Golfvöllurinn Efri Tunga

Golfklúbbur Ísafjarðar hefur nú lokið við endurbætur á Efri Tunguvelli. Búið er að slá brautir, setja holur með nýjum stöngum, laga flatir og setja teigmerki. Það sem miklu máli skiptir er að búið er að slá sinu í kringum brautir, sem eykur ánægju við spilun mikið. Áður tíndust boltar sem slegið var út af braut sem dró verulega úr upplifun á vellinum.

Efri Tunga sem er 6 holu völlur og par 3, er samfélagsverkefni Golfklúbbs Ísafjarðar, enda er frítt að spila þar. Hann er mikilvægur fyrir byrjendur sem vilja frekar fara á styttri og léttari golfvöll þar til meiri leikni er náð og þá kallar Tunguvöllur kylfinginn til sín.

Nafn vallarins vísar til nærliggjandi sveitarbæjar sem var á sínum tíma hjáleiga Tungu, ef heimildir ritara eru réttar. Það má kannski kalla Efri Tungu hjáleigu Tungudalsvallar sem breiðir úr sér norður og í vestur upp í dalinn. Félagsmenn Golfklúbbs Ísafjarðar hafa lagt mikið á sig síðustu tvö ár að fegra Tungudalsvöll, með tiltekt, viðhaldi og endurnýjun á golfvellinum. Til stendur að stækka Tungudalsvöll í 12 holur og mun sérfræðingur heimsækja klúbbinn í næstu viku til að hefja hönnun og undirbúning. Með 12 holu velli verður hægt að taka að sér stærri golfmót, en það er lágmarks stærð fyrir alvöru keppnisvöll.

Golfklúbbur Ísafjarðar býður gestum á Efri Tunguvöll velkomna og vonast til að þeir njóti frábærrar íþróttar í dámsamlegu umhverfi. Njótið vel og gangið vel um völlinn.

Gunnar Þórðarson, formaður Golfklúbbs Ísafjarðar.

DEILA