HMS: úthlutar 40 íbúðum til Ísafjarðar

Í vikunni var tilkynnt um  fyrri úthlutun ársins 2022 og úthlutaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, 2,6 milljörðum króna til uppbyggingar á 328 íbúðum, því til viðbótar bætist við framlag frá sveitarfélögum.

Ein úthlutunin var til Vestfjarða. Það er til Háskólaseturs Vestfjarða sem áformar að reisa 40 íbúða nýbyggingu fyrir námsmenn. Stofnvirði er 778 milljónir króna og framlag ríkisins 261 m.kr.

Stórsókn í uppbyggingu á landsbyggðinni

Í kynningu HMS um úthlutunina segir að það stefni í stórsókn í uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða á landsbyggðinni en í þessari úthlutun er metfjöldi íbúða á landsbyggðinni eða um 150 íbúðir. Því til viðbótar var nýlega stofnað óhagnaðardrifið leigufélag, Brák, sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga á landsbyggðinni um uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða. Því er ljóst að töluverðrar uppbyggingar er að vænta á landsbyggðinni á næstu misserum.

„Það er ríkisstjórninni mikið hagsmunamál að stuðla að bættri stöðu á leigumarkaði. Í gegnum stofnframlög hafa nú þegar verið byggðar 1.550 íbúðir og er annað eins í byggingu. Almenna íbúðakerfið hefur sýnt sig sem úrræði þar sem boðið er upp á hagstæða, örugga langtímaleigu sem stuðlar að heilbrigðari leigumarkaði og auknu húsnæðisöryggi.“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.