Sorphirðun: Kubbur í viðræðum við Terra um kaup

Fram kemur í minnisblaði verkefnastjóra á umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar að Terra hf. og Kubbur ehf. á
Ísafirði hafa verið í samningaviðræðum um kaup þess síðarnefnda á starfsemi Terra í Ísafjarðarbæ. Í samtölum
sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar við framkvæmdastjóra Kubbs hefur komið fram að kaupin væru
ekki frágengin en hins vegar liggi fyrir samkomulag beggja aðila um að klára málið.

Sorphirðusamningur Ísafjarðarbæjar er við Terra hf. og var hann gerður á grundvelli útboðs Ísafjarðarbæjar árið 2017 sem tók samningurinn gildi 1. janúar 2018. Samningurinn var gerður við Gámaþjónustu Vestfjarða sem rann inn í móðurfélagið Gámaþjónstuna hf. á samningstímanum sem síðar fékk nýtt nafn, Terra hf.
Samningurinn var gerður til fjögurra ára og rann út 1. janúar 2022. Samningurinn var á vordögum framlengdur um tvö ár og gildir samningurinn því til 1. janúar 2024.

Í minnisblaði verkefnastjórans til umhverfis- og framkvæmdanefndar segir að eitt af stóru verkefnum umhverfis- og framkvæmdanefndar á kjörtímabilinu verði útboð sorphirðu og -förgun og innleiðing á nýju regluverki.

Uppstokkun á innheimtu kostnaðar

„Þann 1. janúar 2023 koma til framkvæmda stór hluti ákvæða í lögum nr. 103/2021 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald.
Í lögunum kemur meðal annars fram að innheimta skal vera sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs og að fast gjald skuli vera nýtt að takmörkuðu leiti. Á ensku kallast þetta Pay as you throw. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi svo hægt að sé að innheimta á réttan hátt. Þetta eru stórar breytingar þar sem flest innheimtkerfi þurfa að taka skref úr því að vera hefðbundið kerfi sem nýtir fast gjald, í það að vera innheimtukerfi sem er í eðli sínu sniðið betur því magni og tegund úrgangs sem hver og einn íbúi sveitarfélagsins lætur frá sér.“

Heimilt er fram til 2025 að innheimta með föstu gjaldi allt að 50% af kostnaði við sorphirðu og -förgun.
Unnið er að því að kanna hvar sveitarfélagið stendur með tilliti til þessa.
Spurningin sem þarf að svara er hvort lagabreytingar kalla á stórar breytingar í sorphirðu- og förgun í Ísafjarðar þann 1. janúar 2023 eða hvort við fáum tveggja ára aðlögunartíma og breytingarnar kæmu þá til framkvæmda í næsta sorpútboði.

DEILA