Víkingaskáladagar í Súgandafirði

Í sumar líkt og síðustu þrjú sumur stendur Fornminjafélag Súgandafjarðar fyrir Víkingaskáladögum fyrir áhugasama sem vilja læra að byggja skála sem er byggður á fornleifauppgreftri í Arnarfirði frá landnámsöld.

Í sumar verður farið í að klára að smíða grindina sem heldur uppi torfþakinu og stefnt verður að því að loka þakinu. Einnig verður byrjað á steinhleðslu sem verður í kringum skálann.

Valdimar Elíasson smiður frá Dýrafirði leiðir smíðavinnuna en hann hefur mikla reynslu og smíðaði m.a. víkingaskipið Véstein. Fyrir utan að læra af fagfólkinu snýst verkefnið um að vera með og taka þátt, hvort sem um ræðir að sækja grjót, hlaða grjóti, höggva grjót eða stinga og hlaða klömbrutorfi. Sækja þökur og drumba, kljúfa drumba, njóta sólar og hitans og ræða um flóttamennina sem komu frá Noregi á landnámsöldinni, mataræði þeirra, loftræstinguna og hitastigið í skálunum, langeldinn, skartið, verkfærin og fatnaðinn. Námskeiðið hentar öllum áhugasömum, bæði konum og körlum, ungum og gömlum.

Fyrra námskeiðið stendur yfir núna eða frá 16. – 19. júní og næsta námskeiðið verður dagana 2.-5. ágúst eða strax eftir verslunarmannhelgina.

Áhugasöm hafi samband við Eyþór Eðvarðsson í eythor@thekkingarmidlun.is eða í síma 892 1987.

Öll velkomin en fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Myndir: Ingrid Kuhlman.

DEILA