Strandsvæðaskipulag: fiskeldi verði bannað í Jökulfjörðum

Strandsvæðaskipulagið fyrir Jökulfirðina og Aðalvík.

Hrafnkell Ásólfur Proppe, fulltrúi Skipulagsstofnunar staðfestir að tillaga að strandsvæðaskipulagi setur Jökulfirði í nýtingarflokkinn Umhverfi og náttúra, „það er rétt að ekki er gert ráð fyrir fiskeldi eða annarri staðbundinni nýtingu í þeim flokki.“ Hrafnkell segir að þetta sé tillaga svæðisráðs en ekki tillaga eins sveitarfélags.

Það liggur ekki fyrir burðarþolsmat í Jökulfjörðum en að sögn Hrafnkels hefur Hafrannsóknarstofnun lagt til við ráðherra að ekki verði fiskeldi þar að svo stöddu.

Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish segir þá nálgun svæðisráðs umhugsunarverða að þörf sé á að skilgreina sérstaklega svæði fyrir ferðaþjónustu og sérstaklega fyrir fiskeldi. „Á flestum stöðum hefði maður talið að eldi og ferðaþjónusta geti vel farið saman“ segir Daníel.

Vantar framtíðarsýn

Um skipulagstillöguna segir Daníel:

„Það sem vekur þó athygli er að ólíkt öðrum skipulagsuppdráttum t.d. aðalskipulagi hjá sveitarfélögum virðist ekki vera nein framtíðarsýn í því. Þetta er meira lýsing á stöðunni eins og hún er. Þau eldissvæði sem eru teiknuð þarna inn eru öll í umsóknarferli og því ekki gert ráð fyrir neinni sókn í því til lengri framtíðar. Það kann auðvitað að vera svo að svæðisnefndinni hafi þótt heppilegt, í fyrstu umferð, að reyna að einfalda verkið og taka slíka umræðu í næstu umferð. Gert er ráð fyrir að svæðisskipulag sé lifandi plagg enda sem tekur breytingum í takt við tímann og áherslur og notkun hverju sinni.“

Athygli vekur að stór svæði í Ísafjarðardjúpinu eru merkt græn, sem bannar atvinnustarfsemi þar, svo sem fiskeldi. Aðspurður um þau segir Hrafnkell:

„Varðandi Grænu svæðin í Djúpinu þá hefur Náttúrufræðistofnun lagt til að þau fari á B hluta náttúruminjaskrár vegna sela. Svæðisráð hefur horft til umsókna og aðlaga reitina í flokknum Umhverfi og náttúru (grænu svæðin) í því skyni að þær lendu utan þeirra.  Grænu svæðin í Djúpinu eiga því ekki að hafa áhrif á umsóknirnar.“

Tveir kynningarfundir verða í dag á vegum Skipulagsstofnunar og svæðisráðs. Í hádeginu á Bíldudal og seinni partinn í Bolungavík.

Tillaga að strandsvæðaskipulagi fyrir Djúpið.

 

DEILA