Vesturbyggð: skemmtiferðaskipin lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna

Silver Moon kemur 30. maí til Patreksfjarðar.

Komur erlendra skemmtiferðaskipa til Vesturbyggðar hefur verið lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu segir Guðrún Anna Finnbogadóttir, formaður hafna- og atvinnumálaráðs sveitarfélagsins.

Hún segir að lögð hafi verið áhersla á smærri skemmtiferðaskip, upp að 750 farþegum til að geta veitt þeim góða þjónustu þegar þeir koma í land. Í boði eru ferðir með leiðsögumönnum um Patreksfjörð, Dynjanda, Rauðasand og Látrabjarg en þá er stoppað á safninu á Hnjóti á leiðinni út á bjargið.

„Áherslan í ferðaþjónustunni er að lengja opnunartímann og markmiðið er að hægt verði að taka á móti gestum hvað varðar, gistingu, veitingastaði og aðra afþreyingu í sex mánuði á ári.  Enn sem komið er eru þetta ca 4,5 mánuður. Þetta hefur haft jákvæð áhrif en bæjarbúar hafa ekki fundið mikið fyrir gestunum þar sem þeir sækja mjög í áningastaðina fyrir utan bæinn.“

Milljón í tekjur af einu skipi

Tekjur hafnarsjóðs geta numið einni milljón króna af einu skemmtiferðaskipi sem leggur í höfn. Fyrsta skipið kemur 30. maí og er það lúxusskipið Silver Moon. Það er risaskip eða 40.700 tonn að stærð og tekur 596 farþega. Lestar- og bryggjugjöld af skipinu fyrir allt að 24 klst í höfn eru samkvæmt gjaldskrá Hafnasjóðs Vesturbyggðar losa eina milljón króna. Tekjur af farþegargjaldi verða 86.400 kr miðað við hámarksfjölda farþega. Við þetta bætast svo önnur smærri gjöld. Það er því ljóst að beinar tekjur sveitarfélagsins eru umtalsverðar af skipakomunum.

Alls koma 11 skip 20 sinnum til Vesturbyggðar í sumar og lauslega áætlað gætu lestar- og bryggjugjöldin losað 11 milljónir króna.

DEILA