Opið bréf til Matvælaráðherra

Háttvirtur ráðherra Svandís Svavarsdóttir, það var haft eftir þér í fjölmiðlum í síðustu viku eftir birtingu ráðgjafar Hafransóknarstofnunar um 6% niðurskurð á þorskkvóta á næsta fiskveiðiári, að útgerðirnar eigi að geta ráðið við þessa minnkun á veiðiheimildum með betri nýtingu.

Nú ætla ég að leita ráða hjá þér hvernig að ég sem að geri út smábát með krókaaflamarki sem að er komið niður í rúm 12 þoskígildistonn eftir 13% skerðingu á þessu ári geti brugðist við 6% skerðingu á því næsta?

Forvera þínum Sigurði Inga tókst að eyðileggja krókaaflamarkskerfið með því að breyta stærðarmörkum smábáta upp í þrjátíu tonn sem að var til þess að hér um bil allur kvóti í krókaaflamarki er kominn í hendur stórútgerðarinnar og leigukvóti orðinn nær ófáanlegur og þá á mjög háu verði. Hugsanlega ráðleggur þú mér að fara í strandveiðikerfið, en því er til að svara að þar sem að ég er með þessa litlu veiðiheimild finnst mér ekki rétt að leigja frá mér veiðiheimild þar sem að veiðiskyldan er einungis 50% (margir leigja allt eftir einhverjum krókaleiðum) og hafa af því tekjur til að fara í félagslegt kerfi sem að strandveiðin er, eins og svo fjölmargir gera. Það er eins og að skreppa úr vinnu til að sækja atvinnuleysis bætur.

Ég hef stundað handfæraveiðar nokkuð lengi, fór fyrst á trillu 1967 og hef verið meira og minna við þetta síðan og eingöngu síðastliðin 10 ár. Það eru töluverðir ágallar á strandveiðikerfinu sem að ég á erfitt að sætta mig við. Ég hef alltaf reynt að róa eftir veðurspá og gæftum hvort sem er á virkum degi eða helgi, það passar ekki alltaf við exel skjalið og dagatalið frá ráðuneytinu. Kolefnisspor er mikið lægra þar sem komið er með meiri afla í hverri ferð. Eigenda ákvæði strandveiðilaganna er marklaust þar er ekki sett neitt lágmark á eign í bátnum þar af leiðandi eru margir leiguliðar að róa þessum bátum. Það er algerlega búið að eyðileggja frjálsræðið sem að hefur fylgt smábátaútgerð í árhundruð og ég tel mig eiga fullan rétt á sem íslenskur þegn, að geta gert út bát og lifað af minni vinnu. Og en er verið að herða að með óásættanlegum mönnunareglum.

Því spyr ég þig háttvirtur ráðherra hvernig á ég að bregðast við væntanlegum niðurskurði? Ég læt hér fylgja með mynd sem að sýnir vel árangurinn af fiskveiðistjórnuninni síðustu áratugina. En samkvæmt orðum forstjóra Hafransóknarstofnunar er þorskstofninn í mjög góðu ástandi og hefur ekki verið betri síðan 1960.

Með von um góðar ráðleggingar.

Kveðja Þorsteinn Jóhannesson

DEILA