Strandsvæðaskipulag: kynning í dag á Bíldudal

Tillaga að skipulagi. Rauðleitt svæði heimilar staðbundna nýtingu en gærnt bannar nýtingu eins og fiskeldi.

Nú stendur yfir kynning á tillögum að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða. Um er að ræða fyrstu tillögur að skipulagi strandsvæða á Íslandi og er hér brotið í blað í hundrað ára skipulagsögu landsins.

Í tilkynningu frá Skipulagsstofnun segir að skipulag haf- og strandsvæða hafi verið viðfangsefni nágrannalanda okkar um langt árabil. „Með strandsvæðisskipulagi verður til stjórntæki, sambærilegt og við þekkjum í skipulagi á landi. Vaxandi sókn í nýtingu strandsvæða hefur hefur í för með sér samkeppni um staði og hugsanlega árekstra. Því er almennt aukin þörf á heildstæðri greiningu og yfirsýn svo haga megi nýtingu á sem sjálfbærastan hátt og í sem mestri og bestri sátt.“

Frumkvæði Vestfirðinga

Vestfirðingar áttu frumkvæði í að ýta á að unnið væri strandsvæðisskipulag. Í kjölfar vinnslu kalkþörungasets var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð 2013. Þessar áherslur rötuðu í landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2015. Þá var komin skriður á fiskeldisáform á Vestfjörðum og lá því beinast við byrja að skipuleggja strandsvæði þar.

Með lögum um skipulag haf og strandsvæða sem samþykkt voru 2018 er kveðið á um að skipulag strandsvæða sé unnið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga undir hatti innviðaráðherra.  Ráðherra skipar fulltrúa ríkis og aðliggjandi sveitarfélag í svæðisráð sem eru ábyrg fyrir skipulagsgerðinni. Skipulagsstofnun aðstoðar svæðisráðin við mótun skipulagsins, kynningu tillagna og framfylgd eftir að skipulagið hefur fengið staðfestingu.

Við mótun skipulagstillagnanna hefur verið stuðst við yfirgripsmikil gögn um náttúrfar, vistkerfi, veiðar, siglingar og önnur þau not sem nú fara fram í viðkomandi fjörðum og flóum.  Mikil vinna hefur farið í að ná saman heilstæðum greiningum sem byggja á fyrirliggjandi gögnum en einnig var leitið í brunn staðkunnugra í gegnum samráðsferli.

Tillögur í kynningu

Í þeim tillögum sem nú eru í kynningu er mótuð stefna fyrir nýtingu og vernd strandsvæðisins. Tillagan er sett fram í skipulagsgreinargerð og á uppdrætti. Skipulagssvæðunum er skipt í skipulagsreiti eftir fimm mismunandi nýtingarflokkum; Umhverfi og náttúra, Siglingar, Lagnir og vegir, Staðbundin nýting og Almenn nýting. Um skipulagsreitina eru sett skipulagsákvæði sem leyfisskyld starfsemi þarf að taka tillit til.

Á vefsíðunni hafskipulag.is er hægt að nálgast uppdrátt, vefsjá og umhverfismat tillögu svæðisráðs að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða.

Kynningarfundir þar sem skipulagið verður kynnt, verða haldnir í júní á eftirfarandi stöðum:


Félagsheimilinu Baldurshaga á Bíldudal, 21. júní nk. kl. 16:30-18:00
Félagsheimilinu Bolungarvík, 22. júní nk. kl. 16:30-18:00
Hnyðju í Þróunarsetrinu á Hólmavík, 23 júní nk. kl. 16:30-18:00

Frestur til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri er til 15. September 2022.

DEILA