Minning: Finnbogi Jónasson

Finnbogi Jóhann Jónasson harðfiskframleiðandi fæddist í Bolungavík á Ströndum 17. febrúar 1940. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi 4. júní 2022.

Foreldrar hans voru Guðbjartur Jónas Finnbogason f. 23.4.1887, d. 22.3.1968 og Hansína Anna Bæringsdóttir f. 31.8.1899, d. 29.7.1984. Systkini Finnboga voru fimm, Bergmundur Bæring Ólafur f. 1925, d. 1951, Guðfinna Ingunn f. 1926, d. 2016, Kristján f. 1928, d. 1982, Magnús f. 1929, d. 2018 og Svanhildur f. 1943, auk þess ólst systursonur hans Þráinn Arthúrsson f. 1945 upp á heimilinu.

Eftirlifandi eiginkona hans er Elísabet María Gunnlaugsdóttir leikskólakennari frá Ísafirði f. 11.5.1945 en þau giftust 30. júlí 1966. Börn Þeirra eru: 1) Gunnlaugur Ármann f. 25.5.1965 giftur Sumalee Karerum og eiga þau Elísabetur Maríu f. 2008 og Jóhann Rafn f. 2011 fyrir átti hún Suwat f. 1998 og Bryndísi f. 2002. 2) Guðrún Anna f. 3.2.1970 gift Steinari Ríkharðssyni og eiga þau Finnboga f. 1999, Ríkharð Inga f. 2003 og Sólrúnu Elsu f. 2007. 3) Jónas Hallur f. 26.5.1971 giftur Guðnýju Kristínu Bjarnadóttur eiga þau Ágústu Maríu f. 2007, Bjargeyju Símóníu Magndísi f. 2009 og Bjarna Gestar f. 2016 áður átti hann Grím Dion f. 1997 og hún Júlíönu Lind f. 1997 og Daníel Örn f. 1999 4) Grímur Freyr f. 12.10.1972 sonur hans Alexander f. 2009. Finnbogi Jóhann Jónasson fæddist í Bolungavík á Ströndum og ólst þar upp til níu ára aldurs en fjölskyldan flutist þá á Hreggnasa í Bolungarvík við Djúp árið 1949. Hann vann ýmis störf tengd sjávarútvegi í Bolungarvík og var leigubílstjóri. Hann fluttist á Ísafjörð 1966 og bjó þar alla tíð síðan þar byrjaði hann að starfa við pípulagnir en árið 1970 fór hann í eigin rekstur og keypti Bryndísi ÍS-69 og stundaði rækju- og færaveiðar. Árið 1979 lét hann smíða Bryndísi ÍS-705 í skipasmíðastöð Marzelíusar á Ísafirði og stundaði rækjuveiðar og fór á vertíð í Grindavík á vorin. Árið 1985 stofnaði hann Harðfiskverkun Finnboga J. Jónassonar undir vörumerkinu ”Harðfiskur frá Ísafirði” og starfaði þar til 2015 og átti hlut í útgerðinni Norðurljósinu ÍS-3 ásamt sonum sínum.

Minningargrein

Það er sárt að kveðja en ljúft að hugsa til baka yfir farinn veg nú þegar ég kveð hann pabba minn. Hann var fæddur í Bolungavík á Hornströndum þar sem allir lifðu á því sem náttúran bauð uppá, fisknum, selnum, eggjum úr bjarginu og rekaviðnum. Meira náttúrubarn er varla hægt að hugsa sér og það sem við köllum í dag sjálfbæra hugsun hét þegar pabbi var að alast upp að fara vel með, nýta allt og bjarga sér og þannig var hann alla tíð.

Pabbi þekkti fjöllin og vissi hvernig best var að lenda bátum norður á Ströndum og var duglegur að benda okkur á fjöll og dali svo ég tali nú ekki um dýralífið allt í kringum okkur þegar við vorum að alast upp. Sigla í Jökulfjörðurnar, fara á árabát í land og veiða fisk í soðið var hluti af ævintýrinu en fyrir honum var mikilvægt að draga björg í bú. Áhugi okkar systkinanna fyrir öllu því sem tengist sjónum og náttúrunni vaknaði því fljótt.

Við fengum oft að skottast á bryggjunni eða niðri í skúr þegar hann var að vinna og fengum fljótt að taka þátt í verkefnum sem við réðum við, hans mottó var „vinnan göfgar manninn“. Þegar hann fór að verka harðfisk fórum við systkinin að taka þátt í þeirri vinnu og var mikið sport að fara með pabba í söluferðir í Ísafjarðardjúp, á Strandir og Dalasýslu á vorin. Þessar ferðir voru mjög lærdómsríkar en pabbi þekkti annan hvern mann og hafði einstaklega gaman af því að spjalla við menn um málefni og fá fréttir úr sveitinni.

Pabbi var afskaplega ráðagóður og gott að leita til hans enda hafði hann mikið jafnaðargeð en glettnin var aldrei langt undan. Það var sama hvaða hugmyndir skutu upp kollinum hann stóð við bakið á mér og hvatti mig áfram þegar á þurfti að halda.

Fjölskyldan keypti saman sumarbústað í Haukadal og þar áttum við margar gæða stundir og skógræktin stækkaði á ári hverju enda fannst pabba einstaklega gaman að hafa eitthvað að dudda við og setti niður tré og lagaði skógræktargirðinguna af miklum móð. Í bústað fengu barnabörnin góðar stundir með afa í fjöruferðum og göngutúrum.

Ég hugsa oft til þess hvernig lífið á Hornströndum mótaði fólkið og hvað breytingarnar voru ótrúlega miklar og hvernig fólkið þurfti að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í þorpunum þegar byggð lagðist af fyrir norðan. Hinsvegar verða ég að segja að það var eðaluppskrift að alast upp við ást, öryggi og hvattningu og þá fullvissu að vinnusemi myndi aldrei skaða neinn. Þau grunngildi eiga alltaf við hvernig sem heimurinn snýst.

Sumarnótt

að elskan er dýrmætust

alls þess góða,

sem unnt er að gefa og fá.

Og hljóður og þakklátur

hélt ég á brattann

og höfin blá.

(Jón úr Vör)

Guðrún Anna Finnbogadóttir

DEILA