Ferðafélag ísfirðinga: Eyrardalur/Sveinseyrardalur í Dýrafirði

Laugardaginn 11. júní
Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasardóttir.
Brottför: Kl. 10 frá Bónus og 10:45 frá íþróttahúsinu á Þingeyri.


Gengið frá Haukadalsnasa, utanvert í Haukadalnum, fram holtin og í dalbotninn þar sem heilsað verður upp á Eyrarkarlinn/kerlinguna. Þaðan er svo gengið niður dalinn að Sveinseyrarvatni og til baka að Haukadal. Rifjuð upp örnefni o.fl.

Göngutími er áætlaður 5 – 6 klst.

Á Eyrardal vestanverðum er gamalt sel og framan við það lækur sem  Sellækur heitir. Veturlönd heitir hvilft fremst í dalnum. Þar er alltaf snjór, vetur, sumar, vor og haust.

Fjallið sem skilur að Eyrardal og Haukadal heitir Haukadalsfell en hefur á síðari tímum verið kallað Fell. Út úr því gengur klettaöxl sem snýr að Eyrardal. Á öxl þessari stendur hár og allgildur steindrangur og ber við himin frá þjóðveginum rétt innan við Sveinseyri en sést líka vel heiman frá bæjarhlaði. Þetta er Eyrarkerlingin …og svo er kerling þessi brött að engum mun fært að sigra hana. Hún stendur í um það bil 350 metra hæð yfir sjávarmáli.

Gunnhildur hefur frá mörgu öðru að segja þ.á.m. ýmsu úr sögu Sveinseyrar en þar mun m.a. hafa verið bænhús í kaþólskum sið og kirkjugarður. Heimræði var frá Sveinseyri en þaðan þótti reyndar langt að róa á miðin. Þaðan var líka önnur tveggja fyrstu tilrauna bænda í Þingeyrarhreppi til skútuútgerðar. Á síðustu áratugum 19. aldar fjölgaði fólki á Sveinseyri og árið 1901 var íbúatalan komin upp í þrjátíu.

Kunnasti íbúi Sveinseyrar var lengi vel Gunnhildur Sumarliðadóttir sem hér drukknaði í lendingu 24. ágúst 1793, tæplega fertug að aldri. Lengi vel trúðu menn því að Gunnhildur gengi aftur og var hún enn talin á kreiki 120-150 árum eftir dauða sinn. Án vafa má fullyrða að á fyrri hluta tuttugustu aldar hafi hún enn verið víðkunnasti draugur í Vestur-Ísafjarðarsýslu.

                                                                       (Heimild: Vestfjarðarit, Kjartan Ólafsson)

DEILA