Fjórðungsþing Vestfirðinga vill meira samráð um svæðisskipulag

Frá kynningarfundi svæðisráðs í Bolungavík í gær.

Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði um gerð svæðisskipulags á fundi sínum á Ísafirði 6. apríl í vor og skoraði á svæðisráð að „hafa víðtækt samráð við sveitarstjórnir og íbúa á Vestfjörðum um skipulagið áður en það verður endanlega afgreitt. Þannig verði leitast við að tryggja sem víðtækasta sátt um skipulagið í samfélögum á Vestfjörðum.“

Fram kom óánægja á Fjórðungsþinginu með samráð svæðisráðs við sveitarstjórnir. Í greinargerð sem fylgdi með samþykkt Fjóðungsþingsins segir:

Mikilvægt er að svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulag eigi samtal og víðtækt samráð við sveitarstjórnir og íbúa á skipulagssvæðinu. Svæðisráðið kanni þannig hug heimamanna og fyrirtækja á Vestfjörðum og kanni jafnframt áhrif skipulagsins á samfélögin til framtíðar. Tilgangur samráðs er m.a. að skoða hvort og þá hvernig afmarkanir skipulagsins dragi úr möguleikum samfélagsins til að njóta eða nýta haf- og strandsvæðin til að stuðla að sjálfbærri
þróun svæðanna.“

Magnús Jóhannsson, formaður svæðisráðs var inntur eftir því hvernig svæðisráðið hefði brugðist við áskorun Fjórðungsþingsins, en tillaga þess var lögð fram í byrjun júní . Hann sagði að svæðisráð um strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum hafi verið í góðu samráði við sveitarstjórnir og íbúa á Vestfjörðum frá því hann tók við starfi formanns ráðsins í janúar á þessu ári.

„Í lok mars átti svæðisráðið fundi með sveitarstjórnum og hafnarstjórnum á sunnaverðum Vestfjörðum á Patreksfirði, á norðanverðum Vestfjörðum á Ísafirði og með Strandabyggð á fjarfundi. Í síðustu viku, nánar tiltekið mánudaginn 13. júní átti svæðisráðið fjarfund með öllum nýjum sveitarstjórnum á Vestfjörðum. Í gær áttum við fundi með íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum á Bíldudal og íbúum á norðanverðum Vestfjörðum í Bolungarvík. Í dag verður fundur með íbúum Strandabyggðar á Hólmavík.“

„Þá er rétt að hafa í huga að nú er hafið opið samráðsferli fyrir alla sem vilja hafa áhrif á endanlegt strandsvæðaskipulag, en frestur til að senda inn athugasemdir og/eða tillögur um breytingar á skipulaginu er til 15. september nk. Þar gefst íbúum og sveitarfélögum tækifæri til að koma á framfæri óskum um breytingar á fyrirliggjandi tillögum áður en endanlegt skipulag liggur fyrir. Þá mun svæðisráð jafnframt óska sérstaklega eftir athugasemdum og ábendingum frá sveitar- og hafnarstjórnum á Vestfjörðum. Að síðustu vil ég nefna að þrír fulltrúar í svæðisráðinu sitja þar sem fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu og eru því í góðum tengslum við viðkomandi sveitarstjórnir.“

DEILA