Ísafjörður: tillaga um landfyllingu á Eyrinni auglýst

Mynd úr greinargerðinni með vinnslutillögunni sem sýnir landfyllinguna.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur heimilað auglýsingu á vinnslutillögu grjótvarnar og landfyllingar norðan Skutulsfjarðareyrar. Um er að ræða breytingu á aðalskipulagi.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar er að auka byggingarland fyrir íbúðir á Ísafirði. Samhliða uppbyggingu atvinnulífs og fólksfjölgun þarf að tryggja nægt og fjölbreytt lóðaframboð í samræmi við meginmarkið aðalskipulags,
húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar og Sóknaráætlun Vestfjarða.

Fyrirhugað er að nýta efni í landfyllinguna sem fellur til vegna dýpkunar við Sundabakka á Ísafirði. Landfyllingin verður norðan Skutulsfjarðareyrar, nánar tiltekið frá Norðurtanga að Eyrargötu 2-4 sem er oftast er kallað Íshúsið. Meginlandnotkun á fyllingunni verður íbúðarbyggð. Lögð er áhersla á aðgengi að sjó og að fyrirhuguð byggð falli vel að núverandi byggð. Í breyttu aðalskipulagi er einnig gert ráð fyrir grófhreinsistöð fyrir fráveitu við Íshúsið.

Ráðgert að nýta 200.000 rúmmetra af uppdældu efni vegna dýpkunar við Sundabakka á Ísafirði til landfyllingarinnar en alls falla 530.000 m3 af efni til við dýpkunina. Nýta á 240.000 m3 vegna lengingar Sundabakka og hækkunar lands á Suðurtanga í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag. Að auki verða 90.000 m3 nýttir til landfyllingar við Langeyri í Súðavík.

Fram kemur í greinargerð með vinnslutillögunni að fyrirsjáanleg þörf sé fyrir fleiri íbúðir. Undanfarin ár hafi íbúum í sveitarfélaginu fjölgað og samkvæmt gildandi húsnæðisáætlun er gert ráð fyrir að fólki fjölgi um allt að 200-320 á tímabilinu 2019-2029. Við það bætist svo áhrif af uppbyggingu á fiskeldi. Segir í greinargerðinni um það:

„Áætlað er að 50.000 tonna eldisframleiðsla skapi allt að 640 bein störf á Vestfjörðum og um 390 afleidd störf og að heildarfjöldi íbúa sem byggja afkomu sína á fiskeldi að einhverju leyti getið orðið allt að 1.850.“

DEILA