sjómanna verði ógnað þegar menn reyna í kapphlaupi að fara út í hvaða veðri sem er á litlum bátum fyrri hluta mánaðar, veiði nær landi og koma ekki með eins verðmætan afla í land.“ segir Halla Signý í færslu um málið á Facebook.

Hún segir að það verður alltaf mismunandi fiskgengd á milli svæða og veðurfar mismunandi. Fyrir núverandi kerfi voru bátar á Svæði A að fá færri daga en á öðrum svæði og Halla Signý spyr er það til bóta? „Því fyrir breytingar var þó alltaf staðan sú að bátar á A svæði oftast þeir sem voru stoppaðir af vegna þess að potturinn fyrir svæðið var búinn.“

Halla Signý segir að á árinu 2018 hafi verið gerðar nokkrar breytingar á kerfinu, landið var allt í einum potti og ufsinn tekin út fyrir heildarafla og segir þær hafa aukið líkur á að heildarkvótinn til strandveiða dugi og komi sér mjög vel á svæði C og D.

Þá minnist Halla Signý Kristjánsdóttir á samantekt sem Byggðastofnun vann vegna breytinga á kerfinu sem leiddi í ljós að almenn ánægja var með breytingarnar. „Vestlendingar og Vestfirðingar voru ánægðastir með breytingarnar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu en Norðlendingar og Austfirðingar síður þó meirihluti þeirra teldu breytingar á kerfinu til bóta.“

Að sögn Höllu Signýjar var helsta gagnrýnin sem kom fram á breytingarnar fyrir norðan og austan að kerfið ætti ekki að vera í einum potti vegna mismunandi fiskgengdar á milli svæða. Sú staða gæti komið upp að væri veður gott í maí og júní fyrir sunnan og vestan gæti stærstur hluti pottsins verið veiddur þar vegna þess að fleiri bátar eru á því svæði.

Um það segir Halla Signý í færslunni: „Ég hef ekki orðið var við kapphlaupi við að ná fram jöfnuði á útgerð og kvóta um landið, kannski væri rétt að horfa á heildarmyndina.“

DEILA